föstudagur, 25. september 2015

Iznik-leirmunir | Perumöffins

Perumöffins · Lísa Hjalt


Það má gleðjast yfir nokkrum atriðum í þessum septembermánuði. Í næsta bæ hefur nýtt kaffihús opnað og hönnunin kom mér skemmtilega á óvart; hrár stíll í bland við iðnaðarstíl. Ég finn mér afsökun til að hjóla oftar út á pósthús til þess að setjast niður með bók og latte áður en ég held heim. Svo er það umfjöllun um Iznik-leirmuni í nýjasta tölublaði The World of Interiors með mótífum og litum sem hafa heltekið mig. Downton Abbey þættirnir hafa snúið aftur á skjáinn hérna megin hafs með áhugaverðan söguþráð og glæsilega búningahönnun. Þið sem hafið séð þáttinn, tókuð þið eftir bláa kimono-sloppinum hennar Lady Mary? Jæja, hvað meira? Himneskur ilmur af perumöffinsum að bakast í ofninum. Það eru litlu hlutirnir ...
Iznik-leirmunir · Lísa Hjalt


Byrjum á umfjölluninni í októbertölublaði The World of Interiors, þar sem listasögufræðingurinn John Carswell gagnrýnir doðrantinn The Ömer Koç Iznik Collection eftir Hülya Bilgi (600 síður, vegur 5 kíló, fáanlegur hjá John Sandoe Books). Þetta er bæklingur í bókaformi sem sýnir safn Iznik-leirmuna í eigu Koç-fjölskyldunnar, sem er ein sú auðugasta í Tyrklandi. Í sinni áhugaverðu rýni kemur Carswell stuttlega inn á sögu Iznik-leirmunaiðnaðarins frá byrjun 15. aldar til endalokanna 300 árum síðar. Til forna var fyrrum býsanski bærinn Iznik, 100 km suðaustur af Istanbul, í blóma vegna legu hans á helstu viðskiptaleið Anatólíuskagans (Litla-Asía) frá Austurlöndum. Í dag er hann „lítill svefnbær“ en á síðari hluta 13. aldar var hann „einn af fyrstu höfuðstöðunum sem Ottóman-veldið lagði undir sig“.

Myndirnar í umfjölluninni sýna heillandi mótíf á flísum, krúsum og diskum sem máluð eru í líflegum litum. Samkvæmt Carswell eru aðalsmerki Iznik-hönnunar kóbalt-blár, túrkis, mangan-fjólublár, ólífugrænn og rauður. „Í hönnuninni eru ósnortin tyrknesk mótíf sameinuð staðfærðum eiginleikum innflutts kínversks postulíns í bláu og hvítu“ og hann bætir við síðar að „[v]ið höfum enga hugmynd um af hverju þeir völdu þessi ákveðnu sett af mótífum og sameinuðu þau með svo sérkennandi og sérstökum hætti.“


Ef þið eruð á leið til Tyrklands þá getið þið skoðað Iznik-flísar í Topkapi-höllinni í Istanbul. Verðið á fyrrnefndum doðranti er hærra en það sem ég eyði í bækur þessa dagana en fyrir þá sem hafa áhuga þá fann ég tvær ódýrari bækur á netinu sem ég myndi gjarnan vilja skoða og jafnvel finna sess á stofuborðinu mínu: Iznik Pottery and Tiles: In the Calouste Gulbenkian Collection eftir Maria d'Orey Capucho og Iznik: The Artistry of Ottoman Ceramics eftir Walter B. Denny.


Ég er ekki alveg búin með tal um mynstur. Sýningar eru hafnar á sjöttu þáttaröð Downton Abbey og ég er bálskotin í bláa kimono-sloppnum hennar Lady Mary sem leikkonan Michelle Dockery bar svo vel í nokkrum senum í fyrsta þættinum. Ég reyndi að finna myndir af honum á netinu til að sjá smáatriði mynstursins en hafði ekki heppnina með mér þannig að ég setti bara þáttinn á pásu í ITV-spilaranum í spjaldtölvunni og smellti af myndum (afsakið léleg gæði).

Ég veit ekki hvort kimono-sloppurinn sé notuð flík eða sérstaklega hannaður fyrir þættina en ég er heilluð af sniðinu og litnum. Ég held að búningahönnuðurinn Anna Robbins sé að gera frábæra hluti og mér finnst flott hvernig hún sýnir tísku þriðja áratugar síðustu aldar. Ég verð að viðurkenna að ég hafði næstum því gefist upp á Downton Abbey eftir síðustu seríu, sem mér fannst full af þreyttum, endurteknum söguþráðum, en ég er glöð að ég gaf þáttunum annað tækifæri á sunnudaginn. Fyrsti þátturinn lofar góðu ... alla vega búningarnir.


Í myndunum má sjá prufur af Benaki-veggfóðri í litnum blue mink frá Lewis & Wood
og Wild Thing-efninu í copper cobalt

Nú líður að október og hérna er rétt aðeins farið að hausta. Það er kominn tími til að fagna árstíðinni og gera möffins úr öllum þessum perum. Þið hefðuð átt að sjá hamingjusvipinn á andlitum barnanna þegar þessi möffins biðu þeirra hér á borðinu eftir skóla um daginn.
Perumöffins · Lísa Hjalt


Þessi möffins eru hóflega sykruð og stútfull af perum. Ég var spurð að því um daginn í gegnum ensku útgáfu bloggsins út af hverju ég notaði glútenlaust lyftiduft þegar ég virðist baka með mjöli sem inniheldur glúten. Málið er að í ensku eigum við ekki orðið vínsteinslyftiduft heldur er slíkt lyftiduft bara merkt glútenlaust og hjá mér er glútenlausa lyftiduftið frá Doves Farm í uppáhaldi. Mér líkar ekki hefðbundið lyftiduft því það virðist hafa eftirbragð sem truflar mig (notið helmingi minna í uppskriftina ef þið notið hefðbundið). Nokkur orð um valið á milli „buttermilk“ (ekki ósvipuð súrmjólk en meira fljótandi) og perumauks í eggjablönduna: Það veltur á því hvort perurnar séu vel þroskaðar eða mátulega. Ef þær eru enn svolítið harðar þá nota ég gjarnan perumauk (ég kaupi Hipp Organic-maukið fyrir ungbörn) sem gefur möffinsunum ríkara perubragð. Ef perurnar eru vel safaríkar þá bý ég til mína eigin „buttermilk“ með mjólk og sítrónusafa (sjá aðferð neðst). Ég veit að sumir nota gjarnan súrmjólk í uppskriftir sem innihalda „buttermilk“ en ég hef aldrei bakað perumöffinsin með súrmjólk.

PERUMÖFFINS

3 meðalstórar perur
1 stórt (hamingju)egg
75 g lífrænn hrásykur
1-1½ matskeið lífrænt hunang (eða hreint hlynsíróp)
1½ matskeið kókosolía
60 ml „buttermilk“ (sjá inngang) eða lífrænt perumauk
200 g fínmalað spelti (eða lífrænt hveiti)
50 g grófmalað spelti
2½ teskeið vínsteinslyftiduft
¼ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
½ teskeið kardamoma
¼ teskeið múskat
má sleppa: klípa negull

Flysjið og kjarnhreinsið perurnar og skerið þær svo í smáa bita. Setjið þær til hliðar.

Hrærið saman eggi, sykri, hunangi, buttermilk/perumauki og kókosolíu í skál (ef olían er í föstu formi setjið þá lokaða krukkuna í skál með heitu vatni fyrir notkun). Ef þið notið heimagerða „buttermilk“ geymið hana þá í mælikönnunni í nokkrar mínútur og hrærið út í þegar hún hefur þykknað.

Blandið saman spelti, vínsteinslyftidufti, salti og kryddum í stórri skál.

Hellið eggjablöndunni út í stóru skálina og blandið hráefnunum rólega saman með sleif. Bætið fínskornum perubitunum saman við og veltið deiginu til með sleif án þess að hræra mikið. Til að byrja með kann deigið að virka þurrt en perurnar gefa því raka.

Smyrjið 12 möffinsform úr silíkoni með örlítilli kókosolíu (ef notuð eru stök silíkonform er þægilegt að setja þau ofan í stálform og baka þannig). Bakið við 200°C (180°C á blæstri) í 22-25 mínútur. Bíðið með það í nokkrar mínútur að taka möffinsin úr silíkonformunum og látið þau svo kólna á kæligrind.

Recipe in English.

Ef þið viljið nota „buttermilk“ í uppskriftina í staðinn fyrir perumauk þá er aðferðin auðveld: Hellið 60 ml af mjólk í litla mælikönnu og bætið 1 teskeið af nýkreistum sítrónusafa út í. Hrærið rólega og látið mjólkina standa í nokkrar mínútur uns hún hefur þykknað.



mánudagur, 21. september 2015

English Ethnic línan frá Lewis & Wood

Textíll: English Ethnic-línan frá Lewis & Wood · Lísa Hjalt


Í síðustu bloggfærslu notaði ég prufur frá Lewis & Wood, ensku fyrirtæki á sviði textíls og veggfóðurs, og sagði að meira kæmi síðar. Þau höfðu sent mér bunka af efna- og veggfóðurprufum en sumar þeirra höfðu þegar heillað mig á vefsíðu þeirra. Það sem kom mér á óvart voru mynstur í sendingunni frá þeim sem höfðu ekki fangað athygli mína á vefnum en voru svo ótrúlega falleg þegar ég gat skoðað smáatriðin í hönnunni með mínum eigin augum og fundið áferð efnisins. Ég ætla að deila nokkrum mynstrum síðar en í dag, með lattebollanum, einblíni ég á mynstrin Womad og Bacchus úr English Ethnic línunni sem kom á markað á síðasta ári og er hönnuð af listakonunum Su Daybell, Flora Roberts og Melissa White. Línunni hefur verið vel tekið og mynstrin hafa birst í ýmsum tímaritum.

English Ethnic-línan frá Lewis & Wood · Lísa Hjalt


Hjá Lewis & Wood tala þau um Su Daybell sem sitt wild card (afsakið slettuna). Hún er listakonan sem hannaði hið hrífandi mynstur Womad, með abstrakt blómum og mótífum. Efnið sem er 100% lín er til í tveimur litum, brúnum og bláum sem kallast burnish og celestial. Ég ætla ekki að segja ykkur hvað ég er bálskotin í þessu brúna, sem sést á efstu myndinni minni. Ég hreinlega get ekki hætt að dást að því. Litapaletta Womad-veggfóðursins samanstendur af þremur fallegum bláum, brúnum og gulum tónum, sem kallast stream, silt og sand.

Í forgrunni: Womad veggfóðurprufur - litir (frá vinstri): silt, sand og stream

Fyrir línuna hannaði Daybell einnig mynstrið Force 9, sem ætti að höfða til allra sem hræðast ekki djarfa hönnun. Fyrir þá sem hafa áhuga þá má sjá stíliseringu á því í lit sem kallast gravel í septembertölublaði House & Garden árið 2014.

Bacchus veggfóður og efni eftir listakonuna Melissa White - litur: mead

Mynstrið Bacchus eftir listakonuna Melissa White fyrir English Ethnic línuna hefur svo sannarlega fest sig í sessi á markaðnum. Í síðasta ágústtölublaði tímaritsins The World of Interiors var blái litur þess, sem kallast grigio, valinn á lista yfir bestu djörfu, stóru mynstrin á markaðnum. Tímaritið BBC Antiques Roadshow Magazine útnefndi mynstrið í gulum lit sem kallast mead sem vinningshafa í flokknum „Besta prentaða efnið 2014“. Í júlíhefti þeirra ársins 2014 var umfjöllun um White þar sem hún var heimsótt við störf á vinnustofu sinni, en þar er að finna upprunalega listaverkið hennar sem við þekkjum núna sem Bacchus-mynstrið.

Í bæklingi frá Lewis & Wood, sem kynnir línuna og hönnuðina, segir að Melissa White sé vel þekkt fyrir veggmyndir og máluð efni í anda Elísabetar-tímabilsins [gullöldin í sögu Englands þegar Elísabet I var drottning], að „fræðileg hrifning hennar af yfirborðsmynstrum og sögulegum smáatriðum“ gefi hönnun hennar „raunverulegt yfirvald.“ Bacchus-mynstrið, úr 100% líni eða sem veggfóður, er fáanlegt í þremur gulum, gráum og bláum tónum: mead, malt og grigio. Ekki til umfjöllunar hér er annað mynstur sem hún hannaði fyrir línuna, Rococo-veggfóðrið.

English Ethnic-línan frá Lewis & Wood · Lísa Hjalt
English Ethnic-línan frá Lewis & Wood · Lísa Hjalt


Listakonan Flora Roberts, sem er þekkt fyrir veggskreytingar sínar, var sú þriðja sem var valin til hanna fyrir English Ethnic línuna. Glæsileg mynstur hennar Doves og Sika má skoða á vefsíðu Lewis & Wood.

Lewis & Wood var stofnað árið 1993 af Stephen Lewis, sérfræðingi í textílprentun, og innanhússhönnuðinum Joanna Wood. Til að byrja með fór starfsemin fram í kjallarahúsnæði í London en árið 2008 var starfsemin flutt í stóra byggingu í Woodchester Mill, í Stroud Valley dölunum í Gloucestershire. Ef þið eruð á ferð í London þá eru þau með sýningarsal í Design Centre East á Chelsea Harbour svæðinu.

English Ethnic-línan frá Lewis & Wood · Lísa Hjalt
Í vinstra horninu: sýnishorn af efninu Bacchus eftir listakonuna Melissa White - litur: grigio



miðvikudagur, 16. september 2015

Bókin Charleston: A Bloomsbury House & Garden

Umfjöllun um bókina Charleston: A Bloomsbury House & Garden · Lísa Hjalt


Í sumar fékk ég góða viðbót í safnið þegar eiginmaðurinn gaf mér bókina Charleston: A Bloomsbury House and Garden eftir Quentin Bell og dóttur hans Virginíu Nicholson. Quentin var sonur listakonunnar Vanessu Bell (systir rithöfundarins Virginiu Woolf) og eiginmanns hennar Clive. Bókin rekur sögu Charleston-setursins í Sussex, sem Vanessa tók á leigu á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar - á þeim tímapunkti var hjónaband hennar og Clive bara að nafninu til. Auk sona hennar bjuggu hjá henni listamaðurinn Duncan Grant og vinur hans David Garnett, en þeir voru elskendur. Það vill svo til að Vanessa og Duncan eignuðust dóttur sem hét Angelica og fæddist í húsinu. Fyrrnefndur David kvæntist henni síðar á ævinni. Það er ekki efni þessarar færslu en það er óhætt að segja að sambönd gátu oft verið örlítið flókin, eða eigum við að segja mjög áhugaverð, innan Bloomsbury-hópsins, eins og vinahópurinn var kallaður (sjá einnig nýlega færslu mína Þáttaröðin Ferkantað líf ). Bókin um Charleston er skemmtileg og smáatriðin í stílnum eru endalaus uppspretta innblásturs; bóhemískur stíll með dásamlegum persónulegum og listrænum snúningi.

Svefnherbergi Vanessu Bell, bls. 58

Bókin er sett upp þannig að hvert rými fær sinn kafla sem rekur sögu þess, hvernig það var notað og innréttað. Quentin var 85 ára gamall þegar hann byrjaði að skrifa bókina. Hann hafði lokið fyrsta uppkastinu þegar heilsu hans hrakaði. Þegar hann gat ekki lengur skrifað var það dóttir hans Virginia sem sat og hlustaði á sögur hans af húsinu og tók þær upp, en hún þekkti húsið einnig vel. Hann lést árið 1996 og það var hún sem kláraði bókina. Köflunum er skipt niður í hluta sem eru merktir með upphafsstöfum þeirra þannig að lesandinn veit alltaf hver skrifar. Ljósmyndir af rýmunum eru eftir Alen MacWeeney og í myndatexta má finna ýmis smáatriði. Það eru einnig gamlar svarthvítar ljósmyndir af heimilisfólki og vinum þeirra, en húsið varð vinsæll dvalarstaður Bloomsbury-hópsins.

Vanessa átti herbergið sem sést hér að ofan. Það var áður matargeymsla en árið 1939 var henni breytt og í stað lítils glugga komu franskir gluggar sem opnast út í garðinn. Ég hef aldrei farið að skoða Charleston en þetta horn er nú þegar í uppáhaldi. Fallega skrifborðið hennar er franskt frá 19. öld. Hún hannaði gluggatjöldin fyrir Omega-vinnustofurnar árið 1913. Gluggatjöldin sem sjást á myndinni eru endurgerð Laura Ashley frá árinu 1986.

Setustofa Duncans í vinnustofunni, bls. 67

Eftir samningsviðræður tók Vanessa húsið á langtímaleigu, sem þýddi að hún og Duncan gátu byggt alvöru vinnustofu. Hún var tilbúin árið 1925 með nægu plássi til að mála og með rými fyrir þá sem sátu fyrir á myndum. Roger Fry, sem tilheyrði Bloomsbury-hópnum og setti á stofn Omega-vinnustofurnar, aðstoðaði við bygginguna. Duncan notaði hluta rýmisins sem setustofu. Hann skreytti skilrúmin á bak við stólinn og panilana í kringum arininn upp úr 1930. Síðar, eða árið 1939, breytti Vanessa herbergi á efstu hæðinni í vinnustofu sem hún hafði út af fyrir sig.

Glugginn í svefnherbergi Duncans, bls. 109

Quentin segir í bókinni að hann hafi sofið í öllum herbergjum í Charleston en að svefnherbergið sem Duncan átti hafi verið í mestu uppáhaldi, en í því herbergi var skemað hvað mest útpælt. Vanessa málaði skreytingarnar í kringum gluggann og hún hannaði einnig ábreiðuna á franska gluggasætinu.

Í skrifstofuherbergi Clive Bell, bls. 47

Myndin hér að ofan sýnir skrifstofuherbergi Clive Bell, sem var áður notað sem stofa. Clive hafði verið tíður gestur í húsinu en árið 1939 flutti hann inn. Vanessa málaði skreytingarnar í kringum gluggann árið 1916-17. Duncan málaði flísarnar í borðplötunni upp úr 1920 eða 1930.

Þar til ég get farið að skoða Charleston-setrið (á vefsíðunni er að finna upplýsingar um hvenær það er opið almenningi) þá verð ég bara að njóta herbergjanna og skrautmunanna í bókinni minni. Eina eftirsjáin er að eiga ekki innbundið eintak því þessi bók er ein af þeim í safninu sem mér á eftir að þykja meira og meira vænt um.

Svo sannarlega endalaus uppspretta innblásturs!

Zarafshan efni úr líni frá Lewis & Wood

Að lokum: Allar textílprufurnar sem ég notaði í stíliseringunni eru frá Lewis & Wood. Efnið, sem er innblásið af hinni austrænu Suzani-hefð, kallast Zarafshan og er úr 100% líni. Það er til í nokkrum litum og sjást þrír þeirra hér: Í fyrstu tveimur myndunum Indigo/Cranberry, í þeirri þriðju Turquoise/Lime og í síðustu tveimur Rust/Slate. Meira um Lewis & Wood síðar.



þriðjudagur, 1. september 2015

Túrkislitað Cora-viðarúr frá JORD



Í sumar bauðst mér að vera hluti af JORD Wood Watches-teyminu. Ég þurfti bara að velja mér úr, ganga með það og deila áliti mínu í bloggfærslu. Um leið og ég sá Cora-úrið á heimasíðu þeirra þá varð ekki aftur snúið, hið túrkíslitaða með zebra-viðnum var úrið sem mig langaði í. Það skrýtna við þetta allt saman er að ég hafði ekki gengið með úr í mörg ár og var ekkert á leiðinni að taka þann sið upp aftur. Skyndilega var Cora-úrið, sem var væntanlegt í hús, farið að hafa undarleg áhrif á mig. Ég áttaði mig á því að ég hafði nú þegar fallið fyrir því og því var spurningin þessi: Stæði það undir væntingum mínum?


Til að svara spurningunni hér að ofan: Já, það gerði það svo sannarlega! Sendingin barst skjótt frá St. Louis, Missouri í Bandaríkjunum. Pakkningin var fallegur viðarkassi sem gaf til kynna að þarna væri á ferðinni vandað handverk. Þegar ég opnaði kassann blasti við mér Cora-úrið í allri sinni dýrð. Það var fest utan um mjúkan púða sem var bróderaður með orðinu JORD. Það er jú sænska og danska orðið yfir jörð. Viðaról úrsins var mæld fyrir mig áður en úrið var sent af stað (aukahlekkir fylgdu með). Ég verð að viðurkenna að áður en ég setti úrið á mig þá sat ég bara og starði á það í kassanum, í dágóða stund.

Bókin á borðinu mínu er Icelandic Landscapes eftir Daníel Bergmann

Hönnun úrsins er glæsileg þar sem hugað er að hverju smáatriði. Handgert lúxusúrið er úr náttúrulegum zebra-viði, með gleri úr safírkristal og er skreytt smáum Swarovski-kristöllum. Á viðarólinni er festing með smellutakka sem auðveldar manni að setja úrið á sig/taka það af. Það kom mér óvart hversu létt úrið er; ég bjóst við þyngra úri. Það sem ég er einna hrifnust af er að það þarf enga rafhlöðu. Síðast þegar ég átti úr sem þurfti að trekkja var ég yngri en tíu ára og nú nýt ég þeirrar daglegu iðju að trekkja úrið.

Það kann að hljóma furðulega en fyrir mér fer Cora-úrið á einhvern hátt út fyrir það svið að vera bara úr. Það virðist hafa dýpri merkingu. Kannski er það viðurinn eða heillandi túrkisliturinn sem minnir mig á tóna í íslensku landslagi. Liturinn á skífunni virðist síbreytilegur; veltur bara á endurspeglun ljóss.



Nafn úrsins - JORD - minnir mig á norrænar rætur okkar Íslendinga. Í norrænni goðafræði áttu Jörð og Óðinn soninn Þór, sem var sterkastur ása. Ég er greinilega ekki sú eina sem tengi úrið við norrænar rætur. Þegar ég var að stílisera og mynda úrið var sonur minn svo spenntur fyrir þessu að hann mætti með steinasafnið sitt og sýndi mér Víkingaskjöld í einni bók sem hann á. Ég varð að hafa þetta dót hans á mynd ... með latte, að sjálfsögðu.


Ég gæti ekki verið ánægðari með JORD-viðarúrið mitt. Það er tímalaust og verður ávallt í tísku. Á heimasíðu JORD er úrunum lýst sem „handgerðum gripum sem segja sögu.“ Stundum þegar ég set það á mig langar mig bara að klæðast þægilegu uppáhaldsflíkunum mínum, grípa vegabréfið og litla tösku og hreinlega fara eitthvað. Án síma, án tölvu; bara með Cora-úrið sem vegvísi.

Sjáið til, saga míns úrs er bara rétt að byrja!


[Þessi bloggfærsla er hluti af markaðsherferð JORD. Úrið til umfjöllunar hér er túrkislitað Cora með zebra-viðaról. Orð, ljósmyndir og álit eru mín eigin.]