laugardagur, 13. maí 2017

Lestrarkompan 2017: Lessing, Athill, Borges ...

Lestrarkompan mín: Lessing, Athill, Borges ... · Lísa Hjalt


Nýverið rakst ég á frábært enskt orð sem er ekki að finna í orðabók: readlief (read og relief skeytt saman). Merking þess er þegar þú loksins kemst í það að byrja á bók sem þú hefur ætlað að lesa í mörg ár. Lestrarléttir væri kannski ágætt íslenskt orð, en bókalistarnir mínir hafa stuðlað að mörgum slíkum. Það er gefandi að strika bók af listanum og enn frekar ef hún reynist góð. Langar-að-lesa listinn minn styttist að vísu ekki neitt því ég er stöðugt að rekast á bækur sem rata á hann. Höfuðverkur bókaunnandans. Hér að neðan er að finna nokkrar pælingar um bækur sem voru á № 7 bókalistanum mínum, sem ég deildi í febrúar. Ég bjó til nýjan flokk fyrir þessar tilteknu færslur sem ég kalla Lestrarkompan (árið í titlinum gefur til kynna hvenær umræddur bókalisti birtist á blogginu).

№ 7 bókalisti (6 af 9):

· Fictions eftir Jorge Luis Borges. Þessu smásögusafni er ávallt lýst sem frumlegu. Það er bókmennta- og heimspekilegt og ekki fyrir alla. Ég hef ekki lesið neitt í líkingu við það. Fyrstu tvær sögurnar fönguðu mig ekki en um leið og ég byrjaði á þeirri þriðju þá var ekki aftur snúið. Sú saga kallast „Pierre Menard, Author of the Quixote“ (birtist í argentíska bókmenntaritinu Sur í maí 1939) og fjallar um mann sem endurskrifar Don Quixote eftir Cervantes, línu fyrir línu. Hugmyndin að sögunni er snilld.

· The Grass is Singing eftir Doris Lessing. Þegar ég lauk lestrinum var mín fyrsta hugsun á ensku: powerful. Síðan þá hef ég heyrt marga nota sama orð yfir bókina sem var sú fyrsta eftir Lessing og kom út árið 1950. Hún byrjar á morði á aðalsögupersónunni Mary Turner og eftir því sem líður á lesturinn kynnumst við bakgrunni hennar og hvað leiddi til þessa harmleiks, í raun hvað sundraði lífi hennar á bóndabæ í Suður-Ródesíu (núna Simbabve). Lessing ólst þarna upp og lýsir afríska landslaginu meistaralega. Það eru mánuðir síðan ég lauk lestrinum og ég er enn að hugsa um bókina sem er góð sálfræðistúdía.

· The Golden Notebook eftir Doris Lessing. Þessi telst til klassískra verka og er ekki fyrir alla. Ég átti erfitt með nokkra hluta, áveðnir partar fannst mér ýmist fullir af endurtekningum eða of langir, og það tók mig dágóðan tíma að klára bókina. En það er ekki hægt að þræta fyrir þá staðreynd að þetta er áhrifaríkt bókmenntaverk. Góðu hlutarnir eru eftirminnilegir og ég er glöð að ég tók loks af skarið og sneri þessari bók upp í lestrarlétti.

· Captain Corelli's Mandolin eftir Louis De Bernières. Ég las einhvers staðar að þetta væri skáldsaga með hjarta og sú lýsing á vel við. Það eina sem truflaði mig örlítið á fyrstu 100 blaðsíðunum eða svo voru kynningar á persónunum (hver fær sér kafla), en hann komst ekki hjá þeim því í bókinni koma margir við sögu. Bernières bætir upp fyrir þetta með dásamlegum, og oft kómískum, smáatriðum, sérstaklega lýsingum á lífinu í þorpinu (bókin gerist á grískri eyju í síðari heimsstyrjöldinni).

· Instead of a Book: Letters to a Friend eftir Diana Athill. Ég er hrifin af bréfum en undir lokin á þessu safni var ég við það að missa þolinmæðina. Athill og vinur hennar voru að eldast og síðustu bréfin innihéldu of mikið af tali um heilsufar, sem er ósköp eðlilegt á milli náinna vina en allt annað en skemmtilegt að lesa. Hún kemur einmitt að þessu í eftirmálanum og segir þetta vera ástæðu þess að hún hafði bréfin ekki fleiri. Bók hennar Stet er á langar-að-lesa listanum mínum og ég hef ekki lesið neitt nema lof um hana þannig að kannski ættuð þið að íhuga að lesa hana fyrst ef þið hafið áhuga á skrifum Athill.

· Local Souls eftir Allan Gurganus. Ég ákvað að fresta lestrinum á þessari. Eins og fram kom í bloggfærslunni ætlaði ég alltaf að lesa bók hans Oldest Living Confederate Widow Tells All  á undan þessari. Það var akkúrat það sem ég ákvað svo að gera.

· In Montmartre: Picasso, Matisse and Modernism in Paris, 1900-1910 eftir Sue Roe. Ég er ekki listfræðingur en ég held að höfundurinn hafi unnið heimavinnuna sína vel. Mér fannst bókin áhugaverð en hefði viljað sjá meira af ljósmyndum af málverkum (ég var stöðugt að fletta upp á netinu verkum sem komu fyrir í textanum til að vera viss um að ég væri með rétt í huga eða til að sjá þau sem ég kannaðist ekki við). Mér fannst gaman að lesa um Picasso, Matisse og aðra listamenn en stundum voru stuttar sögur úr lífi fólks sem tengdist þeim sem, að mínu mati, höfðu lítið vægi. Að því leyti hefði bókin mátt við frekari endurskrifum.

Hafið þið fundið fyrir lestrarlétti (readlief ) nýlega?

Þessa dagana er ég að klára að lesa bækurnar á № 8 bókalistanum og kem til með að skrifa tvo ritdóma, um stríðsdagbækur Astrid Lindgren, A World Gone Mad, og um skáldsöguna Pachinko eftir Min Jin Lee.