Sýnir færslur með efnisorðinu bréfsefni. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu bréfsefni. Sýna allar færslur

mánudagur, 23. febrúar 2015

84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff

Kápa bókarinnar 84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff · Lísa Stefan


Muniði hvenær þið síðast urðuð ástfangin af bók á blaðsíðu 10? Það henti mig í síðustu viku þegar ég las 84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff. Ég er lítið fyrir að segja fólki að það þurfi að lesa eitthvað en fyrir alla bókaunnendur þá er þessi eiginlega skyldulesning. Upphafið að þessu öllu er bréf sem fröken Hanff skrifar frá New York árið 1949 til bókabúðarinnar Marks & Co., á 84 Charing Cross Road í London, til að spyrjast fyrir um notaðar bækur á hagstæðu verði. Það leiddi til bréfaskrifta í 20 ár, aðallega við einn starfsmanninn, Frank Doel. Í þriðja bréfinu sínu hafði Hanff sleppt formlegheitunum og leyft kímni og einstökum húmor að njóta sín, en það gerðist ekki alveg strax hjá Bretanum Frank Doel. Hér er brot úr sjötta bréfi hennar frá mars 1950 (stafsetningin er hennar):
Where is the Leigh Hunt? Where is the Oxford Verse? Where is the Vulgate and dear goofy John Henry, I thought they'd be such nice uplifting reading for Lent and NOTHING do you send me. you leave me sitting here writing long margin notes in library books that don't belong to me, some day they'll find out i did it and take my library card away. (bls. 10)
Mér finnst kvörtunartónninn alveg dásamlegur og hvernig hún virðist garga á Doel. Ég hef ekki hugrekki Hanff til að skrifa út á spássíur bókasafnsbóka en í mínar eigin bækur merki ég heldur betur setningar og efnisgreinar með krossum eða lóðréttum strikum.


Bókin 84 Charing Cross Road er einungis 95 blaðsíður og því fljótlesin. Flest bréfin eru hreint út sagt dásamleg og svo eru nokkur, sérstaklega eitt, sem kremja hjartað. Ég segi ekki meira. Hanff sendi ekki bara bréf heldur lét hún einnig senda matarpakka (kjöt og egg) til starfsfólksins til að láta í ljós þakklæti sitt fyrir bækurnar sem hún fékk. Bréfaskiptin byrjuðu í Bretlandi eftirstríðsáranna og hún var hneyskluð yfir skömmtuninni sem henni þótti rýr. Í upphafi fékk hún alltaf bréf frá Marks & Co. þar sem hún var spurð hvort hún hefði enn áhuga á tilteknum bókum áður en þær voru sendar. Þetta gerði hún að umræðuefni í bréfi í september 1950, sem hún skrifaði frá íbúð sinni á 14 East 95th Street:
Never wonder if I've found something somewhere else, I don't look anywhere else any more. Why should I run all the way down to 17th St. to buy dirty, badly made books when I can buy clean, beautiful ones from you without leaving the typewriter? From where I sit, London's a lot closer than 17th Street. (bls. 15)
Bókin minnir mig á aðra dásamlega, The Guernsey Literary and Potato Peel Society (Bókmennta- og kartöflubökufélagið á íslensku) eftir Mary Ann Shaffer, sem ég minntist á í annarri bloggfærslu. Eftir lesturinn á þessum tveimur þá hélt ég eintökunum þétt upp að hjartanu í nokkrar sekúndur. Svo heitt elskaði ég þær! Ég elska bækur um bækur.


Mín útgáfa af 84 Charing Cross Road inniheldur framhaldið, The Duchess of Bloomsbury Street, sem fjallar um ferð Hanff til London (kápuna myndskreytti Sarah McMenemy). Ég myndi ekki hugsa um að lesa þá fyrri án þess að vera með þá síðari innan seilingar. Eftir lesturinn vildi ég lesa meira eftir Hanff og pantaði bókina Letter from New York. Ég fékk notað eintak sem ætti að berast fljólega. Ég fann líka hljóðbókarútgáfu af 84 Charing Cross Road á YouTube, sem ég hef hlustað á tvisvar á meðan ég sinni húsverkum. Svo er til kvikmynd frá árinu 1987, sem skartar Anne Bancroft og Anthony Hopkins í aðalhlutverkum, en hana á ég eftir að sjá.

Ef það rignir (eða snjóar) úti þá er þetta hin fullkomna bók til að lesa undir teppi með kaffi- eða tebolla í hönd og gleyma sér í dásemdinni. Ég mæli með að hafa bréfsefni við höndina því eftir lesturinn er ekki ólíklegt að ykkur langi að skrifa bréf, ekki tölvupóst.


mánudagur, 31. mars 2014

Kaffi, bréfaskrif og góð bók



Stundum þegar ég fer að sofa þá finn ég fyrir tilhlökkun að vakna daginn eftir og drekka gott kaffi. Ég trúi því ekki að ég sé sú eina. Um helgina var ég eitthvað að pæla í þessu og velti því fyrir mér hvort það væri líklegra að finna fyrir slíkri tilhlökkun ef maður væri að lesa eitthvað skemmtilegt. Á föstudaginn kom ég við í bókabúð til að kaupa bréfsefni, penna og bók sem íslensk æskuvinkona mín sagði mér frá og mælti með. Bókin heitir á frummálinu The Guernsey Literary and Potato Peel Pie Society og er eftir Mary Ann Shaffer (hún var þýdd á íslensku og kallast Bókmennta- og kartöflubökufélagið). Undanfarið hef ég ekki verið að lesa skáldsögur, ég hef aðallega verið í tímaritum og hvers kyns hönnunarbókum, og það var svo góð tilfinning að snúa sér aftur að skáldsögum með svona skemmtilegri bók. Ég hef varla getað lagt hana frá mér og stend sjálfa mig að því að lesa síðustu kaflana hægt því mig langar ekki að bókin endi.

Sögusviðið er England árið 1946 og bókin fjallar aðallega um lífið á eyjunni Guernsey á tímum hernáms Þjóðverja, sem er lýst í bréfaskrifum eftir stríðið. Bréfaskrif skipa stóran sess í bókinni og því var ég glöð að kaupa skrifblokkir á föstudaginn og nýja penna því á laugardaginn langaði mig bara að skrifa bréf á milli þess sem ég las.

Ég fór með bréfin út á pósthús í morgun eftir að hafa farið með soninn í skólann. Það eru engar líkur á því að pósthúsið í hverfinu fái verðlaun fyrir smekklega hönnun, en það er lítið og sjarmerandi. Viðskiptavinirnir þekkja afgreiðslufólkið með nafni og afgreiðslufólkið býður ekki góðan daginn heldur spyr alla: „How are you, my love?“ eða „Is everything alright, my love?“ Án efa hallærislegt pósthús en það vinalegasta sem ég hef nokkurn tíma stigið fæti inn í.


miðvikudagur, 19. mars 2014

Hönnuðurinn Lotta Jansdotter í spjalli


Það er komið að fyrsta viðtalinu í náttúruleg efni seríunni á blogginu, spjall við sænska hönnuðinn Lotta Jansdotter sem er búsett í Brooklyn. Í fullkomnum heimi hefði ég kíkt í heimsókn á vinnustofu hennar í Gowanus-hverfinu og svo setið með henni á kaffihúsi þar sem við hefðum rætt um hönnun hennar og hvernig það að alast upp í Svíþjóð hefur mótað hönnunina. En Atlantshafið aðskilur okkur og auk þess er Lotta mjög upptekin. Í staðinn sendi hún mér form með tilbúnum spurningum og svörum og þar var að finna allt sem mig langaði að fá svör við, fyrir utan eina spurningu, þá síðustu sem hún að sjálfsögðu sendi mér svar við.



Rætur hennar eru skandinavískar. Hún fæddist á Álandseyjum (á milli Svíþjóðar og Finnlands) og hún var alin upp í Stokkhólmi. Öllum sumrum eyddi hún með föður sínum og ömmu á Álandi. Að dvelja þar er í hennar huga næring fyrir sálina. Hún er höfundur bókarinnar Lotta Jansdotter's Handmade Living: A Fresh Take on Scandinavian Style og annarra bóka. Hún er sjálflærð, aðallega með tilraunum og mistökum. Þannig nam hún iðnina.

Við skulum kynnast henni betur!

Hver er sagan á bak við þinn listræna feril og þann sess sem þú hefur skapað þér?
Mér hefur alltaf þótt gaman að teikna. Sem krakki elskaði ég að teikna blóm og mynstur og það hefur fylgt mér allar götur síðan. Ég var 20 ára þegar ég flutti frá Svíþjóð til Bandaríkjanna í leit að því sem ég vildi verða þegar ég yrði stór. Ég sótti alls kyns kúrsa í tómstundaskólum í Kaliforníu: skartgripahönnun, skúlptúr, teikningu, keramik og silkiprentun ... ég ELSKAÐI silkiprentun. Ég ákvað að hætta í skóla og stofna mitt eigið fyrirtæki, sem ég gerði árið 1996. Ég prentaði myndirnar sem ég teiknaði og mótífin á lín og bjó til púða og töskur sem seldust í Ameríku og Japan. Stíll minn var einfaldur, stílhreinn og mjög innblásinn af náttúrunni og sumrunum sem ég eyddi sem barn í skandinavískri náttúru.


Ég elskaði að teikna og klippa pappír, að nota blek og gúmmísement og penna ... og lærði aldrei að nota tölvuforrit fyrir þessa list ... þannig að mitt mjög svo lífræna ferli þróaðist með þeim hætti að ég hannaði aldrei neitt í tölvu, það sem ég skapaði var ójafnt, svolítið „wabi sabi“-legt ... ófullkomlega fullkomið. Slíkan stíl var ekki að finna á ameríska gjafa/innanhússmarkaðnum á þeim tíma ... og þannig byrjaði þetta allt.

Hvernig lýsirðu hönnunarferli þínu?
Ég teikna svo til alla mína hönnun í teikniblokkir eða á lausablöð, umslög o.s.frv. Ég nota venjulegan gamlan penna (aldrei blýant - þoli þá ekki - línurnar þurfa að vera stöðugar, þykkar og sterkar) eða blek. Ég nota svo ljósritunarvél til að leika mér með stærðir og endurtekningar. Ég kann ekki að nota tölvu og vil heldur ekki nota hana. Ég elska að meðhöndla, að klippa, líma og festa - að snerta pappírinn og verða aðeins klístruð á fingrunum. Ferlið er mjög skemmtilegt.



Því miður er ég oftast svo upptekin við reksturinn að ég á erfitt með að finna tíma til að teikna og skapa. En til allrar lukku þá tel ég það skapandi ferli að vera með sinn eigin rekstur, það er bara öðruvísi sköpunarferli.

Er eitthvað í hönnunarferlinu í uppáhaldi?
Ég elska þá tilfinningu þegar ég dett niður á góða hönnun. Ég teikna og rissa alls kyns hluti og svo allt í einu er ég komin með mótíf sem einhvern veginn er hið rétta. Það gerir mig spennta og ég veit að það mun koma vel út. Það er næstum því eins og að leita að fjársjóði í manns eigin listræna heila. Stundum hefur maður ekki hugmynd um hver útkoman verður. Það hljómar abstrakt, ég veit - það getur verið erfitt að lýsa ferlinu.

Ánægjulegasti hlutinn?
Ég elska að snerta og finna pappírinn, að klippa og leika mér með mynstrin, að fá lím á fingurna. Það er þessi áþreifanlega upplifun sem mér finnst svo mikilvæg þegar ég er að skapa; að finna hlutina sem ég skapa með höndunum, sem er ástæða þess að ég nota ekki tölvu fyrir prenthönnun mína.


Hvaða hlutverki gegna litir í hönnuninni?
Þeir eru undirstöðuatriði í hönnun minni. Mjög mikilvægir. Ég hanna allt í svörtu og hvítu og svo geri ég tilraunir með mismunandi liti. Hönnunin verður mjög ólík með notkun mismunandi lita. Að finna „rétta“ litinn skiptir sköpum - það er það sem gefur hönnuninni tóninn.

Hvað heldurðu að það sé við stíl þinn sem laðar að viðskiptavini?
Fólk skrifar mér og segir að hönnun mín veiti þeim innblástur, sem gerir mig glaða - það er ótrúlega gefandi fyrir hönnuð að veita öðrum innblástur. Því finnst hönnunin róandi (þann hluta skil ég ekki því ég lít ekki á mig sem róandi manneskju), hrein og einföld. Stíll minn er ekki drifinn áfram af tískustraumum. Hann er tímalaus. Ég held að fólk kunni að meta einfalda og náttúrlega eiginleikann. Hönnunin er ekki flókin eða íburðarmikil.