Sýnir færslur með efnisorðinu vefnaðarvara. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu vefnaðarvara. Sýna allar færslur

miðvikudagur, 17. janúar 2018

Textíll og Persar

Schuyler Samperton Textiles · Lísa Stefan


Ég kann að hafa lokkað ykkur hingað á bloggið á fölskum forsendum því þessi færsla hefur ekkert með persneskan textíl að gera heldur var það Persinn okkar, sem sagt kötturinn, sem stalst inn í myndarammann þegar ég var að ljósmynda efni frá Schuyler Samperton Textiles. Þetta var á rólegum degi, sólin var í felum en öðru hvoru lýsti hún upp bókahornið okkar, og yfir allt kaffiborðið hafði ég dreift bókum, tímaritum og textílprufum. Að sjálfsögðu var kaffibollinn minn þarna líka.

Ákveðin litapaletta hafði myndast í hausnum á mér og skyndilega áttaði ég mig á því hversu fallega hún small saman við forsíðuna á The World of Interiors, janúartölublaðinu 2018. Ég valdi textílprufurnar sem ég þurfti, greip myndavélina og hafði kannski smellt af fjórum eða fimm myndum þegar persneski prinsinn minn mætti á svæðið ... og lét ekki hagga sér (ég hefði átt að vita það, honum finnst gott að sofa inn á milli bókanna minna). Ég reyndi að vinna í kringum hann en hann var alltaf að birtast í rammanum. Síðasta myndin sýnir hvernig þetta endaði: hann fékk sínu fram og ég þurfti að kalla þetta gott.

Schuyler Samperton Textiles · Lísa Stefan
Caledonia, Doshi og Firefly mynstur frá Schuyler Samperton Textiles

Aftur að litapalettunni. Ég valdi þrjú mynstur frá Schuyler Samperton Textiles. Blómamynstrið með fuglamótífinu kallast Caledonia, sem sést hér í litunum Peony (sjá í forgrunni að ofan) og Imperial (undir bollanum). Efnið með lauslega prentuðu blómunum er Doshi, í Hibiscus og Aubergine. Á milli þeirra er efnið Firefly í litnum Plum. Sá blái kallast Deep End.


Persneskur köttur mætir á svæðið.

The World of Interiors & Schuyler Samperton Textiles · Lísa Hjalt
Mynd af svefnherbergi úr tímaritinu The World of Interiors, janúar 2018/Simon Upton

Forsíða tímaritsins The World of Interiors, janúar 2018, var tekin af ljósmyndaranum Simon Upton. Innlitið er á heimili Roberto Gerosa, listræns stjórnanda í Mílanó, sem umbreytti vöruhúsi í heimili og vinnustofu. Svefnherbergið er textílhimnaríki.
Sofandi persi og Schuyler Samperton Textiles · Lísa Stefan


Allt er gott sem endar vel.



mánudagur, 10. apríl 2017

Samtal við textílhönnuðinn Lisa Fine

Samtal við textílhönnuðinn Lisa Fine · Lísa Stefan


Þessi orð eru höfð eftir bandaríska ljósmyndaranum, Ansel Adams heitinum: „You don't make a photograph just with a camera. You bring to the act of photography all the pictures you have seen, the books you have read, the music you have heard, the people you have loved.“ Orð hans eiga við hvers kyns skapandi listir og ég notaði þau til að hefja samræður við textílhönnuðinn Lisa Fine í gegnum tölvupóst. Á blogginu hef ég þegar lýst henni sem hönnuði með skilning á sögu og stend við þau orð. Hún er lagin með liti og mynstur; það virðist sem hvert efni frá Lisa Fine Textiles segi sögu. Hún er fædd og uppalin í Mississippi. Nú býr hún í New York ásamt hundunum sínum og ferðast víða, oft til Indlands eða annarra framandi staða. Smálistaverk hafa innblásið feril hennar, einnig listmálarinn Henri Matisse.

Þar sem umræðuefnið er ekki flókið finnst mér óþarfi að þýða svör hennar yfir á íslensku. Þar sem það er mögulegt, einnig í beinum tilvísunum, hef ég sett inn tengla á t.d. stuttar ritgerðir á vefsíðum listasafna sem mér fannst áhugaverðar og fræðandi. Fyrir utan málverkin eftir Matisse valdi ég myndirnar í færslunni.

[Mynstur frá Lisa Fine Textiles sem sjást á efstu myndinni (smellið fyrir nánari
upplýsingar): Cairo, Kashgar, Luxor, Malabar, Malula, Mandalay, Pasha og
Rajkot. Sjá bækur neðar í færslunni]

Persneskt smálistaverk: Mir Sayyid 'Ali, Night-time in a City,
ca. 1540, Tabriz, Íran, Safavíd-tímabilið

Svo við víkjum aftur að orðum Adams, hvað hefur sett mark sitt á hönnuðinn Lisa Fine (í ljósi alls sem hún hefur uppgötvað í gegnum vinnu sína og ferðalög).
LF: My life is very much about people, however, books and art not only inspire and teach but are the best refuge.

My favorite painter is Matisse. I love his mix of color and pattern, especially in his orientalist portraits. Irving & Fine [samstarf við textílhönnuðinn Carolina Irving] peasant blouses were very much inspired by his work. I also love the Fauvism movement.
Tveir aðrir listamenn eru einnig í uppáhaldi hjá henni, Kees Van Dongen og Amedeo Modigliani.

Henri Matisse, Zorah on the Terrace, 1912

Hún á ekki eitt uppáhaldsverk eftir Matisse en sagði: „I love his Moroccan period most, especially the portraits.“ Síðar fann ég verk hans Zorah on the Terrace í pósthólfinu mínu með orðunum: „Love Moroccan portraits.“ Hin tvö verkin eftir Matisse fylgdu á eftir, verkið hér að neðan með orðunum: „Love odalisque series.“

laugardagur, 1. apríl 2017

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan


Mótíf, mynstur, textíll, litir. Nýverið barst mér dágóður skammtur af prufum frá Lisa Fine Textiles og hef því eytt latte-stundum mínum með handprentuð, litrík efni breidd yfir skrifborðið mitt ásamt textílbókum, eins og myndirnar mínar sýna. Hérna höfum við þrjú mynstur sem Lisa Fine kynnti í fyrra, Kalindi, Cochin og Ayesha Paisley, sem eru falleg viðbót í safn hennar af framandi efnum, sem öll eru innblásin af ferðalögum hennar. Bráðum hyggst ég deila með ykkur stuttum samræðum sem ég átti við Lisa Fine sjálfa í gegnum tölvupóst, um bækur, list og hvaðan hún sækir innblástur.

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Cochin frá Lisa Fine Textiles, litur í forgrunni: rose

Af þessum þremur efnum er Cochin með blómamynstrinu sú hönnun sem nú þegar á hjarta mitt og sál, einkum í litnum rose sem hefur saffrangulan bakgrunn. Mynstrið er handprentað á 90% náttúrulegt lín með 10% næloni, fáanlegt í fjórum litum: rose, cinnabar (þetta rauða og bláa, sjá mynd að ofan, efst til hægri), burnt sugar og saffron (með bleikum blómum). Hönnun Lisa Fine ber gjarnan indversk nöfn. Cochin er nýlenduheiti indversku borgarinnar Kochi, á suðvesturströndinni í Kerala-héraði.

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Ayesha Paisley, litur í forgrunni: ruby

Mynstrið Ayesha Paisley er handprentað á 100% náttúrulegt lín, fáanlegt í fjórum litum: ruby, sapphire, coral og spinel (ég á ekki prufu af þessu síðastnefnda).

Ayesha Paisley, í forgrunni: sapphire

Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan
Í forgrunni: Kalindi í öllum fáanlegum litum (undir bollanum mínum
eru tvær prufur af mynstrinu Luxor)

Efnið Kalindi er með blómamynstri ásamt doppum, handprentað á 90% náttúrulegt lín með 10% næloni. Það er fáanlegt í fimm ríkum litum: monsoon (þetta ljósbláa), indigo, saffron, dusty rose og lipstick. Ég geri ráð fyrir að mynstrið sé nefnt eftir ánni Kalindi í West Bengal héraði í austurhluta Indlands.

Til að skoða öll efnin kíkið þá á heimasíðu Lisa Fine Textiles.
Litrík efni frá Lisa Fine Textiles · Lísa Stefan


Kannski eru einhverjir lesendur í þeim hugleiðingum að gefa einu rými upplyftingu eða jafnvel að hugsa um að endurhanna heimilið. Í viðtali sem birtist í tímaritinu Lonny, þegar gestaíbúð hennar á Vinstri bakka Parísar var til umfjöllunar, gaf Lisa Fine eitt mjög gott ráð: „Never be a victim of trends. If modern is in style and you love Victorian, go Victorian. Style is an expression of yourself and not what fashion dictates“ (Inspiration India, des/jan 2010). Forðist sem sagt tískusveiflur og látið ykkar eigin persónulega stíl ráða för. Í sömu umfjöllun deildi hún nokkrum hugmyndum um hönnun og hér er ein sem gæti komið ykkur á byrjunarreit: „Similar to how many designers will start with a rug and then build a room, choose a fabric to inspire the space and work from there.“ Val mitt á efni væri augljóst.



miðvikudagur, 4. maí 2016

Textílhönnuðurinn Lisa Fine

Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Stefan


Í heimildarmynd eftir Albert heitinn Maysles um hönnuðinn og tískufrömuðinn Iris Apfel, sem ber hið einfalda heiti Iris (2014), á hún samræður við ljósmyndarann Bruce Weber. Þegar talið berst að tískuhönnuðum sem kunna ekki að sauma - hún kallar þá fjölmiðlafrík - nefnir hún unga hönnuði sem hafa „engan skilning á sögu“ („no sense of history“ - á ca. 46. mínútu). Kannski finnst ykkur þetta furðulegur inngangur að textílhönnuðinum Lisa Fine, konunni á bak við Lisa Fine Textiles, en ég held að það sé einmitt þessi skilningur á sögu sem dró mig að verkum Fine. Hönnun hennar hefur dýpt og mynstruðu efnin hennar eru bæði framandi og dulræn.
Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Stefan


Með því bara að skoða nöfnin á þeim fallegu efnum sem Lisa Fine hefur hannað gæti hugurinn reikað á framandi slóðir, og ekki ólíklegt að þið teygðuð ykkur í söguatlasinn (tenglarnir fara með ykkur á mynstrið á vefsíðunni hennar): Þarna er Aswan, borg á austurbakka Nílar í Egyptalandi; Luxor, önnur egypsk borg þar sem þið finnið rústir fornu borgarinnar Þebu; Lahore, borg í Punjab-héraði í Pakistan; Kashgar, hin sögulega vinjarborg í vestasta hluta Kína, áfangastaður á Silkileiðinni; Bagan, forn borg í Myanmar (Búrma); Baroda, gamla nafnið yfir Vadodara í indverska héraðinu Gujarat; Malabar, hérað á vesturströnd Indlands, alveg syðst á milli Arabíuhafsins og Western Ghats fjallanna.

Ég gæti haldið áfram.

Zoraya-mynstrið í litunum rose og monsoon

Það eru ár síðan textílhönnun Lisa Fine töfraði mig en ég hafði aldrei meðhöndlað efnin (100% lín) þar til ég fékk safn af prufum í póstinum. Þau stóðust miklar væntingar mínar. Eitt efnið kallast Zoraya (sjá mynd að ofan). Ég var forvitin um uppruna orðsins þannig að í gær, áður en ég deildi bloggfærslunni, ákvað ég að senda fyrirspurn á skrifstofuna, sem var svarað fljótt með útskýringum Fine á því hvernig nafnið á mynstrinu varð til. Soraya var ein eiginkvenna síðasta Íranskeisarans, sem ríkti frá 1941 til 1979. Fine var stödd í Andalúsíu á Spáni og var að lesa sögu Norður-Afríkubúa og Persa á Spáni þegar hún kom auga á nafnið ritað með Z, Zoraya. „Mér fannst mynstrið hafa mjög geómetrískan blæ, allt að því fornpersneskan, og mér líkað nafnið Zoraya.“

Hönnuður með skilning á sögu fyrir víst.

Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Stefan
Í forgrunni: Malabar Reverse mynstrið í litnum Nordic blue

Í heimi textíls og innanhússhönnunar er ólíklegt að þið hafið ekki rekist á nafn Lisa Fine. Frekar nýlega í amerísku útgáfu House Beautiful var til umfjöllunar íbúð móður hennar í Dallas, hönnuð af dótturinni, hvað annað. (Það er bók sem kallast Iznik á stofuborði móðurinnar sem mig langar í!) Móðirin gaf dóttur sinni frjálsar hendur til að hanna rýmið og ánægði kúnninn „kvartaði“ bara yfir einu: „Eina vandamálið er að þegar ég fæ gesti þá vilja þeir ekki fara.“

Lisa Fine á litríka íbúð í París sem hefur birst með innliti í útgáfum eins og Lonny (sjá hér pdf-skjal með innlitinu sjálfu og stærri myndum) og The New York Times (sjá fleiri myndir úr NYT á Apartment Therapy). Samstarf hennar og hönnuðarins Richard Keith Langham hefur skilað af sér glæsilegum indverskum gólfmottum (dhurries). Svo er það samstarf hennar og textílhönnuðarins Carolina Irving, Irving & Fine, þar sem má versla mynstraða og bróderaða kyrtla þeirra og kaftana (framandi blússur og kjólar).

Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Stefan

Vinstri: Samode í litnum indigo/natural (einnig glittir í desert sand); Lahore í apricot.
Hægri (í ramma): Baroda II í pomegranate (mynstur með fugli); Zoraya í monsoon;
Luxor í pompeii on ivory (þetta appelsínugula)

Í hvert sinn sem ég rekst á umfjöllun um Lisa Fine tengi ég auðveldlega við bækurnar sem hún les, því eins og ég hefur hún áhuga á ævisögum og ferðaskrifum. Hún hefur ferðast mjög mikið, t.d. víðsvegar um Indland, og hönnun hennar er innblásin af ferðalögunum. Ég man alltaf eftir einni tiltekinni umfjöllun, með nokkrum litlum myndum þar sem hún var spurð stuttra spurninga. Sú síðasta snerist um hvert hana langaði að fara og hún svaraði Isfahan í Íran, en bætti við að hún héldi að það væri ekki mögulegt (þegar ég var að sækja efnivið í þessa færslu fann ég umfjöllunina á heimasíðu hennar: Material Connection, Ultra Travel, sumar 2012). Núna þegar alþjóðlegu viðskiptabanni á Íran hefur verið aflétt, og samskipti Bandaríkjanna og Írans eru að batna, þá virðist Isfahan (Eṣfahān) vera möguleiki í framtíðinni. Ég get rétt ímyndað mér þann innblástur sem hún gæti sótt í hinn sögulega íslamska arkitektúr, mikilfengleika hans og glæsilegra veggflísa. Sérstaklega með skilningi hennar á sögu.

Textílhönnuðurinn Lisa Fine · Lísa Stefan
Í forgrunni: Kashgar-mynstrið í spice. Í bakgrunni: Chiara í sky blue/oyster.
Einnig glittir í: Bagan í indigo



mánudagur, 14. mars 2016

Wild Thing í red emerald frá Lewis & Wood

Wild Thing mynstrið frá Lewis & Wood · Lísa Stefan


Textílprufan hér að ofan er bútur af efninu Wild Thing í litnum red emerald frá Lewis & Wood sem ég hef dáðst að mánuðum saman. Síðasta haust sendu þau mér bunka af textílprufum og þessi tiltekna var sú fyrsta sem fangaði athygli mína. Ég hafði séð efnið í heild sinni - djarft mynstur með laufum, blómum og dýralífi - á heimasíðunni og get ekki sagt að það hafi höfðað neitt sérstaklega til mín, kannski vegna þess að það voru læti í því; eins og það væri of villt fyrir minn smekk. Þegar ég sneri prufunni við til að skoða upplýsingarnar á bakhliðinni þá hélt ég fyrst að búturinn hefði verið ranglega merktur. Þegar hugurinn fór svo smám saman að átta sig á því að þetta væri í raun Wild Thing mynstrið þá gerði ég mér grein fyrir því hversu mikilvægt það er að skoða vel smáatriði í textílhönnun áður en maður dæmir.



Mótífin í mynstrinu eru blóm, lauf, fuglar og api. Það sem að mínu mati gerir efnið einkum áhugavert er hversu óhefluð jurtalitunin er. Það eru útlínur í efninu en litirnir eru bæði innan og utan lína, sem gerir hönnunina jafnvel villtari og meira lifandi.

Wild Thing í litunum red emerald og ginger kiwi frá Lewis & Wood

Wild Thing mynstrið er fáanlegt í þremur litaafbrigðum: copper cobalt, ginger kiwi, og í fyrrnefndu red emerald. Ég held að copper cobalt afbrigðið (hér að neðan) sé kjörið fyrir þá sem vilja fara eilítið rólegra í sakirnar en fyrir mig hefur red emerald vinninginn. Ég á auðvelt með að sjá það efni fyrir mér sem gluggatjöld í svefnherberginu síðar meir.

Wild Thing í litnum copper cobalt frá Lewis & Wood



mánudagur, 21. september 2015

English Ethnic línan frá Lewis & Wood

Textíll: English Ethnic-línan frá Lewis & Wood · Lísa Stefan


Í síðustu bloggfærslu notaði ég prufur frá Lewis & Wood, ensku fyrirtæki á sviði textíls og veggfóðurs, og sagði að meira kæmi síðar. Þau höfðu sent mér bunka af efna- og veggfóðurprufum en sumar þeirra höfðu þegar heillað mig á vefsíðu þeirra. Það sem kom mér á óvart voru mynstur í sendingunni frá þeim sem höfðu ekki fangað athygli mína á vefnum en voru svo ótrúlega falleg þegar ég gat skoðað smáatriðin í hönnunni með mínum eigin augum og fundið áferð efnisins. Ég ætla að deila nokkrum mynstrum síðar en í dag, með lattebollanum, einblíni ég á mynstrin Womad og Bacchus úr English Ethnic línunni sem kom á markað á síðasta ári og er hönnuð af listakonunum Su Daybell, Flora Roberts og Melissa White. Línunni hefur verið vel tekið og mynstrin hafa birst í ýmsum tímaritum.

English Ethnic-línan frá Lewis & Wood · Lísa Stefan


Hjá Lewis & Wood tala þau um Su Daybell sem sitt wild card (afsakið slettuna). Hún er listakonan sem hannaði hið hrífandi mynstur Womad, með abstrakt blómum og mótífum. Efnið sem er 100% lín er til í tveimur litum, brúnum og bláum sem kallast burnish og celestial. Ég ætla ekki að segja ykkur hvað ég er bálskotin í þessu brúna, sem sést á efstu myndinni minni. Ég hreinlega get ekki hætt að dást að því. Litapaletta Womad-veggfóðursins samanstendur af þremur fallegum bláum, brúnum og gulum tónum, sem kallast stream, silt og sand.

Í forgrunni: Womad veggfóðurprufur - litir (frá vinstri): silt, sand og stream

Fyrir línuna hannaði Daybell einnig mynstrið Force 9, sem ætti að höfða til allra sem hræðast ekki djarfa hönnun. Fyrir þá sem hafa áhuga þá má sjá stíliseringu á því í lit sem kallast gravel í septembertölublaði House & Garden árið 2014.

Bacchus veggfóður og efni eftir listakonuna Melissa White - litur: mead

Mynstrið Bacchus eftir listakonuna Melissa White fyrir English Ethnic línuna hefur svo sannarlega fest sig í sessi á markaðnum. Í síðasta ágústtölublaði tímaritsins The World of Interiors var blái litur þess, sem kallast grigio, valinn á lista yfir bestu djörfu, stóru mynstrin á markaðnum. Tímaritið BBC Antiques Roadshow Magazine útnefndi mynstrið í gulum lit sem kallast mead sem vinningshafa í flokknum „Besta prentaða efnið 2014“. Í júlíhefti þeirra ársins 2014 var umfjöllun um White þar sem hún var heimsótt við störf á vinnustofu sinni, en þar er að finna upprunalega listaverkið hennar sem við þekkjum núna sem Bacchus-mynstrið.

Í bæklingi frá Lewis & Wood, sem kynnir línuna og hönnuðina, segir að Melissa White sé vel þekkt fyrir veggmyndir og máluð efni í anda Elísabetar-tímabilsins [gullöldin í sögu Englands þegar Elísabet I var drottning], að „fræðileg hrifning hennar af yfirborðsmynstrum og sögulegum smáatriðum“ gefi hönnun hennar „raunverulegt yfirvald.“ Bacchus-mynstrið, úr 100% líni eða sem veggfóður, er fáanlegt í þremur gulum, gráum og bláum tónum: mead, malt og grigio. Ekki til umfjöllunar hér er annað mynstur sem hún hannaði fyrir línuna, Rococo-veggfóðrið.

English Ethnic-línan frá Lewis & Wood · Lísa Hjalt
English Ethnic-línan frá Lewis & Wood · Lísa Hjalt


Listakonan Flora Roberts, sem er þekkt fyrir veggskreytingar sínar, var sú þriðja sem var valin til hanna fyrir English Ethnic línuna. Glæsileg mynstur hennar Doves og Sika má skoða á vefsíðu Lewis & Wood.

Lewis & Wood var stofnað árið 1993 af Stephen Lewis, sérfræðingi í textílprentun, og innanhússhönnuðinum Joanna Wood. Til að byrja með fór starfsemin fram í kjallarahúsnæði í London en árið 2008 var starfsemin flutt í stóra byggingu í Woodchester Mill, í Stroud Valley dölunum í Gloucestershire. Ef þið eruð á ferð í London þá eru þau með sýningarsal í Design Centre East á Chelsea Harbour svæðinu.

English Ethnic-línan frá Lewis & Wood · Lísa Stefan
Í vinstra horninu: sýnishorn af efninu Bacchus eftir listakonuna Melissa White - litur: grigio