mánudagur, 30. september 2013

Haustdagur í Luxembourg

Haustdagur í Luxembourg · Lísa Hjalt


Ég fór í göngutúr í borginni í dag og ætlaði mér að ná fallegum haustmyndum í gamla hlutanum, sem kallast Grund. Áttaði mig svo á því þegar ég hafði rölt í gegnum Pétrusse-dalinn, eða gilið, og inn í gamla hlutann að ég hafði steingleymt að hlaða batteríið í myndavélinni. Kannski bara lán í óláni því það var kannski full sólríkt fyrir myndatökur um það leyti sem ég var á ferðinni (tók þessa mynd á svipuðum slóðum á laugardaginn þegar ég fór með vinkonur frá Íslandi í göngutúr). Ég náði nú samt nokkrum myndum í dag sem ég deili síðar í vikunni.

Ég smellti af þessari upp á hæðinni þegar ég var að njóta útsýnisins með lattebollann minn. Það er bara rétt aðeins farið að glitta í haustlitina hér í Luxembourg og veðrið leikur enn við okkur.

þriðjudagur, 24. september 2013

haustlitir í boði Clive Nichols

Samkvæmt dagatalinu er haustið komið en allur gróður hér í kring er enn þá grænn. Ef það væru ekki plómur, vínber og epli í garðinum þá væri það bara eilítið svalara loft á morgnana sem minnti á komu haustsins. En ég er komin í haustgírinn og hlakka til að sjá náttúruna klæðast nýjum litum. Að mínu mati tekst ljósmyndaranum Clive Nichols að fanga allt að því draumkennda hauststemningu á meðfylgjandi myndum. Litadýrðin er dásamleg!

Ég varð að bæta við eldhúsinu hér að neðan vegna hlýleikans - eldhús með arni er draumurinn. Ég sá fyrir mér heita súpu í potti og nýbakað brauð um leið og ég sá myndina. Talandi um súpur. Ég fann þessa uppskrift að sætkartöflusúpu í gær og ætla að prófa hana í dag.

myndir:
Clive Nichols

_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION

mánudagur, 23. september 2013

fimmtudagur, 19. september 2013

Without a Face eftir Erik Madigan Heck

Þessi mynd er hluti af verkefninu Without a Face sem Erik Madigan Heck gerði fyrir Out of the Box - The Cut. Myndirnar eru alls 14 og engin þeirra sýnir andlit. Í stað andlita vildi hann beina athyglinni að litum, formi og áferð.


mynd:
Erik Madigan Heck af síðunni The Cut

miðvikudagur, 18. september 2013

Innlit: glæsivilla í MontecitoÞetta innlit er eilítið frábrugðið því innbúið á myndunum tilheyrir fyrrum eigendum hússins en nýir eigendur eru þær Ellen DeGeneres og Portia De Rossi, sem flestir ættu að þekkja (ég sýndi ykkur búgarðinn þeirra á blogginu í vor). Það var arkitektinn John Saladino sem hannaði húsið sem er í Montecito í Kaliforníu og eins og sjá má þá er stíllinn eilítið hrár en samt hlýlegur.

Ég hlustaði nýverið á viðtal við De Rossi þar sem hún var spurð út í flutningana og hún svaraði að þær stöllur hefðu haft augastað á þessu húsi í mörg ár og voru því fljótar að grípa tækifærið þegar það var auglýst til sölu. Ég er viss um að fljótlega eigum við eftir að sjá innlit til þeirra í einhverju tímariti, þegar þær eru búnar að koma sér vel fyrir og gera húsið að sínu.

Mér finnst stofan á fyrri myndinni, þar sem arinninn er í horninu, einstaklega skemmtileg. Kannski kannist þið við umhverfið á myndinni með garðborðinu því ég deildi sama borði í einni Eftirminnilegt sumar færslu með annarri stíliseringu.
myndir:
Susan Burns fasteignamiðlun

þriðjudagur, 17. september 2013

mánudagur, 16. september 2013

Árstíð plómannaÁrstíð plómanna er gengin í garð og ólíkt árinu á undan þá bókstaflega rignir plómum í garðinum. Ég fór út með fötu í gær, fyllti hana og bjó svo til mulning (crumble) með möndlum og hlynsírópi og bar fram með þeyttum rjóma. Dásamlega gott á bragðið.


Það er óhætt að segja að þegar við klárum allar þessar plómur þá verðum við búin að fá vænan skammt af kalíni og A- og C-vítamíni. Fyrir ykkur sem því miður glímið við þunglyndi þá las ég einhvers staðar að plómur eru ríkar af einhverju efni, sem ég man ekki lengur hvað heitir, sem hjálpar heilanum að framleiða serótónín.Í garðinum eru líka litlar plómur sem nágrannakonan kallar mírabellur (Mirabelle de Nancy) og þær eru aðallega gular að lit. Hún notar þær í sultugerð og við leyfðum henni að tína eins margar og hún þurfti. Restin er byrjuð að falla af trénu en þær eru það hátt uppi að ég þyrfti stiga til að ná þeim. Spurning um að virkja soninn og klifuráráttuna og láta hann klifra upp í tré að sækja þær!


föstudagur, 13. september 2013

Góða helgiKannski hefði ég bara átt að vera lengur í bloggfríi eftir ferðalagið í síðustu viku því þessi vika hérna á íslensku útgáfunni virkar hálf snubbótt. Síðan við komum heim hefur tíminn flogið og það hefur verið nóg að gera að undirbúa börnin fyrir skólann o.s.frv. Mér finnst líka eins og ég sé með smá blús eftir ferðalagið. Ég sakna þess að vera ekki við sjóinn eða úti á sjó. Ég bæti þetta upp í næstu viku með innliti og fleira. En ef þið hafið áhuga á landslaginu í Dover í Englandi þá póstaði ég nokkrum myndum af hvítu klettunum á ensku útgáfuna í dag.

Góða helgi!

mynd:
Sharyn Cairns fyrir Country Style Australia af blogginu Dustjacket Attic

þriðjudagur, 10. september 2013

Rýmið 41- eldhús í uppgerðu 18. aldar sveitasetri í Bordeaux í Frakklandi
- hönnuðir Michael Coorengel og Jean-Pierre Calvagrac

mynd:
William Waldron fyrir Elle Decor

mánudagur, 9. september 2013

Lavender í friðsælum einkagarði í West MidlandsVið eyddum síðustu viku í enskri sveit í West Midlands, nánar tiltekið í uppgerðum kofa sem tilheyrir 14. aldar sveitasetri (sjá innganginn að honum í bakgrunni myndarinnar fyrir neðan). Í einkagarði/innkeyrslu sveitasetursins mátti finna beð full af lavender og alls kyns blóm og tré. Þetta var ákaflega friðsælt og fallegt. Á meðan dvölinni stóð könnuðum við sveitirnar í kring og keyrðum líka til Warwickshire - Shakespeare's Country.


Upphaflega ætluðum við að vera í kofa norðarlega á Cotswolds-svæðinu en það gekk ekki upp og eftir á vorum við bara ánægð með það því þetta gat ekki verið fullkomnara. Við fengum dásamlegt veður, sól og blíðu, og það eina sem minnti á komu haustsins var liturinn á lavender plöntunum sem var tekinn að dofna.


myndir:
Lísa Hjalt

mánudagur, 2. september 2013

Bók: My Greek Island Home eftir Claire LloydÁ ensku útgáfu bloggsins í dag er ég með umfjöllun um bókina My Greek Island Home eftir Claire Lloyd. Ég las viðtal við hina áströlsku Claire fyrr á árinu og bókin rataði beint á óskalistann. Í sumar fékk ég hana í afmælisgjöf frá kærri vinkonu og ég gat ekki lagt hana frá mér þegar ég byrjaði að lesa. Til að gera langa sögu stutta þá keypti Claire hús í þorpi á grísku eyjunni Lesvos ásamt sambýlismanni sínum og þau breyttu algjörlega um lífsstíl eftir annasöm ár í London. Hún segir svo fallega frá lífinu á eyjunni og öllu því fólki sem hún hefur kynnst. Bókin fangaði mig við lesturinn og situr enn í mér.

Ég spurði Claire nokkurra spurninga sem hún svaraði fúslega og hún sendi mér nokkrar myndir og opnur úr bókinni til að deila með lesendum bloggsins. Ég ætla ekki að þýða færsluna hér þannig að ef þetta er eitthvað sem vekur áhuga þá kíkið endilega á Lunch & Latte.

Ég er á ferðalagi í þessari viku og verð hér aftur á mánudaginn. Eigið góðar stundir!