miðvikudagur, 27. janúar 2016

Tíma vel varið

Tíma vel varið: kaffi og Karen Blixen · Lísa Hjalt


Ég þarf að játa svolítið. Í morgun var skýjað úti og grátt og þar sem ég þurfti ekki að fara neitt þá hugsaði ég með mér að best væri að klára að ganga frá restinni af fötunum okkar. Kommóða í svefnherberginu er enn tóm eftir flutningana og enn eru föt í kössum. Þetta byrjaði vel hjá mér en svo langaði mig í kaffi og gerði líklega þau mistök að fara upp með bollann. Áður en ég vissi af sat ég á mottunni með bækur og tímarit, og í spilaranum rúllaði kvikmyndin Out Of Africa (1985). Ég á enga afsökun. Flestar kommóðuskúffurnar eru enn tómar en ég álít tímanum vel varið. Að mínu mati getur það aldrei verið sóun á tíma þegar maður eyðir honum í eitthvað sem veitir innblástur.

Undanfarið hef ég verið að horfa mikið á Out of Africa. Ég sit ekki með augun límd við skjáinn heldur læt hana bara rúlla og horfi á með öðru auganu eða hlusta á meðan ég sinni öðrum verkefnum. Ég stilli gjarnan á athugasemdir leikstjórans Sidney Pollack því ég fæ ekki leið á því sem hann segir um Karen Blixen, Kenya og hvernig myndin var filmuð. Hann talar ekki bara um einstaka senur, eins og flestir leikstjórar gera, heldur fer hann dýpra og hann er góður sögumaður. Kannski er þetta bara mín leið til þess að halda í rödd hans þar sem hann er fallinn frá. Hvað um það, þetta er mynd sem ég hef horft svo oft á að ég hef ekki tölu á því og í hvert sinn höfða mismunandi senur til mín. Í morgun var það samband Blixen [Meryl Streep] og sómalska þjóns hennar Farah [Malick Bowens], sem vann fyrir hana allan tímann sem hún bjó í Kenya. Samræðurnar í senunum eru ekki langar en þær eru dásamlegar og gjarnan hnyttnar. Í bókinni Shadows on the Grass talar hún um Farah sem „servant by the grace of God“ og í mynd sinni finnst mér Pollack ná að fanga merkingu þess á fallegan máta.


Aðeins um endurlestur bóka. Out of Africa (Jörð í Afríku) eftir Karen Blixen er ein af þeim sem ég er að lesa aftur. Undanfarið hef ég verið að hugsa um það að því meira sem ég sé af því sem fólk deilir á samfélagsmiðlum - sjálfsmyndir og tilgangslausar vefsíður, leyfist mér að nefna heimsku? - því meira finn ég þörf fyrir að taka eitt skref til baka og snúa mér að vönduðum bókum og kvikmyndum. Þær hjálpa að hreinsa hugann af lélegum greinum og ljósmyndum sem gera ekkert fyrir andann.

Nokkrir punktar um myndirnar í færslunni: Á efri sést síða 133 í The World of Interiors, desembertölublaði 2015 (tekin af Andreas von Einsiedel). Greinin „Window on the World“ fjallar um Julian Barrow heitinn, listamann og heimsflakkara sem átti vinnustofu í Chelsea-hverfinu. Mynstrin eru úr bókinni V&A Pattern: Indian Florals. Á neðri sést síða úr sama hefti af WoI. Greinin „Bauhaus Below the Border“ sem byrjar á síðu 66 fjallar um Josef og Anni Albers. Sýningin A Beautiful Confluence: Anni and Josef Albers and the Latin American World er í safninu Museo delle Culture í Mílan og lýkur 21. feb.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.