Sýnir færslur með efnisorðinu arkitektúr | landslagsarkitektúr. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu arkitektúr | landslagsarkitektúr. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 19. júní 2014

Innlit: gistihús á grísku eyjunni Íþöku



Ljósmyndararnir og hjónin Gerda Genis and Robbert Koene, bæði frá Suður-Afríku, létu drauminn rætast, keyptu gamalt hús í niðurníðslu á grísku eyjunni Íþöku, nánar tiltekið í sveitum Lahos, og gerðu það upp sem gisthús með svefnaðstöðu fyrir átta manns. Eins og sjá má á myndunum kusu þau náttúruleg efni og hráan stíl, steypu og stein í bland við viðarbita. Mér finnst hvítu gluggarnir, hurðirnar og loftin skapa skemmtilegt mótvægi og gefa húsinu léttleika. Eins og sjá má á myndunum sem birtust í Est Magazine er aðstaðan utandyra öll hin glæsilegasta í einfaldleika sínum.


Ég veit ekki með ykkur en ég væri nú alveg til í að eyða eins og einni viku eða svo á þessum stað.


myndir:
Robbert Koene af síðunni Est Magazine

miðvikudagur, 9. apríl 2014

West Midlands | The Granary - kofi til leigu



Hafið þið áhuga á að skoða West Midlands svæðið? Í sveitinni austan við borgina Birmingham er hægt að leigja endurgerðan kofa sem kallast The Granary og er í lokuðum einkagarði sem tilheyrir sveitabýlinu Dove House, sem var byggt í kringum 1350. Svefnherbergin eru þrjú (svefnaðstaða fyrir 5) og það er rúmgott eldhús/borðstofa og setustofa. Allt er smekklega innréttað og öll heimilistæki eru til staðar. Rétt hjá er þorpið Shustoke og bærinn Coleshill.

The Granary er í norðurhluta Warwickshire og það er stutt í hraðbrautir og út á Birmingham-flugvöll. Ef haldið er í suðurátt er komið inn í Shakespeare's Country, eins og svæðið kallast, en þar er að finna ákaflega fallega bæi eins og Stratford-upon-Avon, Leamington Spa og Warwick.
(Sjá einnig The Lodge sem er með einu svefnherbergi (svefnaðstaða fyrir 4)).



myndir:
Lísa Hjalt

mánudagur, 3. mars 2014

Innlit: brúnsteinshús endurhannað af John B. Murray



Ég er alltaf svolítið veik fyrir fallegum brúnsteinshúsum. Þetta var byggt upp úr 1890 og var endurhannað af arkitektinum John B. Murray. Það kemur hvergi fram á vefsíðunni hvar húsið er en mig grunar að þetta sé í New York. Það var einkum verönd hússins sem heillaði mig upp úr skónum.


Ég get ekki sagt að húsgögnin séu minn stíll en flygill á heimilum skapar alltaf vissa stemningu. Eins og sést þá er ekki mjög vítt til veggja, stofurnar virðast litlar og eldhúsið virkar svolítið þröngt (veröndin bætir upp fyrir það).

Stíllinn á húsgögnunum er ekki í höndum arkitektsins en ég vildi að eigendurnir hefðu valið önnur húsgögn fyrir setustofuna hér að neðan. Ég er ekki hrifin af þeim stíl þegar áklæði á sófum og stólum ná niður á gólf, eru með pilsi eins og það kallast á ensku. Fyrir mér eru slík húsgögn tabú í litlum rýmum. Þarna hefði ég valið að láta sjást undir sófann og stólinn til að láta rýmið virka stærra og ég hefði valið ljósari áklæði. En til að segja eitthvað jákvætt þá finnst mér mynsturmottan flott, hún bara nýtur sín ekki með þessum húsgögnum.



þriðjudagur, 18. febrúar 2014

Innlit: glæsivilla í Montecito II



Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég deili myndum af þessari glæsivillu í Montecito í Kaliforníu á blogginu (sjá hér) en hún er núna í eigu sjónvarpskonunnar Ellen DeGeneres og maka hennar Portia De Rossi. Þessi innlit eru að vísu ekki ný þannig að innbúið er ekki þeirra og því óþarfi að fara í smáatriði í þeim efnum. Arkitektinn John Saladino er hönnuður þessar eignar og eins og sjá má þá er hún öll hin glæsilegasta, svo ekki sé minnst á garðinn.

Þess má svo geta að þær stöllur eru tiltölulega nýbúnar að kaupa enn eina eignina í Los Angeles, svokallað Brody House sem var hannað af arkitektinum A. Quincy Jones, sem ég deili kannski síðar.


Kannski kannast einhverjir líka við myndina hér að neðan - dásamleg sumarstemning í henni - en ég deildi svo til alveg eins mynd í einni Eftirminnilegt sumar færslu í ágúst.


myndir:
Alexandre Bailhache fyrir House & Garden af síðunni AD DesignFile

mánudagur, 3. febrúar 2014

Innlit: hlýlegur og hrár stíll í Toscana-héraði



Innlitið að þessu sinni er hlýlegt sveitasetur, La Convertoie, í Toscana-héraði á Ítalíu sem birtist í tímaritinu Architectural Digest í mars árið 2010. Það samanstendur af húseign og fornri kirkju sem eiga rætur að rekja til 11. aldar. Setrið er í 3ja kílómetra fjarlægð frá bænum Greve In Chianti (það eru ca. 26 km til Flórens og 40 km til Siena). Núverandi eigendur keyptu eignirnar og fengu ítalska arkitektinn Marco Videtto til þess að sameina þær í eina stóra eign. Innanhússhönnun var í höndum Susan Schuyler Smith. Ég rakst fyrst á myndina af bókaherberginu á netinu og vildi endilega sjá restina af húsinu. Ég sleppti því að birta hér myndirnar af stofunni því hún höfðaði ekki til mín (þið getið skoðað hana með því að smella á tengilinn neðst í færslunni).


Útlitið í eldhúsinu gerist varla ítalskara; viðarbitar í lofti og terracotta-flísar á gólfinu. Arinninn er frá miðri 19. öld og fékk að halda sér.

Eins og sjá má er veröndin hin glæsilegasta í einfaldleika sínum og terracotta-blómakerin setja svip sinn á hana. Útsýnið hlýtur að vera dásamlegt, eins og neðsta myndin gefur til kynna. Það var landslagsarkitektinn Nancy Leszczynski sem sá um verkið. Hún lét planta ýmsum plöntum og jurtum, m.a. salvíu, rósmaríni og granateplatré.



Hér má sjá setrið, þ.e. gömlu kirkjuna og húsið sem voru sameinuð, úr fjarlægð.


Ég komst að því að hluti hússins er dvalarstaður sem hægt er að taka á leigu því ég fann tengil á þetta sama sveitasetur á vefnum HomeAway. Ég væri nú ekkert á móti nokkurra daga fríi í svona fallegu umhverfi.

myndir:
Kim Sargent fyrir Architectural Digest

þriðjudagur, 28. janúar 2014

Innlit: 17. aldar sveitasetur í Normandie-héraði



Minn persónulegi stíll er meira í takt við það sem sést í skandinavískri hönnun í bland við hráan stíl, en hluti af mér er svolítið veikur fyrir glæsilegum sveitasetrum eins og þessu franska 17. aldar húsi í Normandie-héraði. Húsið var í niðurníðslu þegar innanhússhönnuðurinn Charles Spada var ráðinn til að bjarga því. Þessar myndir eru hluti af þeim sem birtust í grein í tímaritinu Veranda fyrir tveimur árum síðan en ef þið hafið áhuga þá fann ég aðrar myndir sem sýna endurbyggingu hússins.


myndir:
Alexandre Bailhache fyrir Veranda, jan/feb 2012 af blogginu {this is glamorous}

miðvikudagur, 19. júní 2013

Garðhönnun: frönsk áhrif í garði í Alabama


Það var ást við fyrstu sýn þegar ég sá þennan franska glugga með útsýni út í garðinn á vefsíðu Traditional Home. Ég hugsaði um þessa mynd og þennan garð í allan dag á meðan ég var að vinna í mínum eigin, sem er heldur tilþrifaminni og ekki eins litríkur (kemur allt rólega, núna eru rósirnar fyrir framan hús loksins byrjaðar að blómstra!).


Í hinu sögulega hverfi Redmont í Birmingham, Alabama stendur hús frá árinu 1926 sem er í eigu innanhússhönnuðarins Mary Finch og eiginmanns hennar. Þau keyptu húsið árið 2004 og leituðu til garðyrkjumeistarans Norman Kent Johnson til að fá aðstoð við að hanna garðinn upp á nýtt. Hann var berangurslegur og í honum var aðallega gamalt og ofvaxið bláregni sem sárlega þurfti að klippa til og snyrta. Áður en þau keyptu húsið þá hafði Mary ekki verið mikil garðyrkjukona en eins og segir í greininni „stóðst hún ekki mátið að vinna með ómálaðan striga.“ Franskir garðar voru henni innblástur eftir að hafa skoðað vínekrur í Frakklandi og ferðast um Provence-hérað. Hún er einlæg þegar hún segir hlæjandi: „Sennilega er það franskasta við þennan garð allt það magn af frönsku víni sem hér hefur verið deilt.“


Að ofan sjáið þið fjólubláa salvíu og glæsilegar svalir þar sem þau njóta þess að drekka kaffið sitt á morgnana á meðan þau dást að garðinum og útsýninu. Í dag hljómar Mary eins og sannur garðunnandi þegar hún segir: „Það eru alltaf einhverjar breytingar ... Það er spennandi að sjá nýtt lauf myndast, blöð breytast eða blóm sem er við það að blómstra.“


Plantan hér að ofan er rauð verbena, sem ég hef aldrei séð áður. Hún gengur einnig undir nafninu ,Voodoo Star' eða 'Vúdú-stjarna' og laðar að sér fiðrildi, fulga og býflugur. Rauða blómið fyrir ofan hana kallast Schizanthus.

Hér fyrir neðan má sjá plöntu sem kallast ,Purple Flame' eða ,Fjólublár logi' (Cyclamen hederifolium) og englastyttur í miðju formlega garðsins (enska: parterre).


Útsýnið baka til er stórkostlegt, en frá svölunum má njóta formlega garðsins og hinum megin við dalinn blasir við Appalachian-fjallgarðurinn. Það voru Mary og garðyrkjumeistarinn Norman Kent Johnson sem bættu formlega garðinum við, svona til að halda franskri hönnun á lofti. Horn hans mynda fjórir stórir vasar sem um leið afmarka garðinn.


Í garðinum er opin verönd sem þau nota gjarnan þegar gesti ber að garði því í húsinu sjálfu er ekki formleg borðstofa. Á frístandandi vegg hanga luktir sem gefa frá sér milda birtu þegar sólin sest.


Ég notaði ekki allar myndirnar úr greininni í þessa færslu en ég lýk þessu með steinlögðum stíg og gömlu járnhliði sem hefur yfir sér franskan blæ.


myndir:
Jean Allsopp fyrir Traditional Home