miðvikudagur, 27. janúar 2016

Tíma vel varið

Tíma vel varið: kaffi og Karen Blixen · Lísa Hjalt


Ég þarf að játa svolítið. Í morgun var skýjað úti og grátt og þar sem ég þurfti ekki að fara neitt þá hugsaði ég með mér að best væri að klára að ganga frá restinni af fötunum okkar. Kommóða í svefnherberginu er enn tóm eftir flutningana og enn eru föt í kössum. Þetta byrjaði vel hjá mér en svo langaði mig í kaffi og gerði líklega þau mistök að fara upp með bollann. Áður en ég vissi af sat ég á mottunni með bækur og tímarit, og í spilaranum rúllaði kvikmyndin Out Of Africa (1985). Ég á enga afsökun. Flestar kommóðuskúffurnar eru enn tómar en ég álít tímanum vel varið. Að mínu mati getur það aldrei verið sóun á tíma þegar maður eyðir honum í eitthvað sem veitir innblástur.

Undanfarið hef ég verið að horfa mikið á Out of Africa. Ég sit ekki með augun límd við skjáinn heldur læt hana bara rúlla og horfi á með öðru auganu eða hlusta á meðan ég sinni öðrum verkefnum. Ég stilli gjarnan á athugasemdir leikstjórans Sidney Pollack því ég fæ ekki leið á því sem hann segir um Karen Blixen, Kenya og hvernig myndin var filmuð. Hann talar ekki bara um einstaka senur, eins og flestir leikstjórar gera, heldur fer hann dýpra og hann er góður sögumaður. Kannski er þetta bara mín leið til þess að halda í rödd hans þar sem hann er fallinn frá. Hvað um það, þetta er mynd sem ég hef horft svo oft á að ég hef ekki tölu á því og í hvert sinn höfða mismunandi senur til mín. Í morgun var það samband Blixen [Meryl Streep] og sómalska þjóns hennar Farah [Malick Bowens], sem vann fyrir hana allan tímann sem hún bjó í Kenya. Samræðurnar í senunum eru ekki langar en þær eru dásamlegar og gjarnan hnyttnar. Í bókinni Shadows on the Grass talar hún um Farah sem „servant by the grace of God“ og í mynd sinni finnst mér Pollack ná að fanga merkingu þess á fallegan máta.


Aðeins um endurlestur bóka. Out of Africa (Jörð í Afríku) eftir Karen Blixen er ein af þeim sem ég er að lesa aftur. Undanfarið hef ég verið að hugsa um það að því meira sem ég sé af því sem fólk deilir á samfélagsmiðlum - sjálfsmyndir og tilgangslausar vefsíður, leyfist mér að nefna heimsku? - því meira finn ég þörf fyrir að taka eitt skref til baka og snúa mér að vönduðum bókum og kvikmyndum. Þær hjálpa að hreinsa hugann af lélegum greinum og ljósmyndum sem gera ekkert fyrir andann.

Nokkrir punktar um myndirnar í færslunni: Á efri sést síða 133 í The World of Interiors, desembertölublaði 2015 (tekin af Andreas von Einsiedel). Greinin „Window on the World“ fjallar um Julian Barrow heitinn, listamann og heimsflakkara sem átti vinnustofu í Chelsea-hverfinu. Mynstrin eru úr bókinni V&A Pattern: Indian Florals. Á neðri sést síða úr sama hefti af WoI. Greinin „Bauhaus Below the Border“ sem byrjar á síðu 66 fjallar um Josef og Anni Albers. Sýningin A Beautiful Confluence: Anni and Josef Albers and the Latin American World er í safninu Museo delle Culture í Mílan og lýkur 21. feb.föstudagur, 22. janúar 2016

Nellikur á bóndadegi

Nellikur á bóndadegi · Lísa Hjalt


Ég var að hugsa það hérna í dag hvað það munar um sólina. Þessi dagur byrjaði eins og hver annar vetrardagur og var helst til grár. Það bjargaði honum þó alveg að ég var með nellikur í stofunni þar sem ég drakk kaffið mitt umvafin bókum. (Held að ég sé ekki sú eina sem les margar í einu!) Nokkru síðar var ég að hlusta á fyrirlestra á netinu þegar svolítið dásamlegt gerðist: Sólin lét sjá sig og allt breyttist. Þess má geta að ég keypti þessar nellikur ekki í tilefni bóndadagsins! En það þarf ekkert að vorkenna mínum bónda því á föstudögum fær hann heimagerða pizzu og rauðvín.
Nellikur á bóndadegi · Lísa Hjalt


Aftur að fyrirlestrunum. Ég skrái mig reglulega í kúrsa á netinu; ég er þeirrar skoðunnar að það næri andann og víkki sjóndeildarhringinn. Þessa stundina, í gegnum Coursera, er ég í kúrsi sem er kenndur við Wesleyan University og kallast Módernismi og póstmódernismi (hluti 2). Kennarinn var svo áhugasamur um efnið í hluta 1 að ég varð að halda áfram. Hann nær alveg að halda manni við efnið og í dag náði hann sérstaklega athygli minni í fyrirlestraröð sem hann kallaði ,Intensity and the Ordinary: Art, Loss, Forgiveness'. Í henni notaði hann bókina To the Lighthouse eftir Virginiu Woolf til að sýna „how giving up the search for the 'really real' can liberate one to attend to the everyday.“ Það er óþarfi að þýða þetta en fyrir þá sem hafa lesið bókina ætti þetta að skiljast vel. Þessi bók er ein af mínum uppáhalds eftir Woolf og ég las hana einmitt aftur síðasta sumar. Ég hef sagt ykkur að ég er að lesa dagbækur hennar. Vegna flutninganna til Skotlands var lítill tími fyrir lestur en núna er ég að klára Bindi 2 sem spannar tímabilið 1920-24. Ég á eftir að panta næsta bindi en það er á bókalistanum fyrir febrúar.

Vissuð þið að bleikar nellikur hafa mikilvægustu merkinguna af þeim öllum? Það er sagt að þessar bleiku séu sprotnar af tárum Maríu mey, sem geri þær að tákni fyrir hina ódeyjandi móðurást (heimild). Það var nú ekki ástæðan fyrir því að ég keypti þær en eftir að ég fletti þýðingu þeirra upp þá finnst mér ég sjá þær í nýju ljósi. Eigið góða helgi!
Nellikur á bóndadegi · Lísa Hjalt
þriðjudagur, 19. janúar 2016

Tómatsúpa með grænmeti og karrí

Tómatsúpa með grænmeti og karrí · Lísa Hjalt


Ég skrifaði þetta í gær þegar við vorum öll saman í stofunni að drekka heitt súkkulaði með eld logandi í arninum. Síðustu daga hefur ekki bara verið kalt úti heldur bilaði miðstöðvarketillinn á sunnudaginn og viðgerðarmaðurinn ekki væntanlegur fyrr en í dag. Ég ætla ekki að reyna að lýsa því hversu þakklát ég er fyrir þennan arinn! Í hádeginu í gær urðum við að fá eitthvað til að verma kroppinn og það eina sem við gátum hugsað okkur var skál af kalt-úti súpu. Það er nafnið sem við gáfum minni útgáfu af tómatsúpu Höddu, matarmikilli súpu sem við fundum á CafeSigrun-vefsíðunni fyrir mörgum árum síðan þegar við bjuggum enn á Íslandi. Hún er kjörin á köldum vetrardögum.
Tómatsúpa með grænmeti og karrí · Lísa Hjalt


Við erum öll hrifin af upprunalegu uppskriftinni að tómatsúpunni. Sú inniheldur léttan rjómaost, sem ég kaupi afar sjaldan, en of mikið af rósmaríni fyrir minn smekk. Þess vegna ákvað ég að breyta henni örlítið og ég bætti við baunum til að gera hana enn matarmeiri. Ég ber súpuna fram með brauði, nýbökuðu úr ofninum eða brauðvélinni. Til þess að ná ákveðinni áferð þá þarf töfrasprota eða matvinnsluvél/blandara til að gera súpuna. Ekki örvænta ef þið eigið ekki þessar græjur heldur skerið bara grænmetið fínt; áferðin verður ekki sú sama en bragðið breytist ekki. Þetta er stór skammtur af súpu sem ég ber á borð fyrir fimm manns. Þið getið breytt hlutföllunum ef þið eruð að elda fyrir 1-2, eða geymt restina í kæli og hitað upp daginn eftir.

TÓMATSÚPA MEÐ GRÆNMETI OG KARRÍ

1 matskeið kókosolía
1 laukur
2 hvítlauksrif
2 gulrætur
2 sellerístilkar
4 kartöflur
2 x 400 g dósir tómatar
500-700 ml vatn
2 lífrænir grænmetisteningar (eða 1 og 1 kjúklingateningur)
2-3 matskeiðar lífræn tómatsósa
- eða 1 matskeið mólassi (blackstrap molasses) eða hrásykur
½ matskeið karrí (sterkt eða milt)
½ matskeið mulinn kóríander
½ matskeið paprika
1 teskeið basilíka
¼ teskeið rósmarín
má sleppa: klípa af saffranþráðum
1 dós (400 g) nýrnabaunir eða svartar baunir
100-125 ml kókosmjólk
fínt sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Afhýðið laukinn og saxið gróft. Hitið kókosolíuna í stórum potti og steikið laukinn á lágum hita þar til hann mýkist. Afhýðið hvítlauksrifin, pressið og bætið út í pottinn.

Flysjið kartöflurnar. Skerið gulrætur, sellerí og kartöflur gróft, setjið í pottinn og steikið áfram á lágum hita í nokkrar mínútur þar til grænmetið mýkist.

Bætið tómötum úr dós, vatni, grænmetisteningum og tómatsósu saman við. Hækkið hitann og látið suðuna koma upp. Blandið þá kryddum og kryddjurtum saman við, setjið lok á pottinn og látið malla á lágum eða meðalhita í 15 mínútur.

Fjarlægið pottinn af hellunni. Maukið súpuna með töfrasprota þannig að áferðin haldist eilítið gróf (maukið lengur ef þið kjósið að hafa súpuna alveg silkimjúka) en farið varlega: Súpan er mjög heit og þið getið brennt ykkur ef hún slettist upp og úr pottinum! Það má láta hana kólna áður en hún er maukuð, en best er að halda töfrasprotanum alveg beinum og ýta bara á takkann þegar neðsti hluti sprotans er ofan í súpunni. Ég kýs að hafa svolítið af grófum bitum í súpunni og mauka því aðallega kartöflurnar og stærstu grænmetisbitana. Það má líka láta súpuna kólna og mauka í skömmtum í matvinnsluvél/blandara.

Setjið baunirnar í sigti og skolið af þeim. Bætið þeim í pottinn ásamt kókosmjólkinni. Hitið súpuna (ekki láta hana sjóða) í nokkrar mínútur og smakkið til með salti og svörtum pipar áður en þið berið hana fram.

Recipe in English.mánudagur, 11. janúar 2016

Bækur og BowieÉg vona að nýja árið leiki við ykkur! Eins og ég naut þess að eiga náðuga daga yfir hátíðarnar þá er ég vel sátt við hina daglegu rútínu. Þið hafið kannski tekið eftir því á Instagram að ég fékk bók um jólin sem ég hef varla getað slitið mig frá, Textiles of the Islamic World eftir John Gillow. Ég ætla að segja ykkur frá henni síðar en ef þið hafið áhuga á textílhönnun þá veldur þessi ekki vonbrigðum. Mótífin og smáatriðin eru heillandi. Ég endurlas líka Hobbitann eftir Tolkien bara mér til gamans og er að lesa aftur War and Peace, eða Stríð og frið eins og hin klassíska skáldsaga eftir Tolstoy kallast á íslensku. Ég kenni nýrri þáttaröð á BBC um það. Eftir fyrsta þáttinn varð ég að taka bókina upp aftur. (Fyrir ykkur sem hafið ekki aðgang að þáttaröðinni þá er hægt að panta BBC's War & Peace (2015) fyrirfram.)

Mig grunar að mörg ykkar hafið hlustað töluvert á David Bowie í dag - megi hann hvíla í friði! Það er erfitt að velja uppáhaldslagið en Heroes og Space Oddity koma sterk inn. Þau ykkar sem ólust upp með lögum Bowie eigið örugglega eins og eina minningu. Einn af bræðrum mínum málaði 'Bowie' með stærðarinnar hástöfum á einn vegginn í herberginu sínu, í svörtu. Ef ekki var dregið fyrir gluggatjöldin þá gátu gangandi vegfarandur sem litu upp séð dýrðina. Þetta þýddi náttúrlega að ég átti svalasta stóra bróður á jarðríki!

Now it's time to leave the capsule
if you dare
...
I'm stepping through the door
And I'm floating
in a most peculiar way
And the stars look very different today