Textílprufan hér að ofan er bútur af efninu Wild Thing í litnum red emerald frá Lewis & Wood sem ég hef dáðst að mánuðum saman. Síðasta haust sendu þau mér bunka af textílprufum og þessi tiltekna var sú fyrsta sem fangaði athygli mína. Ég hafði séð efnið í heild sinni - djarft mynstur með laufum, blómum og dýralífi - á heimasíðunni og get ekki sagt að það hafi höfðað neitt sérstaklega til mín, kannski vegna þess að það voru læti í því; eins og það væri of villt fyrir minn smekk. Þegar ég sneri prufunni við til að skoða upplýsingarnar á bakhliðinni þá hélt ég fyrst að búturinn hefði verið ranglega merktur. Þegar hugurinn fór svo smám saman að átta sig á því að þetta væri í raun Wild Thing mynstrið þá gerði ég mér grein fyrir því hversu mikilvægt það er að skoða vel smáatriði í textílhönnun áður en maður dæmir.


Mótífin í mynstrinu eru blóm, lauf, fuglar og api. Það sem að mínu mati gerir efnið einkum áhugavert er hversu óhefluð jurtalitunin er. Það eru útlínur í efninu en litirnir eru bæði innan og utan lína, sem gerir hönnunina jafnvel villtari og meira lifandi.
![]() |
Wild Thing í litunum red emerald og ginger kiwi frá Lewis & Wood
|
Wild Thing mynstrið er fáanlegt í þremur litaafbrigðum: copper cobalt, ginger kiwi, og í fyrrnefndu red emerald. Ég held að copper cobalt afbrigðið (hér að neðan) sé kjörið fyrir þá sem vilja fara eilítið rólegra í sakirnar en fyrir mig hefur red emerald vinninginn. Ég á auðvelt með að sjá það efni fyrir mér sem gluggatjöld í svefnherberginu síðar meir.
![]() |
Wild Thing í litnum copper cobalt frá Lewis & Wood
|
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.