Sýnir færslur með efnisorðinu innanhússhönnun. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu innanhússhönnun. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 11. júní 2019

№ 21 bókalisti: ritgerðir eftir Zambra

№ 21 bókalisti: Alejandro Zambra, Grace Paley, Virginia Woolf, Anna Burns · Lísa Stefan


Jæja, það er kominn tími á fyrsta bókalista sumarsins. Samkvæmt hefð er eitt ritgerðasafn á honum, Not to Read eftir chileska rithöfundinn Alejandro Zambra (No Leer á spænsku). Í þeirri fyrstu viðurkennir hann að hafa sem krakki horft á Madame Bovary (1949) fyrir próf í stað þess að klára að lesa bókina. Til hliðar við rautt F skrifaði kennarinn hans: „Vincente Minnelli!!“ Þessar stuttu ritgerðir eru konfekt fyrir bókaunnendur. Ég ætlaði að hafa á listanum skáldsögu sem ég var byrjuð að lesa, The Friend eftir Sigrid Nunez sem hlaut verðlaunin National Book Awards fyrir bókmenntir árið 2018, sem veitt eru í BNA. Mér fannst hún áhugaverð, einkum vegna bókmenntalegra tilvísana (sögumaðurinn er rithöfundur), en svo fór mér að leiðast ritstíllinn og ég kláraði hana ekki. Það er heilsusamlegt að endurlesa eitthvað gott eftir lestur sem veldur vonbrigðum; ég valdi Mávinn eftir rússneska leikskáldið Anton Chekhov.

№ 21 bókalisti:
1  Not to Read  · Alejandro Zambra
2  The Collected Stories of Grace Paley 
3  Milkman  · Anna Burns
4  Disgrace  · J. M. Coetzee
5  The Voyage Out  · Virginia Woolf
6  Journal of Katherine Mansfield  · ritstj. John Middleton Murry
7  The Seagull  · Anton Chekhov

Enskar þýðingar: 1) Not to Read: Megan McDowell; 7) The Seagull: Laurence Senelick

Þið sem fylgist með blogginu vitið að Virginia Woolf er í miklu uppáhaldi. Háskólabókasafnið í Bremen á gömul bindi af öllum verkum hennar frá Hogarth Press, útgáfunni sem hún og maðurinn hennar Leonard settu á fót. Þessar innbundnu útgáfur eru fagurgrænar að lit og fyrst fékk ég The Voyage Out, hennar fyrstu skáldsögu, að láni bara til að fletta henni. Bókin er ekki mín uppáhalds eftir Woolf en ég stóðst ekki freistinguna og ákvað að endurlesa hana.
№ 21 bókalisti: Alejandro Zambra, Grace Paley, Virginia Woolf, Anna Burns · Lísa Stefan


Ég viðurkenni að stundum sakna ég gömlu bloggvenja minna, þegar ég safnaði myndum af innlitum í möppur og gat ekki beðið eftir að deila þeim. Þið kunnið að hafa tekið eftir að stundum nota ég myndir af málverkum í bloggfærslur, en núna ákvað ég að sýna ykkur tvö rými á heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea, London, sem birtist í tímaritinu House & Garden UK. Þessi listrænu horn - þar sem kaffiborðinu bregður fyrir og bókahillunni við gluggann - höfða til áhugakonunnar um innanhússhönnun innra með mér. Fágað og smekklegt.

Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea. House & Garden UK · Greg Funnell | Lestur & Latte
Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea. House & Garden UK · Greg Funnell | Lestur & Latte

Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea, London.
House & Garden UK/Greg Funnell



miðvikudagur, 11. apríl 2018

Schuyler Samperton Textiles: bláir og rauðir tónar

Schuyler Samperton Textiles: bláir og rauðir tónar · Lísa Stefan


Þegar ég er ekki með andlitið grafið ofan í bók þá má líklega sjá mig dásama mynstraðan textíl með heillandi mótífum (ég óska þess oft að hafa stundað nám í skreytilist). Í vikunni komst ég að því að bráðum bætist ný hönnun í línu Schuyler Samperton Textiles, sem kom á markað í fyrra. Ég bíð spennt. Á blogginu hef ég nú þegar kynnt nokkur af mynstrum hennar og í dag eru það blá og rauð efni sem ég lék mér að því að raða saman, með áherslu á mynstrin Overlea, Cordoba og Nellcote. Einnig langaði mig að sýna ykkur lítið brot úr innliti í Lamb's House í Leith, sem er í eigu íslensks arkitekts og birtist í House & Garden UK árið 2016.

En fyrst er það textíllinn. Bláa og rauða blómamynstrið er Overlea og þessi litur kallast Vermillion. Ég ætla að nota hann til að skreyta einn krók á heimilinu þegar ég er búin að kaupa nokkrar nauðsynjar. Ég held að efnið í þessum sama lit sómdi sér vel sem borðdúkur. Mynstrið í bláum tón kallast Marine, sem sést við hliðina á myndinni af herberginu. Hitt samanbrotna, bláa efnið er Cordoba í Indigo; hönnunin er með paisley-mótífi. Röndótta efnið er Pendleton í litnum Brighton.

Mynstrið Nellcote er hönnun sem ég hef þegar deilt og fæ ekki nóg af. Efnaprufan með spjaldinu sýnir það í bláum tón sem kallast Montego. Efst í hægra horninu sést glitta í það í litnum Apricot, sem er minn uppáhalds í fáanlegum litum þessa mynsturs (bláa efnið undir því er Firefly í litnum Deep End). Í eldri bloggfærslum þar sem textílhönnun Samperton hefur verið til umfjöllunar hef ég alltaf sýnt mynstrið Doshi; það sést undir lattebollanum í bláa tóninum Lake. Vinsamlegast fylgið hlekkjunum á mynstrin til að skoða fáanlega liti á vefsíðu Schuyler Samperton Textiles.

Lamb's House stofa, House & Garden UK · Davide Lovatti
Úr tímaritinu House & Garden UK: stofan í Lamb's House/Davide Lovatti

Svefnherbergið á myndinni minni tilheyrir Lamb's House í Leith (Edinborg), sem var byggt árið 1610 og hefur verið uppgert. Eigendurnir eru arkitektar sem sérhæfa sig í húsfriðun og það vill svo til að eiginkonan er íslensk, Kristín Hannesdóttir. Ég man eftir því að hafa kolfallið fyrir þessu rými, textílnum og viðarbitunum í loftinu, þegar ég sá innlitið í fyrsta sinn í tímaritinu House & Garden UK (desember 2016, ljósmyndari Davide Lovatti). Hér má einnig sjá stofuna og vinnustofu Kristínar, en tunnulaga loftið í henni er unnið úr lerki frá Síberíu. Smellið á hlekkinn ef þið hafið áhuga á því að lesa um endurbæturnar á húsinu og til að sjá fleiri myndir.

Lamb's House vinnustofa, House & Garden UK · Davide Lovatti
Vinnustofa Kristínar Hannesdóttur arkitekts í Lamb's House/Davide Lovatti



sunnudagur, 31. desember 2017

Nýjar bækur | Gleðilegt nýtt ár

Nýjar bækur · Lísa Stefan


Á þessum síðasta degi ársins sit ég við tölvuna með mynstraðan túrban á höfðinu, jólabjór í glasi og tortilla-flögur í skál. Steikin er á hægeldun í ofninum, gengið mitt er að horfa á Hobbitann og ekkert betra fyrir mig að gera en að blogga um nýjar bækur. Ég ætlaði að deila þessari færslu fyrr í desember en vegna tímaleysis ýtti ég henni til hliðar. Um jólin fór hún að leita á mig og þar sem flestar bækurnar á listanum, skáldverk og kaffiborðsbækur, voru gefnar út árið 2017 þá fannst mér ég eiginlega þurfa að deila henni áður en nýja árið gengi í garð. Ég er ekkert að eyða tíma í athugasemdir við hverja bók þar sem allir hlekkirnir fyrir utan einn eru á vefsíður útgefenda, þar sem þið finnið stutta kynningu á þeim öllum. Ég geri ráð fyrir því að allar bækurnar á listanum fyrir ofan smámyndirnar muni einn daginn rata á bókalista hér á blogginu því mig langar að lesa þær allar. Ég óska ykkur friðar á komandi ári.

Nýjar bækur:
· Spy of the First Person  eftir Sam Shepard (Knopf). Síðasta verkið fyrir andlát hans í júlí á þessu ári.
· Debriefing: Collected Stories  eftir Susan Sontag (FSG). Ritstj. Benjamin Taylor.
· Sing, Unburied, Sing  eftir Jesmyn Ward (Bloomsbury). Bókin sem hlaut National Book Award 2017.
· The Origin of Others  eftir Toni Morrison (Harvard UP).
· In Search of Ancient North Africa: A History in Six Lives  eftir Barnaby Rogerson (Haus Publishing).
· The Rub of Time  eftir Martin Amis (Random House).
· Philip Roth: Why Write? Collected Nonfiction 1960-2013  eftir Philip Roth (Library of America).


· Persian Art: Collecting the Arts of Iran for the V&A  eftir Moya Carey (V&A).
· Modern Art in Detail: 75 Masterpieces  eftir Susie Hodge (Thames & Hudson).
· Henri Cartier-Bresson: The Decisive Moment  eftir Henri Cartier-Bresson (Steidl). Endurútgáfa bókar frá árinu 1952 sem geymir bestu verk Cartier-Bresson. Forsíðan er eftir Henri Matisse.
· The Atlas of Beauty: Women of the World in 500 Portraits  eftir Mihaela Noroc (Penguin).
· Morris  eftir Charlotte and Peter Fiell (Taschen). Ríkulega myndskreytt bók um ævi og störf hönnuðarins William Morris (1834-1896).
· Map Cities: Histoires de cartes  eftir Francisca Mattéoli (Chêne). Eingöngu fáanleg á frönsku en verður vonandi þýdd á ensku síðar. Ég hef fjallað um Map Stories eftir Mattéoli hér á blogginu.
· Haute Bohemians  eftir Miguel Flores-Vianna (Vendome Press).

Úr bókinni Haute Bohemians eftir Miguel Flores-Vianna, bls. 80-81, Vendome Press



þriðjudagur, 12. september 2017

Schuyler Samperton Textiles - ný hönnun

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Cordoba, Celandine · Lísa Stefan


Heimur textílhönnunar auðgaðist á árinu þegar Schuyler Samperton, innanhússhönnuður með aðsetur í Los Angeles, tók af skarið og kynnti sína eigin línu undir nafninu Schuyler Samperton Textiles. Með framleiðslu efnanna rættist langþráður draumur Samperton, sem hefur safnað textíl frá unglingsaldri. Orðið glæsilegt var það fyrsta sem kom upp í hugann þegar ég sá úrvalið í fyrsta sinn, en það samanstendur af átta efnum úr 100% líni, fáanlegum í mörgum litum. Í tvo mánuði hef ég dáðst að smáatriðum í mynstrunum og spurt sjálfa mig að því, Hvar byrja ég eiginlega að deila þessari fegurð?

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote
Nellcote/Petunia frá Schuyler Samperton Textiles

Þið kunnið að hafa tekið eftir efnum frá Schuyler Samperton Textiles á Instagram-síðunni minni í sumar, en fyrir fyrstu bloggfærsluna valdi ég Nellcote/Apricot í aðalhlutverk, bóhemískt mynstur sem fyrir mér virðist á einhvern hátt bregða á leik. (Smáatriðið að ofan sýnir efnið í litnum Petunia.)

Nellcote/Apricot er efni og litur sem mig langar að nota á einn púða eða tvo í nýju stofunni minni, þegar við höfum keypt nýjan sófa - ég er að flytja, fer bráðum að pakka í kassa! Ég hef verið að leika mér með hugmyndir og í hvert sinn er þetta mynstrið sem kallar á mig, auk þess sem litirnir í því passa vel við þann textíl sem ég á nú þegar og þann sem ég hef augastað á.

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Doshi
Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Caledonia, Celandine · Lísa Stefan

Til vinstri: Efnið Doshi/Persimmon. Til hægri: Nellcote/Apricot í forgrunni;
Caledonia/Mandarin efst; Celandine/Sunset neðst til vinstri

Af efnunum átta er það Doshi sem er með dauflega prentuðu mynstri, einföldu blómamótífi. Það er fáanlegt í fimm litum sem má auðveldlega nota til að draga fram einhvern annan lit og skapa þannig fallega hannað rými. Fyrir þessa færslu valdi ég Doshi í litnum Persimmon en ég er líka skotin í bláu afbrigði, Doshi/Lake. Blómamynstrið sem sést í mynd minni hér að ofan kallast Celandine/Sunset.

Síðar á blogginu langar mig að fjalla um efnið Caledonia í sér færslu. Það er blómamynstrið með fiðrildinu sem einnig sést á myndinni hér að ofan, í litnum Mandarin. Efnið er einnig með fuglamótífi.
Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Cordoba, Celandine · Lísa Stefan


Önnur textílhönnun frá Schuyler Samperton sem ég er líka hrifin af og langar á nota á nýja heimilinu er Cordoba, efni með paisley-mótífi, sem sést brotið saman í litnum Spice í mynd minni hér að ofan - sjá einnig nærmynd hér að neðan (það glittir í efnið í bláa litnum Indigo undir keramikvasanum). Ég á enn eftir að velja á milli Cordoba/Spice og Cordoba/Dahlia.

Ég ætla að fjalla nánar um fleiri efni síðar en á heimasíðu Schuyler Samperton Textiles má skoða línuna í heild sinni og þar er einnig að finna lista yfir sýningarsali.

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Cordoba
Mynstrið Cordoba/Spice frá Schuyler Samperton Textiles

Schuyler Samperton nam listasögu og skreytilist við Trinity College, NYU og Parsons School of Design, og í fjögur ár vann hún fyrir ameríska innanhússhönnuðinn Michael S. Smith. Verkefni hennar á því sviði eru aðgengileg á netinu.


Textíl- og innanhússhönnuðurinn Schuyler Samperton.
© Schuyler Samperton Textiles/Alexandre Jaras



mánudagur, 10. apríl 2017

Samtal við textílhönnuðinn Lisa Fine

Samtal við textílhönnuðinn Lisa Fine · Lísa Stefan


Þessi orð eru höfð eftir bandaríska ljósmyndaranum, Ansel Adams heitinum: „You don't make a photograph just with a camera. You bring to the act of photography all the pictures you have seen, the books you have read, the music you have heard, the people you have loved.“ Orð hans eiga við hvers kyns skapandi listir og ég notaði þau til að hefja samræður við textílhönnuðinn Lisa Fine í gegnum tölvupóst. Á blogginu hef ég þegar lýst henni sem hönnuði með skilning á sögu og stend við þau orð. Hún er lagin með liti og mynstur; það virðist sem hvert efni frá Lisa Fine Textiles segi sögu. Hún er fædd og uppalin í Mississippi. Nú býr hún í New York ásamt hundunum sínum og ferðast víða, oft til Indlands eða annarra framandi staða. Smálistaverk hafa innblásið feril hennar, einnig listmálarinn Henri Matisse.

Þar sem umræðuefnið er ekki flókið finnst mér óþarfi að þýða svör hennar yfir á íslensku. Þar sem það er mögulegt, einnig í beinum tilvísunum, hef ég sett inn tengla á t.d. stuttar ritgerðir á vefsíðum listasafna sem mér fannst áhugaverðar og fræðandi. Fyrir utan málverkin eftir Matisse valdi ég myndirnar í færslunni.

[Mynstur frá Lisa Fine Textiles sem sjást á efstu myndinni (smellið fyrir nánari
upplýsingar): Cairo, Kashgar, Luxor, Malabar, Malula, Mandalay, Pasha og
Rajkot. Sjá bækur neðar í færslunni]

Persneskt smálistaverk: Mir Sayyid 'Ali, Night-time in a City,
ca. 1540, Tabriz, Íran, Safavíd-tímabilið

Svo við víkjum aftur að orðum Adams, hvað hefur sett mark sitt á hönnuðinn Lisa Fine (í ljósi alls sem hún hefur uppgötvað í gegnum vinnu sína og ferðalög).
LF: My life is very much about people, however, books and art not only inspire and teach but are the best refuge.

My favorite painter is Matisse. I love his mix of color and pattern, especially in his orientalist portraits. Irving & Fine [samstarf við textílhönnuðinn Carolina Irving] peasant blouses were very much inspired by his work. I also love the Fauvism movement.
Tveir aðrir listamenn eru einnig í uppáhaldi hjá henni, Kees Van Dongen og Amedeo Modigliani.

Henri Matisse, Zorah on the Terrace, 1912

Hún á ekki eitt uppáhaldsverk eftir Matisse en sagði: „I love his Moroccan period most, especially the portraits.“ Síðar fann ég verk hans Zorah on the Terrace í pósthólfinu mínu með orðunum: „Love Moroccan portraits.“ Hin tvö verkin eftir Matisse fylgdu á eftir, verkið hér að neðan með orðunum: „Love odalisque series.“

föstudagur, 20. janúar 2017

Kaffiborðsbækur | Bitten by Witch Fever

Kaffiborðsbækur | Bitten by Witch Fever · Lísa Stefan


Nýverið nefndi ég að ég væri með nokkrar kaffiborðsbækur í augsýn. Sumar eru þegar fáanlegar, aðrar koma fljótlega eða í vor, eins og Hokusai: Beyond the Great Wave. Á listanum er ein sem ég er þegar byrjuð að lesa með miklum áhuga, Bitten by Witch Fever: Wallpaper & Arsenic in the Victorian Home eftir Lucinda Hawksley, sem var jólagjöf frá vinkonu. Í bókinni eru kynntar 275 prufur af veggfóðri sem voru rannsakaðar og reyndust innihalda arsenik.

Mig hefur langað að bæta við nýrri listabók á kaffiborðið mitt og ég held að ég hafi fundið þá réttu, Hokusai: Beyond the Great Wave. Í bókinni eru 300 myndir af verkum japanska listamannsins Katsushika Hokusai (1760–1849), sem hann skapaði á síðustu þrjátíu árum ævi sinnar. Útgáfa bókarinnar (snemma í maí) á sér stað samhliða sýningu sem opnar í British Museum þann 25. maí, og lýkur í ágúst. Það sem mig langar að komast til London til að sjá sýninguna og eyða nokkrum dögum í Bloomsbury-hverfinu.

Listaverk: Katsushika Hokusai
Katsushika Hokusai, Clear day with a southern breeze (Red Fuji), 1831

Við skulum kíkja á listann yfir kaffiborðsbækurnar, í handahófskenndri röð með stuttum athugasemdum við hverja (kannski hafið þið séð einhverjar hér til hliðar á blogginu):


· The Japanese House: Architecture and Life: 1945 to 2017  eftir Pippo Ciorra og Florence Ostende (Marsilio). Ef arkitektúr er ástríða ykkar þá tekur þessi yfirgripsmikla bók fyrir japanskan arkitektúr frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar til nútímans.
· The Long Life of Design in Italy: B&B Italia. 50 Years and Beyond  eftir Stefano Casciani (Skira). Árið 1966 stofnaði Piero Ambrogio Busnelli ítalska húsgagnafyrirtækið B&B Italia og núna getum við notið sögu þess í fallegu riti (sjá stutt myndband á vefsíðu þeirra).
· Blumarine: Anna Molinari eftir Elena Loewenthal, í ritstjórn Maria Luisa Frisa (Rizzoli). Drottning rósarinnar, hönnuðurinn Anna Molinari, hjá ítalska tískuhúsinu Blumarine á marga aðdáendur. Ég held að margt áhugafólk um tísku bíði eftir útgáfu þessarar bókar, sem inniheldur ljósmyndir eftir menn eins og Helmut Newton, Tim Walker, Albert Watson og Craig McDean. Ég myndi kaupa hana bara vegna bókarkápunnar!
· Adobe Houses: House of Sun and Earth  eftir Kathryn Masson (Rizzoli). Mig langar að komast yfir þessa sem sýnir 23 heimili í Kaliforníu, innan- og utandyra. Adobe-hús með hvítþvegnum veggjum og sýnilegum bjálkum ... já takk.
· Art House: The Collaboration of Chara Schreyer & Gary Hutton  eftir Alisa Carroll (Assouline). Myndræn veisla: fimm heimili hönnuð með það að markmiði að rúma 600 listaverk, samstarf listaverkasafnarans Schreyer og innanhússhönnuðarins Hutton.
· Flourish: Stunning Arrangements with Flowers and Foliage  eftir Willow Crossley (Kyle Books). Ef ykkur langar að endurskreyta heimilið með blómum þá er ég viss um að þið getið sótt innblástur í bók Willow Crossley, sem Emma Mitchell ljósmyndaði fallega.
· Around That Time: Horst at Home in Vogue  eftir Valentine Lawford og Ivan Shaw (Abrams Books). Ég hef ekki enn fundið þessa í bókabúð, bara séð umfjöllun í tímaritum (það glittir í eina á neðstu myndinni). Bókin inniheldur, meðal annars, ljósmyndir eftir Horst P. Horst sem birtust í Vogue's Book of Houses, Gardens, People frá árinu 1968 (lífsförunautur hans Valentine Lawford skrifaði textann). Formála bókarinnar skrifar Hamish Bowles hjá Vogue. Sjá meira hér.
· Bitten by Witch Fever: Wallpaper & Arsenic in the Victorian Home  eftir Lucinda Hawksley (Thames & Hudson, gefin út í samstarfi við The National Archives). Fyrrnefnd bók sem sýnir 275 prufur af veggfóðri eftir hönnuði eins og Corbière, Son & Brindle, Christopher Dresser og Morris & Co. (Sjá meira hér að neðan.)
· Hokusai: Beyond the Great Wave  eftir Timothy Clark, Shugo Asano og Roger Keyes (Thames & Hudson). Fyrrnefnd bók um japanska listamanninn Katsushika Hokusai sem inniheldur verk sem hann skapaði á síðustu þrjátíu æviárunum. Í bókinni fær dóttir hans Eijo (Ōi) löngu tímabæra athygli, en hún telst til listamanna Edo-tímabilsins, á síðari hluta 19. aldar. Útgáfa bókarinnar á sér stað samhliða sýningu í British Museum sem opnar í maí.

Listaverk: brot af verki eftir Hokusai
Brot af verki Hokusai, The poet Rihaku lost in wonder at the majesty of the great waterfall

Ég varð að birta hér myndir af tveimur verkum Hokusai í því sem líklega útleggst á íslensku sem viðarprent (e. woodblock printing). Ferill hans spannaði sjö áratugi en flestir þekkja til verkanna sem hann skapaði á síðari hluta ævinnar. Blái liturinn, hinn prússneski blái, eins og hann kallast, hefur alltaf heillað mig og laðað mig að verkum Hokusai.

Fyrir þá sem hafa áhuga á skoða fleiri verk eftir Hokusai (eða annað listafólk) þá má finna gott yfirlit verka hans á vefsíðu Artsy og ritstjórnargrein með skemmtilegum staðreyndum. Artsy er vefsíða sem ég bætti bara nýlega á listann minn og varð strax í uppáhaldi (þau eru líka með hlaðvarp). Stefna Artsy er að gera alla list heimsins aðgengilega þeim sem hafa netaðgang.

„Blue Bird Amongst the Strawberries“, mynstur eftir Charles F. A. Voysey, minnir á hið þekkta
„Strawberry Thief“ frá 1883 eftir William Morris. Úr bókinni Bitten by Witch Fever, bls. 131

Við lestur Bitten by Witch Fever: Wallpaper & Arsenic in the Victorian Home, sem ég er enn að lesa, hef ég gert mér grein fyrir því að ég hafði ekki hugmynd um að eitraðir litir hefðu verið notaðir til að hanna veggfóður án þess að það teldist hættulegt (það var Carl Wilhelm Scheele sem árið 1775 notaði arsenik til að búa til grænan lit, Scheele's Green, sem varð vinsæll og var t.d. notaður til að búa til skæran grænan lit fyrir veggfóður):
Many dismissed as ludicrous the doctors who held that the wallpapers were poisonous, including English wallpaper designer William Morris, who stated that they 'were bitten as people were bitten by the witch fever'. (bls. 7)
Ég varð að fletta upp í síðasta kaflanum til að komast að því að veggfóður laus við arsenik voru ekki framleidd í Bretlandi fyrr en 1859, án þess að almenningur veitti því sérstaka eftirtekt. Þar var ekki fyrr en upp úr 1870 að Morris & Co. „létu loksins undan þrýstingi almennings“ og þá varð það „stórfrétt“ (bls. 226). Þessi bók er svo sannarlega áhugaverð svo ekki sé minnst á fallega hönnun: Það eru sjö stuttir kaflar - í útliti eins og bæklingar - á milli kafla með mynstrum í litaröð, sem sýna veggfóðrin sem voru rannsökuð.

Kaffiborðsbækur | Bitten by Witch Fever, veggfóður · Lísa Stefan
Ljósgrænn. Corbière, Son & Brindle, London, UK, 1879. Bitten by Witch Fever,
Mynsturkafli V, bls. 141

Katsushika Hokusai listaverk af vefsíðum: 1. The British Museum, 2. Thames & Hudson Útgáfulisti vor 2017



föstudagur, 9. september 2016

Nýjar kaffiborðsbækur

Nýjar kaffiborðsbækur · Lísa Stefan


Það er nú ekki haustlegt um að litast hér við vesturströnd Skotlands en samt er ég komin í örlítinn haustgír. Ég er byrjuð að kveikja á kertum á morgnana og einstaka sinnum kveiki ég upp í arninum, bara í stutta stund. Bráðum gef ég sumarskyrtunum frí og dreg fram hlýjar peysur og sjöl í dekkri tónum. Ég er líka farin að huga að nýjum kaffiborðsbókum en útgáfa slíkra bóka er ávallt blómleg að hausti. Mig langar að deila með ykkur listanum yfir þær sem ég hef í sjónmáli.


· Nomad Deluxe: Wandering with a Purpose eftir Herbert Ypma. Þessi var að vísu gefin út fyrr á árinu en fangaði athygli mína nýverið. Þær ljósmyndir Ypma sem eru aðgengilegar á vefsíðu Assouline-útgáfunnar eru glæsilegar.
· Neisha Crosland: Life of a Pattern eftir Neisha Crosland. Bók eftir textílhönnuð full af mynstrum ... orð eru óþörf.
· Map Stories: The Art of Discovery eftir Francisca Mattéoli. Þessi bók er áreiðanlega gersemi fyrir þá sem hrífast af gömlum landakortum. Hún var gefin út á frönsku í fyrra en er loksins að koma út í enskri útgáfu. Ef þið þekkið ekki til verka Mattéoli þá getið þið kíkt á bloggið hennar, sem hún skrifar á bæði frönsku og ensku.
· Cecil Beaton at Home: An Interior Life eftir Andrew Ginger. Ég get ekki beðið að fletta í gegnum þessa. Ég held að hún eigi eftir að enda á kaffiborðinu mínu einn daginn.
· François Catroux eftir David Netto. Ég held að bók um hönnun Catroux hafi verið tímabær. Ég deildi einu sinni á ensku útgáfu bloggsins innliti á heimili Lauren Santo Domingo í París sem Catroux hannaði. Eitt af mínum uppáhaldsinnlitum er í íbúð hans í París.
· Urban Jungle: Living and Styling with Plants eftir Igor Josifovic + Judith de Graaff. Igor er kær bloggvinur minn og það er virkilega spennandi að sjá bókina hans loks koma út. Á bloggi sínu Happy Interior Blog deildi hann nokkrum myndum þar sem skyggnast má á bakvið tjöldin þegar vinnan við bókina stóð yfir.
· Wanderlust: Interiors That Bring the World Home eftir Michelle Nussbaumer. Textílhjartað mitt er þegar byrjað að slá hraðar. Sjá meira hér að neðan.
· Ottolenghi: The Cookbook eftir Yotam Ottolenghi + Sami Tamimi. Þetta er ný útgáfa af bókinni sem kom fyrst út árið 2008. Ekki beint kaffiborðsbók en bók þeirra Jerusalem er ein af þeim sem endar reglulega á mínu því hún er meira en bara uppskriftabók.

Það er ekki tilgangur minn að gera upp á milli bókanna á listanum en þegar ég sá textílinn og litapalettuna í svefnherbergi hönnuðarins Michelle Nussbaumer, á heimili hennar í Sviss, þá varð ég að deila henni hér. (Ég held að þessa mynd sé að finna í bókinni en í henni er m.a. skyggst inn á heimili hennar í Sviss og Texas.) Það er kúnst að raða mismunandi mynstrum saman þannig að útkoman verði smekkleg og það er óhætt að segja að Nussbaumer fari létt með það. Þær myndir sem ég hef séð af hönnun hennar eiga það sameiginlegt að vera ríkar af antíkmunum, mynstruðum textíl og munum frá framandi löndum. Hún rekur gríðarlega vinsæla hönnunarbúð í Dallas, Ceylon et Cie.

Mynstraður textíll í svefnherbergi hönnuðarins Michelle Nussbaumer

mynd af svefnherbergi · Melanie Acevedo af vefsíðu WSJ