Sýnir færslur með efnisorðinu doris lessing. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu doris lessing. Sýna allar færslur

föstudagur, 16. nóvember 2018

№ 17 bókalisti: rithöfundatryggð

№ 17 bókalisti: rithöfundatryggð · Lísa Stefan


Árið 1971 skrifaði Joan Didion ritgerð um Doris Lessing sem byrjaði á orðunum: „To read a great deal of Doris Lessing over a short span of time is to feel that the original hound of heaven has commandeered the attic. She holds the mind's other guests in ardent contempt“ (The White Album, bls. 119). Áhugavert. Ég hef orð hennar í huga þegar ég les Martha Quest, fyrstu bókina af fimm í Children of Violence seríunni. Þessi bókalisti er að nokkru leyti byggður á rithöfundatryggð: skáldsögurnar The Grass Is Singing og The Golden Notebook eftir Lessing voru á lista № 7 og á síðasta voru bækur eftir Didion, Johnson og Baldwin.

№ 17 bókalisti:
1  Martha Quest  eftir Doris Lessing
2  Two Lives  eftir William Trevor
3  Housekeeping  eftir Marilynne Robinson
4  Where I Was From  eftir Joan Didion *
5  Play It as It Lays  eftir Joan Didion
6  The Uncommon Reader  eftir Alan Bennett
7  Jesus' Son  eftir Denis Johnson
8  Nobody Knows My Name  eftir James Baldwin
9  Will You Please Be Quiet, Please?  eftir Raymond Carver **

* Úr We Tell Ourselves Stories in Order to Live, útg. Everyman's Library.
** Úr Collected Stories, útg. The Library of America.

Í fyrsta sinn er ég að lesa verk eftir þá William Trevor og Raymond Carver, og Play It as It Lays er fyrsta skáldsagan eftir Didion sem ég les. Á næsta bókalista verða japanskar bókmenntir eingöngu. Ég lofaði öðrum slíkum lista fyrir löngu og ætla að uppfylla það loforð sem fyrst.



laugardagur, 13. maí 2017

Lestrarkompan 2017: Lessing, Athill, Borges ...

Lestrarkompan mín: Lessing, Athill, Borges ... · Lísa Stefan


Nýverið rakst ég á frábært enskt orð sem er ekki að finna í orðabók: readlief (read og relief skeytt saman). Merking þess er þegar þú loksins kemst í það að byrja á bók sem þú hefur ætlað að lesa í mörg ár. Lestrarléttir væri kannski ágætt íslenskt orð, en bókalistarnir mínir hafa stuðlað að mörgum slíkum. Það er gefandi að strika bók af listanum og enn frekar ef hún reynist góð. Langar-að-lesa listinn minn styttist að vísu ekki neitt því ég er stöðugt að rekast á bækur sem rata á hann. Höfuðverkur bókaunnandans. Hér að neðan er að finna nokkrar pælingar um bækur sem voru á № 7 bókalistanum mínum, sem ég deildi í febrúar. Ég bjó til nýjan flokk fyrir þessar tilteknu færslur sem ég kalla Lestrarkompan (árið í titlinum gefur til kynna hvenær umræddur bókalisti birtist á blogginu).

Lestrarkompan, № 7 bókalisti, 6 af 9:

Fictions eftir Jorge Luis Borges
Þessu smásögusafni er ávallt lýst sem frumlegu. Það er bókmennta- og heimspekilegt og ekki fyrir alla. Ég hef ekki lesið neitt í líkingu við það. Fyrstu tvær sögurnar fönguðu mig ekki en um leið og ég byrjaði á þeirri þriðju þá var ekki aftur snúið. Sú saga kallast „Pierre Menard, Author of the Quixote“ (birtist í argentíska bókmenntaritinu Sur í maí 1939) og fjallar um mann sem endurskrifar Don Quixote eftir Cervantes, línu fyrir línu. Hugmyndin að sögunni er snilld.

The Grass is Singing eftir Doris Lessing
Þegar ég lauk lestrinum var mín fyrsta hugsun á ensku: powerful. Síðan þá hef ég heyrt marga nota sama orð yfir bókina sem var sú fyrsta eftir Lessing og kom út árið 1950. Hún byrjar á morði á aðalsögupersónunni Mary Turner og eftir því sem líður á lesturinn kynnumst við bakgrunni hennar og hvað leiddi til þessa harmleiks, í raun hvað sundraði lífi hennar á bóndabæ í Suður-Ródesíu (núna Simbabve). Lessing ólst þarna upp og lýsir afríska landslaginu meistaralega. Það eru mánuðir síðan ég lauk lestrinum og ég er enn að hugsa um bókina sem er góð sálfræðistúdía.

The Golden Notebook eftir Doris Lessing
Þessi telst til klassískra verka og er ekki fyrir alla. Ég átti erfitt með nokkra hluta, áveðnir partar fannst mér ýmist fullir af endurtekningum eða of langir, og það tók mig dágóðan tíma að klára bókina. En það er ekki hægt að þræta fyrir þá staðreynd að þetta er áhrifaríkt bókmenntaverk. Góðu hlutarnir eru eftirminnilegir og ég er glöð að ég tók loks af skarið og sneri þessari bók upp í lestrarlétti.

Captain Corelli's Mandolin eftir Louis De Bernières
Ég las einhvers staðar að þetta væri skáldsaga með hjarta og sú lýsing á vel við. Það eina sem truflaði mig örlítið á fyrstu 100 blaðsíðunum eða svo voru kynningar á persónunum (hver fær sér kafla), en hann komst ekki hjá þeim því í bókinni koma margir við sögu. Bernières bætir upp fyrir þetta með dásamlegum, og oft kómískum, smáatriðum, sérstaklega lýsingum á lífinu í þorpinu (bókin gerist á grískri eyju í síðari heimsstyrjöldinni).

Instead of a Book: Letters to a Friend eftir Diana Athill
Ég er hrifin af bréfum en undir lokin á þessu safni var ég við það að missa þolinmæðina. Athill og vinur hennar voru að eldast og síðustu bréfin innihéldu of mikið af tali um heilsufar, sem er ósköp eðlilegt á milli náinna vina en allt annað en skemmtilegt að lesa. Hún kemur einmitt að þessu í eftirmálanum og segir þetta vera ástæðu þess að hún hafði bréfin ekki fleiri. Bók hennar Stet er á langar-að-lesa listanum mínum og ég hef ekki lesið neitt nema lof um hana þannig að kannski ættuð þið að íhuga að lesa hana fyrst ef þið hafið áhuga á skrifum Athill.

Local Souls eftir Allan Gurganus
Ég ákvað að fresta lestrinum á þessari. Eins og fram kom í bloggfærslunni ætlaði ég alltaf að lesa bók hans Oldest Living Confederate Widow Tells All  á undan þessari. Það var akkúrat það sem ég ákvað svo að gera.

In Montmartre: Picasso, Matisse and Modernism in Paris, 1900-1910 eftir Sue Roe
Ég er ekki listfræðingur en ég held að höfundurinn hafi unnið heimavinnuna sína vel. Mér fannst bókin áhugaverð en hefði viljað sjá meira af ljósmyndum af málverkum (ég var stöðugt að fletta upp á netinu verkum sem komu fyrir í textanum til að vera viss um að ég væri með rétt í huga eða til að sjá þau sem ég kannaðist ekki við). Mér fannst gaman að lesa um Picasso, Matisse og aðra listamenn en stundum voru stuttar sögur úr lífi fólks sem tengdist þeim sem, að mínu mati, höfðu lítið vægi. Að því leyti hefði bókin mátt við frekari endurskrifum.

Hafið þið fundið fyrir lestrarlétti (readlief ) nýlega?

Þessa dagana er ég að klára að lesa bækurnar á № 8 bókalistanum og kem til með að skrifa tvo ritdóma, um stríðsdagbækur Astrid Lindgren, A World Gone Mad, og um skáldsöguna Pachinko eftir Min Jin Lee.



miðvikudagur, 8. febrúar 2017

№ 7 bókalisti | Vanessa Bell sýning

№ 7 bókalisti | Vanessa Bell-sýning · Lísa Stefan


Í gamla minnisbók hef ég skrifað tilvitnun sem fær mig alltaf til að hlæja. Leikkonan Emma Thompson var í NYT-dálkinum By the Book og þegar hún var spurð út í síðustu bókina sem fékk hana til að gráta svaraði hún: „I was on holiday years ago with “Corelli’s Mandolin.” Rendered inconsolable and had to be put to bed for the afternoon“ (Sunday Book Review, 23.09.2012). Ég dýrk'ana. Það er kominn tími á annan bókalista og bók Bernières er á honum, Vintage Books útgáfa, fallega myndskreytt af Rob Ryan. Þarna er líka skáldsaga eftir Sigurð Pálsson, sem er í miklu uppáhaldi. Ég sá hann stundum á kaffihúsum í Reykjavík, alltaf svo smart til fara, gjarnan með mynstraðan silkihálsklút eða alpahúfu (hann lærði í Frakklandi). Ég hef þegar minnst á Doris Lessing og að ég væri að endurlesa Little Women. Hér er № 7 bókalistinn, sá fyrsti árið 2017 (til þæginda hef ég númerað listana):

1  Fictions  · Jorge Luis Borges
2  The Grass is Singing  · Doris Lessing
3  The Golden Notebook  · Doris Lessing
4  Captain Corelli's Mandolin  · Louis De Bernières
5  Instead of a Book: Letters to a Friend  · Diana Athill
6  Local Souls  · Allan Gurganus
7  Parísarhjól  · Sigurður Pálsson
8  Little Women  · Louisa May Alcott
9  In Montmartre: Picasso, Matisse and Modernism in Paris, 1900-1910  ·
Sue Roe


Ég er næstum því með samviskubit yfir því að hafa ekki lesið æviminningar Athill, Instead of a Letter, en þegar ég sá Instead of a Book á útsölu í Waterstones vissi ég að hún færi á listann minn. Í bókinni eru bréf sem hún skrifaði í yfir þrjátíu ár til ameríska ljóðskáldsins Edward Field, sem geymdi þau og vildi gefa út. Í innganginum bendir Athill gamansamlega á:
Usually when someone's letters are published the writer is dead. In this case there was a problem: Edward is six years younger than I am, but since I'm ninety-three that doesn't make him young. If he waited until I was dead he might be dead too. (bls. vii)
Hrós til rithöfunda sem fá mann til að skella upp úr í bókabúð! Ég hef aldrei lesið bók eftir höfundinn Gurganus. Ég keypti bókina hans eftir að hafa hlustað á samræður hans og Michael Silverblatt í Bookworm (þætti frá nóv. 2013) og endaði á því að hlusta á allar samræður þeirra. Ég var að hugsa um að setja hana upp í hillu og lesa fyrst Oldest Living Confederate Widow Tells All, en hún togaði í mig og fór á listann. Það gladdi mig að finna bók Roe á bókasafninu. Það eina sem ég get sagt um hana núna er að ég vildi að í henni væru fleiri myndir (á myndinni minni hér að ofan sést í málverk Modigliani, Caryatid, 1911).

Listaverk: Vanessa Bell, Nude with Poppies, 1916
Vanessa Bell, Nude with Poppies, 1916

Stundum vildi ég óska að ég byggi nær London. Þá gæti ég tekið næstu lest til að sjá Vanessa Bell sýninguna í Dulwich Picture Gallery sem opnar í dag (þangað er stutt lestarferð frá miðri London). Listakonan Vanessa Bell (1879–1961) tilheyrði bóhemíska Bloomsbury-hópnum og var systir Virginiu Woolf (ljósmyndin af henni sem sést á myndinni minni er tekin fyrir utan Charleston-setrið árið 1925). Sýningunni lýkur 4. júní. Í tengslum við sýninguna kemur út bókin Vanessa Bell (ritstj. Sarah Milroy, Philip Wilson Publishers) sem mig langar að eiga. Ef þið eruð Bell-aðdáendur þá langar mig að benda ykkur á safnaratölublað Harper's Bazaar UK, mars 2017, sem er eingöngu fáanlegt í gegnum Dulwich-safnið.

Ljósmynd af Vanessu Bell sem sést á minni mynd er úr bókinni Charleston: A Bloomsbury House & Garden og málverk Amedeo Modigliani úr bókinni In Montmartre á bókalistanum (© Musée d'Art Moderne de la Ville de Paris) | Vanessa Bell listaverk af vefsíðu Art UK (© 1961 estate of Vanessa Bell, Henrietta Garnett, Swindon Art Gallery)



föstudagur, 6. janúar 2017

Bækur og kaffi | Gleðilegt ár

Bækur og kaffi · Lísa Stefan


Gleðilegt ár! Ég vona að þið hafið slakað vel á yfir hátíðarnar og að ykkar bíði eitthvað skemmtilegt á árinu 2017. Við erum enn í hátíðargír, fyrir utan veislumatinn. Að springa úr seddu eftir gamlárskvöld stakk eitt barnanna upp á því að hafa bara epli og gulrætur á matseðli vikunnar, sem mér fannst helst til öfgafullt. Við vorum bara heima um jólin og röltum stundum í Waterstones til að fá okkur latte á kaffihúsinu þeirra. Það var nóg að skoða bara í bókabúðinni því nóg var um bækur undir jólatrénu. Muniði eftir því fyrir um mánuði síðan þegar ég minntist á að lesa aftur Little Women ef ég ætti innbundnu útgáfuna frá Penguin? Haldiði að eiginmaðurinn hafi ekki gefið mér hana í jólagjöf og tvö önnur klassísk verk. Þessar útgáfur eru svo fallegar. Ég hef ekki klárað verkin á síðasta bókalista en fór lesandi Louisu May Alcott inn í nýja árið. Þessa dagana er ég að nóta hjá mér hugmyndir fyrir þann næsta og eftir ferð okkar á bókasafnið á miðvikudaginn eru nokkrar sem bara bíða lesturs. Til að gefa ykkur vísbendingu: Á borðinu mínu sjáið þið The Golden Notebook eftir Doris Lessing. Ég deili listanum síðar.

Í desember horfði ég aðeins á sjónvarp (í meiningunni að ná nokkrum dagskrárliðum á BBC iPlayer - ég horfi ekki á sjónvarp, ég les). Maggie Smith og Alex Jennings voru frábær í myndinni The Lady in the Van (2015). Hvernig Alan Bennett hélt út fimmtán ár með Mrs Shepherd í innkeyrslunni er ofar mínum skilningi. Á BBC var sýnd heimildarmyndin Alan Bennett's Diaries (2016) eftir Adam Low sem var gaman að sjá. Ég er að hugsa um að lesa dagbækur Bennett eftir að hafa skoðað nýjasta bindið, Keeping On Keeping On, í bókabúð. Og já, ég var yfir mig hrifin af kvikmyndinni NW, í leikstjórn Saul Dibb, handritsgerð Rachel Bennette, sem er byggð á samnefndri bók eftir Zadie Smith. Ég kláraði bókina áður en ég horfði á hana og leikhópurinn var frábær, sérstaklega Nikki Amuka-Bird sem heldur betur á verðlaun skilið fyrir túlkun sína á Natalie/Keisha Blake. Hún var stórkostleg. Það eina sem olli mér vonbrigðum var að þau slepptu hinni tragísku og fyndnu Annie, úr „guest“-kaflanum um Felix, en ég skil vel út af hverju það var gert.

Jæja, tími til kominn að klára að gera fínt fyrir helgina. Fljótlega deili ég ritdómi mínum um Map Stories eftir Francisca Mattéoli, sem til stóð að gera fyrir jól, og ég er með nokkar kaffiborðsbækur í sjónmáli.