Sýnir færslur með efnisorðinu sumar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu sumar. Sýna allar færslur

föstudagur, 29. júní 2018

Nýjar bækur | Sumar í Bremen

Nýjar bækur | Sumar 2018 · Lísa Stefan


Tell me, what is it you plan to do
with your one wild and precious life?

Undanfarnar vikur hef ég verið að hugsa um þessar línur bandaríska ljóðskáldsins Mary Oliver (úr ljóðinu The Summer Day sem birtist í New and Selected Poems, Vol. One) og hef ekki enn fundið svar. Það er óhætt að segja að einföld spurning hennar komi huganum á flug. Mér finnst eins og ég sé ekki alveg lent í Þýskalandi. Ekki misskilja mig, mig langaði að flytja aftur til meginlandsins - menningin og lífsstíllinn í þessum hluta Evrópu á betur við mig - en hélt að á þessum tímapunkti hefði ég komið mér betur fyrir. Ég hef verið í leit að hlutastarfi þar sem ég get æft þýskuna áður en ég tek að mér meira krefjandi verkefni en hef ekki fundið neitt. Bókabúð svaraði ekki einu sinni tölvupósti frá mér. Hversu írónískt er það? Góðu fréttirnar eru þær að elsta dóttirin hefur lokið námi sínu í Skotlandi. Við fórum að sækja hana, tókum ferju frá Calais yfir Ermasundið og fengum að dást aftur að Hvítu klettunum í Dover.

Uppköstin bíða í röðum en mig langaði að enda þessa bloggþögn á lista yfir nýjar bækur. Ég er spennt fyrir nýrri skáldsögu Michael Ondaatje, Warlight, hans fyrstu í sjö ár. Ef þið eruð hrifin af verkum hans þá vil ég benda ykkur á nýlegt viðtal Eleanor Wachtel við hann fyrir CBC Radio. Hlaðvarpið hennar Writers and Company er eitt af þeim bestu fyrir bókaunnendur.

Nýjar bækur:
· Warlight  eftir Michael Ondaatje (Vintage). Síðasta bókin sem ég las eftir hann var Anil's Ghost, og á undan henni, The English Patient. Líkaði báðar. Þið kunnið nú þegar að hafa tekið eftir bókarkápunni í hliðardálki bloggsins og megið búast við að sjá hana á bókalista í náinni framtíð.
· The Beautiful Summer  eftir Cesare Pavese (Penguin). Þroskasaga sem gerist á Ítalíu á fjórða áratug síðustu aldar. Kom fyrst út árið 1949.
· The Years  eftir Annie Ernaux (Fitzcarraldo, í þýðingu Alison L. Strayer). Þetta er breska útgáfan en æviminningar hennar á ensku hafa þegar komið út í BNA. „[A] masterpiece memoir of French life“ segir í titli ritdóms The Guardian. Hann kveikti áhuga minn og ég ætla að lesa bókina þó að ég hafi aldrei lesið neitt eftir höfundinn.
· There There  eftir Tommy Orange (Vintage). Ein af tveimur frumraunum á þessum lista yfir nýjar bækur, gerist í samfélagi Indjána í Oakland, Kaliforníu, þar sem höfundurinn fæddist og ólst upp. Þessi bók hefur fengið góða dóma. Flott bókarkápa.


· 100 Books That Changed the World  eftir Scott Christianson og Colin Salter (Rizzoli). „A tour of global history by way of history’s most important scrolls, manuscripts, and printed books, from Plato and Homer to the twenty-first century—100 must reads.“ Bók um bækur sem gæti verið gaman að hafa á kaffiborðinu. Þessi kom út í vor en mig langaði að hafa hana á listanum.
· The Collected Stories of Machado de Assis  (Liveright Publishing, í þýðingu Margaret Jull Costa + Robin Patterson). Í sannleika sagt man ég ekki eftir að hafa heyrt um Joaquim Maria Machado de Assis (1839-1908), einn mesta rithöfund Brasilíu, þar til ég las ritdóm Parul Sehgal fyrir The New York Times. Ég hengi höfuðið í skömm. Ef ykkur líkar smásögur þá ætti það að gleðja ykkur að safnið er 930 blaðsíður.
· A Place for Us  eftir Fatima Farheen Mirza (Vintage). Frumraun höfundar sem fjallar um indversk-múslimska fjölskyldu sem undirbýr brúðkaup elstu dótturinnar. Útgáfustjórinn Sarah Jessica Parker valdi bókina fyrir útgáfumerkið SJP for Hogarth. Ég hef oft varann á þegar stórstjörnurnar leggja nafn sitt við eitthvað en ég veit að Parker er ötull lesandi og hef heyrt hana mæla með góðum bókum. Höfundurinn, sem ólst upp í Kaliforníu en á rætur að rekja til Indlands, var nýlega í viðtali í The Guardian, sem þið hafið kannski áhuga á.
· The Outsider  eftir Stephen King (Hodder & Stoughton). Að lokum, ný spennusaga fyrir alla King-aðdáendur.

Café Tölke í Schnoor-hverfinu í Bremen, Þýskalandi · Lísa Stefan
Café Tölke í Schnoor-hverfinu, Bremen

Í vor ætlaði ég að deila myndum frá Bremen á blogginu en komst aldrei í það. Sumarið kom snemma og á hlýjum sunnudegi hjólaði ég inn í miðbæ og fór í göngutúr um gamla Schnoor-hverfið. Það var of sólríkt fyrir myndatökur en ég tók þessa mynd sem fangar stemninguna fyrir framan Café Tölke, eitt af fyrstu kaffihúsunum sem ég fór á eftir að við fluttum hingað. Lítið og sjarmerandi kaffihús sem sérhæfir sig í kökum og bökum. Þegar þið finnið borð og setjist niður með kaffibolla og eplastrúdel gætuð þið fengið það á tilfinninguna að svo lengi sem þessi staður helst opinn verður veröldin í lagi. Þannig er andi sumra kaffihúsa.



miðvikudagur, 21. júní 2017

Sumar 2017: nýjar bækur

sumar 2017 nýjar bækur · Lísa Stefan


Lengsti dagur ársins er runninn upp og á vesturströnd Skotlands eru ský á lofti og létt rigning af og til. Hið fullkomna veður til að minnast á nýjar bækur, ekki satt, og að finna angan bóndarósanna á skrifborðinu mínu. Ég pantaði tvo titla á listanum á bókasafninu og vona að ég geti bætt þeim á næsta bókalista:

· The Ministry of Utmost Happiness eftir Arundhati Roy (Hamish Hamilton). Loksins, eftir tuttugu ár, ný skáldsaga frá Roy! Bók hennar The God of Small Things, sem hlaut Man Booker verðlaunin árið 1997, er ein af eftirminnilegustu bókum sem ég hef lesið.
· Theft by Finding: Diaries: Volume One eftir David Sedaris (Little, Brown). Nýverið var hann gestur á hlaðvarpi The NYT Book Review, þar sem hann talaði um og las upp úr dagbókinni, og ég var í hláturkasti í eldhúsinu. Hann er óborganlegur.
· House of Names eftir Colm Tóibín (Viking). Höfundur sem ég hef enn ekki lesið. Á langar-að-lesa listanum mínum er skáldsaga hans Brooklyn, sem mig langaði að lesa áður en ég sá kvikmyndina (2015), sem skartar Saoirse Ronan í aðalhlutverki. Gat ekki beðið og er svo glöð að ég lét undan. Myndin er svo falleg; ég get horft á hana aftur og aftur.
· The Unwomanly Face of War eftir Svetlana Alexievich (Penguin). Hún hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2015. Biðin hefur verið löng eftir enskri þýðingu á þessu klassíska verki með reynslusögum sovéskra kvenna í síðari heimsstyrjöldinni. Kemur út í júlí.
· Friend of My Youth eftir Amit Chaudhuri (Faber). Fjallar um mann, sem heitir einmitt Amit Chaudhuri, sem snýr aftur á æskuslóðirnar, til borgarinnar Bombay. Kemur út í ágúst.



þriðjudagur, 25. ágúst 2015

Hortensíur og septemberhefti

Hortensíur og septemberhefti · Lísa Stefan


Þessir síðustu dagar ágústmánaðar eru dásamlegir: morgunkaffi, göngutúrar, aðallega til að njóta hortensía, eilítið dimmari síðdegi og bóklestur undir kertaljósi í rigningu eða þrumuveðri. Svo eru það tölublöð septembermánaðar. Í mínu tilviki er einungis eitt þeirra tískutengt. The World of Interiors stendur alltaf fyrir sínu; mér finnst ég alltaf eilítið ríkari eftir lesturinn.
Hortensíur · Lísa Stefan


Fyrir nokkrum árum síðan hefði ég mjög líklega keypt ýmsar Vogue útgáfur (í hillunum er að finna gömul septembertölublöð þess ameríska, breska, franska, ítalska og þýska) en á einhverjum tímapunkti hætti ég því. Ég ætlaði ekki að kaupa Harper's Bazaar UK en þegar ég blaðaði í því í tímaritabúð þá fangaði ein tiltekin umfjöllun athygli mína, um Amanda Brooks og fallega sveitasetrið hennar í Oxfordshire. Brooks var áður tískustjóri Barneys í New York.
Septemberhefti · Lísa Hjalt


Ég held að Vita Kin-kjóllinn sem Brooks klæðist á einni myndinni hafi haft töluvert með það að gera að ég keypti tímaritið. Ég er heilluð af hönnun, mynstri og bróderingu, þessara hefðbundnu úkraínsku flíka - vyshyvanka. Ég velti því fyrir mér hvort ég fengi leið á þeim núna þegar svo til allir virðast klæðast þeim en svo er ekki raunin. Þær eru klassík.



Fyrir utan fallega stíliseraða og ljósmyndaða tískuþætti sem segja sögu (oft erfitt að finna þá) þá er ekki mikið í tískutímaritum sem lengur höfðar til mín. Ég á þá við tískuhlutann. Ég held að þessi tímarit hafi elst af mér og ég er orðin þreytt á því hvernig fjallað er um tísku. Hvað er með þessar endalausu síður með myndum af flíkum og aukahlutum haust- eða vorlína sem alltaf eru eins uppsettar og áherslan að mestu á merkjavöru? Ég er mun hrifnari af hönnunarferlinu sjálfu og hvert tískuhönnuðurinn sækir innblástur þegar hann hannar nýja línu. Það er akkúrat þess vegna sem viðtal við Maria Grazia Chiuri og Pierpaolo Piccoli, listræna stjórnendur Valentino-tískuhússins, kom mér skemmtilega á óvart. Lítið bara á safn myndanna hér að neðan sem sýnir hvert þau sóttu innblástur fyrir haustlínuna í ár. Þetta er það sem ég vil sjá.


Í viðtalinu er komið inn á sambandið við saumakonurnar og þá virðingu sem þau bera fyrir þeim. Þær „setja ástríðu sína og umönnun í hverja línu ... Mikil vinna og natni er lögð í hvern kjól, í hvert smáatriði, og það má finna hversu dýrmætt þetta er“ (bls. 313). Þau hafa sett upp þriðju hátískuvinnustofuna og kenna ungu fólki iðnina. Chiuri bendir á: „Það er virðing í þessu starfi en það er líka gaman að sjá pönkklædda stelpu í Doc Martens-skóm vinna við hlið sextugrar konu í inniskóm - tvær kynslóðir saman sem deila þekkingu og sérhæfni“ (bls. 314). Þið getið skoðað nokkur smáatriði í hönnun Valentino á Tumblr-síðunni minni.
Bækur og septemberhefti · Lísa Stefan


Önnur skemmtileg grein var um Diana Vreeland, hina frægu tískuritstýru, sem skrifuð er af breska sagnfræðingnum Kathryn Hughes (ævisaga hennar um George Eliot er á óskalistanum). Ný bók um Vreeland kemur út hjá Rizzoli-forlaginu í október, Diana Vreeland: the Modern Woman: The Bazaar Years, 1936-1962, í ritstjórn sonarsonar hennar Alexander Vreeland.



Það var fullt af umfjöllunum í The World of Interiors sem höfðuðu til mín. Ein þá sérstaklega um búgarð í Mexíkó, við landamæri Arizona í Bandaríkjunum, í eigu hönnuðanna Jorge Almada og Anne-Marie Midy sem reka Casamidy, húsgagnahönnunarfyrirtæki. Sjáið fyrir ykkur hefðbundnar, demantamynstraðar mottur og leðurstóla. Midy lýsir landslaginu sem „grænu eftir sumarregnið, en að haustið bleiki það fölum gylltum tón“ (bls. 130). Mig langar að sitja á þessari verönd og njóta dýrðarinnar.



Grein um kaffihúsið Caffè Stern sem er til húsa í Passage des Panoramas í París fékk hjartað til að slá örlítið hraðar vegna Picasso-púðanna sem notaðir eru til að skreyta staðinn (einn sést á myndinni hér að ofan til vinstri). Ég man ekki hvenær ég féll fyrir þeim fyrst. Púðaverin eru handofin og -unnin í Flæmingjalandi (norðurhluti Belgíu) og hönnuð í samvinnu við Picasso-stofnunina. Nokkrar ábreiður eru fáanlegar í versluninni The Conran Shop í London.

Bráðum fara krakkarnir aftur í skólann og skærir litir hortensíanna taka að fölna. Endanlega skipta lauf trjánna litum. Hluti af mér hlakkar til að njóta kaldari haustmorgna; annar hluti vonast eftir indjánasumri, eins og þurr og hlý haust kallast í enskri tungu.


[Uppfærsla: Vegna athugasemdar á ensku útg. bloggsins um ólífugrænu textílprufuna undir latteskálinni og tölvupósts sem mér barst um þá rauðu: Allar prufur í færslunni eru frá Fermoie. Sú ólífugræna er Rabanna (L-077), rauða Marden (L-275) og þessar með röndunum á einni mynd eru York Stripe (bláa L-173, rauða L-016). Allar eru 100% bómull. Allar uppl. um þá gulu sem glittir í á nokkrum myndum eru í bloggfærslunni gul efni frá Fermoie.]



fimmtudagur, 13. ágúst 2015

Þáttaröðin Ferkantað líf

Þáttaröðin Ferkantað líf · Lísa Stefan


Nú veit ég ekki hvort byrjað er að sýna seríuna Ferkantað líf (Life in Squares) á Íslandi en síðasti þátturinn var sýndur á BBC í vikunni. Hún var kynnt sem dramaþáttaröð í þremur hlutum um sambandið á milli ensku listakonunnar Vanessu Bell og systur hennar, rithöfundarins Virginiu Woolf. Mér fannst sagan fjalla meira um sambandið á milli Bell og listamannsins Duncans Grants. Ekki það að ég sé að kvarta, ég hafði virklega gaman af þáttunum, fallegri sviðsmyndinni og búningunum. Leikkonan Phoebe Fox leikur hina yngri Bell og Eve Best þá eldri. Ég hafði ekki séð Fox leika áður og mér þótti hún standa sig vel. Hún smellpassaði við þá mynd sem ég hef af Bell í huganum. James Norton skilar sínu hlutverki sem yngri Grant vel (ég sá hann fyrst sem Tommy í seríunni Happy Valley) og það gerir einnig Rupert Penry-Jones sem leikur eldri Grant. Ég vil bæta því við að allir leikararnir eiga lof skilið. Þarna eru saman komnir frábærir breskir leikarar sem vekja hinn þekkta Bloomsbury-hóp til lífs á skjánum og bóhemískan lífsstílinn. Handrit skrifar Amanda Coe og hinn sænski Simon Kaijser leikstýrir.
Lavender · Lísa Stefan


Ef þið hafði ekki horft á þættina þá verð ég eiginlega að vara ykkur smá við fyrsta þættinum. Það er mjög miklu efni komið til skila í honum - ástarsambönd og andlát - sem fólk tengir betur við ef það þekkir þegar sögu þeirra einstaklinga sem kenndir eru við Bloomsbury-hópinn. Það er mín skoðun að þættirnir hefðu átt að vera fjórir í stað þriggja til að kynna betur þessa einstaklinga. Í öðrum þætti er sagan farin að flæða mun betur og auðveldara að fylgja henni.


Kannski er það klisja að kalla lífsstíl Bloomsbury-hópsins bóhemískan, eins og ég gerði hér að ofan, en leikmyndin (mise en scène) er það svo sannarlega. Sjáið fyrir ykkur listaverk, tæki og tól listamanna, skrifborð, bækur, bréf, o.s.frv. Þegar fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir kom Vanessa Bell upp heimili í Charleston House í Sussex, þar sem meginhluti þáttanna gerist. Þið getið skoðað myndir af listamannalegum stíl setursins á heimasíðu House & Garden.

To the Lighthouse eftir Virginia Woolf · Lísa Hjalt


Fyrir mig er tímasetning þáttanna athyglisverð því í byrjun sumars tók ég úr hillunni bókina To the Lighthouse (Út í vitann á ísl.) eftir Woolf, en ég á það til að lesa hana á sumrin. Á meðan lestrinum stóð var ég að hugsa um þær systur, Virginiu og Vanessu, horfði á myndina The Hours (2002) í hundraðasta sinn og pantaði ævisöguna Vanessa Bell eftir Frances Spalding. Ég áttaði mig nefnilega á því að minn fókus var alltaf á Woolf og hennar sögu. Ég vissi minna um Bell en þættirnir gáfu mér innsýn í hennar lífshlaup.

The World of Interiors, september 2014, bls. 146

Í langan tíma hef ég verið heilluð af Virginiu Woolf. Ég man ekki hvenær sá áhugi gerði fyrst vart við sig eða hvaða verk hennar ég las fyrst. Svo margt hefur verið skrifað um ævi hennar. En ég get mælt með bókinni Moments Of Being, sem er safn af hennar sjálfsævilegu skrifum (las hana í kúrsi í háskólanum á sínum tíma) . Frændi hennar Quentin Bell (sonur Vanessu og Clive Bell) skrifaði ævisögu hennar sem spannar tímabilið 1912 til 1941, Virginia Woolf: A Biography. Eiginmaður hennar, Leonard Woolf, ritstýrði dagbókunum og gaf út eftir andlát hennar, A Writer's Diary: Being Extracts from the Diary of Virginia Woolf.

Eftir að hafa horft á Ferkantað líf þá er ég í stuði til að dýfa mér aðeins ofan í Bloomsbury-hópinn. Ég hlakka til að lesa fyrrnefnda ævisögu um Bell og svo langar mig að horfa aftur á myndina Carrington (1995), en tveir af mínum uppáhalds leikurum fara með aðalhlutverk í henni, Emma Thompson sem Dora Carrington og Jonathan Pryce sem Lytton Strachey (sjáið stikluna). Í gerð er kvikmynd eftir hollenska leikstjórann Sacha Polak sem kallast Vita & Virginia og er um samband Woolf og Vitu Sackville-West. Ég býð spennt.




þriðjudagur, 7. júlí 2015

Bóndarósir og indversk blómamynstur

Bóndarósir og indversk blómamynstur · Lísa Hjalt


Á einhverjum tímapunkti nótaði ég í minnisbókina að kínverska orðið yfir bóndarós væri sho yu, sem þýðir sú fegursta. Nafn við hæfi! Sennilega er það klisjukennt að birta bloggfærslu um bóndarósir en í fyrra lét ég bók um textílhönnun fylgja með og ég hugsaði með mér að textíll og bóndarósir væru bara ágætis árlegt þema hér á blogginu. Nýjasta textílbókin í safninu mínu er V&A Pattern: Indian Florals.

Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt

Á bókarkápunni: Bútur af efni til bólstrunar, bróderuð bómull með silkiþráðum,
Gujurat (fyrir evrópskan markað), snemma á 18. öld

V&A Pattern: Indian Florals er lítil bók með aðeins fjórum blaðsíðum af texta eftir Rosemary Crill. Í henni eru 66 síður af mynstrum, auk mynstranna á bókarkápunni og á öðrum síðum til skrauts (samtals 71). Það eru stuttar lýsingar fyrir neðan öll mynstrin (eins og myndatextinn minn) og bókinni fylgir auk þess tölvudiskur með öllum mynstrunum í góðri upplausn.
Rúmábreiða, lituð og bútasaumuð bómull (chintz), Coromandel-ströndin
(fyrir evrópskan markað), ca. 1725-50
Bútur af kjólaefni, blokkprentuð bómull (chintz), Suður-Indland
(fyrir evrópskan markað), 18. öld

V&A Pattern-bækurnar eru frábær kynning á yfirgripsmiklu minjasafni (textíll, skraut, veggfóður og prent) Victoria and Albert-safnsins í London. Fyrir áhugafólk um textílhönnun og fyrir nemendur er kjörið að safna þeim. Næst er ég að hugsa um að kaupa Kimono eða William Morris, eða kannski þetta bókasett, Box-Set III, sem inniheldur Spitalfields Silks, Chinese Textiles, Pop Patterns og Walter Crane.

Mér finnst svolítið erfitt að ákveða mig en bækurnar eru ódýrar þannig að ég trúi því að á stuttum tíma verði ég komin með þó nokkuð margar í safnið.
Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt


Þegar þetta er skrifað er síðasti vöndurinn af bóndarósum þessarar árstíðar í hvítum keramikvasa á eldhúsborðinu. Ég kann að hljóma dramatísk (ég er allt annað en dramatísk) þegar ég segi að ég vildi að ég hefði þann ofurmátt að geta forðað rósunum frá því að visna. Mig langar ekki að bíða í næstum heilt ár eftir því að finna himneska angan þeirra að nýju.

Bóndarósir eru svo sannarlega fegurstar.
Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt
Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt