Sýnir færslur með efnisorðinu viður. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu viður. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 17. maí 2016

Vorgjöf: Ely-viðarúr frá JORD



Þegar mér bauðst að taka þátt í markaðsátaki JORD Wood Watches þessa vors ákvað ég að leyfa yngri dóttur minni að velja sér úr - vorgjöf fyrir það eitt að vera hún sjálf og frábær. Viðarúrið sem hún valdi er úr Ely-seríunni, Ely Maple, sem er gert úr hlyni og sýnir líka dagsetningu. (Ertu í gjafaleit? Hér að neðan geturðu nælt þér í gjafabréf á netinu.) Við þekkjum þegar til JORD og vitum hverju er að búast við úr þeirri átt, sem dregur ekki úr spennunni að fá viðarkassa frá þeim sem inniheldur fallegt úr. Nú eru liðnar 8 vikur síðan úrið barst og dóttirin vel sátt.

Það gladdi mig að sjá hana velja Ely-úr því hönnunin er einföld og tímalaus. Ég benti henni á tímaleysið þegar við ræddum eiginleika úrsins. Við notum alla jafna íslensku á þessu heimili en hún svaraði á ensku: „But that's just stupid, it's a watch, it tells the time!“ Ég skellti upp úr. Hún hefur rétt fyrir sér! Ég útskýrði fyrir henni hvernig hlutur getur verið klassískur, tímalaus í þeim skilningi að hann fer ekki úr tísku. Unglingurinn var sammála mér að það átti við úrið.


Í sannleika sagt hefur dóttirin ekki gefið mér útlistaða gagnrýni á úrinu. Hennar orð eru einhvern veginn svona: Þetta er úr, það virkar, það sýnir tímann, henni finnst það flott, hún er ánægð með það. Hvað meira er hægt að segja?

Nákvæmlega! Það gerir allt sem úr á að gera. Auk þess er stíll yfir því og það er handunnið, af fyrirtæki sem hefur sjálfbærni að leiðarljósi. Eins og þið takið væntanlega eftir hefur hún úrið á hægri hendinni, þeirri sem hún skrifar með, sem mér finnst áhugavert.


Sem foreldri hef ég einu við að bæta sem hefur að gera með gæði umfram magn. Í gegnum tíðina höfum við keypt úr handa krökkunum, ekki þau ódýrustu, sem eru yfirleitt litrík með plastól. Ég veit ekki hversu oft ég hef fundið svona plastúr í botninum á dótakassa, sennilega löngu gleymt. Eftir því sem börn vaxa fara þau að sjálfsögðu betur með eigur sínar en ég trúi því að við foreldrarnir getum kennt þeim snemma að meta gæði. Ég tek eftir því að þegar dóttir mín er ekki með JORD-úrið á sér þá er það í kassanum á skrifborðinu hennar eða á náttborðinu. Hún veit að það er dýrara en önnur úr sem hún hefur átt og kann greinilega að meta það og hugsar vel um það, án þess að ég þurfi að segja henni það.



Ég tók myndir af henni með úrið þegar hún var að teikna manga. (Allt japanskt vekur áhuga hennar og hún er meira að segja að læra japönsku sjálf.) Ég er ekki mikið fyrir teiknimyndasögur en ég elska að fletta í gegnum manga-teikningar hennar í listamöppunum og stafræna teikniborðinu. Þegar ég horfði á þessa ungu listakonu að störfum í gegnum linsuna þá var ég allt að því dáleidd af uppsetningunni og fannst einföld hönnun úrsins áhugavert mótvægi við list dótturinnar.


Ely-úrið er úr 100% náttúrulegum viði, í þessu tilfelli hlyni, og glerskífan er með rispuvörn. Úrið gengur fyrir rafhlöðu, sýnir klukkutíma, mínútur og sekúndur, og dagsetningu. Smellutakkar eru á viðarólinni sem auðveldar manni að setja úrið á sig og taka af. Ely-úrið er einnig fáanlegt úr rauðum, dökkbrúnum eða grænum sandelviði og hlyni. Þið getið lesið meira um eiginleika úrsins á heimasíðu JORD.


Ely-úrið dregur nafn sitt af byggingu í borginni St. Louis, í Missouri í Bandaríkjunum, sem heitir Ely Walker Lofts - áður Warehouse - sem var byggð árið 1907. JORD hefur aðsetur í St. Louis og býður upp á erlendar póstsendingar.


Langar þig að gefa einhverjum úr eða gjafabréf? JORD býður lesendum bloggsins gjafabréf á netinu. Það eina sem þarf að gera er að opna hlekkinn og skrá netfangið sitt, eða netfang vinar, og þá berst tölvupóstur með kóða sem veitir 25-dollara afslátt. Það er takmörkun á fjölda gjafabréfanna og þau virka þannig að fyrstur kemur fyrstur fær. Hafið þetta í huga þannig að gjafabréfið sé ekki fallið úr gildi þegar þið viljið nýta það.


[Þessi færsla er hluti af markaðsátaki JORD þessa vors. Úrið til umfjöllunar er Ely Maple, viðarúr úr hlyni sem ég gaf listrænni dóttur minni í vorgjöf. Orð, ljósmyndir og álit eru mín eigin.]

þriðjudagur, 11. ágúst 2015

Náttúrulegt eldhús með réttri áferð

Náttúrulegt eldhús · Lísa Hjalt


Rétt áferð er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég skoða eldhúsið hér að ofan. Eldhús með opnum hillum einkennast yfirleitt af léttleika sem ég er hrifin af og stíliseringin á þessu, náttúruleg og hlýleg með keramiki og ýmsum munum í hlutlausum tónum, er fullkomin. Fyrir utan tvær mosagrænar eldhúseiningar er litapalettan hlutlaus sem þýðir að áferð er lykillinn að útliti sem fangar augað. Allt gengur upp hér og ábreiðan á Chesterfield-sófanum, handofið ungverskt lín, undirstrikar enn frekar hina réttu áferð. Hillur og aðrar eldhúseiningar eru smíðaðar úr ómeðhöndlaðri eik og viðarkassar eru notaðir undir ýmsa eldhúsmuni í stað þess að loka einingunum með skápshurðum.

Fyrir um þremur mánuðum síðan pinnað ég tvær myndir af þessu sama eldhúsi. Mér fannst ég kannast við myndirnar en gat ekki staðsett þær fyrr en ég fletti nýlega í gegnum bunka af tímaritum í leit að ákveðnu innliti. Í febrúartölublaði Elle Decoration UK 2015 blasti eldhúsið við mér aftur, hluti af innliti sem kallast Revival of a Classic (ljósmyndað af Michael Paul). Fyrst hélt ég að þetta væri kannski skandinavískt eldhús en það er í uppgerðu húsi í Edward-byggingarstíl við ströndina í West Sussex, í suðurhluta Englands. Ef náttúrulegur og hrár stíll höfðar til ykkar þá er þetta innlit fyrir ykkur. Eigandi hússins er Alex Legendre, sem rekur verslunina I Gigi í Brighton.

[Langar ykkur að sjá meira? Myndirnar sem ég pinnaði sína ,Butler'-vaskinn, sem var keyptur notaður, og fyrrnefnda viðarkassa. Fyrir ykkur sem notið ekki Pinterest þá getið þið séð þessar myndir á heimasíðu norska innanhústímaritsins Vakre Hjem & Interiør.]

mynd mín | heimild: Elle Decoration UK, febrúar 2015, bls. 88 · Michael Paul

þriðjudagur, 9. september 2014

Rýmið 72



- stofa á Majorca á Spáni í eigu Brenda og Paul van Berg
- húsið er uppgert og situr í fjallshlíð nálægt borginni Palma

Ég hef sagt það áður en eitt uppáhaldstímaritið mitt um innanhússhönnun er Elle Decoration UK. Það kemur inn um lúguna í hverjum mánuði og ég er alltaf jafn spennt þegar ég tek það úr plastinu og sest niður til að fletta því með lattebolla í hendi. Þetta rými er hluti af innliti í júlítölublaði þessa árs og það var að sjálfsögðu hrái stíllinn sem höfðaði til mín. Eigendurnir, sem líka reka jógastöð við heimili sitt, hafa ferðast um Afríku og Asíu og keypt ýmsa muni, einkum á mörkuðum í norðurhluta Afríku. Heimilið ber að sjálfsögðu keim af því.

mynd:
Sunna & Marc van Praag fyrir Elle Decoration UK

miðvikudagur, 5. febrúar 2014

Rýmið 52



Ég vildi að ég gæti sagt ykkur nánar frá þessu baðherbergi en því miður veit ég ekkert um það nema það litla sem birtist í myndatextanum. Mig langar í þessa þykku eikarplötu!

mynd:
Elle Decor Italia, apríl 2011 af Tumblr

þriðjudagur, 30. júlí 2013