þriðjudagur, 24. nóvember 2015

Lífið ... í Skotlandi



Það hefur verið hljótt á blogginu í mánuð og á þessum tíma tókst mér einhvern veginn að pakka dótinu okkar í kassa og flytja til Skotlands. Kannski þurfið þið smá stund til að melta þessar fréttir … eða jafnvel að lesa þær aftur. Ég bý núna við vesturströndina, suðvestur af Glasgow, í göngufæri við miðbæjarkjarna og strönd. Alvöru strönd. Á fyrsta degi vaknaði ég upp við máfana og mér leið eins og ég væri komin heim. Ég elska þessa nálægð við sjóinn; þetta er það sem maður er alinn upp við í Reykjavík. Nýja heimilið okkar er gamalt, uppgert hús með sál: franskir gluggar, hátt til lofts, upprunalegar viðarhurðir og stigi, og bæði gömul og ný gólfborð. Gæti ekki verið meira ég. Í garðinum eru meira að segja hortensíur! Á því sem við köllum engin-nettenging-enn-þá tímabilinu sat ég við þennan glugga í borðstofunni með kaffi og lagði kapal, með alvöru spilum, svona þegar ég þurfti hlé frá kössunum. Mjög gamaldags og róandi. Jóladiskurinn með KK og Ellen var í spilaranum.

Þessa dagana snýst lífið aðallega um það að taka upp úr kössum, að sjá til þess að börnin aðlagist nýjum skólum og að leyfa eyranu að venjast skoska hreimnum. Ég hélt að það yrði miklu erfiðara að skilja Skotana en hafði greinilega rangt fyrir mér. Þar sem ég hef bara búið hérna í stuttan tíma þá get ég ekki fullyrt mikið en ég verð að segja að mér finnst það eiginlega með ólíkindum hvað ein lína á landakorti getur breytt fólki. Skotarnir eru svo ólíkir Englendingum í skapi. Þetta hlýtur að vera náttúran og loftslagið.