Sýnir færslur með efnisorðinu tímarit. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu tímarit. Sýna allar færslur

miðvikudagur, 11. apríl 2018

Schuyler Samperton Textiles: bláir og rauðir tónar

Schuyler Samperton Textiles: bláir og rauðir tónar · Lísa Stefan


Þegar ég er ekki með andlitið grafið ofan í bók þá má líklega sjá mig dásama mynstraðan textíl með heillandi mótífum (ég óska þess oft að hafa stundað nám í skreytilist). Í vikunni komst ég að því að bráðum bætist ný hönnun í línu Schuyler Samperton Textiles, sem kom á markað í fyrra. Ég bíð spennt. Á blogginu hef ég nú þegar kynnt nokkur af mynstrum hennar og í dag eru það blá og rauð efni sem ég lék mér að því að raða saman, með áherslu á mynstrin Overlea, Cordoba og Nellcote. Einnig langaði mig að sýna ykkur lítið brot úr innliti í Lamb's House í Leith, sem er í eigu íslensks arkitekts og birtist í House & Garden UK árið 2016.

En fyrst er það textíllinn. Bláa og rauða blómamynstrið er Overlea og þessi litur kallast Vermillion. Ég ætla að nota hann til að skreyta einn krók á heimilinu þegar ég er búin að kaupa nokkrar nauðsynjar. Ég held að efnið í þessum sama lit sómdi sér vel sem borðdúkur. Mynstrið í bláum tón kallast Marine, sem sést við hliðina á myndinni af herberginu. Hitt samanbrotna, bláa efnið er Cordoba í Indigo; hönnunin er með paisley-mótífi. Röndótta efnið er Pendleton í litnum Brighton.

Mynstrið Nellcote er hönnun sem ég hef þegar deilt og fæ ekki nóg af. Efnaprufan með spjaldinu sýnir það í bláum tón sem kallast Montego. Efst í hægra horninu sést glitta í það í litnum Apricot, sem er minn uppáhalds í fáanlegum litum þessa mynsturs (bláa efnið undir því er Firefly í litnum Deep End). Í eldri bloggfærslum þar sem textílhönnun Samperton hefur verið til umfjöllunar hef ég alltaf sýnt mynstrið Doshi; það sést undir lattebollanum í bláa tóninum Lake. Vinsamlegast fylgið hlekkjunum á mynstrin til að skoða fáanlega liti á vefsíðu Schuyler Samperton Textiles.

Lamb's House stofa, House & Garden UK · Davide Lovatti
Úr tímaritinu House & Garden UK: stofan í Lamb's House/Davide Lovatti

Svefnherbergið á myndinni minni tilheyrir Lamb's House í Leith (Edinborg), sem var byggt árið 1610 og hefur verið uppgert. Eigendurnir eru arkitektar sem sérhæfa sig í húsfriðun og það vill svo til að eiginkonan er íslensk, Kristín Hannesdóttir. Ég man eftir því að hafa kolfallið fyrir þessu rými, textílnum og viðarbitunum í loftinu, þegar ég sá innlitið í fyrsta sinn í tímaritinu House & Garden UK (desember 2016, ljósmyndari Davide Lovatti). Hér má einnig sjá stofuna og vinnustofu Kristínar, en tunnulaga loftið í henni er unnið úr lerki frá Síberíu. Smellið á hlekkinn ef þið hafið áhuga á því að lesa um endurbæturnar á húsinu og til að sjá fleiri myndir.

Lamb's House vinnustofa, House & Garden UK · Davide Lovatti
Vinnustofa Kristínar Hannesdóttur arkitekts í Lamb's House/Davide Lovatti



miðvikudagur, 17. janúar 2018

Textíll og Persar

Schuyler Samperton Textiles · Lísa Stefan


Ég kann að hafa lokkað ykkur hingað á bloggið á fölskum forsendum því þessi færsla hefur ekkert með persneskan textíl að gera heldur var það Persinn okkar, sem sagt kötturinn, sem stalst inn í myndarammann þegar ég var að ljósmynda efni frá Schuyler Samperton Textiles. Þetta var á rólegum degi, sólin var í felum en öðru hvoru lýsti hún upp bókahornið okkar, og yfir allt kaffiborðið hafði ég dreift bókum, tímaritum og textílprufum. Að sjálfsögðu var kaffibollinn minn þarna líka.

Ákveðin litapaletta hafði myndast í hausnum á mér og skyndilega áttaði ég mig á því hversu fallega hún small saman við forsíðuna á The World of Interiors, janúartölublaðinu 2018. Ég valdi textílprufurnar sem ég þurfti, greip myndavélina og hafði kannski smellt af fjórum eða fimm myndum þegar persneski prinsinn minn mætti á svæðið ... og lét ekki hagga sér (ég hefði átt að vita það, honum finnst gott að sofa inn á milli bókanna minna). Ég reyndi að vinna í kringum hann en hann var alltaf að birtast í rammanum. Síðasta myndin sýnir hvernig þetta endaði: hann fékk sínu fram og ég þurfti að kalla þetta gott.

Schuyler Samperton Textiles · Lísa Stefan
Caledonia, Doshi og Firefly mynstur frá Schuyler Samperton Textiles

Aftur að litapalettunni. Ég valdi þrjú mynstur frá Schuyler Samperton Textiles. Blómamynstrið með fuglamótífinu kallast Caledonia, sem sést hér í litunum Peony (sjá í forgrunni að ofan) og Imperial (undir bollanum). Efnið með lauslega prentuðu blómunum er Doshi, í Hibiscus og Aubergine. Á milli þeirra er efnið Firefly í litnum Plum. Sá blái kallast Deep End.


Persneskur köttur mætir á svæðið.

The World of Interiors & Schuyler Samperton Textiles · Lísa Hjalt
Mynd af svefnherbergi úr tímaritinu The World of Interiors, janúar 2018/Simon Upton

Forsíða tímaritsins The World of Interiors, janúar 2018, var tekin af ljósmyndaranum Simon Upton. Innlitið er á heimili Roberto Gerosa, listræns stjórnanda í Mílanó, sem umbreytti vöruhúsi í heimili og vinnustofu. Svefnherbergið er textílhimnaríki.
Sofandi persi og Schuyler Samperton Textiles · Lísa Stefan


Allt er gott sem endar vel.



mánudagur, 13. febrúar 2017

Lokasetning eftir Tanizaki | Virginia Woolf

Lokasetning eftir Tanizaki | Virginia Woolf · Lísa Stefan


Ég veit ekki með ykkur en í bókabúðum stend ég mig oft að því að lesa fyrstu setningu bókar eða fyrstu málsgreinina. Ég kíki aldrei á lokasetninguna því ég vil ekki vita hvernig bókin endar, en ég þekki nokkra sem gera það. Í janúar kláraði ég að lesa The Makioka Sisters eftir japanska rithöfundinn Jun'ichirō Tanizaki (1886-1965), í þýðingu Edward G. Seidensticker (útgáfa frá Everyman's Library). Án þess að gefa upp sögulokin þá verð ég að deila með ykkur lokasetningunni, sem óþarfi er að þýða: „Yukiko's diarrhea persisted through the twenty-sixth, and was a problem on the train to Tokyo“ (bls. 498).

Þurfið þið að lesa þessa setningu aftur? Ég þurfti þess.

Í hvert sinn sem ég lýk lestri bókar þá koma venjulega upp í hugann persónur, söguflétta, þemu o.s.frv., og stundum skrifa ég kannski nokkrar línur í minnisbókina mína. Í þetta sinn var hugurinn eitthvað á þessa leið, Okei, vantar kafla í bókina? Er þetta endirinn? Ég meira að segja sneri bókinni við - ég held að ég hafi rólega hrist hana - til að finna kaflann sem vantaði. Þegar ég svo loksins áttaði mig á því það var ekkert meira, að þetta var lokasetningin, þá sprakk ég úr hlátri. Þetta er ein sú eftirminnilegasta lokasetning sem ég hef nokkurn tíma lesið.

Ég fæ enn hláturkast þegar ég horfi á þessa síðu; þessi lokasetning kemur úr svo óvæntri átt.

Prósi bókarinnar The Makioka Sisters er mjög róandi (á meðan lestrinum stóð sagði ég við vini að þetta væri stundum eins og hugleiðsla). Ég man ekki eftir bók með svo rólegum prósa. Hún er nokkuð löng, skiptist í þrjá bækur, en ég naut þess að lesa hana. Í aðalatriðum fjallar hún um leit Makioka-fjölskyldunnar að eiginmanni fyrir þriðju systurina þannig að hægt sé að gifta þá fjórðu og yngstu, sem er þegar komin með vonbiðil. Þemað er eins og í hvaða skáldsögu sem er eftir Jane Austen en stíllinn er gjörólíkur. Þetta er áhugaverð samfélagsskoðun, japönsk menning og siðir á ákveðnu tímabili: Bókin hefst árið 1936 og lýkur í apríl 1941; stríð geisar þegar í Evrópu en árásin á Pearl Harbor hefur enn ekki átt sér stað. Þegar lestrinum lýkur þá veit maður að stórkostlegar breytingar eru í vændum.

The Makioka Sisters var á № 6 bókalistanum og þá sagðist ég vera að nóta hjá mér hugmyndir að japönskum lista. Á honum munuð þið finna The Tale of Genji eftir Murasaki Shikibu, klassískt japanskt verk frá 11. öld, sem margir telja fyrstu skáldsögu heimsins, sem einmitt Tanizaki þýddi yfir á nútímalegra japanskt mál. Á listanum verður líka Some Prefer Nettles eftir Tanizaki - ég segi ekki meira þar til ég birti hann.

Úr umfjöllun um Virginia Woolf, „Bloomsbury & Beyond“, Harper's Bazaar UK

Kannski hafið þið þegar séð Vanessa Bell umfjöllunina sem ég deildi á Instagram í síðastu viku, úr Harper's Bazaar UK, marstölublaðinu 2017. Það eru mánuðir síðan ég keypti tískutímarit en ég næstum hljóp út í búð þegar ég sá að bæði Bell og systir hennar Virginia Woolf voru í menningarþættinum. Umfjöllunin um Woolf kallast „Bloomsbury & Beyond“ og byrjar á ljósmynd af skrifborðinu hennar í Monk's House, heimili hennar í Sussex (sjá efstu myndina mína), og lýkur með smásögunni The Lady in the Looking Glass, sem birtist í janúartölublaðinu 1930. Ódýr Penguin-útgáfa af The Lady in the Looking Glass inniheldur líka sögur hennar A Society, The Mark on the Wall, Solid Objects og Lappin and Lapinova. Sú síðasta birtist í apríltölublaðinu 1939, en hún sést efst í vinstra horninu á myndinni minni hér að ofan. Ef þið hafið áhuga á smásögum þá má held ég finna allar eftir Woolf á netinu.

Opna úr Harper's Bazaar UK, mars 2017, bls. 324-25 · Harry Cory Wright | Frakklandskortið á minni mynd er úr bókinni Map Stories: The Art of Discovery eftir Francisca Mattéoli (Octopus Publishing Group) © Bibliothèque Nationale de France



föstudagur, 17. júní 2016

№ 2 bókalisti: flottar bókahillur

№ 2 bókalisti: bókahillur · Lísa Stefan


Ég er ástfangin af bókahillum. Ekki í fyrsta sinn. Með kaffibollanum hef ég verið að fletta fram og til baka innliti í hús í LA sem er með svo mörg smáatriði á hreinu (júlítölublað Elle Decoration UK, „House on the Hills“, ljósmyndari Stephanie Bjelkstam). Í opnum hillum í stofunni er bókum og skrautmunum raðað smekklega án þess að hillurnar virki yfirhlaðnar; bókum er raðað lóðrétt og lárétt sem gerir stíliseringuna enn áhugaverðari. Það er sem hillurnar andi og þær kallast á við gólfmottuna. Virkilega vel gert. Þessa dagana er ég að lesa nokkrar bækur og fljótlega mun ég gagnrýna eina hér á blogginu: Decorative Textiles from Arab and Islamic Cultures. Egypska bómullarábreiðan með ásauminum út til vinstri er smá sýnishorn.

Bókalisti sumarsins er tilbúinn (kannski ætti ég að segja sá fyrri þessa sumars) og samanstendur af leikritum og ævisögulegu efni. Nýverið skilaði ég á bókasafnið æviminningum Arthurs Millers Timebends (virkilega vel skrifuð bók sem ég mæli með) og fékk að láni tvö leikrit eftir hann. Á sama degi var ég að fletta uppi verkum eftir Virginiu Woolf á netinu og var svo heppin að finna tvær notaðar bækur (3. bindi dagbókar hennar er komið í hús og lítur út eins og nýtt - elska svoleiðis fund). Hér er listinn minn:

1  All My Sons  · Arthur Miller
2  Death of a Salesman  · Arthur Miller
3  Off the Road: Twenty Years with Cassady, Kerouac and Ginsberg  ·
Carolyn Cassady
4  The Diary of Virginia Woolf - Volume 3: 1925-1930  ritstj. Anne
Olivier Bell
5  The Letters of Virginia Woolf - Volume II: 1912-1922  ritstj. Nigel
Nicolson og Joanne Trautmann
6  Testament of Youth: An Autobiographical Study of the Years 1900-1925  ·
Vera Brittain

Sumir myndu kalla þetta frekar þungan sumarlestur en ég er bara ekki sú tegund lesanda sem nælir sér í stafla af léttefni í næstu bókabúð. Börnin voru að gera grín af mér um daginn og sögðu að ég læsi skrýtnar bækur. Ég er að reyna að muna rétt orðalag sem eitt þeirra notaði, „enskar yfirstéttarsnobbbókmenntir“ (English upper-class snob literature) eða eitthvað í þá áttina. Ég skellti upp úr.


Á aðeins persónulegri nótum: Ég óska ykkur gleðilegs þjóðhátíðardags en í dag eigum við hjónin 18 ára brúðkaupsafmæli. Í dag er einnig föstudagspizzudagur en eiginmaðurinn er staddur erlendis vegna vinnu. Við börnin ætlum bara að fá okkur franska osta, snittubrauð og vínber . . . og súkkulaði. Eigið góða helgi!

Bókhillumynd á minni mynd: Elle Decoration UK, júlí 2016, bls. 116 · Stephanie Bjelkstam



miðvikudagur, 27. apríl 2016

Fjólubláir tónar og upprunalegar gólfflísar

Fjólubláir tónar og upprunalegar gólfflísar · Lísa Stefan


Ég veit ekki með ykkur en ég fæ gjarnan síður úr tímaritum á heilann og get skoðað þær aftur og aftur. Þessi er ein þeirra. Svefnherbergið er í eigu hönnuðarins Stefano Guidotti, á heimili hans við Lake Como-vatnið á Ítalíu, sem var til umfjöllunar í aprílhefti Elle Decoration UK (Como in Colour, bls. 160-169, ljósmyndari Mads Mogensen). Hann segist vera heltekin af litum og þegar hann var að innrétta heimilið þá hugsaði hann upprunalegu mynsturflísarnar sem risastórar mottur. Fjólubláu tónarnir í svefnherberginu eru fallegir, rétt eins og safnið sem hann á af skrautmunum fyrir heimilið. Ef þið komist yfir tölublaðið þá skuluð þið kíkja á leðursófann í stofunni og litinn á borðstofunni. Þetta innlit veitir innblástur!

mynd smellt af Elle Decoration UK, apríl 2016, bls. 167

miðvikudagur, 2. mars 2016

Casa No Name - hús Deborah Turbeville

Casa No Name - hús Deborah Turbeville · Lísa Stefan


Á föstudaginn lofaði ég að birta síðar nokkrar myndir sem ég smellti af innliti í hús í Mexíkó. Umfjöllunin, sem kallast Destination unknown, birtist í desembertöluhefti 2015 af The World of Interiors (ljósmyndari Ricardo Labougle). Húsið átti Deborah Turbeville heitin (1932-2013), en hún var þekktur tískuljósmyndari og lifði eins konar hirðingjalífi. Hún skírði húsið Casa No Name, en það er staðsett í hinni sögulegu borg San Miguel de Allende í mexíkóska ríkinu Guanajuato. Þegar Turbeville keypti húsið var það í hræðilegu ásigkomulagi, en ef þið þekkið til verka hennar þá skiljið þið út af hverju það heillaði hana. Vinur hennar sem hafði umsjón með framkvæmdunum, sem tóku tvö ár, sagði vinnumönnunum að gera þetta ekki of fullkomið, „Senjorídan vill hafa það þannig“ (bls. 190). Það er ekkert eitt sem dregur mig að húsinu heldur er það mikilfengleikinn sem hrífur mig; glæsilegt safn af mynstruðum textíl, litir, gifsveggir, þakverönd . . . þetta er það sem meint er þegar talað er um að gera hús að heimili.


Árið 2009 kom út á vegum Rizzoli bókin Casa No Name eftir Turbeville sjálfa. Ég hef séð nokkrar myndir úr henni og hún er ekki allra. Við skulum bara orða það þannig að hún sé öðruvísi bók um innanhússhönnun og innihaldi margar hreyfðar myndir. Eldheitir Turbeville-aðdáendur verða ekki fyrir vonbrigðum.

Ég fann stutt viðtal við Turbeville á YouTube, sem var tekið í húsinu hennar Casa No Name þegar Toast var að ljósmynda þar línuna sína fyrir vor/sumar 2010.


Fyrir alla sem hafa áhuga á tískuljósmyndun get ég mælt með bókinni Deborah Turbeville: The Fashion Pictures. Hún er einnig gefin út af Rizzoli og í henni er að finna hinar frægu en umdeildu baðhúsmyndir sem hneyksluðu margar þegar þær birtust í Vogue árið 1975.
Casa No Name í tímaritinu The World of Interiors · Lísa Stefan


myndir teknar af síðum The World of Interiors, des. 2015, Destination unknown, bls. 182-191

miðvikudagur, 17. febrúar 2016

Útirými hleypt inn



Í nýjasta tölublaði Elle Decoration UK, mars 2016, er að finna margar áhugaverðar greinar sem hafa bætt upp fyrir vonbrigði mín með marstölublað The World of Interiors, en það er önnur saga (bara forsíðan ein og sér fer með mig!). Eitt af innlitunum í Elle Decoration sem mér líkaði var í fallega íbúð í Lyon sem hefur verið að skjóta upp kollinum í bloggheimum (hún birtist einnig í ástralska tímaritinu Vogue Living þar sem má sjá allar myndirnar). Annað innlit sem heillaði mig var í nútímalegt hús í Köln þar sem hönnunin sækir innblástur til Asíu (sjá Den of Zen á heimasíðu blaðakonunnar Kristina Radershad). Engar áhyggjur, ég ætla ekki að þylja upp allt sem er að finna í tímaritinu en ástæða þess að ég smellti mynd af þessari borðstofu er sú að nú fer að vora og ég er hrifin af því að hleypa útirýmum inn þegar hlýnar í veðri („The Borrowers“, íbúð í Mílanó, ljósmyndari Fabrizio Cicconi). Fyrir utan mismunandi gólfefni þá er stíllinn í íbúðinni sjálfri aðeins of flippaður, eða ófágaður, fyrir minn smekk. En þetta rými er líka eldhús og mér líkar sú hugmynd að geta haft opið út á stórar svalir og kannski fundið létta golu á meðan setið er til borðs eða þegar maður fær sér kaffibolla á morgnana.

mynd smellt af Elle Decoration UK, mars 2016, bls. 186

miðvikudagur, 27. janúar 2016

Tíma vel varið

Tíma vel varið: kaffi og Karen Blixen · Lísa Stefan


Ég þarf að játa svolítið. Í morgun var skýjað úti og grátt og þar sem ég þurfti ekki að fara neitt þá hugsaði ég með mér að best væri að klára að ganga frá restinni af fötunum okkar. Kommóða í svefnherberginu er enn tóm eftir flutningana og enn eru föt í kössum. Þetta byrjaði vel hjá mér en svo langaði mig í kaffi og gerði líklega þau mistök að fara upp með bollann. Áður en ég vissi af sat ég á mottunni með bækur og tímarit, og í spilaranum rúllaði kvikmyndin Out Of Africa (1985). Ég á enga afsökun. Flestar kommóðuskúffurnar eru enn tómar en ég álít tímanum vel varið. Að mínu mati getur það aldrei verið sóun á tíma þegar maður eyðir honum í eitthvað sem veitir innblástur.

Undanfarið hef ég verið að horfa mikið á Out of Africa. Ég sit ekki með augun límd við skjáinn heldur læt hana bara rúlla og horfi á með öðru auganu eða hlusta á meðan ég sinni öðrum verkefnum. Ég stilli gjarnan á athugasemdir leikstjórans Sidney Pollack því ég fæ ekki leið á því sem hann segir um Karen Blixen, Kenya og hvernig myndin var filmuð. Hann talar ekki bara um einstaka senur, eins og flestir leikstjórar gera, heldur fer hann dýpra og hann er góður sögumaður. Kannski er þetta bara mín leið til þess að halda í rödd hans þar sem hann er fallinn frá. Hvað um það, þetta er mynd sem ég hef horft svo oft á að ég hef ekki tölu á því og í hvert sinn höfða mismunandi senur til mín. Í morgun var það samband Blixen [Meryl Streep] og sómalska þjóns hennar Farah [Malick Bowens], sem vann fyrir hana allan tímann sem hún bjó í Kenya. Samræðurnar í senunum eru ekki langar en þær eru dásamlegar og gjarnan hnyttnar. Í bókinni Shadows on the Grass talar hún um Farah sem „servant by the grace of God“ og í mynd sinni finnst mér Pollack ná að fanga merkingu þess á fallegan máta.


Aðeins um endurlestur bóka. Out of Africa (Jörð í Afríku) eftir Karen Blixen er ein af þeim sem ég er að lesa aftur. Undanfarið hef ég verið að hugsa um það að því meira sem ég sé af því sem fólk deilir á samfélagsmiðlum - sjálfsmyndir og tilgangslausar vefsíður, leyfist mér að nefna heimsku? - því meira finn ég þörf fyrir að taka eitt skref til baka og snúa mér að vönduðum bókum og kvikmyndum. Þær hjálpa að hreinsa hugann af lélegum greinum og ljósmyndum sem gera ekkert fyrir andann.

Nokkrir punktar um myndirnar í færslunni: Á efri sést síða 133 í The World of Interiors, desembertölublaði 2015 (tekin af Andreas von Einsiedel). Greinin „Window on the World“ fjallar um Julian Barrow heitinn, listamann og heimsflakkara sem átti vinnustofu í Chelsea-hverfinu. Mynstrin eru úr bókinni V&A Pattern: Indian Florals. Á neðri sést síða úr sama hefti af WoI. Greinin „Bauhaus Below the Border“ sem byrjar á síðu 66 fjallar um Josef og Anni Albers. Sýningin A Beautiful Confluence: Anni and Josef Albers and the Latin American World er í safninu Museo delle Culture í Mílan og lýkur 21. feb.



föstudagur, 25. september 2015

Iznik-leirmunir | Perumöffins

Perumöffins · Lísa Stefan


Það má gleðjast yfir nokkrum atriðum í þessum septembermánuði. Í næsta bæ hefur nýtt kaffihús opnað og hönnunin kom mér skemmtilega á óvart; hrár stíll í bland við iðnaðarstíl. Ég finn mér afsökun til að hjóla oftar út á pósthús til þess að setjast niður með bók og latte áður en ég held heim. Svo er það umfjöllun um Iznik-leirmuni í nýjasta tölublaði The World of Interiors með mótífum og litum sem hafa heltekið mig. Downton Abbey þættirnir hafa snúið aftur á skjáinn hérna megin hafs með áhugaverðan söguþráð og glæsilega búningahönnun. Þið sem hafið séð þáttinn, tókuð þið eftir bláa kimono-sloppinum hennar Lady Mary? Jæja, hvað meira? Himneskur ilmur af perumöffinsum að bakast í ofninum. Það eru litlu hlutirnir ...
Iznik-leirmunir · Lísa Stefan


Byrjum á umfjölluninni í októbertölublaði The World of Interiors, þar sem listasögufræðingurinn John Carswell gagnrýnir doðrantinn The Ömer Koç Iznik Collection eftir Hülya Bilgi (600 síður, vegur 5 kíló, fáanlegur hjá John Sandoe Books). Þetta er bæklingur í bókaformi sem sýnir safn Iznik-leirmuna í eigu Koç-fjölskyldunnar, sem er ein sú auðugasta í Tyrklandi. Í sinni áhugaverðu rýni kemur Carswell stuttlega inn á sögu Iznik-leirmunaiðnaðarins frá byrjun 15. aldar til endalokanna 300 árum síðar. Til forna var fyrrum býsanski bærinn Iznik, 100 km suðaustur af Istanbul, í blóma vegna legu hans á helstu viðskiptaleið Anatólíuskagans (Litla-Asía) frá Austurlöndum. Í dag er hann „lítill svefnbær“ en á síðari hluta 13. aldar var hann „einn af fyrstu höfuðstöðunum sem Ottóman-veldið lagði undir sig“.

Myndirnar í umfjölluninni sýna heillandi mótíf á flísum, krúsum og diskum sem máluð eru í líflegum litum. Samkvæmt Carswell eru aðalsmerki Iznik-hönnunar kóbalt-blár, túrkis, mangan-fjólublár, ólífugrænn og rauður. „Í hönnuninni eru ósnortin tyrknesk mótíf sameinuð staðfærðum eiginleikum innflutts kínversks postulíns í bláu og hvítu“ og hann bætir við síðar að „[v]ið höfum enga hugmynd um af hverju þeir völdu þessi ákveðnu sett af mótífum og sameinuðu þau með svo sérkennandi og sérstökum hætti.“


Ef þið eruð á leið til Tyrklands þá getið þið skoðað Iznik-flísar í Topkapi-höllinni í Istanbul. Verðið á fyrrnefndum doðranti er hærra en það sem ég eyði í bækur þessa dagana en fyrir þá sem hafa áhuga þá fann ég tvær ódýrari bækur á netinu sem ég myndi gjarnan vilja skoða og jafnvel finna sess á stofuborðinu mínu: Iznik Pottery and Tiles: In the Calouste Gulbenkian Collection eftir Maria d'Orey Capucho og Iznik: The Artistry of Ottoman Ceramics eftir Walter B. Denny.


Ég er ekki alveg búin með tal um mynstur. Sýningar eru hafnar á sjöttu þáttaröð Downton Abbey og ég er bálskotin í bláa kimono-sloppnum hennar Lady Mary sem leikkonan Michelle Dockery bar svo vel í nokkrum senum í fyrsta þættinum. Ég reyndi að finna myndir af honum á netinu til að sjá smáatriði mynstursins en hafði ekki heppnina með mér þannig að ég setti bara þáttinn á pásu í ITV-spilaranum í spjaldtölvunni og smellti af myndum (afsakið léleg gæði).

Ég veit ekki hvort kimono-sloppurinn sé notuð flík eða sérstaklega hannaður fyrir þættina en ég er heilluð af sniðinu og litnum. Ég held að búningahönnuðurinn Anna Robbins sé að gera frábæra hluti og mér finnst flott hvernig hún sýnir tísku þriðja áratugar síðustu aldar. Ég verð að viðurkenna að ég hafði næstum því gefist upp á Downton Abbey eftir síðustu seríu, sem mér fannst full af þreyttum, endurteknum söguþráðum, en ég er glöð að ég gaf þáttunum annað tækifæri á sunnudaginn. Fyrsti þátturinn lofar góðu ... alla vega búningarnir.


Í myndunum má sjá prufur af Benaki-veggfóðri í litnum blue mink frá Lewis & Wood
og Wild Thing-efninu í copper cobalt

Nú líður að október og hérna er rétt aðeins farið að hausta. Það er kominn tími til að fagna árstíðinni og gera möffins úr öllum þessum perum. Þið hefðuð átt að sjá hamingjusvipinn á andlitum barnanna þegar þessi möffins biðu þeirra hér á borðinu eftir skóla um daginn.
Perumöffins · Lísa Stefan


Þessi möffins eru hóflega sykruð og stútfull af perum. Ég var spurð að því um daginn í gegnum ensku útgáfu bloggsins út af hverju ég notaði glútenlaust lyftiduft þegar ég virðist baka með mjöli sem inniheldur glúten. Málið er að í ensku eigum við ekki orðið vínsteinslyftiduft heldur er slíkt lyftiduft bara merkt glútenlaust og hjá mér er glútenlausa lyftiduftið frá Doves Farm í uppáhaldi. Mér líkar ekki hefðbundið lyftiduft því það virðist hafa eftirbragð sem truflar mig (notið helmingi minna í uppskriftina ef þið notið hefðbundið). Nokkur orð um valið á milli „buttermilk“ (ekki ósvipuð súrmjólk en meira fljótandi) og perumauks í eggjablönduna: Það veltur á því hvort perurnar séu vel þroskaðar eða mátulega. Ef þær eru enn svolítið harðar þá nota ég gjarnan perumauk (ég kaupi Hipp Organic-maukið fyrir ungbörn) sem gefur möffinsunum ríkara perubragð. Ef perurnar eru vel safaríkar þá bý ég til mína eigin „buttermilk“ með mjólk og sítrónusafa (sjá aðferð neðst). Ég veit að sumir nota gjarnan súrmjólk í uppskriftir sem innihalda „buttermilk“ en ég hef aldrei bakað perumöffinsin með súrmjólk.

PERUMÖFFINS

3 meðalstórar perur
1 stórt (hamingju)egg
75 g lífrænn hrásykur
1-1½ matskeið lífrænt hunang (eða hreint hlynsíróp)
1½ matskeið kókosolía
60 ml „buttermilk“ (sjá inngang) eða lífrænt perumauk
200 g fínmalað spelti (eða lífrænt hveiti)
50 g grófmalað spelti
2½ teskeið vínsteinslyftiduft
¼ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
½ teskeið kardamoma
¼ teskeið múskat
má sleppa: klípa negull

Flysjið og kjarnhreinsið perurnar og skerið þær svo í smáa bita. Setjið þær til hliðar.

Hrærið saman eggi, sykri, hunangi, buttermilk/perumauki og kókosolíu í skál (ef olían er í föstu formi setjið þá lokaða krukkuna í skál með heitu vatni fyrir notkun). Ef þið notið heimagerða „buttermilk“ geymið hana þá í mælikönnunni í nokkrar mínútur og hrærið út í þegar hún hefur þykknað.

Blandið saman spelti, vínsteinslyftidufti, salti og kryddum í stórri skál.

Hellið eggjablöndunni út í stóru skálina og blandið hráefnunum rólega saman með sleif. Bætið fínskornum perubitunum saman við og veltið deiginu til með sleif án þess að hræra mikið. Til að byrja með kann deigið að virka þurrt en perurnar gefa því raka.

Smyrjið 12 möffinsform úr silíkoni með örlítilli kókosolíu (ef notuð eru stök silíkonform er þægilegt að setja þau ofan í stálform og baka þannig). Bakið við 200°C (180°C á blæstri) í 22-25 mínútur. Bíðið með það í nokkrar mínútur að taka möffinsin úr silíkonformunum og látið þau svo kólna á kæligrind.

Ef þið viljið nota „buttermilk“ í uppskriftina í staðinn fyrir perumauk þá er aðferðin auðveld: Hellið 60 ml af mjólk í litla mælikönnu og bætið 1 teskeið af nýkreistum sítrónusafa út í. Hrærið rólega og látið mjólkina standa í nokkrar mínútur uns hún hefur þykknað.



þriðjudagur, 25. ágúst 2015

Hortensíur og septemberhefti

Hortensíur og septemberhefti · Lísa Stefan


Þessir síðustu dagar ágústmánaðar eru dásamlegir: morgunkaffi, göngutúrar, aðallega til að njóta hortensía, eilítið dimmari síðdegi og bóklestur undir kertaljósi í rigningu eða þrumuveðri. Svo eru það tölublöð septembermánaðar. Í mínu tilviki er einungis eitt þeirra tískutengt. The World of Interiors stendur alltaf fyrir sínu; mér finnst ég alltaf eilítið ríkari eftir lesturinn.
Hortensíur · Lísa Stefan


Fyrir nokkrum árum síðan hefði ég mjög líklega keypt ýmsar Vogue útgáfur (í hillunum er að finna gömul septembertölublöð þess ameríska, breska, franska, ítalska og þýska) en á einhverjum tímapunkti hætti ég því. Ég ætlaði ekki að kaupa Harper's Bazaar UK en þegar ég blaðaði í því í tímaritabúð þá fangaði ein tiltekin umfjöllun athygli mína, um Amanda Brooks og fallega sveitasetrið hennar í Oxfordshire. Brooks var áður tískustjóri Barneys í New York.
Septemberhefti · Lísa Hjalt


Ég held að Vita Kin-kjóllinn sem Brooks klæðist á einni myndinni hafi haft töluvert með það að gera að ég keypti tímaritið. Ég er heilluð af hönnun, mynstri og bróderingu, þessara hefðbundnu úkraínsku flíka - vyshyvanka. Ég velti því fyrir mér hvort ég fengi leið á þeim núna þegar svo til allir virðast klæðast þeim en svo er ekki raunin. Þær eru klassík.



Fyrir utan fallega stíliseraða og ljósmyndaða tískuþætti sem segja sögu (oft erfitt að finna þá) þá er ekki mikið í tískutímaritum sem lengur höfðar til mín. Ég á þá við tískuhlutann. Ég held að þessi tímarit hafi elst af mér og ég er orðin þreytt á því hvernig fjallað er um tísku. Hvað er með þessar endalausu síður með myndum af flíkum og aukahlutum haust- eða vorlína sem alltaf eru eins uppsettar og áherslan að mestu á merkjavöru? Ég er mun hrifnari af hönnunarferlinu sjálfu og hvert tískuhönnuðurinn sækir innblástur þegar hann hannar nýja línu. Það er akkúrat þess vegna sem viðtal við Maria Grazia Chiuri og Pierpaolo Piccoli, listræna stjórnendur Valentino-tískuhússins, kom mér skemmtilega á óvart. Lítið bara á safn myndanna hér að neðan sem sýnir hvert þau sóttu innblástur fyrir haustlínuna í ár. Þetta er það sem ég vil sjá.


Í viðtalinu er komið inn á sambandið við saumakonurnar og þá virðingu sem þau bera fyrir þeim. Þær „setja ástríðu sína og umönnun í hverja línu ... Mikil vinna og natni er lögð í hvern kjól, í hvert smáatriði, og það má finna hversu dýrmætt þetta er“ (bls. 313). Þau hafa sett upp þriðju hátískuvinnustofuna og kenna ungu fólki iðnina. Chiuri bendir á: „Það er virðing í þessu starfi en það er líka gaman að sjá pönkklædda stelpu í Doc Martens-skóm vinna við hlið sextugrar konu í inniskóm - tvær kynslóðir saman sem deila þekkingu og sérhæfni“ (bls. 314). Þið getið skoðað nokkur smáatriði í hönnun Valentino á Tumblr-síðunni minni.
Bækur og septemberhefti · Lísa Stefan


Önnur skemmtileg grein var um Diana Vreeland, hina frægu tískuritstýru, sem skrifuð er af breska sagnfræðingnum Kathryn Hughes (ævisaga hennar um George Eliot er á óskalistanum). Ný bók um Vreeland kemur út hjá Rizzoli-forlaginu í október, Diana Vreeland: the Modern Woman: The Bazaar Years, 1936-1962, í ritstjórn sonarsonar hennar Alexander Vreeland.



Það var fullt af umfjöllunum í The World of Interiors sem höfðuðu til mín. Ein þá sérstaklega um búgarð í Mexíkó, við landamæri Arizona í Bandaríkjunum, í eigu hönnuðanna Jorge Almada og Anne-Marie Midy sem reka Casamidy, húsgagnahönnunarfyrirtæki. Sjáið fyrir ykkur hefðbundnar, demantamynstraðar mottur og leðurstóla. Midy lýsir landslaginu sem „grænu eftir sumarregnið, en að haustið bleiki það fölum gylltum tón“ (bls. 130). Mig langar að sitja á þessari verönd og njóta dýrðarinnar.



Grein um kaffihúsið Caffè Stern sem er til húsa í Passage des Panoramas í París fékk hjartað til að slá örlítið hraðar vegna Picasso-púðanna sem notaðir eru til að skreyta staðinn (einn sést á myndinni hér að ofan til vinstri). Ég man ekki hvenær ég féll fyrir þeim fyrst. Púðaverin eru handofin og -unnin í Flæmingjalandi (norðurhluti Belgíu) og hönnuð í samvinnu við Picasso-stofnunina. Nokkrar ábreiður eru fáanlegar í versluninni The Conran Shop í London.

Bráðum fara krakkarnir aftur í skólann og skærir litir hortensíanna taka að fölna. Endanlega skipta lauf trjánna litum. Hluti af mér hlakkar til að njóta kaldari haustmorgna; annar hluti vonast eftir indjánasumri, eins og þurr og hlý haust kallast í enskri tungu.


[Uppfærsla: Vegna athugasemdar á ensku útg. bloggsins um ólífugrænu textílprufuna undir latteskálinni og tölvupósts sem mér barst um þá rauðu: Allar prufur í færslunni eru frá Fermoie. Sú ólífugræna er Rabanna (L-077), rauða Marden (L-275) og þessar með röndunum á einni mynd eru York Stripe (bláa L-173, rauða L-016). Allar eru 100% bómull. Allar uppl. um þá gulu sem glittir í á nokkrum myndum eru í bloggfærslunni gul efni frá Fermoie.]