Sýnir færslur með efnisorðinu glæpasögur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu glæpasögur. Sýna allar færslur

föstudagur, 29. júní 2018

Nýjar bækur | Sumar í Bremen

Nýjar bækur | Sumar 2018 · Lísa Stefan


Tell me, what is it you plan to do
with your one wild and precious life?

Undanfarnar vikur hef ég verið að hugsa um þessar línur bandaríska ljóðskáldsins Mary Oliver (úr ljóðinu The Summer Day sem birtist í New and Selected Poems, Vol. One) og hef ekki enn fundið svar. Það er óhætt að segja að einföld spurning hennar komi huganum á flug. Mér finnst eins og ég sé ekki alveg lent í Þýskalandi. Ekki misskilja mig, mig langaði að flytja aftur til meginlandsins - menningin og lífsstíllinn í þessum hluta Evrópu á betur við mig - en hélt að á þessum tímapunkti hefði ég komið mér betur fyrir. Ég hef verið í leit að hlutastarfi þar sem ég get æft þýskuna áður en ég tek að mér meira krefjandi verkefni en hef ekki fundið neitt. Bókabúð svaraði ekki einu sinni tölvupósti frá mér. Hversu írónískt er það? Góðu fréttirnar eru þær að elsta dóttirin hefur lokið námi sínu í Skotlandi. Við fórum að sækja hana, tókum ferju frá Calais yfir Ermasundið og fengum að dást aftur að Hvítu klettunum í Dover.

Uppköstin bíða í röðum en mig langaði að enda þessa bloggþögn á lista yfir nýjar bækur. Ég er spennt fyrir nýrri skáldsögu Michael Ondaatje, Warlight, hans fyrstu í sjö ár. Ef þið eruð hrifin af verkum hans þá vil ég benda ykkur á nýlegt viðtal Eleanor Wachtel við hann fyrir CBC Radio. Hlaðvarpið hennar Writers and Company er eitt af þeim bestu fyrir bókaunnendur.

Nýjar bækur:
· Warlight  eftir Michael Ondaatje (Vintage). Síðasta bókin sem ég las eftir hann var Anil's Ghost, og á undan henni, The English Patient. Líkaði báðar. Þið kunnið nú þegar að hafa tekið eftir bókarkápunni í hliðardálki bloggsins og megið búast við að sjá hana á bókalista í náinni framtíð.
· The Beautiful Summer  eftir Cesare Pavese (Penguin). Þroskasaga sem gerist á Ítalíu á fjórða áratug síðustu aldar. Kom fyrst út árið 1949.
· The Years  eftir Annie Ernaux (Fitzcarraldo, í þýðingu Alison L. Strayer). Þetta er breska útgáfan en æviminningar hennar á ensku hafa þegar komið út í BNA. „[A] masterpiece memoir of French life“ segir í titli ritdóms The Guardian. Hann kveikti áhuga minn og ég ætla að lesa bókina þó að ég hafi aldrei lesið neitt eftir höfundinn.
· There There  eftir Tommy Orange (Vintage). Ein af tveimur frumraunum á þessum lista yfir nýjar bækur, gerist í samfélagi Indjána í Oakland, Kaliforníu, þar sem höfundurinn fæddist og ólst upp. Þessi bók hefur fengið góða dóma. Flott bókarkápa.


· 100 Books That Changed the World  eftir Scott Christianson og Colin Salter (Rizzoli). „A tour of global history by way of history’s most important scrolls, manuscripts, and printed books, from Plato and Homer to the twenty-first century—100 must reads.“ Bók um bækur sem gæti verið gaman að hafa á kaffiborðinu. Þessi kom út í vor en mig langaði að hafa hana á listanum.
· The Collected Stories of Machado de Assis  (Liveright Publishing, í þýðingu Margaret Jull Costa + Robin Patterson). Í sannleika sagt man ég ekki eftir að hafa heyrt um Joaquim Maria Machado de Assis (1839-1908), einn mesta rithöfund Brasilíu, þar til ég las ritdóm Parul Sehgal fyrir The New York Times. Ég hengi höfuðið í skömm. Ef ykkur líkar smásögur þá ætti það að gleðja ykkur að safnið er 930 blaðsíður.
· A Place for Us  eftir Fatima Farheen Mirza (Vintage). Frumraun höfundar sem fjallar um indversk-múslimska fjölskyldu sem undirbýr brúðkaup elstu dótturinnar. Útgáfustjórinn Sarah Jessica Parker valdi bókina fyrir útgáfumerkið SJP for Hogarth. Ég hef oft varann á þegar stórstjörnurnar leggja nafn sitt við eitthvað en ég veit að Parker er ötull lesandi og hef heyrt hana mæla með góðum bókum. Höfundurinn, sem ólst upp í Kaliforníu en á rætur að rekja til Indlands, var nýlega í viðtali í The Guardian, sem þið hafið kannski áhuga á.
· The Outsider  eftir Stephen King (Hodder & Stoughton). Að lokum, ný spennusaga fyrir alla King-aðdáendur.

Café Tölke í Schnoor-hverfinu í Bremen, Þýskalandi · Lísa Stefan
Café Tölke í Schnoor-hverfinu, Bremen

Í vor ætlaði ég að deila myndum frá Bremen á blogginu en komst aldrei í það. Sumarið kom snemma og á hlýjum sunnudegi hjólaði ég inn í miðbæ og fór í göngutúr um gamla Schnoor-hverfið. Það var of sólríkt fyrir myndatökur en ég tók þessa mynd sem fangar stemninguna fyrir framan Café Tölke, eitt af fyrstu kaffihúsunum sem ég fór á eftir að við fluttum hingað. Lítið og sjarmerandi kaffihús sem sérhæfir sig í kökum og bökum. Þegar þið finnið borð og setjist niður með kaffibolla og eplastrúdel gætuð þið fengið það á tilfinninguna að svo lengi sem þessi staður helst opinn verður veröldin í lagi. Þannig er andi sumra kaffihúsa.



sunnudagur, 23. júlí 2017

№ 11 bókalisti | Miðausturlanda- og glæpasögur

№ 11 bókalisti | Miðausturlanda- og glæpasögur · Lísa Stefan
№ 11 bókalisti | persneskur köttur og Arundhati Roy · Lísa Stefan


Sunnudagsmorgun, kaffi, nýr bókalisti og Gilead eftir skáldkonuna Marilynne Robinson. Treystið mér, ekki amaleg byrjun á deginum. Júlí er enn ekki liðinn og ég er þegar að deila nýjum bókalista - annar listinn í mánuðinum! Ástæðan er einföld: það voru margar stuttar bækur á þeim síðasta. Nýi listinn er með örlitlu Miðausturlandabragði. Lengi hef ég ætlað að lesa Palace Walk, fyrstu bókina í Kaíró-þríleiknum eftir egypska höfundinn og Nóbelsverðlaunahafann Naguib Mahfouz. Annar höfundur sem ég er að lesa í fyrsta sinn er hin ísraelska Ayelet Gundar-Goshen. Kunningi og bókmenntaunnandi á Instagram mælti með seinni bók hennar Waking Lions (þýdd úr hebresku af Sondra Silverston) og gaf þrjár ástæður: 1) Gerist í borginni Beersheba (Beer-Sheva) sem, samkvæmt honum, er alveg nýtt í ísraelskum bókmenntum. 2) Er hið fullkomna sögusvið fyrir persónurnar, sem eru á jaðri þjóðfélagsins. 3) Sagan varpar eilitlu ljósi á kynþáttafordóma í Ísrael; hún er um flóttafólk frá Erítreu og Súdan. Það þurfti ekki meira til að selja mér bókina sem ég fékk að vísu á bókasafninu þegar ég sótti eintak mitt af nýjustu skáldsögu Arundhati Roy.

№ 11 reading list:
1  The Ministry of Utmost Happiness  eftir Arundhati Roy
2  Palace Walk  eftir Naguib Mahfouz
3  Waking Lions  eftir Ayelet Gundar-Goshen
4  The Black Prince  eftir Iris Murdoch
5  Gilead  eftir Marilynne Robinson
6  So You Don't Get Lost in the Neighbourhood  eftir Patrick Modiano
7  The Redbreast  eftir Jo Nesbø
8  Instead of a Letter  eftir Diana Athill
9  Let's Explore Diabetes with Owls  eftir David Sedaris


Ég er enn að lesa Jigsaw eftir Sybille Bedford sem var á síðasta bókalista en hef þegar klárað The Redbreast (Rauðbrystingur í íslenskri þýðingu) eftir Norðmanninn Jo Nesbø á þeim nýja. Á einhverjum punkti varð þessi þriðja bók um rannsóknarlögreglumanninn Harry Hole (sú fyrsta í Osló-seríunni) mjög spennandi og ég gat ekki lagt hana frá mér. Glæpasögur eru ekki beint sú tegund bókmennta sem ég sæki í en stundum hef ég lesið allt fáanlegt eftir ákveðinn glæpasagnahöfund (aðallega norrænu höfundana; það byrjaði allt með okkar manni Arnaldi Indriðasyni og sögupersónu hans Erlendi). Harry Hole hans Nesbø er áhugaverður karakter og ég verð að sjá hvað gerist í næstu bókinni um hann, Nemesis.

Ég er byrjuð á bók Sedaris en varð að hætta að lesa hana fyrir háttatíma því sonur minn, sem finnst notalegt að lesa með mér, gat ekki einbeitt sér að sinni bók vegna hlátursins í mér. Þetta er tár-renna-niður-kinnarnar hlátur. Ég reyndi að bæla hann niður en það tókst ekki. Sedaris er einfaldlega hættulega fyndinn og ég hlakka til að lesa Dagbækurnar. Marilynne Robinson er höfundur sem ég er að lesa aftur; ég las Home þegar við bjuggum í Luxembourg. Ég skil ekki út af hverju það hefur tekið mig svona langan tíma að næla mér í Gilead (báðar bækurnar gerast á sama tímabili í sama bænum, einnig bók hennar Lila). Prósinn í Gilead er virkilega fallegur; engin furða að bókin færði henni National Book Critics Circle verðlaunin og Pulitzer-verðlaunin fyrir bókmenntir árið 2005.
№ 11 bókalisti | Miðausturlanda- og glæpasögur · Lísa Stefan


Mig langar að enda á tilvísun í skáldkonuna Iris Murdoch (1919-1999) sem ég hef þegar deilt á @lisastefanat og langaði að halda til haga á blogginu líka. Spurð út í þá aðferð sem hún notar við skáldskapinn í viðtali sem birtist í The Paris Review, sumartölublaði ársins 1990, svaraði Murdoch:
Well, I think it is important to make a plan before you write the first sentence. Some people think one should write, George woke up and knew that something terrible had happened yesterday, and then see what happens. I plan the whole thing in detail before I begin. I have a general scheme and lots of notes. Every chapter is planned. Every conversation is planned. This is, of course, a primary stage, and very frightening because you've committed yourself at this point ... [Og þegar hún talar um næsta stig.] The deep things that the work is about declare themselves and connect. Somehow things fly together and generate other things, and characters invent other characters, as if they were all doing it themselves. (Tölublað 115, sumar 1990)