Sýnir færslur með efnisorðinu junichiro tanizaki. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu junichiro tanizaki. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 22. mars 2022

№ 30 bókalisti: Proust að vori

№ 30 bókalisti: bókabunki; Marcel Proust, Lydia Davis, Siri Hustvedt · Lísa Stefan


Vorið er komið og því löngu tímabært að uppfæra bloggið með nýjum bókalista. Ég deildi þeim síðasta í janúar en mér til varnar þá er ég virkari á Instagramsíðunni minni sem snýst um bækur. Í góðan áratug hef ég ætlað að lesa hinn franska Marcel Proust, meistaraverkið À la recherche du temps perdu (Í leit að týndum tíma; In Search of Lost Time), og lét verða af því nýverið að kaupa enska þýðingu, fyrsta bindið af fjórum frá bókaútgáfunni Everyman’s Library. Skáldverkið samanstendur af sjö bókum og bindið inniheldur Swann’s Way (fr. Du côté de chez Swann), sem flestir þekkja, og fyrri partinn af Within a Budding Grove (fr. À l'ombre des jeunes filles en fleurs). Eftir að hafa lesið nokkrar síður finn ég strax að sögumaðurinn heillar mig og ríkur prósinn líka. Proust að vori verður ánægjuleg afþreying.

№ 30 bókalisti:

1  Essays Two  · Lydia Davis
2  Swann's Way  · Marcel Proust
3  What I Loved  · Siri Hustvedt
4  Der Untergeher  · Thomas Bernhard [þýsk]
5  The Makioka Sisters  · Jun'ichirō Tanizaki [endurlestur]

Ensk þýðing: 1) Swann's Way: C. K. Scott Moncrieff and Terence Kilmartin;
5) The Makioka Sisters: Edward G. Seidensticker

Það má segja að Essays Two eftir Lydiu Davis hafi ýtt við mér að lesa Proust því hún er höfundur nýjustu ensku þýðingarinnar á Swann's Way og fjallar um það verkefni í nokkrum esseyjum. (Þýðingin sem ég er að lesa er mun eldri en hefur verið uppfærð.) Þetta safn ritgerða er það fyrsta sem ég les eftir Davis og einnig er ég að lesa skáldverk eftir Siri Hustvedt í fyrsta sinn. Það vill svo skemmtilega til að Hustvedt hefur verið gift rithöfundinum Paul Auster (4 3 2 1, New York þríleikurinn) í fjörutíu ár, en Davis er fyrrverandi eiginkona hans.

Ég hef minnst á það áður að í hvert sinn sem bók veldur mér það miklum vonbrigðum að ég klára hana ekki að þá endurles ég einhverja uppáhaldsbók. Á síðasta lista var My Brilliant Friend eftir Elenu Ferrante, fyrsta bókin í Napólí-fjórleik hennar, í enskri þýðingu. Ég virkilega reyndi en gafst endanlega upp á 20. kafla. Hvorki söguþráðurinn né persónurnar höfðuðu til mín og mér fannst stíllinn einkennast af endurtekningum. Til að bæta mér þetta upp ákvað ég að endurlesa The Makioka Sisters, klassískt verk eftir hinn japanska Tanizaki. Það er notalegt að verja tíma með Systrunum fyrir svefninn.

Listaverk: Richard Diebenkorn, Untitled, 1981
Richard Diebenkorn, Untitled, 1981

Richard Diebenkorn listaverk af @diebenkornfoundation



miðvikudagur, 9. janúar 2019

№ 18 bókalisti: japanskar bókmenntir II

№ 18 bókalisti: japanskar bókmenntir II · Lísa Stefan


Nýtt ár, nýr japanskur bókalisti, loksins. Ég veit að nokkrir hafa beðið eftir þessum. Ég var með listann niðurnegldan en þurfti að gera smá breytingar því tvær bækur sem mig langaði að lesa núna voru ófáanlegar í enskri þýðingu á bókasafninu; þær verða bara á þeim þriðja. The Pillow Book eftir Sei Shonagon er, líkt og The Tale of Genji sem var á þeim fyrsta, klassískt rit eftir japanska hirðdömu skrifað um árið 1000, á Heian-tímabilinu í sögu Japans. Ég veit af enskri þýðingu eftir Ivan Morris frá árinu 1967 en ég er að lesa nýrri eftir Meredith McKinney, gefin út af Penguin Classics.

№ 18 bókalisti:
1  The Pillow Book  · Sei Shonagon
2  No Longer Human  · Osamu Dazai
3  Scandal  · Shusaku Endo
4  The Old Capital  · Yasunari Kawabata
5  Quicksand  · Junichiro Tanizaki
6  Death in Midsummer and Other Stories  · Yukio Mishima
7  Lost Japan  · Alex Kerr

Enskar þýðingar (í þessari röð): 1) Meredith McKinney; 2) Donald Keene; 3) Van C. Gessel;
4) J. Martin Holman; 5) Howard Hibbett; 6) Edward G. Seidensticker, Ivan Morris o.fl.;
7) Alex Kerr og Bodhi Fishman.

Titill bloggfærslunnar segir japanskar bókmenntir en í þetta sinn varð ég að bæta einu almennu riti á listann, Lost Japan eftir Alex Kerr, sem hann skrifaði upprunalega á japönsku. Þið kunnið að hafa séð hana nú þegar á Instagram hjá mér. Bókin var jólagjöf frá minni elstu, sem gaf mér einnig Orientalism eftir Edward W. Said. Vel valið hjá henni, ekki satt? Flestar bækurnar á bókalistanum eru fljótlesnar - ég er þegar að verða búin með þrjár þeirra - þannig að ég geri fastlega ráð fyrir að deila öðrum lista í byrjun febrúar. Gleðilegt og gæfuríkt ár!



þriðjudagur, 13. mars 2018

Lestrarkompan 2017: japanskar bókmenntir I

Lestrarkompan 2017: japanskar bókmenntir I · Lísa Stefan


Á næstu vikum ætla ég að gera mitt besta til að klára Lestrarkompufærslur ársins 2017 og í dag deili ég áliti mínu á þeim bókum sem var að finna á fyrsta listanum mínum með japönskum bókmenntum eingöngu. Það gleður mig alltaf þegar ég heyri frá blogglesendum sem nota listana til að velja sér lestrarefni; enn meira þegar þeir njóta lestursins. Ég hef þegar verið spurð að því hvenær ég ætli að deila næsta japanska lista en ástæðan fyrir því að ég frestaði honum er sú að ég hef ekki klárað The Tale of Genji (sjá neðar). Á þeim lista verður bókin The Pillow Book eftir Sei Shonagon, annað klassískt verk eftir japanska hirðdömu, og mig langar að klára Genji áður en ég les hana. Þetta þýðir að lesendur bloggsins þurfa að bíða aðeins lengur.

Lestrarkompan, № 9 bókalisti:

First Snow on Fuji eftir Yasunari Kawabata
(Ensk þýðing: Michael Emmerich.)

Á meðan lestrinum stóð fékk ég það á tilfinninguna að takmörkuð þekking mín á japanskri menningu stæði í vegi fyrir að ég nyti þessara smásagna betur. Mér fannst líka eins og ég hefði fyrst þurft að lesa skáldsögur eftir Kawabata (ein verður á næsta japanska lista, og mér finnst líklegt að einn daginn lesi ég þetta sögusafn aftur). Það voru aðallega þrjár sögur sem höfðuðu til mín: „Silence“, „Nature“ og sú sem gefur bókinni titil sinn, „First Snow on Fuji“. Fuji-sagan er í uppáhaldi, en hún fjallar um tvo fyrrum elskendur sem fara saman í ferðalag þar sem þau sjá fjallið út um lestargluggann.

The Temple of the Golden Pavilion eftir Yukio Mishima
(Ensk þýðing: Ivan Morris.)

Þegar ég deildi listanum var ég um það bil hálfnuð með bókina og sagði ykkur frá, að því er mér fannst, fráhrindandi söguhetjunni. Mishima moðaði skáldsögu úr sögunni um munkinn sem kveikti í Gullna hofinu árið 1950. Ég man ekki eftir því að hafa fundist nokkur söguhetja eins fráhrindandi. Ég fann ekki nokkra samúð með gæjanum og þegar leið á söguna varð hann sífellt meira ógeðfelldari. Sennilega er það snilldin við bókina. Ég get ekki sagt að hún hafi verið skemmtilestur. Það væri betra að lýsa lestrarupplifuninni sem áhugaverðri.

Some Prefer Nettles eftir Jun'ichirō Tanizaki
(Ensk þýðing: Edward G. Seidensticker.)

Stutt skáldsaga um menningarlega togstreitu, þar sem gamla og nýja Japan mætast. Bókin veitir innsýn í heim japansks brúðuleikhúss. Ef frá er talinn tvíræður endirinn líkaði mér bókin, mér líkaði prósinn, en mæli ekki með að fólk lesi þessa fyrst ef það hefur aldrei lesið bók eftir Tanizaki. The Makioka Sisters er enn mín uppáhaldsbók eftir hann, og ein af mínum allra uppáhaldsbókum.

The Tale of Genji eftir Murasaki Shikibu
Á bókalistanum voru tvær þýðingar og ég keypti þá eftir Edward G. Seidensticker, sem Everyman's Library gaf út. Eins og ég nefndi áður þá hef ég ekki lokið lestrinum. Ekki það að mér líki ekki bókin, heldur fannst mér eins og ég þyrfti einhvers konar kennslubók til að skilja þann heim sem hún lýsir. Fyrir löngu síðan skráði ég mig í kúrs um heimsbókmenntir í gegnum netið, sem ég náði aldrei að klára, og á honum var einmitt Genji tekin fyrir. Ég áttaði mig á því að ég hafði enn aðgang að fyrirlestrunum og efninu á netinu og ákvað því að taka lestrarpásu. Því miður fer kúrsinn ekki í gegnum bókina kafla fyrir kafla en fyrirlestrarnir hjálpuðu mér að fá betri innsýn í þennan heim. Núna kýs ég að lesa einn til tvo kafla í einu og velta þeim fyrir mér áður en ég held áfram. Bókin er blanda af prósa og ljóðum og lýsir fornri japanskri menningu (Heian-tímabilið), pólitík og samfélagi keisarahirðarinnar. Siðir hennar voru mér framandi en núna finnst mér ég skilja verkið betur. Ég er heilluð af því hvernig sögupersónurnar eiga samskipti með því að skiptast á ljóðum - aðallega elskhugar - og hlutverki skrautskriftar. Í verkinu er stöðugt verið að vísa í plöntur og ég stend sjálfa mig að því að fletta upp myndum af þeim á netinu.

My Neighbor Totoro: The Novel eftir Tsugiko Kubo
Þessi dásamlega bók fyrir börn (á öllum aldri) inniheldur upprunalegu teikningar leikstjórans Hayao Miyazaki (bókin er gerð eftir teiknimyndinni frá Studio Ghibli). Ef þið eruð þreytt á því sem ég kýs að kalla hávaðasamar barnabækur þá vil ég trúa því að þessi komi ykkur á óvart og kæti. Hún fjallar um hina ellefu ára gömlu Satsuki og systur hennar Mei og hvernig þær uppgötva Totoro, skógarveru sem býr yfir göldrum. (Ef hávaðasamar teiknimyndir fá ykkur til að missa trúna á mannkyninu þá get ég mælt með teiknimyndinni, My Neighbour Totoro (1988).)

Þeir sem fylgja mér á Instagram kunna að hafa tekið eftir nokkrum nýjum bókum. Ég deili bráðum № 14 bókalistanum, ég þarf bara að komast á háskólabókasafnið í Bremen áður og grípa þar tvö verk sem ég vil hafa á honum. Til að segja eins og er held ég að sterkar líkur séu á því að ég missi alla sjálfstjórn og fái fleiri bækur að láni á safninu.



fimmtudagur, 1. júní 2017

№ 9 bókalisti: japanskar bókmenntir I

Japanskur bókalisti (№ 9): Kawabata, Tanizaki, Mishima, Shikibu · Lísa Stefan


Hugmyndin að japönskum bókalista kviknaði fyrir mörgum mánuðum síðan og þegar ég byrjaði að skrifa höfunda og titla í vasabókina sá ég strax að listarnir yrðu fleiri en einn. Þrátt fyrir að orðið snjór komi fyrir í einum titlinum hér að neðan fannst mér tilvalið að fara inn í sumarið lesandi japanskar bókmenntir. Þessi fyrsti listi er eilítið styttri en hann átti að vera, einfaldlega vegna þess að ein bók sem ég pantaði hefur enn ekki borist og á síðustu stundu ákvað ég að hafa ekki á honum tvö verk eftir sama höfund. Það þýðir að skáldsaga eftir Yasunari Kawabata, sem hlaut Nóbelsverðlaunin árið 1968, færist yfir á næsta. Þeir sem fylgjast með blogginu ættu að kannast við Tanizaki, en verk hans The Makioka Sisters var á einum lista. Það gladdi mig þegar einn blogglesandi sagðist hafa ákveðið að lesa bókina og notið lestursins rétt eins og ég.

№ 9 bókalisti:
1  First Snow on Fuji  eftir Yasunari Kawabata
2  The Temple of the Golden Pavilion  eftir Yukio Mishima
3  Some Prefer Nettles  eftir Jun'ichirō Tanizaki
4  The Tale of Genji  eftir Murasaki Shikibu *
5  The Tale of Genji  eftir Murasaki Shikibu **
6  My Neighbor Totoro: The Novel  eftir Tsugiko Kubo ***

Ensk þýðing eftir: * Edward G. Seidensticker; ** Dennis Washburn
*** Myndskreyting eftir Hayao Miyazaki

Eins og sjá má eru á listanum tvær óstyttar útgáfur af The Tale of Genji og ég hef enn ekki ákveðið hvora ég ætla að lesa. Sú sem Washburn þýddi er ný útgáfa í kiljubroti frá W. W Norton & Co, hin er innbundin frá Everyman's Library. Ég er að reyna að panta þessa í þýðingu Seidensticker í gegnum bókasafnið, sem er ástæða þess að ég hef frestað birtingu listans. Ef ég næ ekki að redda henni þá þarf ég bara að ákveða hvora ég kaupi. Kannski hafið þið tekið eftir því á Instagram að ég er byrjuð að lesa The Temple of the Golden Pavilion eftir Mishima. Hann setti í skáldsöguform söguna um munkinn sem árið 1950 kveikti í Gullna hofinu í Kyoto, sem var reist á 15. öld (Bandaríkjamenn vörpuðu ekki sprengjum á hofin í stríðinu). Þessi atburður var sjokkerandi. Fyrir dómi sagðist ungi munkurinn hafa verið að mótmæla markaðssetningu búddisma. Fræðimaðurinn Donald Keene skrifar aftur á móti í inngangi bókarinnar: „[H]e may have been directly inspired by nothing more significant than pique over having been given a worn garment when he had asked the Surperior of the temple for an overcoat“! (Hann á sem sagt að hafa beðið um nýja yfirhöfn og móðgast þegar hann fékk notaða!) Ég er meira en hálfnuð með bókina og Gullna hofið sem stendur enn er byrjað að trufla hugarró aðalsöguhetjunnar, sem ég myndi lýsa sem frekar fráhrindandi einstaklingi.


Hafið þið séð teiknimyndina My Neighbour Totoro (1988) eftir Hayao Miyazaki? Hún er ein af japönsku myndunum í uppáhaldi á okkar bæ. Í fyrra sat ég með syni mínum á bókakaffinu í Waterstones hér í bænum þegar hann spottaði bókina í hillu. Við höfðum ekki hugmynd um tilvist bókarinnar. Kom þá í ljós að skáldsaga var gerð eftir kvikmyndinni með myndskreytingum Miyazaki. Bókin er svo falleg og við nældum okkur að sjálfsögðu í eintak. Sonurinn hafði virkilega gaman af lestrinum og nú er röðin komin að mér.



mánudagur, 13. febrúar 2017

Lokasetning eftir Tanizaki | Virginia Woolf

Lokasetning eftir Tanizaki | Virginia Woolf · Lísa Stefan


Ég veit ekki með ykkur en í bókabúðum stend ég mig oft að því að lesa fyrstu setningu bókar eða fyrstu málsgreinina. Ég kíki aldrei á lokasetninguna því ég vil ekki vita hvernig bókin endar, en ég þekki nokkra sem gera það. Í janúar kláraði ég að lesa The Makioka Sisters eftir japanska rithöfundinn Jun'ichirō Tanizaki (1886-1965), í þýðingu Edward G. Seidensticker (útgáfa frá Everyman's Library). Án þess að gefa upp sögulokin þá verð ég að deila með ykkur lokasetningunni, sem óþarfi er að þýða: „Yukiko's diarrhea persisted through the twenty-sixth, and was a problem on the train to Tokyo“ (bls. 498).

Þurfið þið að lesa þessa setningu aftur? Ég þurfti þess.

Í hvert sinn sem ég lýk lestri bókar þá koma venjulega upp í hugann persónur, söguflétta, þemu o.s.frv., og stundum skrifa ég kannski nokkrar línur í minnisbókina mína. Í þetta sinn var hugurinn eitthvað á þessa leið, Okei, vantar kafla í bókina? Er þetta endirinn? Ég meira að segja sneri bókinni við - ég held að ég hafi rólega hrist hana - til að finna kaflann sem vantaði. Þegar ég svo loksins áttaði mig á því það var ekkert meira, að þetta var lokasetningin, þá sprakk ég úr hlátri. Þetta er ein sú eftirminnilegasta lokasetning sem ég hef nokkurn tíma lesið.

Ég fæ enn hláturkast þegar ég horfi á þessa síðu; þessi lokasetning kemur úr svo óvæntri átt.

Prósi bókarinnar The Makioka Sisters er mjög róandi (á meðan lestrinum stóð sagði ég við vini að þetta væri stundum eins og hugleiðsla). Ég man ekki eftir bók með svo rólegum prósa. Hún er nokkuð löng, skiptist í þrjá bækur, en ég naut þess að lesa hana. Í aðalatriðum fjallar hún um leit Makioka-fjölskyldunnar að eiginmanni fyrir þriðju systurina þannig að hægt sé að gifta þá fjórðu og yngstu, sem er þegar komin með vonbiðil. Þemað er eins og í hvaða skáldsögu sem er eftir Jane Austen en stíllinn er gjörólíkur. Þetta er áhugaverð samfélagsskoðun, japönsk menning og siðir á ákveðnu tímabili: Bókin hefst árið 1936 og lýkur í apríl 1941; stríð geisar þegar í Evrópu en árásin á Pearl Harbor hefur enn ekki átt sér stað. Þegar lestrinum lýkur þá veit maður að stórkostlegar breytingar eru í vændum.

The Makioka Sisters var á № 6 bókalistanum og þá sagðist ég vera að nóta hjá mér hugmyndir að japönskum lista. Á honum munuð þið finna The Tale of Genji eftir Murasaki Shikibu, klassískt japanskt verk frá 11. öld, sem margir telja fyrstu skáldsögu heimsins, sem einmitt Tanizaki þýddi yfir á nútímalegra japanskt mál. Á listanum verður líka Some Prefer Nettles eftir Tanizaki - ég segi ekki meira þar til ég birti hann.

Úr umfjöllun um Virginia Woolf, „Bloomsbury & Beyond“, Harper's Bazaar UK

Kannski hafið þið þegar séð Vanessa Bell umfjöllunina sem ég deildi á Instagram í síðastu viku, úr Harper's Bazaar UK, marstölublaðinu 2017. Það eru mánuðir síðan ég keypti tískutímarit en ég næstum hljóp út í búð þegar ég sá að bæði Bell og systir hennar Virginia Woolf voru í menningarþættinum. Umfjöllunin um Woolf kallast „Bloomsbury & Beyond“ og byrjar á ljósmynd af skrifborðinu hennar í Monk's House, heimili hennar í Sussex (sjá efstu myndina mína), og lýkur með smásögunni The Lady in the Looking Glass, sem birtist í janúartölublaðinu 1930. Ódýr Penguin-útgáfa af The Lady in the Looking Glass inniheldur líka sögur hennar A Society, The Mark on the Wall, Solid Objects og Lappin and Lapinova. Sú síðasta birtist í apríltölublaðinu 1939, en hún sést efst í vinstra horninu á myndinni minni hér að ofan. Ef þið hafið áhuga á smásögum þá má held ég finna allar eftir Woolf á netinu.

Opna úr Harper's Bazaar UK, mars 2017, bls. 324-25 · Harry Cory Wright | Frakklandskortið á minni mynd er úr bókinni Map Stories: The Art of Discovery eftir Francisca Mattéoli (Octopus Publishing Group) © Bibliothèque Nationale de France



föstudagur, 9. desember 2016

№ 6 bókalisti | Bókmenntaleg póstkort

№ 6 bókalisti:  James Wood, Jun'ichirō Tanizaki, Karl Ove Knausgård ... · Lísa Stefan


Þegar finna má um þúsund bækur á óska- og langar-að-lesa-listanum þá er ekki auðvelt að forgangsraða þeim, en ég er alveg viss um að fyrstu tvær á listanum verði undir trénu þessi jól. Mig langaði að þakka einum bókabloggara fyrir að hafa mælt með bókinni eftir Carrión en glataði hlekknum þegar harði diskurinn minn hrundi fyrir nokkrum vikum síðan. Bókin er löng ritgerð um hvers vegna bókabúðir skipta máli og hann fer með lesandann á ferðalag um heiminn og heimsækir ýmsar bókabúðir, eins og Shakespeare & Company í París, Strand í NY og Librairie des Colonnes í Tangier, til að nefna nokkrar. James Wood er fastur penni og bókagagnrýnandi hjá The New Yorker og bókin hans er blanda æviminninga og gagnrýni. Hér er síðasti bókalistinn 2016:

1  Bookshops  · Jorge Carrión
2  The Nearest Thing to Life  · James Wood
3  The Makioka Sisters  · Jun'ichirō Tanizaki
4  The Noise of Time  · Julian Barnes
5  All We Shall Know  · Donal Ryan
6  A Man in Love: My Struggle 2  · Karl Ove Knausgård
7  Boyhood Island: My Struggle 3  · Karl Ove Knausgård
8  The Return: Fathers, Sons and the Land in Between  · Hisham Matar


Í minnisbókina var ég byrjuð að nóta hjá mér hugmyndir að japönskum bókalista til að deila síðar. Mig hefur lengi langað til að lesa bók Tanizaki og gat ekki beðið lengur þegar ég áttaði mig á því að ég gat pantað eintak á bókasafninu. Ég hef ekki lokið lestri á bókum Zadie Smith á síðasta bókalista en er þegar byrjuð að lesa Barnes og Ryan. Sá síðarnefndi er írskur höfundur sem ég uppgötvaði bara nýlega og mér líkar ritstíll hans. Ég er ansi spennt að halda áfram að lesa sjálfsævisögulegu skáldsögurnar hans Karl Ove Knausgård. Þegar ég kláraði fyrstu My Struggle bókina langaði mig að fara beint á bókasafnið að sækja þá næstu. Allt það jákvæða sem hefur verið sagt og skrifað um hana reyndist satt og ég held að næstu tvær standi undir væntingum mínum. Ég hlakka til að lesa The Return, æviminningar líbíska skáldsins Hisham Matar. Hann var bara nítján ára þegar föður hans var rænt í Líbíu, sem var þá undir stjórn Gaddafi, og það er líklegt að hann hafi dáið í fangelsi í Trípólí. Fyrir mörgum árum síðan las ég fyrstu skáldsögu Matar, In the Country of Men (Í landi karlmanna í ísl. þýð.). Ég man ekki lengur smáatriðin en man að hún hróflaði við mér.


„Give me books, fruit, French wine, fine weather and a little music.“ Þessar línur frá John Keats eru á póstkorti hérna á borðinu. Það er hannað af Obvious State, stúdíói í New York sem hannar pappírsvörur og aðra muni fyrir hina bókmenntahneigðu. Ertu að leita að jólagjöf fyrir bókaunnandann? Leitinni lýkur í vefverslun þeirra þar sem má finna minnisbækur, bókamerki, taupoka og fleira. Þau gefa núna sérstakan hátíðarafslátt. Ég fékk send fjögur póstkort sem voru óvænt gjöf, þakklætisvottur fyrir það að hafa bætt #osfall myllumerkinu þeirra við eina bókamynd á @lisastefanat.
Leskrókurinn í borðstofunni · Lísa Stefan


Mér finnst gaman að tengjast lesendum bloggsins og það er skemmtilegt að fá tölvupóst frá ókunnugu fólki sem hefur kannski verið hrifið af bók sem ég deildi. Síðan ég fór að birta bókalistana hef ég fengið nokkra tölvupósta með spurningum eins og: Líkaði þér þessi bók? Ætlarðu að fjalla um þessa? Í svörum mínum bendi ég á þetta: Bókalistarnir er aðallega á blogginu vegna þess að ég er mikil bókakona og er bara að gefa fólki hugmyndir að lesefni. Það stendur ekki til að skrifa ritdóm um hverja bók á bókalistunum. Greinilega eru sumir lesendur forvitnir eða hafa áhuga á að vita hvað mér finnst þannig að héðan í frá er hugmyndin sú að skrifa kannski nokkrar línur í athugasemdakerfi hverrar bókalistafærslu, eftir að hafa klárað allt á listanum. Ég ætla að hugsa þetta aðeins.

Ég hef notið þess að lesa bækurnar á listum þessa árs með örfáum undantekningum. Kannski mun ég koma þeim hugsunum í orð í sér færslu. Leyfið mér að hugsa það líka.

Einn lesandi spurði mig hvaða leskrókur væri í uppáhaldi. Ég á nokkra en þessa dagana hef ég aðallega verið að lesa í borðstofunni á meðan ég nýt langs hádegisverðar. Ég smellti mynd af algengri sýn: Á þeim degi var það pasta, í dag var það hummus og pítubrauð.