Sýnir færslur með efnisorðinu bloomsbury. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu bloomsbury. Sýna allar færslur

sunnudagur, 22. ágúst 2021

Sicilia: A love letter to the food of Sicily · Ben Tish

Kápa bókarinnar Sicilia: A love letter to the food of Sicily eftir Ben Tish (Bloomsbury)


Sicilia: A love letter to the food of Sicily eftir Ben Tish kom út hjá Bloomsbury Publishing í júní. Bókin er stútfull af uppskriftum og ljósmyndum sem tengjast matargerð og menningu Sikileyjar. Um kápu bókarinnar þarf ekki að segja mörg orð, hún endurspeglar birtu og liti sumarsins í allri sinni dýrð. Þess má geta að fyrir tveimur árum sendi Tish frá sér bókina Moorish: Vibrant recipes from the Mediterranean, sem fjallar um menningaráhrif Norður-Afríku og Arabaheimsins á matargerð Miðjarðarhafssvæðisins.

Sicilia: A love letter to the food of Sicily
Höf. Ben Tish
Innbundin, myndskreytt, 304 blaðsíður
ISBN: 9781472982759
Bloomsbury Publishing



miðvikudagur, 17. ágúst 2016

Store Street Espresso, Bloomsbury, London

Kaffihúsið Store Street Espresso í Bloomsbury-hverfinu, London · Lísa Hjalt


Í síðustu viku brugðum við okkur til London og ég komst á sýninguna á verkum listakonunnar Georgia O'Keeffe í Tate Modern-safninu - ekki að ræða það að ég ætlaði að missa af henni! Ég þurfti á borgarferð að halda fyrir haustið. Við borðuðum á Wild Food Cafe í Neal's Yard, gengum um Covent Garden, Westminster og St. James's Park, og fórum í Whole Foods Market á Kensington High Street, sem má kalla matarheimilið okkar í London. Börnin spurðu meira að segja áður en við lögðum í hann, Við förum í WFM, er það ekki? Og við drukkum kaffi. Í hjarta Bloomsbury fékk ég besta lattebollann. Ég hafði lofað einum kaffinörd að fara á Store Street Espresso á 40 Store St (í raun í Fitzrovia-hverfinu). Þetta var loforð sem ég uppfyllti með glöðu geði á rölti okkar um Bloomsbury/Fitzrovia og kaffihúsið stóð undir væntingum mínum.



Ég var undir áhrifum Bloomsbury-hópsins þegar ég steig inn í Store St Espresso. Við höfðum gengið frá Bloomsbury St inn í Gower St og á húsi nr. 10 sá ég bláa plattann hennar lafði Ottoline Morrell. Ég vissi af honum þarna en samt tók hjartað kipp. Hún var ekki beint hluti af hópnum en hún studdi við listamenn og ef þið hafið t.d. lesið dagbækur og bréf Virginiu Woolf þekkið þið nafn Ottoline. Þetta var hugarástandið þegar ég pantaði mér latte.

Þetta var mjög hlýr og sólríkur dagur í borginni og við höfðum labbað ansi mikið þegar ég settist niður og tók fyrsta sopann, sem var himneskur. Store St Espresso er kaffihús mér að skapi. Stíllinn er mínimalískur, hrár og örlítið iðnaðarlegur. Andrúmsloftið er gott; afslappað. Gestirnir virðast vera í sínum heimi, í tölvunni, símanum eða lesandi. Sumir myndu örugglega kalla þetta stað fyrir hipstera en á meðan ég sat þarna sá ég allar týpur af fólki sem áttu það eitt sameiginlegt að njóta góðs kaffis.


Staðsetning Store St Espresso er frábær. Gatan er róleg, nálægt görðum og The British Museum. Ég hvet ykkur til að grípa kaffibolla ef þið eruð í hverfinu. Enn betra ef þið setjist niður. Það er notalegur gluggakrókur fyrir þá sem vilja fylgjast með götulífinu og í góðu veðri má sitja utandyra.
Kaffihúsið Store Street Espresso í Bloomsbury-hverfinu, London · Lísa Hjalt


Ég er ekki alveg búin með ferðina hér á blogginu en ég fékk svo sannarlega London-skammtinn minn. Hugurinn ráfar enn um götur Bloomsbury og mér er hugsað til Virginiu Woolf og vinahóps hennar. Hann ráfar líka um Tate, að dást að málverkum O'Keeffe. Til allrar lukku fór skoska sumarið í sparifötin þegar við komum heim þannig að ég gat byrjað að skrifa þetta á veröndinni með kaffibolla og klárað fyrir framan húsið, við hliðina á hortensíunum þar sem ég naut sólsetursins.

Það sem ég elska svona ágústdaga!


fimmtudagur, 21. apríl 2016

Carrington og Strachey | Gleðilegt sumar

Carrington og Strachey | Gleðilegt sumar · Lísa Stefan


Þessi uppsetning eða stemning er orðin kunnugleg; ég á púða á gólfinu umvafin bókum (málverkið í bókinni er eftir Vassily Kandisky, Capricious Forms, 1937) og tímaritum, stundum með kvikmynd eða dramaþáttaröð í spilaranum. Það vantar bara kaffibollann. Á breska Netflix voru þeir að bæta við spennuþáttaröðinni The Honourable Woman frá BBC, sem mér fannst gaman að sjá aftur (var held ég sýnd á RÚV í fyrra). Leikaravalið er frábært en að mínu mati ber Stephen Rea af. Einnig má finna þar eina af mínum uppáhaldsmyndum, Testament of Youth (2014), sem gerist á tímum Fyrri heimsstyrjaldarinnar og skartar Alicia Vikander í aðalhlutverki. Myndin er byggð á æviminningum Veru Brittain sem bera sama heiti. Leikmyndin er glæsileg; einnig búningarnir. Ein af mínum eigin myndum sem ég hef látið rúlla í spilaranum undanfarið er Carrington (1995), sem fjallar um sérstakt samband listakonunnar Doru Carrington (1893-1932) og rithöfundarins Lytton Strachey (1880-1932).

Carrington og Strachey, sem leikararnir Emma Thompson og Jonathan Pryce túlka, tilheyrðu Bloomsbury-hópnum. Strachey var samkynhneigður en samband hans og Carrington var afar sérstætt og þau bjuggu saman. (Ef þið eruð stödd í London og langar á safn þá getiði séð mynd sem hún málaði af honum í National Portrait Gallery.) Saga þeirra er svo sannarlega ástarsaga, en annars eðlis, með harmrænum endalokum. Carrington tók sitt eigið líf stuttu eftir að Strachey andaðist eftir baráttu við krabbamein. Thompson er dásamleg í sínu hlutverki en þar sem Strachey var afar hnyttinn og orðheppinn þá stelur Pryce oft senunni. Penelope Wilton (Isobel Crawley úr Downton Abbey) í hlutverki Lady Ottoline Morrell er einnig senuþjófur. Hún er einfaldlega frábær. Í öllu sem hún leikur í.

Bókalistinn minn lengist sífellt og á honum er að finna Strachey. Mig langar að lesa Lytton Strachey: The New Biography eftir Michael Holroyd og einnig The Letters of Lytton Strachey í ritstjórn Paul Levy, sem er líklega bara hægt að fá notaða. Ég á bara eftir að ákveða hvora ég les fyrst. Hafiði lesið þær?

Gleðilegt sumar!



fimmtudagur, 13. ágúst 2015

Þáttaröðin Ferkantað líf

Þáttaröðin Ferkantað líf · Lísa Stefan


Nú veit ég ekki hvort byrjað er að sýna seríuna Ferkantað líf (Life in Squares) á Íslandi en síðasti þátturinn var sýndur á BBC í vikunni. Hún var kynnt sem dramaþáttaröð í þremur hlutum um sambandið á milli ensku listakonunnar Vanessu Bell og systur hennar, rithöfundarins Virginiu Woolf. Mér fannst sagan fjalla meira um sambandið á milli Bell og listamannsins Duncans Grants. Ekki það að ég sé að kvarta, ég hafði virklega gaman af þáttunum, fallegri sviðsmyndinni og búningunum. Leikkonan Phoebe Fox leikur hina yngri Bell og Eve Best þá eldri. Ég hafði ekki séð Fox leika áður og mér þótti hún standa sig vel. Hún smellpassaði við þá mynd sem ég hef af Bell í huganum. James Norton skilar sínu hlutverki sem yngri Grant vel (ég sá hann fyrst sem Tommy í seríunni Happy Valley) og það gerir einnig Rupert Penry-Jones sem leikur eldri Grant. Ég vil bæta því við að allir leikararnir eiga lof skilið. Þarna eru saman komnir frábærir breskir leikarar sem vekja hinn þekkta Bloomsbury-hóp til lífs á skjánum og bóhemískan lífsstílinn. Handrit skrifar Amanda Coe og hinn sænski Simon Kaijser leikstýrir.
Lavender · Lísa Stefan


Ef þið hafði ekki horft á þættina þá verð ég eiginlega að vara ykkur smá við fyrsta þættinum. Það er mjög miklu efni komið til skila í honum - ástarsambönd og andlát - sem fólk tengir betur við ef það þekkir þegar sögu þeirra einstaklinga sem kenndir eru við Bloomsbury-hópinn. Það er mín skoðun að þættirnir hefðu átt að vera fjórir í stað þriggja til að kynna betur þessa einstaklinga. Í öðrum þætti er sagan farin að flæða mun betur og auðveldara að fylgja henni.


Kannski er það klisja að kalla lífsstíl Bloomsbury-hópsins bóhemískan, eins og ég gerði hér að ofan, en leikmyndin (mise en scène) er það svo sannarlega. Sjáið fyrir ykkur listaverk, tæki og tól listamanna, skrifborð, bækur, bréf, o.s.frv. Þegar fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir kom Vanessa Bell upp heimili í Charleston House í Sussex, þar sem meginhluti þáttanna gerist. Þið getið skoðað myndir af listamannalegum stíl setursins á heimasíðu House & Garden.

To the Lighthouse eftir Virginia Woolf · Lísa Hjalt


Fyrir mig er tímasetning þáttanna athyglisverð því í byrjun sumars tók ég úr hillunni bókina To the Lighthouse (Út í vitann á ísl.) eftir Woolf, en ég á það til að lesa hana á sumrin. Á meðan lestrinum stóð var ég að hugsa um þær systur, Virginiu og Vanessu, horfði á myndina The Hours (2002) í hundraðasta sinn og pantaði ævisöguna Vanessa Bell eftir Frances Spalding. Ég áttaði mig nefnilega á því að minn fókus var alltaf á Woolf og hennar sögu. Ég vissi minna um Bell en þættirnir gáfu mér innsýn í hennar lífshlaup.

The World of Interiors, september 2014, bls. 146

Í langan tíma hef ég verið heilluð af Virginiu Woolf. Ég man ekki hvenær sá áhugi gerði fyrst vart við sig eða hvaða verk hennar ég las fyrst. Svo margt hefur verið skrifað um ævi hennar. En ég get mælt með bókinni Moments Of Being, sem er safn af hennar sjálfsævilegu skrifum (las hana í kúrsi í háskólanum á sínum tíma) . Frændi hennar Quentin Bell (sonur Vanessu og Clive Bell) skrifaði ævisögu hennar sem spannar tímabilið 1912 til 1941, Virginia Woolf: A Biography. Eiginmaður hennar, Leonard Woolf, ritstýrði dagbókunum og gaf út eftir andlát hennar, A Writer's Diary: Being Extracts from the Diary of Virginia Woolf.

Eftir að hafa horft á Ferkantað líf þá er ég í stuði til að dýfa mér aðeins ofan í Bloomsbury-hópinn. Ég hlakka til að lesa fyrrnefnda ævisögu um Bell og svo langar mig að horfa aftur á myndina Carrington (1995), en tveir af mínum uppáhalds leikurum fara með aðalhlutverk í henni, Emma Thompson sem Dora Carrington og Jonathan Pryce sem Lytton Strachey (sjáið stikluna). Í gerð er kvikmynd eftir hollenska leikstjórann Sacha Polak sem kallast Vita & Virginia og er um samband Woolf og Vitu Sackville-West. Ég býð spennt.