Sýnir færslur með efnisorðinu marilynne robinson. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu marilynne robinson. Sýna allar færslur

föstudagur, 16. nóvember 2018

№ 17 bókalisti: rithöfundatryggð

№ 17 bókalisti: rithöfundatryggð · Lísa Stefan


Árið 1971 skrifaði Joan Didion ritgerð um Doris Lessing sem byrjaði á orðunum: „To read a great deal of Doris Lessing over a short span of time is to feel that the original hound of heaven has commandeered the attic. She holds the mind's other guests in ardent contempt“ (The White Album, bls. 119). Áhugavert. Ég hef orð hennar í huga þegar ég les Martha Quest, fyrstu bókina af fimm í Children of Violence seríunni. Þessi bókalisti er að nokkru leyti byggður á rithöfundatryggð: skáldsögurnar The Grass Is Singing og The Golden Notebook eftir Lessing voru á lista № 7 og á síðasta voru bækur eftir Didion, Johnson og Baldwin.

№ 17 bókalisti:
1  Martha Quest  eftir Doris Lessing
2  Two Lives  eftir William Trevor
3  Housekeeping  eftir Marilynne Robinson
4  Where I Was From  eftir Joan Didion *
5  Play It as It Lays  eftir Joan Didion
6  The Uncommon Reader  eftir Alan Bennett
7  Jesus' Son  eftir Denis Johnson
8  Nobody Knows My Name  eftir James Baldwin
9  Will You Please Be Quiet, Please?  eftir Raymond Carver **

* Úr We Tell Ourselves Stories in Order to Live, útg. Everyman's Library.
** Úr Collected Stories, útg. The Library of America.

Í fyrsta sinn er ég að lesa verk eftir þá William Trevor og Raymond Carver, og Play It as It Lays er fyrsta skáldsagan eftir Didion sem ég les. Á næsta bókalista verða japanskar bókmenntir eingöngu. Ég lofaði öðrum slíkum lista fyrir löngu og ætla að uppfylla það loforð sem fyrst.



fimmtudagur, 13. september 2018

Lestrarkompan 2017: Roy, Mahfouz, Athill ...

Lestrarkompan mín: Roy, Mahfouz, Athill · Lísa Stefan


Ég var næstum búin að gleyma hversu dásamlegur september getur verið, aðallega stolin augnablik á veröndinni með bækur og kaffi. Lesandi undir markísunni, að kynna mér nýjar bækur á netinu eða hlusta á bókahlaðvörp, geta liðið klukkustundir án þess að ég taki eftir því. Svo lengi sem enginn truflar. Í gær voru birtir tveir listar með fyrstu tilnefningunum („longlists“) til verðlaunanna National Book Awards 2018. Ég var spennt fyrir þýddu skáldverkunum, sem er nýr flokkur. Á listanum voru tvær bækur sem ég hafði þegar nótað hjá mér: Disoriental eftir hina frönsk-írönsku Négar Djavadi og Flights eftir pólsku skáldkonuna Olga Tokarczuk (bók hennar hlaut Alþjóðlegu Man Booker verðlaunin). Í dag verða birtar tilnefningar fyrir ljóð og óskáldað efni, og á morgun fyrir skáldskap. Ef þið eruð í leit að lestrarhugmyndum þá ættuð þið að kynna ykkur listana. Nokkur orð um Lestrarkompuna mína: Ef mér líkar ekki bók sem birtist á bókalista hjá mér ekki láta það aftra ykkur frá því að lesa hana. Ég hef mínar skoðanir og smekk, en ég hef engan áhuga á því að segja fólki hvaða bækur skal lesa og ekki lesa. Svo lengi sem fólk les bækur og þær eru gefnar út er ég sátt.

Lestrarkompan, № 11 bókalisti, 6 af 9:

The Ministry of Utmost Happiness eftir Arundhati Roy
Ég vildi að ég gæti sagt ykkur að mér líkaði þessi skáldsaga, hennar fyrsta í tuttugu ár, en mér tókst ekki einu sinni að klára hana, gafst upp í kringum blaðsíðu 200. Hún er pólitísk, sem kemur ekki á óvart þegar höfundurinn er þekktur aðgerðasinni. En mér fannst eins og Roy væri að reyna að varpa ljósi á hvert einasta vandamál í indversku samfélagi, eins og ég væri að rekast á nýtt á hverri síðu. Kannski er auðveldara fyrir lesendur sem hafa lesið almenn rit Roy og fylgst með baráttu hennar að skilja hverju hún er að reyna að koma til skila í þessari sögu. Að mínu mati var stíllinn yfirhlaðinn og kaótískur. Af því sem ég las þá get ég ekki mælt með bókinni, en mér líkaði vel fyrsta skáldsaga hennar The God of Small Things, sem hlaut Man Booker-verðlaunin 1997.

Palace Walk eftir Naguib Mahfouz
Ég þurfti því miður að skila þessari á bókasafnið áður en ég náði að klára hana vegna flutninganna í fyrra (á eftir 150 síður eða svo). Nóbelskáldið Mahfouz er dásamlegur sögumaður og þessi bók er sú fyrsta í Kaíró-þríleiknum hans. Hún byrjar í borginni árið 1917 og við fáum að fylgjast með lífi Al Jawad-fjölskyldunnar. Faðirinn er harðstjóri sem sveiflast öfganna á milli: heima fyrir notar hann Kóraninn til að ráðskast með og kúga fjölskylduna en leggur svo „trúarkenningarnar“ til hliðar svo hann geti notið lystisemdanna sem næturlíf Kaíró býður upp á. Lesturinn er ekki alltaf skemmtilegur og þarna er nokkuð um múslimskar staðalímyndir. Bókin hefur ýtt á marga takka hjá mér og farið með mig í gegnum allan tilfinningaskalann, en ég ætla mér svo sannarlega að klára hana. Svo ætla ég að lesa hinar tvær, Palace of Desire og Sugar Street.

The Black Prince eftir Iris Murdoch
Ég þurfti líka að skila þessari á bókasafnið og hafði ekki lesið nógu mikið í henni til að geta farið út í smáatriði. Ég á eftir að næla mér í annað eintak og fjalla þá kannski um hana síðar.

Gilead eftir Marilynne Robinson
Prósi þessarar bókar er fallegur og samanstendur af bréfum aðalpersónunnar, prestsins John Ames. Til að segja ykkur nánar frá henni finnst mér best að gefa Barack Obama forseta orðið, en hann átti samræður við höfundinn árið 2015:
I first picked up Gilead, one of your most wonderful books, here in Iowa. ... And I’ve told you this—one of my favorite characters in fiction is a pastor in Gilead, Iowa, named John Ames, who is gracious and courtly and a little bit confused about how to reconcile his faith with all the various travails that his family goes through. And I was just—I just fell in love with the character, fell in love with the book.
Ef þið viljið lesa allar samræður þeirra þá getið þið fylgt þessum hlekk: The New York Review of Books. Ég mæli eindregið með Gilead fyrir lesendur sem þurfa ekki alltaf fléttu í bókum eða mikla atburðarás.

Waking Lions eftir Ayelet Gundar-Goshen
Þetta er önnur bók ísraelsku skáldkonunnar og ég hef þegar sagt ykkur frá sögusviðinu og hvernig ég frétti af bókinni. Þessi væri eins og týpísk spennusaga ef í henni væru ekki hlutar með sjálfskoðun persónanna, hlutar sem hægja á lestrinum: Á heimleið eftir vakt ekur læknir á mann sem deyr. Hann flýr af vettvangi og þegar ekkja mannsins bankar upp á hjá honum þá veit lesandinn að líf hans er við það að taka drastískum breytingum. Ég segi ekki meira. (Ensk þýð. Sondra Silverston.)

Instead of a Letter eftir Diana Athill
Lestur þessara æviminninga ollu mér vonbrigðum, aðallega vegna óspennandi innihalds, ekki skrifanna sjálfra. Fyrstu hundrað síðurnar fjalla um uppeldisárin og svo fer hún til Oxford í nám. Hún eyðir mörgum síðum í trúlofun sem upp úr slitnaði - tókst aldrei að kalla fram sérstaka vorkunn hjá mér - og í kynlífsreynslu sína á þrítugsaldri, sem líklega hneykslaði marga lesendur þegar bókin kom fyrst út árið 1962. Ég efast um að lesendur nútímans lyfti brúnum yfir þeim lýsingum. Það var ekki fyrr en undir lokin, í kafla 14 sem byrjar á bls. 168 (af 224), sem mér fannst bókin verða áhugaverð, þegar hún hóf störf í útgáfubransanum. Í lokin er bókin orðin að einhvers konar ferðaskrifum og frásögnin verður hálf brotakennd. Ég er þegar byrjuð á síðari æviminningabók hennar Stet þar sem hún einblínir á líf sitt sem ritstjóri hjá André Deutsch forlaginu (ekki lengur starfandi). Bókin hefur hlotið mikið lof og verður á næsta bókalista.



sunnudagur, 23. júlí 2017

№ 11 bókalisti | Miðausturlanda- og glæpasögur

№ 11 bókalisti | Miðausturlanda- og glæpasögur · Lísa Stefan
№ 11 bókalisti | persneskur köttur og Arundhati Roy · Lísa Stefan


Sunnudagsmorgun, kaffi, nýr bókalisti og Gilead eftir skáldkonuna Marilynne Robinson. Treystið mér, ekki amaleg byrjun á deginum. Júlí er enn ekki liðinn og ég er þegar að deila nýjum bókalista - annar listinn í mánuðinum! Ástæðan er einföld: það voru margar stuttar bækur á þeim síðasta. Nýi listinn er með örlitlu Miðausturlandabragði. Lengi hef ég ætlað að lesa Palace Walk, fyrstu bókina í Kaíró-þríleiknum eftir egypska höfundinn og Nóbelsverðlaunahafann Naguib Mahfouz. Annar höfundur sem ég er að lesa í fyrsta sinn er hin ísraelska Ayelet Gundar-Goshen. Kunningi og bókmenntaunnandi á Instagram mælti með seinni bók hennar Waking Lions (þýdd úr hebresku af Sondra Silverston) og gaf þrjár ástæður: 1) Gerist í borginni Beersheba (Beer-Sheva) sem, samkvæmt honum, er alveg nýtt í ísraelskum bókmenntum. 2) Er hið fullkomna sögusvið fyrir persónurnar, sem eru á jaðri þjóðfélagsins. 3) Sagan varpar eilitlu ljósi á kynþáttafordóma í Ísrael; hún er um flóttafólk frá Erítreu og Súdan. Það þurfti ekki meira til að selja mér bókina sem ég fékk að vísu á bókasafninu þegar ég sótti eintak mitt af nýjustu skáldsögu Arundhati Roy.

№ 11 reading list:
1  The Ministry of Utmost Happiness  eftir Arundhati Roy
2  Palace Walk  eftir Naguib Mahfouz
3  Waking Lions  eftir Ayelet Gundar-Goshen
4  The Black Prince  eftir Iris Murdoch
5  Gilead  eftir Marilynne Robinson
6  So You Don't Get Lost in the Neighbourhood  eftir Patrick Modiano
7  The Redbreast  eftir Jo Nesbø
8  Instead of a Letter  eftir Diana Athill
9  Let's Explore Diabetes with Owls  eftir David Sedaris


Ég er enn að lesa Jigsaw eftir Sybille Bedford sem var á síðasta bókalista en hef þegar klárað The Redbreast (Rauðbrystingur í íslenskri þýðingu) eftir Norðmanninn Jo Nesbø á þeim nýja. Á einhverjum punkti varð þessi þriðja bók um rannsóknarlögreglumanninn Harry Hole (sú fyrsta í Osló-seríunni) mjög spennandi og ég gat ekki lagt hana frá mér. Glæpasögur eru ekki beint sú tegund bókmennta sem ég sæki í en stundum hef ég lesið allt fáanlegt eftir ákveðinn glæpasagnahöfund (aðallega norrænu höfundana; það byrjaði allt með okkar manni Arnaldi Indriðasyni og sögupersónu hans Erlendi). Harry Hole hans Nesbø er áhugaverður karakter og ég verð að sjá hvað gerist í næstu bókinni um hann, Nemesis.

Ég er byrjuð á bók Sedaris en varð að hætta að lesa hana fyrir háttatíma því sonur minn, sem finnst notalegt að lesa með mér, gat ekki einbeitt sér að sinni bók vegna hlátursins í mér. Þetta er tár-renna-niður-kinnarnar hlátur. Ég reyndi að bæla hann niður en það tókst ekki. Sedaris er einfaldlega hættulega fyndinn og ég hlakka til að lesa Dagbækurnar. Marilynne Robinson er höfundur sem ég er að lesa aftur; ég las Home þegar við bjuggum í Luxembourg. Ég skil ekki út af hverju það hefur tekið mig svona langan tíma að næla mér í Gilead (báðar bækurnar gerast á sama tímabili í sama bænum, einnig bók hennar Lila). Prósinn í Gilead er virkilega fallegur; engin furða að bókin færði henni National Book Critics Circle verðlaunin og Pulitzer-verðlaunin fyrir bókmenntir árið 2005.
№ 11 bókalisti | Miðausturlanda- og glæpasögur · Lísa Stefan


Mig langar að enda á tilvísun í skáldkonuna Iris Murdoch (1919-1999) sem ég hef þegar deilt á @lisastefanat og langaði að halda til haga á blogginu líka. Spurð út í þá aðferð sem hún notar við skáldskapinn í viðtali sem birtist í The Paris Review, sumartölublaði ársins 1990, svaraði Murdoch:
Well, I think it is important to make a plan before you write the first sentence. Some people think one should write, George woke up and knew that something terrible had happened yesterday, and then see what happens. I plan the whole thing in detail before I begin. I have a general scheme and lots of notes. Every chapter is planned. Every conversation is planned. This is, of course, a primary stage, and very frightening because you've committed yourself at this point ... [Og þegar hún talar um næsta stig.] The deep things that the work is about declare themselves and connect. Somehow things fly together and generate other things, and characters invent other characters, as if they were all doing it themselves. (Tölublað 115, sumar 1990)