Sýnir færslur með efnisorðinu aukahlutir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu aukahlutir. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 17. maí 2016

Vorgjöf: Ely-viðarúr frá JORD



Þegar mér bauðst að taka þátt í markaðsátaki JORD Wood Watches þessa vors ákvað ég að leyfa yngri dóttur minni að velja sér úr - vorgjöf fyrir það eitt að vera hún sjálf og frábær. Viðarúrið sem hún valdi er úr Ely-seríunni, Ely Maple, sem er gert úr hlyni og sýnir líka dagsetningu. (Ertu í gjafaleit? Hér að neðan geturðu nælt þér í gjafabréf á netinu.) Við þekkjum þegar til JORD og vitum hverju er að búast við úr þeirri átt, sem dregur ekki úr spennunni að fá viðarkassa frá þeim sem inniheldur fallegt úr. Nú eru liðnar 8 vikur síðan úrið barst og dóttirin vel sátt.

Það gladdi mig að sjá hana velja Ely-úr því hönnunin er einföld og tímalaus. Ég benti henni á tímaleysið þegar við ræddum eiginleika úrsins. Við notum alla jafna íslensku á þessu heimili en hún svaraði á ensku: „But that's just stupid, it's a watch, it tells the time!“ Ég skellti upp úr. Hún hefur rétt fyrir sér! Ég útskýrði fyrir henni hvernig hlutur getur verið klassískur, tímalaus í þeim skilningi að hann fer ekki úr tísku. Unglingurinn var sammála mér að það átti við úrið.


Í sannleika sagt hefur dóttirin ekki gefið mér útlistaða gagnrýni á úrinu. Hennar orð eru einhvern veginn svona: Þetta er úr, það virkar, það sýnir tímann, henni finnst það flott, hún er ánægð með það. Hvað meira er hægt að segja?

Nákvæmlega! Það gerir allt sem úr á að gera. Auk þess er stíll yfir því og það er handunnið, af fyrirtæki sem hefur sjálfbærni að leiðarljósi. Eins og þið takið væntanlega eftir hefur hún úrið á hægri hendinni, þeirri sem hún skrifar með, sem mér finnst áhugavert.


Sem foreldri hef ég einu við að bæta sem hefur að gera með gæði umfram magn. Í gegnum tíðina höfum við keypt úr handa krökkunum, ekki þau ódýrustu, sem eru yfirleitt litrík með plastól. Ég veit ekki hversu oft ég hef fundið svona plastúr í botninum á dótakassa, sennilega löngu gleymt. Eftir því sem börn vaxa fara þau að sjálfsögðu betur með eigur sínar en ég trúi því að við foreldrarnir getum kennt þeim snemma að meta gæði. Ég tek eftir því að þegar dóttir mín er ekki með JORD-úrið á sér þá er það í kassanum á skrifborðinu hennar eða á náttborðinu. Hún veit að það er dýrara en önnur úr sem hún hefur átt og kann greinilega að meta það og hugsar vel um það, án þess að ég þurfi að segja henni það.



Ég tók myndir af henni með úrið þegar hún var að teikna manga. (Allt japanskt vekur áhuga hennar og hún er meira að segja að læra japönsku sjálf.) Ég er ekki mikið fyrir teiknimyndasögur en ég elska að fletta í gegnum manga-teikningar hennar í listamöppunum og stafræna teikniborðinu. Þegar ég horfði á þessa ungu listakonu að störfum í gegnum linsuna þá var ég allt að því dáleidd af uppsetningunni og fannst einföld hönnun úrsins áhugavert mótvægi við list dótturinnar.


Ely-úrið er úr 100% náttúrulegum viði, í þessu tilfelli hlyni, og glerskífan er með rispuvörn. Úrið gengur fyrir rafhlöðu, sýnir klukkutíma, mínútur og sekúndur, og dagsetningu. Smellutakkar eru á viðarólinni sem auðveldar manni að setja úrið á sig og taka af. Ely-úrið er einnig fáanlegt úr rauðum, dökkbrúnum eða grænum sandelviði og hlyni. Þið getið lesið meira um eiginleika úrsins á heimasíðu JORD.


Ely-úrið dregur nafn sitt af byggingu í borginni St. Louis, í Missouri í Bandaríkjunum, sem heitir Ely Walker Lofts - áður Warehouse - sem var byggð árið 1907. JORD hefur aðsetur í St. Louis og býður upp á erlendar póstsendingar.


Langar þig að gefa einhverjum úr eða gjafabréf? JORD býður lesendum bloggsins gjafabréf á netinu. Það eina sem þarf að gera er að opna hlekkinn og skrá netfangið sitt, eða netfang vinar, og þá berst tölvupóstur með kóða sem veitir 25-dollara afslátt. Það er takmörkun á fjölda gjafabréfanna og þau virka þannig að fyrstur kemur fyrstur fær. Hafið þetta í huga þannig að gjafabréfið sé ekki fallið úr gildi þegar þið viljið nýta það.


[Þessi færsla er hluti af markaðsátaki JORD þessa vors. Úrið til umfjöllunar er Ely Maple, viðarúr úr hlyni sem ég gaf listrænni dóttur minni í vorgjöf. Orð, ljósmyndir og álit eru mín eigin.]

þriðjudagur, 1. september 2015

Túrkislitað Cora-viðarúr frá JORD



Í sumar bauðst mér að vera hluti af JORD Wood Watches-teyminu. Ég þurfti bara að velja mér úr, ganga með það og deila áliti mínu í bloggfærslu. Um leið og ég sá Cora-úrið á heimasíðu þeirra þá varð ekki aftur snúið, hið túrkíslitaða með zebra-viðnum var úrið sem mig langaði í. Það skrýtna við þetta allt saman er að ég hafði ekki gengið með úr í mörg ár og var ekkert á leiðinni að taka þann sið upp aftur. Skyndilega var Cora-úrið, sem var væntanlegt í hús, farið að hafa undarleg áhrif á mig. Ég áttaði mig á því að ég hafði nú þegar fallið fyrir því og því var spurningin þessi: Stæði það undir væntingum mínum?


Til að svara spurningunni hér að ofan: Já, það gerði það svo sannarlega! Sendingin barst skjótt frá St. Louis, Missouri í Bandaríkjunum. Pakkningin var fallegur viðarkassi sem gaf til kynna að þarna væri á ferðinni vandað handverk. Þegar ég opnaði kassann blasti við mér Cora-úrið í allri sinni dýrð. Það var fest utan um mjúkan púða sem var bróderaður með orðinu JORD. Það er jú sænska og danska orðið yfir jörð. Viðaról úrsins var mæld fyrir mig áður en úrið var sent af stað (aukahlekkir fylgdu með). Ég verð að viðurkenna að áður en ég setti úrið á mig þá sat ég bara og starði á það í kassanum, í dágóða stund.

Bókin á borðinu mínu er Icelandic Landscapes eftir Daníel Bergmann

Hönnun úrsins er glæsileg þar sem hugað er að hverju smáatriði. Handgert lúxusúrið er úr náttúrulegum zebra-viði, með gleri úr safírkristal og er skreytt smáum Swarovski-kristöllum. Á viðarólinni er festing með smellutakka sem auðveldar manni að setja úrið á sig/taka það af. Það kom mér óvart hversu létt úrið er; ég bjóst við þyngra úri. Það sem ég er einna hrifnust af er að það þarf enga rafhlöðu. Síðast þegar ég átti úr sem þurfti að trekkja var ég yngri en tíu ára og nú nýt ég þeirrar daglegu iðju að trekkja úrið.

Það kann að hljóma furðulega en fyrir mér fer Cora-úrið á einhvern hátt út fyrir það svið að vera bara úr. Það virðist hafa dýpri merkingu. Kannski er það viðurinn eða heillandi túrkisliturinn sem minnir mig á tóna í íslensku landslagi. Liturinn á skífunni virðist síbreytilegur; veltur bara á endurspeglun ljóss.



Nafn úrsins - JORD - minnir mig á norrænar rætur okkar Íslendinga. Í norrænni goðafræði áttu Jörð og Óðinn soninn Þór, sem var sterkastur ása. Ég er greinilega ekki sú eina sem tengi úrið við norrænar rætur. Þegar ég var að stílisera og mynda úrið var sonur minn svo spenntur fyrir þessu að hann mætti með steinasafnið sitt og sýndi mér Víkingaskjöld í einni bók sem hann á. Ég varð að hafa þetta dót hans á mynd ... með latte, að sjálfsögðu.


Ég gæti ekki verið ánægðari með JORD-viðarúrið mitt. Það er tímalaust og verður ávallt í tísku. Á heimasíðu JORD er úrunum lýst sem „handgerðum gripum sem segja sögu.“ Stundum þegar ég set það á mig langar mig bara að klæðast þægilegu uppáhaldsflíkunum mínum, grípa vegabréfið og litla tösku og hreinlega fara eitthvað. Án síma, án tölvu; bara með Cora-úrið sem vegvísi.

Sjáið til, saga míns úrs er bara rétt að byrja!


[Þessi bloggfærsla er hluti af markaðsherferð JORD. Úrið til umfjöllunar hér er túrkislitað Cora með zebra-viðaról. Orð, ljósmyndir og álit eru mín eigin.]

miðvikudagur, 30. júlí 2014

Hönnuðurinn Urte Tylaite hjá Still House í spjalli


Ef þið eruð búsett í eða á leiðinni til New York þá gæti það verið góð hugmynd að rölta um East Village hverfið og kíkja í hönnunarbúðina Still House, sem er í eigu skartgripahönnuðarins Urte Tylaite. Hún fæddist í Litháen en flutti til New York þegar hún var 18 ára og lærði í Pratt. Í búðinni er að finna fallega handgerða muni frá hinum og þessum hönnuðum og listafólki - til dæmis keramik, glervörur, skartgripi og bréfsefni - og hennar eigin skartgripalínu. Urte var svo væn að samþykkja stutt viðtal fyrir náttúruleg efni bloggseríuna mína og að sjálfsögðu spurði ég hana hvað væri að finna í kaffibollanum hennar!


Hvað varð til þess að stelpa fædd í Litháen endaði sem hönnuður í New York?
Fjölskylda mín flutti til Bandaríkjanna þegar ég var á síðasta ári í menntaskóla. Þó svo ég talaði varla ensku þá var ég staðráðin í að fara beinustu leið í háskóla. Upprunalega, þegar ég bjó enn í Litháen, ætlaði ég að verða lögfræðingur, jafnvel pólitíkus, en með enga ensku virtist það vera tímasóun. Í staðinn valdi ég listaskóla. Í mörg ár hafði ég sótt listanámskeið og hafði sett saman möppu þrátt fyrir að hafa aldrei hugsað mér að starfa við list. Þannig endaði ég í Pratt þar sem ég nam listmálun. Foreldrar mínir voru ekki sáttir við þessa ákvörðun.

Að námi loknu reyndi ég að fá vinnu í listaheiminum en það virtist ekki henta mér. Til að ná endum saman starfaði ég fyrir nokkra skartgripahönnuði í Brooklyn og féll fyrir iðninni. Ég vann eins mikið og ég gat til þess að læra allt um geirann og heildsöluna og á kvöldin sótti ég tíma í skartgripahönnun. Það kom að því að vinnan var ekki að kenna mér neitt nýtt. Ég var tilbúin fyrir nýjar áskoranir. Ég sá tvær leiðir, annaðhvort að fá vinnu hjá mun stærra fyrirtæki eða að fara út í minn eigin rekstur. Það síðarnefnda átti betur við mig.


Hvað var þér efst í huga, hverjir voru draumar þínir, þegar þú útskrifaðist frá Pratt?
Það er skrýtið að viðurkenna það, en ég hafði ekki skýra sýn á það sem ég vildi gera. Hugmyndir mínar voru meira almenns eðlis. Ég vissi að ég var tilbúinn að leggja hart að mér. Ég vildi líka finna fyrir ástríðu gagnvart vinnunni og virklega njóta hennar, og starfa með fólki sem mér líkaði við og dáði. Ég var bara í leit að spennu og gleðilegum augnablikum því í slíkum aðstæðum fékk ég alltaf nýjar hugmyndir. Ein hugmynd leiddi til annarrar og hér er ég í dag - eigandi búðar og skartgripahönnuður.

Hvaða 3 lykilorð myndirðu nota til að lýsa hönnun þinni?
Lítt áberandi, einföld, tímalaus.


Af hverju að opna búð, Still House, í East Village?
Ég var alltaf svo hrifin af East Village. Ég endaði í þessu hverfi á mínum fyrstu dögum í New York og það togaði strax í mig. Þetta er frábært hverfi til að fara út á kvöldin, en ég naut þess alltaf að koma aftur að degi til og rölta um. Og ég hafði alltaf ástæðu til að koma aftur. Ég þjónaði til borðs á veitingastað hér rétt hjá þegar ég var í skóla, ég var að hitta strák sem bjó í hverfinu, og nokkrir af mínum bestu vinum bjuggu hér. Þegar ég byrjaði að leita að húsnæði fyrir búð þá sjálfkrafa spurðist ég fyrir um rými í East Village því það var hverfið sem ég þekkti best.



Hvað er eiginlega með þig og grjót og steina?
Undarlega er það ástríða sem ég þróaði með mér á fullorðinsárum. Ég vann fyrir skartgripulínu Swallow í Brooklyn. Þau eru með úrval af fallegum hálsmenum með gimsteinum. Ég lagði nöfnin á minnið til þess að vita hvað ég væri að selja. Þegar ég byrjaði að hanna mína eigin skartgripi þá sótti ég sölusýningar með steinum og perlum, og uppgötvaði söluaðila sem buðu einnig upp á náttúrulega steina og grjót og ég féll kylliflöt fyrir þessu. Fyrir mér er þetta áminning um hversu heillandi, fallegur og dularfullur þessi heimur er. Ég elska litina, sem geta komið á óvart, og formin. Grjót og steinar eru munir sem vekja eftirtekt og viðskiptavinir mínir eru einstaklega hrifnir af því að skreyta heimili sín með þeim.

Geturðu nefnt hönnuði sem hafa haft áhrif á verk þín og af hverju?
Ég verð að segja að það er aðallega fólk sem veitir mér innblástur, ekki endilega verk þess. Þetta er ástæða þess að ég elska New York svo mikið. Við erum stöðugt umkringd ástríðufullu og sterku fólki sem elskar lífið.


Hvert ferðu til að sækja innblástur?
Ég tek frídag og slaka á. Nýju munirnir í Still House skartgripalínunni urðu til þar sem ég lá á ströndinni á Long Island fyrir nokkrum helgum síðan. Flestar hugmyndirnar að megin vörulínu minni urðu til í göngutúrum norðar í New York-fylki. Hönnun mín er ekki innblásin af náttúrunni, en ég er það. Þegar ég er úti í náttúrunni fyllist hugurinn af nýjum og ferskum hugmyndum. Strax eftir frídaga reyni ég alltaf að eyða nokkrum dögum á vinnustofunni til þess að vinna úr þessum hugmyndum.

Urte, drekkurðu kaffi, og ef já, hvað er í kaffibollanum þínum?
Ó já! Ég byrja hvern morgun á sterku uppáhelltu kaffi með smá mjólk út í. Og ég fæ mér meira kaffi þegar ég nálgast búðina mína. Við erum svo heppin að það er fullt af kaffihúsum í East Village. Abraco er langbesta kaffihúsið. Ég mæli með að þið kíkið þangað næst þegar þið eruð í grenndinni.


Still House búðin er staðsett á 117 East 7th street. Ef þið komist ekki til New York til að kíkja í búðina þá er engin ástæða að örvænta því það er líka netverslun.


myndir:
Urte Tylaite + Still House