fimmtudagur, 15. janúar 2015

Nýtt! Lestur & Latte

Nýtt blogg! Lestur & Latte · Lísa Hjalt


Sæl öllsömul og gleðilegt ár! Ég vona að þið hafið átt notalega frídaga yfir hátíðirnar. Ég hefði gjarnan viljað byrja fyrsta póstinn á nýju ári, eftir langt blogghlé, á jákvæðum nótum en þar sem París er í miklu uppáhaldi þá verð ég að segja að hugur minn hefur verið með íbúum borgarinnar. Fyrst var það gíslatakan í Sydney fyrir jól og svo þessi hryllingur í París í síðustu viku. Eins og John Lennon leyfi ég mér að dreyma, samstöðugangan á sunnudaginn gaf mér von. Ég skrifaði þennan póst með lag hans, Imagine, í bakgrunni:

Nothing to kill or die for, And no religion too,
Imagine all the people, Living life in peace…

~ • ~
Í lok október í fyrra tilkynnti ég breytingar á blogginu og tók hlé og nú er kominn tími til að bjóða ykkur velkomin á „nýja“ Lestur & Latte. Ég breytti sem sagt nafninu og vefslóðinni líka en útlitið tók engum drastískum breytingum. Ég vildi ekki byrja að blogga aftur fyrr en eiginmaðurinn hefði lokið smíði á borði sem mig hefur dreymt um fyrir myndatökur. Það er sérsniðið fyrir eldhúsið og ég hef nóg pláss fyrir tölvuna, skrifblokkir, matreiðslubækur og aðra hluti þegar ég er að stússast í eldhúsinu - ég er þakklát fyrir að eiga laghentan mann. Megin breytingin á blogginu verður sú að héðan í frá birti ég bara mínar eigin myndir sem þýðir að ég hætti öllum bloggseríum. Ég mun auk þess birta færslur sjaldnar.

Edgar Degas, The Rehearsal, 1874 - bls. 171 í bókinni Masterworks eftir Iian Zaczek

Upphaflega var hugmyndin að nota bara Pinterest fyrir myndir frá öðrum, en mér líkar að skrolla niður síður með stórum myndum og vissi að hluti af mér kæmi til með að sakna þess að blogga eins og ég gerði áður. Ég opnaði því nýlega Tumblr-síðu undir Lunch & Latte heitinu. Þar verður að finna myndir sem hefðu líklega endað á blogginu, en án bloggtexta og bara með stuttri lýsingu og vísun í heimildir.

Ég hugsaði með mér að lesendur bloggsins væru líklega ekki allir á Pinterest og sá hópur saknaði þess kannski að skoða síðu með stærri myndum af fallega hönnuðum og stíliseruðum heimilum og slíku. Ef þið hafið notað bloggið sem slíkan innblástur („rýmið“ bloggserían var alltaf vinsæl) þá ætti Tumblr-síðan að vera eins konar sárabót. Ég hef þegar birt góðan slatta af myndum, bara svo síðan virkaði ekki tóm í upphafi (sjá yfirlitið). Hversu oft og hvenær ég deili myndum á Tumblr mun bara velta á skapinu; eitthvað til að gera yfir lattebollanum þegar það hentar.



Á blogginu verður eitt og annað í gangi og þessi fyrsti póstur ætti að gefa ykkur tóninn. Hér verða færslur um það sem ég er að bralla í eldhúsinu, um það sem ratar á borðið mitt góða. Suma daga kem ég til með að fjalla um bækurnar sem ég er að lesa eða bæta í safnið (þessa dagana er ég aðallega að fá lánaðar listabækur á bókasafninu), eitthvað sem höfðar til mín í tímaritunum sem ég er að fletta (ég er loksins að gerast áskrifandi að The World of Interiors þar sem má alltaf finna fallegan textíl). Aðra daga deili ég kannski því sem ég er að elda eða baka, uppskrift sem ég er að setja saman þá stundina og hvaðan ég sótti innblástur (ein af þeim nýjustu varð til dæmis til við lestur á skáldsögu sem ég las nýverið). Til að auðvelda hlutina þá ætla ég að hætta að uppfæra matarbloggið (uppfærði það einu sinni í fyrra!) og nota bara þetta blogg til að deila uppskriftum héðan í frá.

Bráðum er ég að byrja í kúrs um arkitektúr í gegnum netið og kannski fjalla ég eitthvað um hann (ég hef engin plön um að taka gráðu, aðrir verða að gerast Einar Sveinssynir eða Guðjón Samúelssynir framtíðarinnar). Þegar vorið kemur má treysta því að ég rölti um eða hjóli með myndavélina til að fanga kirsuberjatré og magnólíur í blóma. Þetta verður fyrsta vorið mitt í South Yorkshire! Kannski það síðasta svona í ljósi þess hversu títt við höfum fært okkur um set á síðustu árum! (Elskan, eigum við nokkuð að vera að henda kössunum, er ekki betra að geyma þá bara?) Hvað fleira? Já, alveg rétt, á þessu ári kemur út uppskriftabókin hennar (Cafe)Sigrúnar vinkonu sem ég var búin að segja ykkur frá. Þessa dagana erum við einmitt að lesa yfir lokahandritið. Við erum búnar að sjá prufur af umbrotinu og bókin verður glæsileg. Það sem ég hlakka til að fletta henni og deila með ykkur.

Í raun þá hef ég engin niðurnegld plön fyrir bloggið. Ég ætla bara að fikra mig áfram með breyttar áherslur og sjá hvert þær leiða mig. Að lokum vil ég þakka ykkur fyrir heimsóknirnar á liðnum árum. Ég vona að 2015 verði árið þar sem þið komið auga á og verið óhrædd við að grípa tækifærin sem birtast ykkur. Og munið, lífið er of stutt fyrir annað en gæðakaffi.

PS. Ef einhverjir tenglar á blogginu virka ekki þá bið ég ykkur bara að sýna því þolinmæði því sumt þarf að uppfæra eftir breytingar. Athugið líka að héðan í frá birtast alltaf sömu færslurnar á ensku og íslensku útgáfunni á sama tíma.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.