Sýnir færslur með efnisorðinu sveitasetur | kofar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu sveitasetur | kofar. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 5. júní 2014

Innlit: Hamptons strandkofi í skandinavískum stíl



Það er nú ekki oft sem maður rekst á innlit frá Hamptons-svæðinu sem er jafn hlýlegt og þetta því yfirleitt er verið að sýna glæsivillur ríka fólksins þar sem íburður virðist vera kjörorðið. Félagarnir sem reka hönnunarfyrirtækið Heiberg Cummings Design eru eigendur þessa strandkofa sem þeir hafa innréttað af smekkvísi í skandinavískum stíl. Hlutlausir tónar eru brotnir upp hér og þar með mildum litum, eins og sjá má í eldhúsinu þar sem stendur grænmáluð gamaldags eyja. Svæðið allt um kring er dásamlega fallegt og ekki amalegt að sitja úti á verönd og fylgjast með bátsferðum. Það er nokkuð ljóst að heir félagar eiga ekki í vandræðum með að hlaða batteríin á þessum stað þegar borgarlífið í New York verður aðeins of stressandi.


myndir:
Anastassios Mentis + Elisabeth Sperre Alnes fyrir Interiør Magasinet

miðvikudagur, 9. apríl 2014

West Midlands | The Granary - kofi til leigu



Hafið þið áhuga á að skoða West Midlands svæðið? Í sveitinni austan við borgina Birmingham er hægt að leigja endurgerðan kofa sem kallast The Granary og er í lokuðum einkagarði sem tilheyrir sveitabýlinu Dove House, sem var byggt í kringum 1350. Svefnherbergin eru þrjú (svefnaðstaða fyrir 5) og það er rúmgott eldhús/borðstofa og setustofa. Allt er smekklega innréttað og öll heimilistæki eru til staðar. Rétt hjá er þorpið Shustoke og bærinn Coleshill.

The Granary er í norðurhluta Warwickshire og það er stutt í hraðbrautir og út á Birmingham-flugvöll. Ef haldið er í suðurátt er komið inn í Shakespeare's Country, eins og svæðið kallast, en þar er að finna ákaflega fallega bæi eins og Stratford-upon-Avon, Leamington Spa og Warwick.
(Sjá einnig The Lodge sem er með einu svefnherbergi (svefnaðstaða fyrir 4)).



myndir:
Lísa Hjalt

fimmtudagur, 27. mars 2014

Vor í ástralskri garðyrkjustöð



Á fimmtudaginn á ensku útgáfu bloggsins sagðist ég ætla að nota næstu fimmtudaga til þess að fagna vorinu á blogginu, með því að deila vormyndum nokkurra ljósmyndara og stílista. Upphaflega ætlaði ég ekki að vera með sömu póstana hér á íslensku útgáfunni, sennilega vegna þess að mér finnst íslenskt vor einfaldlega allt öðruvísi en til dæmis gengur og gerist hérna megin við Atlantshafið. En þegar ég fór að velta þessu betur fyrir mér þá hugsaði ég með mér, Af hverju ekki?

Ég byrja á Luisa Brimble, sem er matar- og lífsstílsljósmyndari í Sydney, hönnuður og stofnandi Alphabet Family Journal. Auk þess er hún ein af mörgum hæfileikaríkum einstaklingum á bak við tímaritið Kinfolk. Luisa tók þessar dásamlegu vormyndir í Eugalo-garðyrkjustöðinni í New South Wales. Hún var að vinna ljósmyndaþátt fyrir The Grounds of Alexandria (Florals by Silva), sem er þekkt kaffibrennsla í Ástralíu. Eugalo sér þeim fyrir blómum.


Þegar ég sá þessar myndir fyrst þá var haustið á næsta leiti á norðurhveli jarðar og vorið virtist svo órafjarri. En þær tala sínu máli og það var eitthvað við Hunter-stígvélin og eldiviðinn sem festist í huga mér.

myndir:
Luisa Brimble (birt með leyfi)

mánudagur, 10. febrúar 2014

Innlit: hvítt og náttúrulegt í Lombardia á Ítalíu



Þetta fallega heimili er í eigu þýsks hönnuðar og listakonu að nafni Katrin Arens, sem gerði það upp. Upphaflega var húsið mylluhús sem síðar var breytt í klaustur og það var svo Arens sem breytti því í heimili og vinnustofu. Húsið stendur á landareign í Lombardia á Ítalíu (stutt frá Mílanó) og eins og sést á myndunum sem teknar eru utandyra þá er náttúrufegurð allt um kring. Á ensku útgáfu bloggsins í dag var ég með innlit á sama heimili en þær myndir komu úr annarri átt og sýndu aðra vinkla (fyrir nokkrum árum póstaði ég enn öðru innliti í sama hús - sjá hér). Það er hrái stíllinn á öllu sem heillar mig - allur þessi grófi viður er svo skemmtilegur - og náttúrulegu heimilimunirnir gera heimilið enn persónulegra. Arens sjálf hannaði flest öll húsgögnin og þið getið skoðað fleiri á heimasíðu hennar.


myndir:
Jordi Canosa fyrir Habitania af blogginu French By Design

mánudagur, 3. febrúar 2014

Innlit: hlýlegur og hrár stíll í Toscana-héraði



Innlitið að þessu sinni er hlýlegt sveitasetur, La Convertoie, í Toscana-héraði á Ítalíu sem birtist í tímaritinu Architectural Digest í mars árið 2010. Það samanstendur af húseign og fornri kirkju sem eiga rætur að rekja til 11. aldar. Setrið er í 3ja kílómetra fjarlægð frá bænum Greve In Chianti (það eru ca. 26 km til Flórens og 40 km til Siena). Núverandi eigendur keyptu eignirnar og fengu ítalska arkitektinn Marco Videtto til þess að sameina þær í eina stóra eign. Innanhússhönnun var í höndum Susan Schuyler Smith. Ég rakst fyrst á myndina af bókaherberginu á netinu og vildi endilega sjá restina af húsinu. Ég sleppti því að birta hér myndirnar af stofunni því hún höfðaði ekki til mín (þið getið skoðað hana með því að smella á tengilinn neðst í færslunni).


Útlitið í eldhúsinu gerist varla ítalskara; viðarbitar í lofti og terracotta-flísar á gólfinu. Arinninn er frá miðri 19. öld og fékk að halda sér.

Eins og sjá má er veröndin hin glæsilegasta í einfaldleika sínum og terracotta-blómakerin setja svip sinn á hana. Útsýnið hlýtur að vera dásamlegt, eins og neðsta myndin gefur til kynna. Það var landslagsarkitektinn Nancy Leszczynski sem sá um verkið. Hún lét planta ýmsum plöntum og jurtum, m.a. salvíu, rósmaríni og granateplatré.



Hér má sjá setrið, þ.e. gömlu kirkjuna og húsið sem voru sameinuð, úr fjarlægð.


Ég komst að því að hluti hússins er dvalarstaður sem hægt er að taka á leigu því ég fann tengil á þetta sama sveitasetur á vefnum HomeAway. Ég væri nú ekkert á móti nokkurra daga fríi í svona fallegu umhverfi.

myndir:
Kim Sargent fyrir Architectural Digest

mánudagur, 6. janúar 2014

Innlit: norskur fjallakofi í Geilo



Þessi póstur er tileinkaður þolinmóða eiginmanninum sem uppbót fyrir þær stundir sem ég er upptekin að sækja mér innblástur á netinu og veiti honum litla athygli. Norskir fjallakofar höfða sterkt til hans og þegar við bjuggum á Íslandi þá keypti hann oft eitthvað norskt fjallakofatímarit. Timbrið og handverkið heillaði hann. Þessi tiltekni kofi er í Geilo, sem er þekkt úitvistarsvæði í Noregi með skíðavæðum (liggur svo til mitt á milli Osló og Bergen ef maður lítur aðeins norðar á kortið), og eins og sést er búið að taka hann allan í gegn. Án þess að vilja hljóma neikvæð þá er ég persónulega ekki hrifin af skrautmáluðum við en norskara gerist það varla. Mér finnst annars antíkgræni liturinn í leskróknum afskaplega fallegur og hlýlegur.


myndir:
Anette Nordstrøm fyrir Interiør Magasinet

þriðjudagur, 24. september 2013

haustlitir í boði Clive Nichols

Samkvæmt dagatalinu er haustið komið en allur gróður hér í kring er enn þá grænn. Ef það væru ekki plómur, vínber og epli í garðinum þá væri það bara eilítið svalara loft á morgnana sem minnti á komu haustsins. En ég er komin í haustgírinn og hlakka til að sjá náttúruna klæðast nýjum litum. Að mínu mati tekst ljósmyndaranum Clive Nichols að fanga allt að því draumkennda hauststemningu á meðfylgjandi myndum. Litadýrðin er dásamleg!

Ég varð að bæta við eldhúsinu hér að neðan vegna hlýleikans - eldhús með arni er draumurinn. Ég sá fyrir mér heita súpu í potti og nýbakað brauð um leið og ég sá myndina. Talandi um súpur. Ég fann þessa uppskrift að sætkartöflusúpu í gær og ætla að prófa hana í dag.

myndir:
Clive Nichols

_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION

fimmtudagur, 1. ágúst 2013

Sumar: afslöppun og einfaldleiki




Ef þessar myndir fanga ekki hina einu sönnu sumarstemningu þá veit ég ekki hvað! Miðað við fréttir frá Íslandi þá á ég von á því að sumarið leiki við ykkur þessa dagana. Við fengum nokkra skýjaða daga með rigningu inn á milli sem var kærkomið eftir mikil hlýindi. Ég notaði þá til að sinna heimilinu á meðan eiginmaðurinn smíðaði nýtt garðborð fyrir okkur. Sólin kom aftur í gær þannig að núna þarf ég að setja á mig garðhanskana og vera dugleg áður en við setjumst út á svalir að borða í kvöld - vonandi við nýja borðið.

En fyrst er það einn bolli af latte og einn kafli af skrifum Karen Blixen. Kannski tveir. Þá meina ég bollar og kaflar.

myndir:
01, 02, 03, 04, 05, 06: af vefsíðu Brigitte (uppgötvað af síðunni This Ivy House)