Sýnir færslur með efnisorðinu garðar | gróður. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu garðar | gróður. Sýna allar færslur

mánudagur, 9. júní 2014

Garðyrkjustöðin Walkers Nurseries



Í næsta bæ uppgötvaði ég líka þessa dásamlegu garðyrkjustöð: Walkers Nurseries. Ég keypti lavender þar um daginn og leirker sem ég setti við útidyrnar og í gær langaði mig að kaupa körfu með sumarblómum og hengja á lugt sem er framan á húsinu. En þegar ég hafði skoðað úrvalið, sem er ansi mikið, þá endaði ég aftur þar sem lavenderplönturnar eru geymdar og fékk mér aðra og leirker undir hana. Ég bókstaflega elska lavender og vonast til að lokka að býflugur með sitt róandi suð. Á meðan ég skoðaði blómaúrvalið og smellti af nokkrum myndum (það eru aðeins fleiri á ensku útgáfu bloggsins í dag) þá sátu feðgarnir á utandyra á kaffihúsi sem er þarna líka og slökuðu á. Þessar myndir gefa ykkur bara nasasjón af því starfi sem þarna fer fram. Það eru heilmiklir garðar þarna allt um kring sem ég á eftir að ganga um og taka myndir af, meðal annars ítalskur og japanskur garður. Auk þess er gjafavörubúð, lítil bókabúð, garðhúsgögn, styttur í garða og margt fleira. Ég er enga stund að hjóla þarna út eftir og hlakka til að grípa latte á kaffihúsinu og rölta um garðana síðar meir.


mánudagur, 24. mars 2014

Hýasintur úr garðinum á skrifborðið



Ég er mætt aftur eftir stutt blogghlé. Ég þurfti að játa mig sigraða í síðustu viku og leggjast í rúmið þegar kvef og hausverkur náðu yfirhöndinni. Mikið svakalega var gott að komast aftur út í morgun, að labba út í skóla með syninum og sjá enn fleiri kirsuberja- og plómutré í blóma. Ég þurfti að læra í dag en áður en ég settist við skrifborðið þá fór ég út í garð með skæri og náði mér í búnt af hýasintum í öllum þeim litum sem garðurinn býður upp á. Ég leyfði mér svo að njóta þess að drekka latte og blaða í bók áður en ég umturnaði borðinu með skóladóti. Það var á mörkunum að ég gæti einbeitt mér að skólabókunum fyrir ilminum af blómunum!


þriðjudagur, 18. febrúar 2014

Innlit: glæsivilla í Montecito II



Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég deili myndum af þessari glæsivillu í Montecito í Kaliforníu á blogginu (sjá hér) en hún er núna í eigu sjónvarpskonunnar Ellen DeGeneres og maka hennar Portia De Rossi. Þessi innlit eru að vísu ekki ný þannig að innbúið er ekki þeirra og því óþarfi að fara í smáatriði í þeim efnum. Arkitektinn John Saladino er hönnuður þessar eignar og eins og sjá má þá er hún öll hin glæsilegasta, svo ekki sé minnst á garðinn.

Þess má svo geta að þær stöllur eru tiltölulega nýbúnar að kaupa enn eina eignina í Los Angeles, svokallað Brody House sem var hannað af arkitektinum A. Quincy Jones, sem ég deili kannski síðar.


Kannski kannast einhverjir líka við myndina hér að neðan - dásamleg sumarstemning í henni - en ég deildi svo til alveg eins mynd í einni Eftirminnilegt sumar færslu í ágúst.


myndir:
Alexandre Bailhache fyrir House & Garden af síðunni AD DesignFile

mánudagur, 16. september 2013

Árstíð plómanna



Árstíð plómanna er gengin í garð og ólíkt árinu á undan þá bókstaflega rignir plómum í garðinum. Ég fór út með fötu í gær, fyllti hana og bjó svo til mulning (crumble) með möndlum og hlynsírópi og bar fram með þeyttum rjóma. Dásamlega gott á bragðið.


Það er óhætt að segja að þegar við klárum allar þessar plómur þá verðum við búin að fá vænan skammt af kalíni og A- og C-vítamíni. Fyrir ykkur sem því miður glímið við þunglyndi þá las ég einhvers staðar að plómur eru ríkar af einhverju efni, sem ég man ekki lengur hvað heitir, sem hjálpar heilanum að framleiða serótónín.



Í garðinum eru líka litlar plómur sem nágrannakonan kallar mírabellur (Mirabelle de Nancy) og þær eru aðallega gular að lit. Hún notar þær í sultugerð og við leyfðum henni að tína eins margar og hún þurfti. Restin er byrjuð að falla af trénu en þær eru það hátt uppi að ég þyrfti stiga til að ná þeim. Spurning um að virkja soninn og klifuráráttuna og láta hann klifra upp í tré að sækja þær!


þriðjudagur, 6. ágúst 2013

Sumarstemning gærdagsins: Scandinavia-borðið



Kannski hafið þið nú þegar séð þessar myndir á enska blogginu í dag en eiginmaðurinn hannaði þetta fallega borð sem er hluti af garðhúsgagnalínu sem hann er að hanna og smíða sjálfur í frístundum (ég kem með hugmyndir inn á milli og veiti andlegan stuðning). Línan heitir Scandinavia og þetta er fyrsti hluturinn sem er tilbúinn. Við fórum með borðið út í garð í gær og lékum okkur að mynda það í sólinni. Núna er það á svölunum hjá okkur og nýtur sín vel.


miðvikudagur, 19. júní 2013

Garðhönnun: frönsk áhrif í garði í Alabama


Það var ást við fyrstu sýn þegar ég sá þennan franska glugga með útsýni út í garðinn á vefsíðu Traditional Home. Ég hugsaði um þessa mynd og þennan garð í allan dag á meðan ég var að vinna í mínum eigin, sem er heldur tilþrifaminni og ekki eins litríkur (kemur allt rólega, núna eru rósirnar fyrir framan hús loksins byrjaðar að blómstra!).


Í hinu sögulega hverfi Redmont í Birmingham, Alabama stendur hús frá árinu 1926 sem er í eigu innanhússhönnuðarins Mary Finch og eiginmanns hennar. Þau keyptu húsið árið 2004 og leituðu til garðyrkjumeistarans Norman Kent Johnson til að fá aðstoð við að hanna garðinn upp á nýtt. Hann var berangurslegur og í honum var aðallega gamalt og ofvaxið bláregni sem sárlega þurfti að klippa til og snyrta. Áður en þau keyptu húsið þá hafði Mary ekki verið mikil garðyrkjukona en eins og segir í greininni „stóðst hún ekki mátið að vinna með ómálaðan striga.“ Franskir garðar voru henni innblástur eftir að hafa skoðað vínekrur í Frakklandi og ferðast um Provence-hérað. Hún er einlæg þegar hún segir hlæjandi: „Sennilega er það franskasta við þennan garð allt það magn af frönsku víni sem hér hefur verið deilt.“


Að ofan sjáið þið fjólubláa salvíu og glæsilegar svalir þar sem þau njóta þess að drekka kaffið sitt á morgnana á meðan þau dást að garðinum og útsýninu. Í dag hljómar Mary eins og sannur garðunnandi þegar hún segir: „Það eru alltaf einhverjar breytingar ... Það er spennandi að sjá nýtt lauf myndast, blöð breytast eða blóm sem er við það að blómstra.“


Plantan hér að ofan er rauð verbena, sem ég hef aldrei séð áður. Hún gengur einnig undir nafninu ,Voodoo Star' eða 'Vúdú-stjarna' og laðar að sér fiðrildi, fulga og býflugur. Rauða blómið fyrir ofan hana kallast Schizanthus.

Hér fyrir neðan má sjá plöntu sem kallast ,Purple Flame' eða ,Fjólublár logi' (Cyclamen hederifolium) og englastyttur í miðju formlega garðsins (enska: parterre).


Útsýnið baka til er stórkostlegt, en frá svölunum má njóta formlega garðsins og hinum megin við dalinn blasir við Appalachian-fjallgarðurinn. Það voru Mary og garðyrkjumeistarinn Norman Kent Johnson sem bættu formlega garðinum við, svona til að halda franskri hönnun á lofti. Horn hans mynda fjórir stórir vasar sem um leið afmarka garðinn.


Í garðinum er opin verönd sem þau nota gjarnan þegar gesti ber að garði því í húsinu sjálfu er ekki formleg borðstofa. Á frístandandi vegg hanga luktir sem gefa frá sér milda birtu þegar sólin sest.


Ég notaði ekki allar myndirnar úr greininni í þessa færslu en ég lýk þessu með steinlögðum stíg og gömlu járnhliði sem hefur yfir sér franskan blæ.


myndir:
Jean Allsopp fyrir Traditional Home

mánudagur, 29. apríl 2013

sólskáli í Gravenwezel kastalanum

Ég var með ákveðinn póst í huga fyrir daginn í dag en þegar ég rakst á myndina hér að ofan á netinu þá varð ég að deila henni. Þessi sólskáli tilheyrir Gravenwezel kastalanum sem er rétt fyrir utan Antwerpen, sem var jú okkar heimaborg í um tvö ár. Kastalinn er í eigu belgíska listmuna- og antíksalans Axel Vervoordt. Hann er með aðsetur í kastalanum og notar hann undir alls kyns sýningar og tvisvar sinnum á ári opnar hann dyrnar fyrir almenningi. Nú dauðsé ég eftir því að hafa ekki notað tækifærið til að kíkja þegar ég bjó í Antwerpen, en ég get bætt úr því síðar.

Þessi kastali er ævaforn. Það er ekki vitað hver byggði hann en ég hef séð heimildir sem vísa aftur til 13. aldar. Á 18. öld voru gerðar heilmiklar umbætur á kastalanum sem þá var í eigu fjölskyldu sem kallaðist Van Susteren. Það var einmitt þá sem sólskálinn var byggður.

Hér er mynd af sjálfum kastalanum og þið getið séð fleiri myndir með því að opna síðari tengilinn hér að neðan.

myndir:
1: Sebastian Schutyser af blogginu The Caledonian Mining Expedition Company / 2: Architecture and Interior Design