mánudagur, 31. mars 2014

Kaffi, bréfaskrif og góð bók



Stundum þegar ég fer að sofa þá finn ég fyrir tilhlökkun að vakna daginn eftir og drekka gott kaffi. Ég trúi því ekki að ég sé sú eina. Um helgina var ég eitthvað að pæla í þessu og velti því fyrir mér hvort það væri líklegra að finna fyrir slíkri tilhlökkun ef maður væri að lesa eitthvað skemmtilegt. Á föstudaginn kom ég við í bókabúð til að kaupa bréfsefni, penna og bók sem íslensk æskuvinkona mín sagði mér frá og mælti með. Bókin heitir á frummálinu The Guernsey Literary and Potato Peel Pie Society og er eftir Mary Ann Shaffer (hún var þýdd á íslensku og kallast Bókmennta- og kartöflubökufélagið). Undanfarið hef ég ekki verið að lesa skáldsögur, ég hef aðallega verið í tímaritum og hvers kyns hönnunarbókum, og það var svo góð tilfinning að snúa sér aftur að skáldsögum með svona skemmtilegri bók. Ég hef varla getað lagt hana frá mér og stend sjálfa mig að því að lesa síðustu kaflana hægt því mig langar ekki að bókin endi.

Sögusviðið er England árið 1946 og bókin fjallar aðallega um lífið á eyjunni Guernsey á tímum hernáms Þjóðverja, sem er lýst í bréfaskrifum eftir stríðið. Bréfaskrif skipa stóran sess í bókinni og því var ég glöð að kaupa skrifblokkir á föstudaginn og nýja penna því á laugardaginn langaði mig bara að skrifa bréf á milli þess sem ég las.

Ég fór með bréfin út á pósthús í morgun eftir að hafa farið með soninn í skólann. Það eru engar líkur á því að pósthúsið í hverfinu fái verðlaun fyrir smekklega hönnun, en það er lítið og sjarmerandi. Viðskiptavinirnir þekkja afgreiðslufólkið með nafni og afgreiðslufólkið býður ekki góðan daginn heldur spyr alla: „How are you, my love?“ eða „Is everything alright, my love?“ Án efa hallærislegt pósthús en það vinalegasta sem ég hef nokkurn tíma stigið fæti inn í.


fimmtudagur, 27. mars 2014

Vor í ástralskri garðyrkjustöð



Á fimmtudaginn á ensku útgáfu bloggsins sagðist ég ætla að nota næstu fimmtudaga til þess að fagna vorinu á blogginu, með því að deila vormyndum nokkurra ljósmyndara og stílista. Upphaflega ætlaði ég ekki að vera með sömu póstana hér á íslensku útgáfunni, sennilega vegna þess að mér finnst íslenskt vor einfaldlega allt öðruvísi en til dæmis gengur og gerist hérna megin við Atlantshafið. En þegar ég fór að velta þessu betur fyrir mér þá hugsaði ég með mér, Af hverju ekki?

Ég byrja á Luisa Brimble, sem er matar- og lífsstílsljósmyndari í Sydney, hönnuður og stofnandi Alphabet Family Journal. Auk þess er hún ein af mörgum hæfileikaríkum einstaklingum á bak við tímaritið Kinfolk. Luisa tók þessar dásamlegu vormyndir í Eugalo-garðyrkjustöðinni í New South Wales. Hún var að vinna ljósmyndaþátt fyrir The Grounds of Alexandria (Florals by Silva), sem er þekkt kaffibrennsla í Ástralíu. Eugalo sér þeim fyrir blómum.


Þegar ég sá þessar myndir fyrst þá var haustið á næsta leiti á norðurhveli jarðar og vorið virtist svo órafjarri. En þær tala sínu máli og það var eitthvað við Hunter-stígvélin og eldiviðinn sem festist í huga mér.

myndir:
Luisa Brimble (birt með leyfi)

miðvikudagur, 26. mars 2014

Manhattan eftir Hyesu Lee



Þessa teikningu af Manhattan eftir listakonuna Heysu Lee langar mig að sjá hangandi upp á vegg í stórum ramma á mínu eigin heimili. Hrikalega töff eru einu orðin sem ég á yfir þetta verk hennar.

mynd:
Hyesu Lee Illustration af síðunni Make Maps

þriðjudagur, 25. mars 2014

Rýmið 58



- borðstofa í úthverfi Madrid á Spáni
- í eigu skartgripahönnuðarins Anton Heunis

mynd:
Pablo Zuloaga fyrir ELLE.es af síðu SoupDesign á Pinterest

mánudagur, 24. mars 2014

Hýasintur úr garðinum á skrifborðið



Ég er mætt aftur eftir stutt blogghlé. Ég þurfti að játa mig sigraða í síðustu viku og leggjast í rúmið þegar kvef og hausverkur náðu yfirhöndinni. Mikið svakalega var gott að komast aftur út í morgun, að labba út í skóla með syninum og sjá enn fleiri kirsuberja- og plómutré í blóma. Ég þurfti að læra í dag en áður en ég settist við skrifborðið þá fór ég út í garð með skæri og náði mér í búnt af hýasintum í öllum þeim litum sem garðurinn býður upp á. Ég leyfði mér svo að njóta þess að drekka latte og blaða í bók áður en ég umturnaði borðinu með skóladóti. Það var á mörkunum að ég gæti einbeitt mér að skólabókunum fyrir ilminum af blómunum!


miðvikudagur, 19. mars 2014

Hönnuðurinn Lotta Jansdotter í spjalli


Það er komið að fyrsta viðtalinu í náttúruleg efni seríunni á blogginu, spjall við sænska hönnuðinn Lotta Jansdotter sem er búsett í Brooklyn. Í fullkomnum heimi hefði ég kíkt í heimsókn á vinnustofu hennar í Gowanus-hverfinu og svo setið með henni á kaffihúsi þar sem við hefðum rætt um hönnun hennar og hvernig það að alast upp í Svíþjóð hefur mótað hönnunina. En Atlantshafið aðskilur okkur og auk þess er Lotta mjög upptekin. Í staðinn sendi hún mér form með tilbúnum spurningum og svörum og þar var að finna allt sem mig langaði að fá svör við, fyrir utan eina spurningu, þá síðustu sem hún að sjálfsögðu sendi mér svar við.



Rætur hennar eru skandinavískar. Hún fæddist á Álandseyjum (á milli Svíþjóðar og Finnlands) og hún var alin upp í Stokkhólmi. Öllum sumrum eyddi hún með föður sínum og ömmu á Álandi. Að dvelja þar er í hennar huga næring fyrir sálina. Hún er höfundur bókarinnar Lotta Jansdotter's Handmade Living: A Fresh Take on Scandinavian Style og annarra bóka. Hún er sjálflærð, aðallega með tilraunum og mistökum. Þannig nam hún iðnina.

Við skulum kynnast henni betur!

Hver er sagan á bak við þinn listræna feril og þann sess sem þú hefur skapað þér?
Mér hefur alltaf þótt gaman að teikna. Sem krakki elskaði ég að teikna blóm og mynstur og það hefur fylgt mér allar götur síðan. Ég var 20 ára þegar ég flutti frá Svíþjóð til Bandaríkjanna í leit að því sem ég vildi verða þegar ég yrði stór. Ég sótti alls kyns kúrsa í tómstundaskólum í Kaliforníu: skartgripahönnun, skúlptúr, teikningu, keramik og silkiprentun ... ég ELSKAÐI silkiprentun. Ég ákvað að hætta í skóla og stofna mitt eigið fyrirtæki, sem ég gerði árið 1996. Ég prentaði myndirnar sem ég teiknaði og mótífin á lín og bjó til púða og töskur sem seldust í Ameríku og Japan. Stíll minn var einfaldur, stílhreinn og mjög innblásinn af náttúrunni og sumrunum sem ég eyddi sem barn í skandinavískri náttúru.


Ég elskaði að teikna og klippa pappír, að nota blek og gúmmísement og penna ... og lærði aldrei að nota tölvuforrit fyrir þessa list ... þannig að mitt mjög svo lífræna ferli þróaðist með þeim hætti að ég hannaði aldrei neitt í tölvu, það sem ég skapaði var ójafnt, svolítið „wabi sabi“-legt ... ófullkomlega fullkomið. Slíkan stíl var ekki að finna á ameríska gjafa/innanhússmarkaðnum á þeim tíma ... og þannig byrjaði þetta allt.

Hvernig lýsirðu hönnunarferli þínu?
Ég teikna svo til alla mína hönnun í teikniblokkir eða á lausablöð, umslög o.s.frv. Ég nota venjulegan gamlan penna (aldrei blýant - þoli þá ekki - línurnar þurfa að vera stöðugar, þykkar og sterkar) eða blek. Ég nota svo ljósritunarvél til að leika mér með stærðir og endurtekningar. Ég kann ekki að nota tölvu og vil heldur ekki nota hana. Ég elska að meðhöndla, að klippa, líma og festa - að snerta pappírinn og verða aðeins klístruð á fingrunum. Ferlið er mjög skemmtilegt.



Því miður er ég oftast svo upptekin við reksturinn að ég á erfitt með að finna tíma til að teikna og skapa. En til allrar lukku þá tel ég það skapandi ferli að vera með sinn eigin rekstur, það er bara öðruvísi sköpunarferli.

Er eitthvað í hönnunarferlinu í uppáhaldi?
Ég elska þá tilfinningu þegar ég dett niður á góða hönnun. Ég teikna og rissa alls kyns hluti og svo allt í einu er ég komin með mótíf sem einhvern veginn er hið rétta. Það gerir mig spennta og ég veit að það mun koma vel út. Það er næstum því eins og að leita að fjársjóði í manns eigin listræna heila. Stundum hefur maður ekki hugmynd um hver útkoman verður. Það hljómar abstrakt, ég veit - það getur verið erfitt að lýsa ferlinu.

Ánægjulegasti hlutinn?
Ég elska að snerta og finna pappírinn, að klippa og leika mér með mynstrin, að fá lím á fingurna. Það er þessi áþreifanlega upplifun sem mér finnst svo mikilvæg þegar ég er að skapa; að finna hlutina sem ég skapa með höndunum, sem er ástæða þess að ég nota ekki tölvu fyrir prenthönnun mína.


Hvaða hlutverki gegna litir í hönnuninni?
Þeir eru undirstöðuatriði í hönnun minni. Mjög mikilvægir. Ég hanna allt í svörtu og hvítu og svo geri ég tilraunir með mismunandi liti. Hönnunin verður mjög ólík með notkun mismunandi lita. Að finna „rétta“ litinn skiptir sköpum - það er það sem gefur hönnuninni tóninn.

Hvað heldurðu að það sé við stíl þinn sem laðar að viðskiptavini?
Fólk skrifar mér og segir að hönnun mín veiti þeim innblástur, sem gerir mig glaða - það er ótrúlega gefandi fyrir hönnuð að veita öðrum innblástur. Því finnst hönnunin róandi (þann hluta skil ég ekki því ég lít ekki á mig sem róandi manneskju), hrein og einföld. Stíll minn er ekki drifinn áfram af tískustraumum. Hann er tímalaus. Ég held að fólk kunni að meta einfalda og náttúrlega eiginleikann. Hönnunin er ekki flókin eða íburðarmikil.

þriðjudagur, 18. mars 2014

Hattar í safnið



Ég ætlaði að fjalla um hausttískuna í dag og kíkja á tískupallana í Mílanó og París, en hugsanir um sumarhatta létu mig ekki í friði þannig að ég læt það bíða. Ég var að skoða hatta á netinu um helgina og ég veit ekki hversu mörgum ég bætti á óskalistann. Auðvitað kaupi ég þá ekki alla en mér finnst alveg tilvalið að bæta einum og einum í safnið. Ég veit að hatturinn á myndinni hér að neðan er ekki sumarhattur en mér finnst hann smart og myndin er líka flott þannig að hann fær að fljóta með.


Það er hægt að fá fína hatta í verslunum eins og H&M og ZARA sem kosta ekki mikið. Í ár er ég einkum að spá í Panamahatti þar sem mig hefur lengi langað að eignast einn slíkan. Ég hef aðallega verið að skoða þá í herrafataverslunum hér í Englandi en hef ekki fundið hinn eina rétta. Ég veit ekki hvernig úrvalið er á Íslandi en ég fann einn flottan Panamahatt frá Bugatti á vefsíðu Verslunar Guðsteins Eyjólfssonar. Það er orðið ansi langt síðan ég steig fæti inn í þá verslun. Ég byrjaði að versla þar sem unglingur. Við vinkonurnar fengum ekki nóg af afabolunum eins og við kölluðum langerma JBS bolina og þurftum helst að eiga þá í öllum litum. Ég man enn eftir að hafa keypt tvo í vikunni eftir fermingu, held að það hafi verið hvítur og ljósblár frekar en svartur. Yndisleg búð.


myndir:
1: Patrick Demarchelier fyrir ZARA TRF, vor/sumar 2014 auglýsingaherferð af ZARA/Pinterest / 2: The Sartorialist / 3: Bugatti hattur af vefsíðu Verslunar Guðsteins Eyjólfssonar / 4: Kurt Markus fyrir Latina, janúar 1999 | fyrirsæta: Christy Turlington í ,Return to Cuscatlan' af blogginu Classiq / 5: Alasdair McLellan fyrir Margaret Howell, vor/sumar 2011 auglýsingaherferð | fyrirsæta: Dree Hemingway | stílisering: Kate Phelan

mánudagur, 17. mars 2014

Rýmið 57



- setustofa á heimili danska ljósmyndarans Kristian Septimus Krogh og konu hans Lise í nágrenni Preggio í Umbria-héraði á Ítalíu
- arkitekt Marco Carlini
- það er innlit á heimilið í apríl 2014 tölublaði Elle Decoration UK en þessi tiltekna mynd birtist ekki í blaðinu

mynd:
Kristian Septimus Krogh fyrir Elle Decoration UK af Facebooksíðu þeirra

fimmtudagur, 13. mars 2014

Innlit: strandhús listakonu í East Hampton



Innlitið að þessu sinni er bjart og fallegt strandhús í East Hampton á Long Island sem er í eigu listakonunnar Anh Duong. Hún eyddi fyrsta sumrinu sínu á eyjunni árið 1988 með þáverandi kærasta sínum í húsi sjálfs Andy Warhol í Montauk, en þá var hún nýkomin frá París og starfaði sem fyrirsæta. Þar málaði hún sína fyrstu sjálfsmynd og hún hefur málað margar síðan. Þær eru eitt af einkennum hennar sem listakonu. Strandhúsið notar hún bæði sem heimili og vinnustofu. Hún hefur innréttað það smekklega með gömlum munum sem hún hefur aðallega fundið á flóamörkuðum.


Eldhúsið er vægast sagt sumarlegt í útliti, einfalt og fallegt.


Það er eitthvað við litapalettuna í þessu svefnherbergi sem heillar mig - bláir og brúnir tónar eiga vel saman. Gaman líka að sjá að það er opið inn í stofuna, ekki lokað af með hurð, sem gefur báðum rýmunum enn meiri birtu. Á neðri myndinni sjáið þið eina af sjálfsmyndum Anh Duong.


Í svefnherbergi listakonunnar er að finna afskaplega fallegt rúmteppi og verk eftir Julian Schnabel (til vinstri (hann er gamli kærastinn sem ég minntist á í innganginum)) og McDermott & McGough. Myndin að neðan er tekin í vinnustofunni.


myndir:
Oberto Gili fyrir Architectural Digest, október 2012 af AD DesignFile

þriðjudagur, 11. mars 2014

Blómstrandi enskt vor



Miðað við þær myndir sem berast frá Íslandi af snjóhvítri jörð þá er kannski bannað að birta svona færslu á blogginu. Ég var að læra í gær og í einni pásunni fór ég í göngutúr með myndavélina til að festa vorið á filmu, en það kom heldur betur snemma í ár. Við sátum úti á verönd í 18 stigum og sól á sunnudaginn. 

Út um eldhúsgluggann sé ég risastórt plómutré í garði ekki svo langt frá og ég hélt að ég væri að sjá ofsjónir einn morguninn þegar skyndilega það stóð allt í blóma. Það virtist hafa gerst á einni nóttu.


Þetta er fyrsta vorið okkar hér á West Midlands svæðinu og það er enginn skortur á kirsuberja- og plómutrjám í görðum hér allt um kring - algjörlega dásamlegt! Við vorum með þessi tré og eplatré líka í garðinum okkar í Luxembourg og þetta er það sem við erum vön.

Magnólíutrén eru seinni að taka við sér en á hverjum degi geng ég fram hjá tveimur og ég bíð eftir að sjá fyrstu blómin opnast. Ég á því mjög líklega eftir að kvelja ykkur með meiri myndum!


laugardagur, 8. mars 2014

fimmtudagur, 6. mars 2014

Stílisering: írskt brúðkaup í náttúrulegum stíl



Ég held að það sé óþarfi að hafa mörg orð um þennan myndaþátt, best að leyfa bara myndunum að tala. Ég rakst á þá efstu á Pinterest og hrár og náttúrulegur stíllinn minnti mig svolítið á myndaþátt sem ég deildi á ensku útgáfunni um daginn. Ég pósta ekki oft einhverju brúðkaupstengdu á bloggin en ég hef alltaf gaman af fallegri, náttúrulegri stíliseringu. Það er einhver einfaldleiki og friður í þessum myndum sem heillar mig, umhverfið er líka svo skemmtilegt og maturinn virkilega girnilegur. Stílisti var Alise Taggart og Paula O'Hara tók myndirnar, einhvers staðar á Írlandi.


myndir:
Paula O'Hara af síðunni 100 Layer Cake | stílisering: Alise Taggart (af síðu Carla Coulson/Pinterest)

miðvikudagur, 5. mars 2014

Rýmið 56



- á íslenskan eitthvað gott orð yfir 'mudroom' eins og þetta rými kallast á ensku? Þetta er nefnilega ekki beint þvottahús heldur meira eins og aukainngangur baka til þar sem fólk tekur af sér stígvél og yfirhafnir eftir útivinnu
- í nýju sveitasetri í Columbia County í NY
- arkitekt John B. Murray og innanhússhönnuður Sam Blount

mynd:
John B. Murray Architect + Sam Blount Incorporated

þriðjudagur, 4. mars 2014

Tískuvikan í New York: The Row haust 2014



Tískuvikunni í París lýkur á morgun, sem þýðir að tískuvikurnar í London og Mílanó eru búnar, sem þýðir að tískuvikan í New York telst allt að því til gamalla frétta. En ég ætla að leyfa mér að staldra aðeins lengur við á tískupöllunum í New York hér á blogginu því mér finnst eiginlega ekki hægt annað en að minnast á haustlínu tvíburasystranna Ashley og Mary-Kate Olsen, en tískuhúsið þeirra kallast The Row.

Olsen-systurnar eru þekktar fyrir lagskiptan klæðnað og ganga yfirleitt um á flatbotnum með stórar töskur og sólgleraugu. Fatastíll þeirra birtist að sjálfsögðu í haustlínunni þar sem ein af áherslunum var á handprjón, á víðar og þykkar peysur úr kasmírull með stórum og miklum krögum, eins og sést á myndum eitt og tvö. Síð sjöl eða slár voru líka áberandi. Litirnir voru hlutlausir og línurnar voru stílhreinar. Það var sem sagt lítið um smáatriði í hönnunni og megináherslan var á þægindi.



myndir:
The Row haust 2014 af vefsíðu Vogue US