Sýnir færslur með efnisorðinu basilíka. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu basilíka. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 19. janúar 2016

Tómatsúpa með grænmeti og karrí

Tómatsúpa með grænmeti og karrí · Lísa Stefan


Ég skrifaði þetta í gær þegar við vorum öll saman í stofunni að drekka heitt súkkulaði með eld logandi í arninum. Síðustu daga hefur ekki bara verið kalt úti heldur bilaði miðstöðvarketillinn á sunnudaginn og viðgerðarmaðurinn ekki væntanlegur fyrr en í dag. Ég ætla ekki að reyna að lýsa því hversu þakklát ég er fyrir þennan arinn! Í hádeginu í gær urðum við að fá eitthvað til að verma kroppinn og það eina sem við gátum hugsað okkur var skál af kalt-úti súpu. Það er nafnið sem við gáfum minni útgáfu af tómatsúpu Höddu, matarmikilli súpu sem við fundum á CafeSigrun-vefsíðunni fyrir mörgum árum síðan þegar við bjuggum enn á Íslandi. Hún er kjörin á köldum vetrardögum.
Tómatsúpa með grænmeti og karrí · Lísa Stefan


Við erum öll hrifin af upprunalegu uppskriftinni að tómatsúpunni. Sú inniheldur léttan rjómaost, sem ég kaupi afar sjaldan, en of mikið af rósmaríni fyrir minn smekk. Þess vegna ákvað ég að breyta henni örlítið og ég bætti við baunum til að gera hana enn matarmeiri. Ég ber súpuna fram með brauði, nýbökuðu úr ofninum eða brauðvélinni. Til þess að ná ákveðinni áferð þá þarf töfrasprota eða matvinnsluvél/blandara til að gera súpuna. Ekki örvænta ef þið eigið ekki þessar græjur heldur skerið bara grænmetið fínt; áferðin verður ekki sú sama en bragðið breytist ekki. Þetta er stór skammtur af súpu sem ég ber á borð fyrir fimm manns. Þið getið breytt hlutföllunum ef þið eruð að elda fyrir 1-2, eða geymt restina í kæli og hitað upp daginn eftir.

TÓMATSÚPA MEÐ GRÆNMETI OG KARRÍ

1 matskeið kókosolía
1 laukur
2 hvítlauksrif
2 gulrætur
2 sellerístilkar
4 kartöflur
2 x 400 g dósir tómatar
500-700 ml vatn
2 lífrænir grænmetisteningar (eða 1 og 1 kjúklingateningur)
2-3 matskeiðar lífræn tómatsósa
- eða 1 matskeið mólassi (blackstrap molasses) eða hrásykur
½ matskeið karrí (sterkt eða milt)
½ matskeið mulinn kóríander
½ matskeið paprika
1 teskeið basilíka
¼ teskeið rósmarín
má sleppa: klípa af saffranþráðum
1 dós (400 g) nýrnabaunir eða svartar baunir
100-125 ml kókosmjólk
fínt sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Afhýðið laukinn og saxið gróft. Hitið kókosolíuna í stórum potti og steikið laukinn á lágum hita þar til hann mýkist. Afhýðið hvítlauksrifin, pressið og bætið út í pottinn.

Flysjið kartöflurnar. Skerið gulrætur, sellerí og kartöflur gróft, setjið í pottinn og steikið áfram á lágum hita í nokkrar mínútur þar til grænmetið mýkist.

Bætið tómötum úr dós, vatni, grænmetisteningum og tómatsósu saman við. Hækkið hitann og látið suðuna koma upp. Blandið þá kryddum og kryddjurtum saman við, setjið lok á pottinn og látið malla á lágum eða meðalhita í 15 mínútur.

Fjarlægið pottinn af hellunni. Maukið súpuna með töfrasprota þannig að áferðin haldist eilítið gróf (maukið lengur ef þið kjósið að hafa súpuna alveg silkimjúka) en farið varlega: Súpan er mjög heit og þið getið brennt ykkur ef hún slettist upp og úr pottinum! Það má láta hana kólna áður en hún er maukuð, en best er að halda töfrasprotanum alveg beinum og ýta bara á takkann þegar neðsti hluti sprotans er ofan í súpunni. Ég kýs að hafa svolítið af grófum bitum í súpunni og mauka því aðallega kartöflurnar og stærstu grænmetisbitana. Það má líka láta súpuna kólna og mauka í skömmtum í matvinnsluvél/blandara.

Setjið baunirnar í sigti og skolið af þeim. Bætið þeim í pottinn ásamt kókosmjólkinni. Hitið súpuna (ekki láta hana sjóða) í nokkrar mínútur og smakkið til með salti og svörtum pipar áður en þið berið hana fram.



fimmtudagur, 28. maí 2015

Pizzasósa

Pizzasósa · Lísa Hjalt


Um daginn áttaði ég mig á því að uppskriftin að pizzasósunni á gamla matarblogginu er orðin gömul og ég geri sósuna öðruvísi í dag. Árið 2010 bjuggum við í Danmörku og þar skapaðist sú hefð að hafa alltaf heimagerðar pizzur í matinn á föstudagskvöldum. Þegar maður gerir pizzur svona oft þá smám saman gerir maður breytingar og er sósan engin undantekning. Ég er líka búin að breyta pizzabotnunum (gerlaust deig) en þeirri uppskrift ætla ég að deila síðar.

Á föstudögum, á svo til alltaf sama tíma, set ég á mig svuntuna í eldhúsinu og byrja á því að útbúa pizzasósuna. Ég nota plómutómata úr dós, en ég elda þá ekki heldur kreisti vökvann úr þeim í gegnum sigti. Sósuna blanda ég með töfrasprota en ef þið eigið ekki slíkan þá má nota matvinnsluvél.

PIZZASÓSA

1 dós (400 g) plómutómatar
1 dós (140 g) tómatmauk
2 matskeiðar jómfrúarólífuolía
1 matskeið lífrænn hrásykur
1 teskeið balsamedik (Modena)
1-2 hvítlauksrif, pressuð
1 teskeið þurrkað óreganó
1 teskeið fersk basilíka, fínsöxuð (eða ½ teskeið þurrkuð)
¼-½ teskeið sjávar/Himalayasalt
nýmalaður svartur pipar eftir smekk

Hellið úr plómutómatadósinni í sigti í vaskinum og kreistið tómatana með hendinni til að losna við sem mest af vökva. Látið þá liggja í sigtinu í smá stund.

Blandið öllu öðru hráefni saman í meðalstórri skál. Afhýðið hvítlaukinn og pressið áður en hann fer í skálina og fínsaxið fersku basilíkuna, ef notuð. Áður en þið bætið plómutómötunum saman við er gott að kreista þá aðeins aftur í sigtinu og rétt þrýsta ofan á þá með lófanum til að losna við sem mest af vökvanum. Bætið þeim svo í skálina og maukið sósuna með töfrasprota.

Pizzasósan geymist í kæli í 3-5 daga í hreinni glerkrukku með loki.


Recipe in English



miðvikudagur, 15. apríl 2015

Pestó með basilíku

Uppskrift: klassískt pestó með basilíku · Lísa Stefan


Matarbiblían mín, Larousse Culinary Encyclopedia, fullyrðir að pestó komi frá Genúa og ekki rífst ég við hana. Það vill svo til að ég var þar fyrir mörgum árum síðan. Hið klassíska, ítalska pestó með basilíku, parmesanosti og furuhnetum er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég hef loksins eignast nýja og betri matvinnsluvél og geri því oft pestó í hádeginu. Líka má skrifa pestóneysluna á uppskriftabókina hennar (Cafe)Sigrúnar vinkonu því hún kvaldi mig með mörgum pestómyndum þegar við unnum í handritinu. Í bók Sigrúnar er klassísk pestóuppskrift (önnur hlutföll en mín; það eru til svo margar útgáfur) og graskersfræjapestó sem fékk mig til að kalla hátt yum ... yum! Muniði eftir senunni í Julie and Julia þegar ritstjórinn var að prófa uppskrift Child að boeuf bourguignon og lygndi aftur augunum í hamingjukasti? Það er það sem ég á við þegar ég segi yum ... yum! Ég lofa að deila uppskriftinni þegar bókin kemur út í haust.
Pestó, klassískt · Lísa Stefan


Með góða matvinnsluvél í eldhúsinu þarf aldrei að kaupa pestó í krukku. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir hversu auðvelt það er að útbúa pestó og það besta er að það má nota hvaða hlutföll sem er. Viltu meiri ólíuolíu? Notaðu þá meira! Meiri parmesanost? Láttu vaða! Ástæðan fyrir því að ég nota 60 grömm af basilíku er að ég fæ blöðin í 30-gramma pakkningu og næ akkúrat áferðinni sem mér líkar. Ef pestóið klárast ekki þá bæti ég örlitlu af ólífuolíu saman við og geymi í glerkrukku í kæli. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél þá má alltaf nota mortél.

PESTÓ MEÐ BASILÍKU

50 g furuhnetur
60 g fersk græn basilíkublöð
35 g parmesanostur
½-1 hvítlauksrif
½ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
klípa nýmalaður svartur pipar
50 ml lífræn jómfrúarólífuolía

Brúnið furuhnetur létt án olíu á pönnu til að kalla fram meira bragð.

Áður en þið setjið hráefnin í matvinnsluvélina er ágætt að skera parmesanostinn í þunnar sneiðar, og afhýða og grófsaxa hvítlaukinn. Látið matvinnsluvélina vinna á meðan þið hellið ólífuolíunni rólega ofan í skálina þar til pestóið þykknar. (Það veltur á gæðum vélarinnar en kannski þurfið þið að skafa hliðar skálarinnar einu sinni eða tvisvar.)

Berið pestóið fram með nýbökuðu snittu/brauði og eða pasta, laxi eða öðrum fiski, kjöti eða grænmeti.

Hugmynd mín að einföldum hádegisverði: Ég sýð tagliatelle eða linguine á meðan ég útbý pestóið (ég stilli klukkuna á al dente-suðutíma fyrir pastað). Ég læt vatnið renna af soðnu pastanu á meðan ég steiki sveppi í ólífuolíu og strái smá salti yfir. Pastað með sveppunum læt ég í skál og ber fram með pestóinu.


Aftur til Genúa. Ég tók lest þangað frá Zürich í gegnum Mílanó og tók leigubíl á tiltekna ferðaskrifstofu til að kaupa ferjumiða yfir til Sardiníu, eins og sagði í ferðahandbókinni (ekkert net í þá daga). Afgreiðslukonan horfði á mig með vorkunn og sagði að handbókin færi með rangt mál; ég ætti að kaupa miðann á ferjuhöfninni. (Heimska ferðahandbók!) Ég tók annan leigubíl út að höfn og rétt missti af ferju - klassískt. Sem betur fer var þetta fallegur sumardagur og ég man að seinnipartinn sat ég á tröppum á höfninni með bók og safaríkar ferskjur sem ég hafði keypt á markaði. Við hlið mér voru háskólastúdentar frá Mílanó (ég var yngri, bara 18) og einhvern veginn varð ég hluti af þeirra hóp án þess að vera hluti af honum. Ég talaði ekki ítölsku en það var eins og þau væru að líta eftir þessum einsama íslenska ferðalangi sem sat þarna við hliðina á þeim. Eftir öll þessi ár man ég enn eftir tveimur andlitum úr hópnum, þeim sem töluðu ensku. Ég get ekki sagt að ég hafi verið óörugg að ferðast ein en það var notalegt að sitja þarna með þeim þar sem biðin eftir ferjunni reyndist löng.