fimmtudagur, 30. apríl 2015

Gul efni frá Fermoie

Textíll: Gul efni frá Fermoie · Lísa Hjalt


Ég er að ganga í gegnum enn eitt gulur-textíll tímabilið; ég sé gul mynstur alls staðar. Samband mitt við þennan grunnlit er stundum flókið því ég laðast að ákveðnum gulum tónum eins og býfluga að hunangi á meðan aðrir gera lítið fyrir mína fagurfræðilegu hlið. Gulu litirnir sem heilla mig eru gylltir og sinnepsgulir litir; gulir litir sem hafa vott af rauðu í sér, eins og túrmerik og saffran. Það sem kom af stað þessu nýjasta æði mínu voru prufur af efnum sem ég fékk frá enska vefnaðarvörufyrirtækinu Fermoie.

Prufan með breiðu röndunum kallast Cotton York Stripe (L-039) og hitt mynstrið kallast Cotton Rabanna (L-190), sem virðist bræða hjarta mitt í hvert sinn sem ég horfi á það. Bæði efnin eru 100% bómull í hæsta gæðaflokki. Ég fékk fleiri liti og mynstur sem ég legg á borðið mitt síðar og sýni ykkur ... þegar ég er komin yfir gula æðið. (Mynd mín hér að ofan sýnir hluta af ljósmynd eftir Chris Court í bókinni Gypsy: A World of Colour & Interiors eftir Sibella Court.)


Fermoie var stofnað af Martin Ephson og Tom Helme, herramönnunum sem einnig stofnuðu Farrow & Ball (og seldu síðar). Mér líkar einfaldleikinn í palettu þeirra sem samanstandur af fimm litum - rauðum, gulum, grænum, bláum og hlutlausum - sem eru fáanlegir í ljósum og dökkum tónum. Helme segir þetta um fyrirtækið:
Fermoie's aim is to capture the life, light and enjoyment of old woven textiles. We print traditionally with a light touch using pigments creating a subtle impression but with the depth of a woven fabric. (Um Fermoie)
Hönnunin er handteiknuð á vinnustofum þeirra og prentuð á náttúruleg efni í verksmiðju þeirra í Marlborough (efnin eru ofin í Lancashire). Ef svo vill til að þið eruð stödd í Chelsea-hverfinu í London þá er Fermoie með sýningarsal á Pond Place númer 2.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.