þriðjudagur, 9. apríl 2024

The Selected Letters of Ralph Ellison

Kápa bókarinnar The Selected Letters of Ralph Ellison (The Modern Library)


Það er fyrir löngu kominn tími á bloggfærslu og þar sem valin bréf rithöfundarins Ralphs Ellison er sú bók sem ég nærist á með morgunkaffinu þessa dagana er við hæfi að mæla með henni í bókarkápufærslu. The Selected Letters of Ralph Ellison var lengi á óskalistanum því ég vildi bíða eftir kiljunni sem kom út nýverið hjá The Modern Library (upphaflega gefin út innbundin fyrir um fjórum árum). Hún var biðarinnar virði. Ellison kann þá list að skrifa bréf, var afkastamikill á því sviði og því mjög áhugavert að kynnast sögu hans í gegnum bréfin. Ég á enn eftir að lesa Invisible Man (1952) og Juneteenth (1999, gefin út eftir andlát hans) en bæti úr því síðar.

Bréfin eru flokkuð eftir áratugum með inngangstexta ritstjórans John F. Callahan fyrir hvern. Ég mæli með að lesa bréfin á undan þannig að Ellison segi sína sögu og rödd hans fái að njóta sín. Stundum finnst mér full mikið um tilvitnanir í bréfin í inngangstextunum ásamt túlkun sem spillir „söguþræðinum“. Já, það má alveg tala um söguþráð í þessu samhengi því bréfin eru gjarnan löng og innihaldsrík. Þau fyrstu skrifar hann upp úr 1930, flest til móður sinnar sem bláfátækur námsmaður í Alabama.

Hann flyst svo til New York, sest að síðar í Harlem, og mér finnst sem bókin fari á flug með bréfi til ljóðskáldsins Langstons Hughes í byrjun árs 1939 þegar Ellison hefur snúið sér að skrifum („There is really little that I can tell you Lang. I spend all of my time trying to make a writer of myself ...“). Bréf til rithöfundarins Richards Wright (bók hans Native Son kom út 1940) eru mörg á 5. áratugnum og heillandi að sjá Ellison munda pennann („You told me I would begin to write when I matured emotionally, when I began to feel what I understood. I am beginning to understand what you meant“). Þetta bréfasafn verður best lýst sem góðri skáldögu sem erfitt er að leggja frá sér.

Kápuhönnun: Rachel Ake
Ljósmynd: James Whitmore/The LIFE


The Selected Letters of Ralph Ellison
Ritstjórar: John F. Callahan og Marc C. Conner
Kiljubrot, 1072 blaðsíður
ISBN: 9780593730072
The Modern Library


Túlípanar á kaffiborði, páskar 2024 · Lísa Hjalt
Bókastemningin hjá mér um páskana/Instagram