Sýnir færslur með efnisorðinu helene hanff. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu helene hanff. Sýna allar færslur

föstudagur, 23. mars 2018

№ 14 bókalisti | Almenn rit og ævisögur

№ 14 bókalisti | Almenn rit og ævisögur · Lísa Stefan


Fýluferð á háskólabókasafnið er ástæða þess að ég deili № 14 bókalistanum seinna en ég ætlaði mér. Ég fór þangað til fá að láni bækurnar eftir Martin Amis og Joan Didion - ég vildi taka mynd af öllum bókastaflanum - en gleymdi skjali sem þarf að sýna til að fá bókasafnsskírteinið afhent. Ég hef ekki fundið tíma til fara aftur en fannst það best að deila listanum áður en ég klára að lesa hinar bækurnar á honum. Af og til fletti ég lestrarkompunni með titlunum á bókunum sem mig langar að lesa (er sífellt að færa inn í hana) og reyni að forgangsraða; The War Against Cliché eftir Amis er ein af þeim og The White Album eftir Didion langaði mig að endurlesa. Sumir kunna að spyrja af hverju að verja tíma í endurlestur þegar ólesnar bækur eru margar. Sumar bækur kalla einfaldlega á endurlestur. Ég hef ekki lesið allt eftir Didion en það ætla ég svo sannarlega að gera. Bókaútgáfan Diogenes sendi mér bók til að hafa á listanum og ég þakka þeim fyrir. Hún er skemmtileg aflestrar, full af sögum sem tengjast bókabúðum (sjá neðar).

№ 14 bókalisti:
1  The Prime of Life  · Simone de Beauvoir
2  Letters to Friends, Family & Editors  · Franz Kafka
3  The White Album  · Joan Didion
4  The War Against Cliché  · Martin Amis
5  Der schönste Ort der Welt: Von Menschen in Buchhandlungen  [þýsk]
6  Þúsund kossar  · Jón Gnarr
7  Orðið á götunni  · Margrét Bjarnadóttir


Til að næra minn innri bókaunnanda, og til að æfa ryðguðu þýskuna, gladdi það mig að fá senda bók frá Diogenes Verlag til að bæta á listann: Der schönste Ort der Welt: Von Menschen in Buchhandlungen. Á íslensku væri titillinn: „Fallegasti staður í heimi: Frá fólki í bókabúðum“. Hún geymir tuttugu sögur tengdar bókabúðum sem Martha Schoknecht safnaði saman. Sögumenn eru höfundarnir Mark Twain, Penelope Fitzgerald, Gustave Flaubert, Ingrid Noll og Patricia Highsmith, til að nefna nokkra. Fyrir ykkur sem hafið lesið 84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff (sjá bloggfærslu), og vonandi notið, þá kætti það mig að finna í bókinni sum bréfanna sem hún skrifaði til og henni bárust frá bókabúðinni Marks & Co. í London. Hún er alveg jafn dásamleg og fyndin á þýsku.

Sem manneskja sem viðurkennir að dæma oft bækur af kápunni þá verð ég að minnast á bókarhönnunina. Í hvert sinn sem ég stíg inn í bókabúð hér í Þýskalandi kemst ég ekki hjá því að dást að hvítu kiljunum frá Diogenes. Kápa þessarar bókar er einstaklega falleg: líflegt og litríkt málverk, Union Square Bookstore, eftir listakonuna Patti Mollica.

Sögur úr bókabúðum frá Diogenes, Der schönste Ort der Welt · Lísa Stefan
Sögur úr bókabúðum frá Diogenes, Der schönste Ort der Welt

Í sömu færslu á ensku útgáfu bloggsins kynnti ég rétt aðeins íslensku bækurnar á listanum en með öðrum hætti en ég geri hér. Ég held að flestir íslenskir lesendur bloggsins viti að Þúsund kossar eftir Jón Gnarr er ævisaga Jógu, eiginkonu hans, sem slasaðist alvarlega í bílslysi í Bandaríkjunum þegar hún var ung. Ofan á glímuna við líkamlegar og andlegar afleiðingar slyssins bættist líka barátta fyrir dómstólum. Allt mótaði þetta líf hennar. Jóga hefur brallað ýmislegt um ævina og rak meðal annars tískuverslunina Skaparann í Reykjavík. Ein af mínum bestu vinkonum, sem þekkir Jógu vel, gaf mér bókina. Jóga áritaði ekki bara eintakið heldur skrifaði fallega kveðju til mín á titilsíðuna sem mér þótti afskaplega vænt um að lesa. Þar kemur hún meðal annars inn á að við erum afmælissystur. Ég er komin vel inn í frásögnina sem mér finnst einstaklega einlæg og lýsa tíðarandanum vel.

Hin íslenska bókin á listanum er mjög áhugaverð og er eftir Margréti Bjarnadóttur (það vill svo til að hún er „litla“ systir vinkonu minnar sem gaf mér bækurnar). Þetta er falleg og látlaus kilja sem geymir setningar sem hún heyrði á förnum vegi á tímabilinu maí 2009 til desember 2013. Hverja skráði hún orðrétt og setti sér þær reglur að hún yrði að skrásetja setninguna um leið og hún heyrði hana og að annar aðilinn í samræðunum þyrfti að vera á ferð. Hún hleraði sem sagt aldrei samtöl fólks. Á hverri síðu er ein færsla; yfirleitt er um að ræða eina stutta setningu eða spurningu. Þessi bók er dásamleg aflestrar og heimspekileg. Ég verð að deila með ykkur nokkrum uppáhaldssetningum (sem að vísu eru svo margar að ég gæti endurskrifað bókina hér):

· Ég er fjarsýnn - reyndar líka nærsýnn.
· Mér finnst rosa erfitt að galdra sko. Það er erfitt að galdra.
· Kisugríma ... er það eitthvað?
· I, like, actively resist ...
· Er enginn fullkominn, amma?


Og að lokum ein færsla sem fór alveg með okkur hérna við matarborðið í Þýskalandi þegar ég las hana upphátt. Okkur langar að vita allt um þessar sæmræður: „But German people are. That's why I like German people.“



mánudagur, 27. júlí 2015

Ástarsaga | Quinoa-búðingur með berjum

Ástarsaga: Fraser og Pinter | Quinoa-búðingur með berjum · Lísa Stefan


Nýlega gat ég tekið eina bók af listanum mínum þegar ég las Must You Go?: My Life with Harold Pinter eftir Antonia Fraser. Ef ég ætti að lýsa henni í nokkrum orðum þá myndi ég segja að þetta væri falleg ástarsaga, ein sú persónulegasta sem ég hef lesið. Fraser notar dagbækur til að segja frá lífi sínu með leikskáldinu Pinter, frá deginum sem þau kynntust árið 1975 til dagsins sem hann lést árið 2008. Líf þeirra saman var svo sannarlega viðburðarríkt! Ég ætla að segja ykkur örlítið frá bókinni og einnig að endurbirta uppskrift mína að quinoa-búðingi með grískri jógúrt, berjum og ávöxtum.


Það er ekkert leyndarmál að bæði Fraser og Pinter voru gift þegar þau kynntust og pressan nærðist á þessu „bókmennta-sambandi“, eins og eitt blaðið orðaði það. Málin voru nokkuð flókin þar til bæði höfðu skilið og í einni færslu vísar Fraser í náinn vin þeirra beggja sem „fannst allt þetta rómantíska tal um hjónaband vera vitleysa; af hverju gátum við ekki bara staðið í framhjáhaldi eins og allir aðrir?“ (bls. 29). Ég hló upphátt.

Ég hló oft eða brosti við lesturinn. Aðallega eru það færslur úr dagbókum Fraser sem segja söguna en stundum bætir hún við ýmsum athugasemdum eða lengri útskýringum og ég hefði viljað sjá meira af slíku. Fraser skrifar ákaflega fallega og stíll hennar er tilgerðarlaus. Hún kemur sér beint að efninu, óhrædd við að opinbera sig og lýsir aðstæðum oft á kómískan hátt. Mér fannst bókin mjög góð en ég hefði alveg verið til í að lesa lengri bók.

Augljóslega endar bókin þegar Pinter deyr, en þegar ég las síðustu síðuna þá hafði ég lifað mig svo inn í ástarsögu þeirra að hjarta mitt var í molum þegar ég las síðustu síðuna.



Ég get ekki sagt að ég hafi vitað mikið um Pinter, fyrir utan að hann var leikskáld og leikstjóri og hafði hlotið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2005. Sú mynd sem Fraser gefur af honum var ekkert í takt við það sem ég hafði ímyndað mér og nú langar mig að lesa ævisöguna Harold Pinter eftir Michael Billington.

Bara nokkur orð til viðbótar um bækur og svo er það eftirréttur! Ég hef þegar sagt ykkur frá ást minni á höfundinum Helene Hanff (1916-1997), í færslum um 84 Charing Cross Road og Letter from New York. Síðan þá hef ég einnig lesið Q's Legacy (glittir í hana á myndunum mínum), sem er alveg jafn dásamleg og hinar. Hlutar hennar eru endurtekningar á því sem Hanff hefur þegar skrifað í fyrri verkum en ég myndi ekki láta það hindra mig frá því að lesa hana líka.
Quinoa-búðingur með berjum · Lísa Stefan


Eins og ég hef áður sagt þá langar mig að halda öllum uppskriftunum mínum á einum stað og þessi quinoa-búðingur, sem ég geri oft yfir sumarmánuðina, er af gamla matarblogginu. Aran Goyoaga, sem heldur úti matarblogginu Canelle et Vanille, var áhrifavaldur þegar ég setti uppskriftina saman. Hún hafði notað mjólk til að sjóða quinoa-kornið en ég sýð það bara í vatni og nota svo gríska jógúrt í búðinginn, en hún hefur þessa þykku, rjómakenndu áferð sem ég er að leita eftir. Uppskriftin er einföld en maður þarf að sjóða quinoa-kornið fyrst og leyfa því að kólna í klukkustund eða svo. Það má nota hvaða ber sem er og ávexti. Hafið í huga að ég geri þennan skammt sem eftirrétt fyrir fimm manns.

QUINOA-BÚÐINGUR MEÐ GRÍSKRI JÓGÚRT, BERJUM OG ÁVÖXTUM

200 g quinoa-korn (1 bolli)
625 ml vatn
klípa fínt sjávar/Himalayasalt
250-300 g jarðarber
½-1 matskeið lífrænn hrásykur
2 ferskjur, nektarínur eða apríkósur
450 g grísk jógúrt
2 teskeiðar lífrænn vanillusykur
1½-2 matskeiðar hreint hlynsíróp
toppið með möndluflögum eða fínt hökkuðum möndlum eða valhnetum

Skolið quinoa-kornið vel undir rennandi vatni (ég læt það stundum liggja í bleyti fyrst í ca. hálftíma, veltur á hvaða tegund ég nota), sjóðið svo í potti ásamt vatni og klípu af salti. Sjóðið á hæsta hita þar til suðan kemur upp, minnkið þá hitann á lægstu stillingu eða svo, tillið loki á pottinn þannig að gufan sleppi í gegn og sjóðið í um 20 míntútur. Færið svo yfir í skál og leyfið quinoa-korninu að kólna í klukkustund eða svo.

Skerið jarðarberin. Setjið þau svo í skál og stráið ½-1 matskeið af lífrænum hrásykri yfir. Látið jarðarberin standa við stofuhita á meðan quinoa-kornið kólnar.

Til að útbúa búðinginn sjálfan: Setjið 350-400 g af grísku jógúrtinni í stóra skál og blandið vanillusykri og hlynsírópi saman við. Notið gaffal til þess að stinga aðeins í quinoa-kornið áður en þið blandið því saman við.

Skerið ávextina í bita og hakkið möndlurnar/valhneturnar, ef notaðar.

Setjið búðinginn í litlar skálar eða glerkrukkur, setjið jarðarberin ofan á og þar næst ávextina. Toppið með restinni af grísku jógúrtinni og möndluflögum eða hökkuðum möndlum/valhnetum.



fimmtudagur, 9. apríl 2015

Letter from New York

Bókin Letter from New York eftir Helene Hanff · Lísa Hjalt


Nei, ég skrifa þetta ekki frá New York (væri samt ekkert á móti því) heldur var bara að klára að lesa þessa dásamlegu bók eftir Helene Hanff, Letter from New York, sem var gefin út árið 1992. Ég hef þegar sagt að ég pantaði notað eintak og mitt reyndist vera fyrsta útgáfa; eintak frá bókasafni með plastaðri kápu sem brakar í þegar síðu er flett - elska tilfinninguna!

Ég bloggaði nýverið um aðra bók eftir Hanff, 84 Charing Cross Road (sjá hér), og sagði ykkur að ég hefði fallið fyrir hnyttnum stíl hennar. Hún er alveg jafn fyndin í Letter from New York en bókin geymir sögur sem hún skrifaði í 6 ár fyrir Woman's Hour í útvarpi BBC eftir að 84 Charing Cross Road sló í gegn. Sögurnar eru um líf hennar í New York, um nágrannana (fólk og hunda - hún bjó við 305 East 72nd Street), vini, göngur um Central Park o.fl.



Líf Hanff er ekki fyllt glamúr en hún skrifar af ástríðu um daglegt líf í nágrenni sínu og um lífið á götum borgarinnar. Hún hefur næmt auga fyrir umhverfi sínu og fær mig oft til að hlæja upphátt. Hafi lesandinn ekki þegar ferðast til New York þá er líklegt að hann langi þangað eftir lesturinn, þrátt fyrir að Hanff sé að lýsa New York á síðari hluta áttunda áratugarins og á fyrrihluta þess níunda. Það sem mér finnst einstaklega skemmtilegt við Hanff er hversu auðvelt hún á með að gera grín að sjálfri sér. Ég vildi óska þess að hún væri enn á lífi því við þurfum á fólki eins og Hanff að halda í þessum heimi.

Ég þarf sennilega ekki að taka það fram en ég hef þegar pantað mína þriðju bók eftir Hanff og á von á notuðu eintaki af Q's Legacy í póstinum fljótlega




mánudagur, 23. febrúar 2015

84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff

Kápa bókarinnar 84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff · Lísa Stefan


Muniði hvenær þið síðast urðuð ástfangin af bók á blaðsíðu 10? Það henti mig í síðustu viku þegar ég las 84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff. Ég er lítið fyrir að segja fólki að það þurfi að lesa eitthvað en fyrir alla bókaunnendur þá er þessi eiginlega skyldulesning. Upphafið að þessu öllu er bréf sem fröken Hanff skrifar frá New York árið 1949 til bókabúðarinnar Marks & Co., á 84 Charing Cross Road í London, til að spyrjast fyrir um notaðar bækur á hagstæðu verði. Það leiddi til bréfaskrifta í 20 ár, aðallega við einn starfsmanninn, Frank Doel. Í þriðja bréfinu sínu hafði Hanff sleppt formlegheitunum og leyft kímni og einstökum húmor að njóta sín, en það gerðist ekki alveg strax hjá Bretanum Frank Doel. Hér er brot úr sjötta bréfi hennar frá mars 1950 (stafsetningin er hennar):
Where is the Leigh Hunt? Where is the Oxford Verse? Where is the Vulgate and dear goofy John Henry, I thought they'd be such nice uplifting reading for Lent and NOTHING do you send me. you leave me sitting here writing long margin notes in library books that don't belong to me, some day they'll find out i did it and take my library card away. (bls. 10)
Mér finnst kvörtunartónninn alveg dásamlegur og hvernig hún virðist garga á Doel. Ég hef ekki hugrekki Hanff til að skrifa út á spássíur bókasafnsbóka en í mínar eigin bækur merki ég heldur betur setningar og efnisgreinar með krossum eða lóðréttum strikum.


Bókin 84 Charing Cross Road er einungis 95 blaðsíður og því fljótlesin. Flest bréfin eru hreint út sagt dásamleg og svo eru nokkur, sérstaklega eitt, sem kremja hjartað. Ég segi ekki meira. Hanff sendi ekki bara bréf heldur lét hún einnig senda matarpakka (kjöt og egg) til starfsfólksins til að láta í ljós þakklæti sitt fyrir bækurnar sem hún fékk. Bréfaskiptin byrjuðu í Bretlandi eftirstríðsáranna og hún var hneyskluð yfir skömmtuninni sem henni þótti rýr. Í upphafi fékk hún alltaf bréf frá Marks & Co. þar sem hún var spurð hvort hún hefði enn áhuga á tilteknum bókum áður en þær voru sendar. Þetta gerði hún að umræðuefni í bréfi í september 1950, sem hún skrifaði frá íbúð sinni á 14 East 95th Street:
Never wonder if I've found something somewhere else, I don't look anywhere else any more. Why should I run all the way down to 17th St. to buy dirty, badly made books when I can buy clean, beautiful ones from you without leaving the typewriter? From where I sit, London's a lot closer than 17th Street. (bls. 15)
Bókin minnir mig á aðra dásamlega, The Guernsey Literary and Potato Peel Society (Bókmennta- og kartöflubökufélagið á íslensku) eftir Mary Ann Shaffer, sem ég minntist á í annarri bloggfærslu. Eftir lesturinn á þessum tveimur þá hélt ég eintökunum þétt upp að hjartanu í nokkrar sekúndur. Svo heitt elskaði ég þær! Ég elska bækur um bækur.


Mín útgáfa af 84 Charing Cross Road inniheldur framhaldið, The Duchess of Bloomsbury Street, sem fjallar um ferð Hanff til London (kápuna myndskreytti Sarah McMenemy). Ég myndi ekki hugsa um að lesa þá fyrri án þess að vera með þá síðari innan seilingar. Eftir lesturinn vildi ég lesa meira eftir Hanff og pantaði bókina Letter from New York. Ég fékk notað eintak sem ætti að berast fljólega. Ég fann líka hljóðbókarútgáfu af 84 Charing Cross Road á YouTube, sem ég hef hlustað á tvisvar á meðan ég sinni húsverkum. Svo er til kvikmynd frá árinu 1987, sem skartar Anne Bancroft og Anthony Hopkins í aðalhlutverkum, en hana á ég eftir að sjá.

Ef það rignir (eða snjóar) úti þá er þetta hin fullkomna bók til að lesa undir teppi með kaffi- eða tebolla í hönd og gleyma sér í dásemdinni. Ég mæli með að hafa bréfsefni við höndina því eftir lesturinn er ekki ólíklegt að ykkur langi að skrifa bréf, ekki tölvupóst.