fimmtudagur, 1. júní 2017

№ 9 bókalisti: japanskar bókmenntir I



Hugmyndin að japönskum bókalista kviknaði fyrir mörgum mánuðum síðan og þegar ég byrjaði að skrifa höfunda og titla í vasabókina sá ég strax að listarnir yrðu fleiri en einn. Þrátt fyrir að orðið snjór komi fyrir í einum titlinum hér að neðan fannst mér tilvalið að fara inn í sumarið lesandi japanskar bókmenntir. Þessi fyrsti listi er eilítið styttri en hann átti að vera, einfaldlega vegna þess að ein bók sem ég pantaði hefur enn ekki borist og á síðustu stundu ákvað ég að hafa ekki á honum tvö verk eftir sama höfund. Það þýðir að skáldsaga eftir Yasunari Kawabata, sem hlaut Nóbelsverðlaunin árið 1968, færist yfir á næsta. Þeir sem fylgjast með blogginu ættu að kannast við Tanizaki, en verk hans The Makioka Sisters var á einum lista. Það gladdi mig þegar einn blogglesandi sagðist hafa ákveðið að lesa bókina og notið lestursins rétt eins og ég.

№ 9 bókalisti:
1  First Snow on Fuji  eftir Yasunari Kawabata
2  The Temple of the Golden Pavilion  eftir Yukio Mishima
3  Some Prefer Nettles  eftir Jun'ichirō Tanizaki
4  The Tale of Genji  eftir Murasaki Shikibu *
5  The Tale of Genji  eftir Murasaki Shikibu **
6  My Neighbor Totoro: The Novel  eftir Tsugiko Kubo ***

Ensk þýðing eftir: * Edward G. Seidensticker; ** Dennis Washburn
*** Myndskreyting eftir Hayao Miyazaki

Eins og sjá má eru á listanum tvær óstyttar útgáfur af The Tale of Genji og ég hef enn ekki ákveðið hvora ég ætla að lesa. Sú sem Washburn þýddi er ný útgáfa í kiljubroti frá W. W Norton & Co, hin er innbundin frá Everyman's Library. Ég er að reyna að panta þessa í þýðingu Seidensticker í gegnum bókasafnið, sem er ástæða þess að ég hef frestað birtingu listans. Ef ég næ ekki að redda henni þá þarf ég bara að ákveða hvora ég kaupi. Kannski hafið þið tekið eftir því á Instagram að ég er byrjuð að lesa The Temple of the Golden Pavilion eftir Mishima. Hann setti í skáldsöguform söguna um munkinn sem árið 1950 kveikti í Gullna hofinu í Kyoto, sem var reist á 15. öld (Bandaríkjamenn vörpuðu ekki sprengjum á hofin í stríðinu). Þessi atburður var sjokkerandi. Fyrir dómi sagðist ungi munkurinn hafa verið að mótmæla markaðssetningu búddisma. Fræðimaðurinn Donald Keene skrifar aftur á móti í inngangi bókarinnar: „[H]e may have been directly inspired by nothing more significant than pique over having been given a worn garment when he had asked the Surperior of the temple for an overcoat“! (Hann á sem sagt að hafa beðið um nýja yfirhöfn og móðgast þegar hann fékk notaða!) Ég er meira en hálfnuð með bókina og Gullna hofið sem stendur enn er byrjað að trufla hugarró aðalsöguhetjunnar, sem ég myndi lýsa sem frekar fráhrindandi einstaklingi.


Hafið þið séð teiknimyndina My Neighbour Totoro (1988) eftir Hayao Miyazaki? Hún er ein af japönsku myndunum í uppáhaldi á okkar bæ. Í fyrra sat ég með syni mínum á bókakaffinu í Waterstones hér í bænum þegar hann spottaði bókina í hillu. Við höfðum ekki hugmynd um tilvist bókarinnar. Kom þá í ljós að skáldsaga var gerð eftir kvikmyndinni með myndskreytingum Miyazaki. Bókin er svo falleg og við nældum okkur að sjálfsögðu í eintak. Sonurinn hafði virkilega gaman af lestrinum og nú er röðin komin að mér.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.