Sýnir færslur með efnisorðinu bóhemískur stíll. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu bóhemískur stíll. Sýna allar færslur

miðvikudagur, 22. mars 2017

Nellikur á skrifborðinu mínu



Um daginn vorum ég og sonurinn að borða morgunmat þegar hann spurði mig hver væru uppáhaldsblómin mín. Án umhugsunar svaraði ég nellikur (á borðinu var vasi með gulum). „Af hverju?“ spurði hann. „Af því þær eru svo endingargóðar,“ sagði ég „þær lifa svo lengi.“ Fyrir nokkrum árum síðan hefði ég svarað hvítir túlipanar eða bóndarósir (sem ég kalla alltaf peóníur). Þegar ég hugsa um það þá get ég varla gert upp á milli þessara þriggja, en nellikur eru blóm sem ég kaupi oftast (Spánverjar vissu hvað þeir sungu þegar þeir völdu rauða nelliku sem þjóðarblóm). Ég tók þessa mynd í morgun þegar ég var að njóta lattebolla með múskati. Nellikur og bókastaflar eru algeng sjón á skrifborðinu mínu. Njótið dagsins!



miðvikudagur, 2. mars 2016

Casa No Name - hús Deborah Turbeville

Casa No Name - hús Deborah Turbeville · Lísa Stefan


Á föstudaginn lofaði ég að birta síðar nokkrar myndir sem ég smellti af innliti í hús í Mexíkó. Umfjöllunin, sem kallast Destination unknown, birtist í desembertöluhefti 2015 af The World of Interiors (ljósmyndari Ricardo Labougle). Húsið átti Deborah Turbeville heitin (1932-2013), en hún var þekktur tískuljósmyndari og lifði eins konar hirðingjalífi. Hún skírði húsið Casa No Name, en það er staðsett í hinni sögulegu borg San Miguel de Allende í mexíkóska ríkinu Guanajuato. Þegar Turbeville keypti húsið var það í hræðilegu ásigkomulagi, en ef þið þekkið til verka hennar þá skiljið þið út af hverju það heillaði hana. Vinur hennar sem hafði umsjón með framkvæmdunum, sem tóku tvö ár, sagði vinnumönnunum að gera þetta ekki of fullkomið, „Senjorídan vill hafa það þannig“ (bls. 190). Það er ekkert eitt sem dregur mig að húsinu heldur er það mikilfengleikinn sem hrífur mig; glæsilegt safn af mynstruðum textíl, litir, gifsveggir, þakverönd . . . þetta er það sem meint er þegar talað er um að gera hús að heimili.


Árið 2009 kom út á vegum Rizzoli bókin Casa No Name eftir Turbeville sjálfa. Ég hef séð nokkrar myndir úr henni og hún er ekki allra. Við skulum bara orða það þannig að hún sé öðruvísi bók um innanhússhönnun og innihaldi margar hreyfðar myndir. Eldheitir Turbeville-aðdáendur verða ekki fyrir vonbrigðum.

Ég fann stutt viðtal við Turbeville á YouTube, sem var tekið í húsinu hennar Casa No Name þegar Toast var að ljósmynda þar línuna sína fyrir vor/sumar 2010.


Fyrir alla sem hafa áhuga á tískuljósmyndun get ég mælt með bókinni Deborah Turbeville: The Fashion Pictures. Hún er einnig gefin út af Rizzoli og í henni er að finna hinar frægu en umdeildu baðhúsmyndir sem hneyksluðu margar þegar þær birtust í Vogue árið 1975.
Casa No Name í tímaritinu The World of Interiors · Lísa Stefan


myndir teknar af síðum The World of Interiors, des. 2015, Destination unknown, bls. 182-191

miðvikudagur, 16. september 2015

Bókin Charleston: A Bloomsbury House & Garden

Umfjöllun um bókina Charleston: A Bloomsbury House & Garden · Lísa Stefan


Í sumar fékk ég góða viðbót í safnið, bókina Charleston: A Bloomsbury House and Garden eftir Quentin Bell og dóttur hans Virginiu Nicholson. Quentin var sonur listakonunnar Vanessu Bell (systir Virginiu Woolf) og eiginmanns hennar Clive. Bókin rekur sögu Charleston-setursins í Sussex, sem Vanessa tók á leigu á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar - á þeim tímapunkti var hjónaband hennar og Clive bara að nafninu til. Auk sona hennar bjuggu hjá henni listamaðurinn Duncan Grant og vinur hans David Garnett, en þeir voru elskendur. Það vill svo til að Vanessa og Duncan eignuðust dótturina Angelica, sem fæddist í húsinu. Fyrrnefndur David kvæntist Angelicu síðar á ævinni. Það er ekki efni þessarar færslu en það er óhætt að segja að sambönd gátu oft verið örlítið flókin, eða eigum við að segja skrautleg, innan Bloomsbury-hópsins, eins og vinahópurinn var kallaður (sjá einnig færsluna Þáttaröðin Ferkantað líf ). Bókin um Charleston er skemmtileg og smáatriðin í stílnum eru endalaus uppspretta innblásturs; bóhemískur stíll með dásamlegum persónulegum og listrænum snúningi.

Svefnherbergi Vanessu Bell

Í bókinni fær hvert rými sinn kafla og rekin er saga þess, hvernig það var notað og innréttað. Quentin var 85 ára gamall þegar hann byrjaði á skrifunum og hafði lokið fyrsta uppkastinu þegar heilsu hans hrakaði. Þegar hann gat ekki lengur skrifað var það dóttir hans Virginia sem sat og hlustaði á sögur hans af húsinu og tók þær upp, en hún þekkti húsið einnig vel. Hann lést árið 1996 og hún kláraði að skrifa bókina. Köflunum er skipt niður í hluta merktum upphafsstöfum þeirra þannig að lesandinn veit alltaf hver skrifar. Ljósmyndir af rýmunum eru eftir Alen MacWeeney og í myndatexta má finna ýmis smáatriði. Það eru einnig gamlar svarthvítar ljósmyndir af heimilisfólki og vinum þeirra, en húsið varð vinsæll dvalarstaður Bloomsbury-hópsins.

Vanessa átti herbergið sem sést hér að ofan. Það var áður matargeymsla en árið 1939 var henni breytt og í stað lítils glugga komu franskir gluggar sem opnast út í garðinn. Ég hef aldrei farið að skoða Charleston en þetta horn er nú þegar í uppáhaldi. Skrifborðið hennar er franskt frá 19. öld og gluggatjöldin hannaði hún fyrir Omega-vinnustofurnar árið 1913. Þau sem sjást á myndinni eru endurgerð Laura Ashley frá árinu 1986.

Setustofa Duncans í vinnustofunni

Eftir samningsviðræður tók Vanessa húsið á langtímaleigu. Það þýddi að hún og Duncan gátu byggt alvöru vinnustofu sem var tilbúin árið 1925 með nægu plássi til að mála, góðu rými fyrir þá sem sátu fyrir á myndum og setustofu fyrir Duncan. Roger Fry, sem tilheyrði Bloomsbury-hópnum og var stofnandi Omega-vinnustofanna, aðstoðaði við bygginguna. Duncan skreytti skilrúmin á bak við stólinn og panilana í kringum arininn upp úr 1930. Síðar, eða árið 1939, breytti Vanessa herbergi á efstu hæðinni í vinnustofu sem hún hafði út af fyrir sig.

Glugginn í svefnherbergi Duncans

Quentin segir í bókinni að hann hafi sofið í öllum herbergjum í Charleston en að svefnherbergið sem Duncan átti hafi verið í mestu uppáhaldi, en í því herbergi var skemað hvað mest útpælt. Vanessa málaði skreytingarnar í kringum gluggann og hún hannaði einnig ábreiðuna á franska gluggasætinu.

Í skrifstofuherbergi Clive Bell

Myndin hér að ofan sýnir skrifstofuherbergi Clive Bell, sem var áður notað sem stofa. Clive hafði verið tíður gestur í húsinu en árið 1939 flutti hann inn. Vanessa málaði skreytingarnar í kringum gluggann árið 1916-17. Duncan málaði flísarnar í borðplötunni upp úr 1920 eða 1930.

Þar til ég get farið að skoða Charleston-setrið (á vefsíðunni er að finna upplýsingar um hvenær það er opið almenningi) þá verð ég bara að njóta herbergjanna og skrautmunanna í bókinni minni. Eina eftirsjáin er að eiga ekki innbundið eintak því þessi bók er ein af þeim í safninu sem mér á eftir að þykja meira og meira vænt um.

Svo sannarlega endalaus uppspretta innblásturs!

Zarafshan efni úr líni frá Lewis & Wood

Að lokum: Allar textílprufurnar sem ég notaði í stíliseringunni eru frá Lewis & Wood. Efnið, sem er innblásið af hinni austrænu Suzani-hefð, kallast Zarafshan og er úr 100% líni. Það er til í nokkrum litum og sjást þrír þeirra hér: Í fyrstu tveimur myndunum Indigo/Cranberry, í þeirri þriðju Turquoise/Lime og í síðustu tveimur Rust/Slate. Meira um Lewis & Wood síðar.



fimmtudagur, 20. ágúst 2015

Innbyggðir setkrókar

Innbyggðir setkrókar · Lísa Hjalt


Í sumar hefur aðdáun mín á innbyggðum setkrókum færst upp á alveg nýtt stig. Ég held að það hafi byrjað með innliti á heimili í Ibiza sem birtist í Elle Decoration UK  og ég deildi í bloggfærslu í júní. Síðan þá hafa slíkir setkrókar verið að fanga athygli mína úr öllum áttum; einnig textíllinn, ábreiðurnar og púðarnir sem gera þá þægilegri. Ég á eintak af franska Elle Decoration frá síðasta sumri sem er stútfullt af innbyggðum setkrókum. Það hefur legið á borðinu mínu í sumar og ég varð að taka nokkar myndir fyrir bloggið. Sjáið til, ég lít á bloggið sem dagbók. Ég held ekki dagbók í kæra dagbók-stíl en er alltaf með skrifblokk innan handar. Myndræni þátturinn er mér líka mikilvægur; mér líkar að geta haldið til haga myndum á blogginu sem aðrir geta notið og sem ég get flett upp síðar meir.

Við skulum byrja á nokkrum setkrókum sem birtust í grein um gististaðinn Scorcialupi í Puglia-héraði á Ítalíu. Mér finnst svæðið utandyra hér að ofan glæsilegt og krókarnir tveir innandyra eru líka snotrir.


1-3: Scorcialupi, Elle Decoration (franska), júlí/ágúst 2014, bls. 108-117/Christian Schaulin

Eins og mér líkar setkrókurinn hér að neðan - það er jafnvægi í mildri litapalettunni - þá er ég ekki viss um að ég myndi vilja hafa svona borðkrók á veröndinni, sérstaklega ef ég væri með gesti. Ef einn þarf að standa upp þá þurfa fleiri að færa sig eða hliðra til fyrir viðkomandi. En svona hrár stíll er mér að skapi og mér finnst smart hvernig iðnaðarstíll Tolix-stólanna skapar mótvægi (þessi mynd sínir bara einn). Krókurinn tilheyrir fallegu og stílhreinu húsi á grísku eyjunni Mykonos.

4: Mykonos innlit, Elle Decoration (franska), júlí/ágúst 2014, bls. 130-141/Giorgio Baroni

fimmtudagur, 13. ágúst 2015

Þáttaröðin Ferkantað líf

Þáttaröðin Ferkantað líf · Lísa Stefan


Nú veit ég ekki hvort byrjað er að sýna seríuna Ferkantað líf (Life in Squares) á Íslandi en síðasti þátturinn var sýndur á BBC í vikunni. Hún var kynnt sem dramaþáttaröð í þremur hlutum um sambandið á milli ensku listakonunnar Vanessu Bell og systur hennar, rithöfundarins Virginiu Woolf. Mér fannst sagan fjalla meira um sambandið á milli Bell og listamannsins Duncans Grants. Ekki það að ég sé að kvarta, ég hafði virklega gaman af þáttunum, fallegri sviðsmyndinni og búningunum. Leikkonan Phoebe Fox leikur hina yngri Bell og Eve Best þá eldri. Ég hafði ekki séð Fox leika áður og mér þótti hún standa sig vel. Hún smellpassaði við þá mynd sem ég hef af Bell í huganum. James Norton skilar sínu hlutverki sem yngri Grant vel (ég sá hann fyrst sem Tommy í seríunni Happy Valley) og það gerir einnig Rupert Penry-Jones sem leikur eldri Grant. Ég vil bæta því við að allir leikararnir eiga lof skilið. Þarna eru saman komnir frábærir breskir leikarar sem vekja hinn þekkta Bloomsbury-hóp til lífs á skjánum og bóhemískan lífsstílinn. Handrit skrifar Amanda Coe og hinn sænski Simon Kaijser leikstýrir.
Lavender · Lísa Stefan


Ef þið hafði ekki horft á þættina þá verð ég eiginlega að vara ykkur smá við fyrsta þættinum. Það er mjög miklu efni komið til skila í honum - ástarsambönd og andlát - sem fólk tengir betur við ef það þekkir þegar sögu þeirra einstaklinga sem kenndir eru við Bloomsbury-hópinn. Það er mín skoðun að þættirnir hefðu átt að vera fjórir í stað þriggja til að kynna betur þessa einstaklinga. Í öðrum þætti er sagan farin að flæða mun betur og auðveldara að fylgja henni.


Kannski er það klisja að kalla lífsstíl Bloomsbury-hópsins bóhemískan, eins og ég gerði hér að ofan, en leikmyndin (mise en scène) er það svo sannarlega. Sjáið fyrir ykkur listaverk, tæki og tól listamanna, skrifborð, bækur, bréf, o.s.frv. Þegar fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir kom Vanessa Bell upp heimili í Charleston House í Sussex, þar sem meginhluti þáttanna gerist. Þið getið skoðað myndir af listamannalegum stíl setursins á heimasíðu House & Garden.

To the Lighthouse eftir Virginia Woolf · Lísa Hjalt


Fyrir mig er tímasetning þáttanna athyglisverð því í byrjun sumars tók ég úr hillunni bókina To the Lighthouse (Út í vitann á ísl.) eftir Woolf, en ég á það til að lesa hana á sumrin. Á meðan lestrinum stóð var ég að hugsa um þær systur, Virginiu og Vanessu, horfði á myndina The Hours (2002) í hundraðasta sinn og pantaði ævisöguna Vanessa Bell eftir Frances Spalding. Ég áttaði mig nefnilega á því að minn fókus var alltaf á Woolf og hennar sögu. Ég vissi minna um Bell en þættirnir gáfu mér innsýn í hennar lífshlaup.

The World of Interiors, september 2014, bls. 146

Í langan tíma hef ég verið heilluð af Virginiu Woolf. Ég man ekki hvenær sá áhugi gerði fyrst vart við sig eða hvaða verk hennar ég las fyrst. Svo margt hefur verið skrifað um ævi hennar. En ég get mælt með bókinni Moments Of Being, sem er safn af hennar sjálfsævilegu skrifum (las hana í kúrsi í háskólanum á sínum tíma) . Frændi hennar Quentin Bell (sonur Vanessu og Clive Bell) skrifaði ævisögu hennar sem spannar tímabilið 1912 til 1941, Virginia Woolf: A Biography. Eiginmaður hennar, Leonard Woolf, ritstýrði dagbókunum og gaf út eftir andlát hennar, A Writer's Diary: Being Extracts from the Diary of Virginia Woolf.

Eftir að hafa horft á Ferkantað líf þá er ég í stuði til að dýfa mér aðeins ofan í Bloomsbury-hópinn. Ég hlakka til að lesa fyrrnefnda ævisögu um Bell og svo langar mig að horfa aftur á myndina Carrington (1995), en tveir af mínum uppáhalds leikurum fara með aðalhlutverk í henni, Emma Thompson sem Dora Carrington og Jonathan Pryce sem Lytton Strachey (sjáið stikluna). Í gerð er kvikmynd eftir hollenska leikstjórann Sacha Polak sem kallast Vita & Virginia og er um samband Woolf og Vitu Sackville-West. Ég býð spennt.




mánudagur, 1. júní 2015

Stílhreinn bóhemískur blær á Ibiza

Bóhemískur stíll á Ibiza · Lísa Stefan


Á laugardaginn barst nýjasta tölublað Elle Decoration UK í hús og innlitið sem ég féll kylliflöt fyrir var 300 ára gamalt stílhreint hús með bóhemískum blæ á afskekktu svæði á Ibiza. Það gerist ekki oft að mér líki svo til öll rými í innlitum tímarita en ég hef verið kannski full heltekin af þessu (efsta myndin skreytir núna tölvuskjáinn), sem kallast ,Where the cicadas sing' (ljósmyndarar Sunna og Marc Van Praag). Ég varð að smella af nokkrum myndum og deila með ykkur, af þeim rýmum í húsinu sem fá hjartað til að syngja.



Það er hrái stíllinn í húsinu sem sérstaklega höfðar til mín, eins þessir innbyggðu setkrókar næst eldhúsinu (ekki sýnt í tímaritinu) sem virka svo kósí og notalegir. Borðstofan tengist setustofunni og er einnig með innbyggðum setkrók. Í báðum setkrókunum má sjá fallegan textíl, púða og sessur í einlit eða með mynstri. Skrautmunir eru flestir eitthvað sem eigendurnir hafa keypt á ferðalögum um heiminn. Ég er einstaklega hrifin af þessum mynstraða lampa á milli setkrókanna en það kemur ekki fram í greininni hvaðan hann kemur.

Setustofa í hráum stíl með arni og innbyggðum setkrók

Aðrir munir á heimilinu sem fönguðu athygli mína voru skreyttu vasarnir á borðinu hér að neðan og í stiganum, og einnig fallegar mottur sem er að finna í öllum rýmum.


Á baðherberginu eru bogadregnu veggirnir upprunalegir og flísarnar eru spænskar. Þessi motta á gólfinu er alveg í mínum stíl! Ég varð að láta fylgja með svæðið utandyra með sundlauginni, en til að sjá meira þá verðið þið bara að næla ykkur í eintak af tímaritinu!



Ég held að flestir Íslendingar kannist við Ibiza, sem er hluti af balerísku eyjunum í Miðjarðarhafinu. Eyjan hefur alltaf verið tengd við fjörugt næturlíf, sem er ekki aðdráttarafl fyrir mig á ferðalögum. En ég hef alltaf verið hrifin af smáþorpum eyjunnar, afskekktum stöðum og ólíkum menningarstraumum, sem er ástæða þess að Ibiza komst á langar-að-heimsækja listann minn. Það er gömul bloggfærsla sem kallast Colours of Ibiza eftir Maríu bloggvinkonu mína á EclecChic sem sýnir akkúrat hvað það er sem laðar mig að eyjunni.


Það er ein önnur grein í júlíhefti Elle Decoration UK í ár sem mig langar að nefna. Hún er um arkitektinn og hönnuðinn Alexander Girard (1907-1993). Vitra Design Museum í Weil am Rhein verður með heilmikla sýningu á verkum hans árið 2016 (staðsetning safnsins er í horninu þar sem Þýskaland, Sviss og Frakkland mætast.) Hér er hlekkur á hönnun Alexanders Girard fyrir Vitra - eldspýtustokkarnir finnst mér æðislegir.


myndir af tölublaði Elle Decoration UK, júlí 2015, Where the cicadas sing, bls. 98-107 · Sunna og Mark Van Praag

þriðjudagur, 9. september 2014

Rýmið 72



- stofa á Majorca á Spáni í eigu Brenda og Paul van Berg
- húsið er uppgert og situr í fjallshlíð nálægt borginni Palma

Ég hef sagt það áður en eitt uppáhaldstímaritið mitt um innanhússhönnun er Elle Decoration UK. Það kemur inn um lúguna í hverjum mánuði og ég er alltaf jafn spennt þegar ég tek það úr plastinu og sest niður til að fletta því með lattebolla í hendi. Þetta rými er hluti af innliti í júlítölublaði þessa árs og það var að sjálfsögðu hrái stíllinn sem höfðaði til mín. Eigendurnir, sem líka reka jógastöð við heimili sitt, hafa ferðast um Afríku og Asíu og keypt ýmsa muni, einkum á mörkuðum í norðurhluta Afríku. Heimilið ber að sjálfsögðu keim af því.

mynd:
Sunna & Marc van Praag fyrir Elle Decoration UK

þriðjudagur, 14. janúar 2014

Innlit: lúxus og bóhemískur stíll á grísku eyjunni Mykonos



Innlitið að þessu sinni er strandhótelið San Giorgio á grísku eyjunni Mykonos þar sem lúxus og bóhemstíll mætast. Í boði eru 33 herbergi þar sem hvítir veggir, húsgögn úr hráu timbri, bastkörfur og -mottur ásamt fallegum textíl leika lykilhlutverk. Hvað þarf maður meira þegar gríska Eyjahafið í allri sinni dýrð er innan seilingar?


myndir:
San Giorgio af vefsíðu Est Magazine