mánudagur, 14. desember 2015

Sænskt fléttubrauð með kardamomu

Sænskt fléttubrauð með kardamomu (jól) á leið í ofninn · Lísa Hjalt


Sænskt fléttubrauð með kardamomu er nýjasta uppskriftin á jólamatseðlinum okkar; ný hefð sem við tökum fagnandi og fellur vel inn í brönsjinn á sunnudögum í desember. Kannski mætti frekar kalla uppskriftina norrænt eða skandinavískt jólabrauð þar sem það er ekki endilega sænskt. Sumir kalla þetta kaffibrauð eða tebrauð en ég er vön sænska heitinu. Í Finnlandi kalla þeir brauðið pulla og annað finnskt heiti yfir það er nisu eða nissua. Í Noregi ber það heitið julekake og innheldur rúsínur, en ég held að Norðmenn flétti ekki endilega hleifinn. Í Danmörku hef ég séð teboller eða bollur með kardamomum. Innihald þessara uppskrifta er eitthvað breytilegt en samnefnarinn er kardamoman.
Sænskt fléttubrauð með kardamomu (gerdeig) · Lísa Hjalt
Sænskt fléttubrauð með kardamomu (gerdeig) · Lísa Hjalt


Í Svíþjóð baka þeir ýmist brauð eða bollur úr deiginu og þeir skreyta brauðið gjarnan með perlusykri, sem er hráefni sem ekki er að finna í mínum eldhússkápum. Í sumum uppskriftum er brauðið fléttað í hring sem er fylltur með smjöri, sykri og kryddum, og möndluflögum dreift yfir. Allar þessar norrænu uppskriftir innihalda smjör og sykur, en það ætti ekki að koma á óvart að mín útgáfa er sykurminni og ég nota örlitla kókosolíu í staðinn fyrir smjör. Brauðið er samt sem áður mjúkt með sætu bragði og því má bæta við að himneskt bragð kardamomunnar er það sem við sækjumst aðallega eftir.



Í mína uppskrift nota ég nýmalaða kardamomu, úr hálfri matskeið af heilum kardamomum (20-25 af þessum grænu). Fyrstu tilraunir mínar með brauðið innihéldu ferskt ger en ég ákvað að gera tilraunir með þurrger líka ef ske kynni að einhverjir lesendur hefðu ekki aðgang að fersku (enginn á heimilinu kvartaði, sennilega voru allir í kardamomudásvefni!). Uppskriftin kallar á 735 grömm af mjöli (5½ bolla) en það er nóg að nota þurrger sem ætlað er 500 grömmum. Ég baka brauðið með fínmöluðu spelti en hef einnig notað lífrænt hveiti, með fersku eða þurrgeri, með góðum árangri. Ég ætlaði að deila gerlausri uppskrift líka en til að koma í veg fyrir misskilning þá geri ég það síðar í sér færslu.
Nýbökuð sænsk fléttubrauð með kardamomu (jól) · Lísa Hjalt


Ég hef sagt það áður að ég á nokkra danska forfeður og ólst upp á Íslandi við ýmsar danskar hefðir, en man ekki eftir fléttubrauði á okkar borðum. Útlitið á brauðinu hefur alltaf heillað mig og þar sem brauðin sem ég hef smakkað hafa verið fullsæt fyrir minn smekk langaði mig að gera mína eigin útgáfu. Að baka fléttubrauð er ekki flókið en þar sem fyrst þarf að virkja gerið og láta svo deigið hefast tvisvar þá snýst þetta meira um bið. Fyrri hefingin er klukkutími og sú síðari þegar búið er að flétta hleifana er 30-40 mínútur. Ef þið kunnið ekki að flétta gerið þá bara venjulega brauðhleifa í staðinn. Eins og ég sagði fyrr þá er uppskriftin mín laus við smjör og er sykurminni en aðrar sem ég hef séð. Við skulum bara segja að í minni er það kardamoman sem er í aðalhlutverki. Þess má svo geta að þegar ég baka finnst mér ákaflega þægilegt að nota bollamál í stað eldhúsvogar og gef þær mælieiningar upp í aðferðinni fyrir þá sem eru sama sinnis (1 bolli = 250 ml).

SÆNSKT FLÉTTUBRAUÐ MEÐ KARDAMOMU

gerir 2 hleifa
17 g ferskt ger (pressuger) + 125 ml vatn (½ bolli) til að virkja gerið
  (eða þurrger fyrir 500 g af mjöli - sjá punkta í ljósa boxinu hér að neðan)
185 ml mjólk (¾ bolli)
4 matskeiðar lífrænn hrásykur
2 matskeiðar kókosolía
1 teskeið sjávar/Himalayasalt
½ mateskeið heilar kardamomur (eða malaðar)
1 (hamingju)egg
135 g + 600 g fínmalað spelti eða lífrænt hveiti (1 + 4½ bolli)
örlítil kókosolía til að smyrja skálina sem deigið hefast í
1 eggjahvíta til að pensla brauðhleifana

Til að virkja gerið: Setjið ferska gerið (pressugerið) í skál með heitu vatni (35-37°C), hrærið aðeins með skeið til að leysa gerið upp og látið standa í ca. 5 mínútur, þar til yfirborðið er froðukennt. (Sjá punkta í ljósa boxinu hér að neðan ef notað er þurrger.)

Brjótið hýði kardamomunar með t.d. kökukefli til að fjarlægja fræin. Grófmalið fræin með mortéli eða kryddkvörn. Það má líka pakka þeim inn í bökunarpappír og mala þau með kökukefli.

Hitið mjólkina í litlum potti - ekki sjóða hana! Blandið saman hrásykri, kókosolíu, salti og kardamomu í skál og hellið volgri mjólkinni yfir. Hrærið rólega á meðan þið leysið upp sykurinn og kókosolíuna.

Setjið 135 grömm (1 bolla) af spelti/hveiti í stóra skál ásamt eggi. Brjótið rauðuna með pískara og hellið gerblöndunni og mjólkurblöndunni út í. Hrærið með pískara þar til blandan er kekklaus. Bætið 600 grömmum (4½ bolla) af mjöli út í og blandið saman með trésleif. Hnoðið deigið aðeins í höndunum á meðan það er enn í skálinni og ef áferðin er klístruð sigtið örlitlu mjöli yfir og hnoðið áfram þar til rétt áferð næst. Það á að vera raki í deiginu en það á ekki að vera klístrað.

Stráið mjöli á borðplötu og hnoðið deigið í höndunum í 5-7 mínútur. Smyrjið skálina með örlítilli kókosolíu áður en þið setið deigið aftur ofan í hana. Breiðið viskustykki (má vera rakt) yfir skálina og látið deigið hefast á hlýjum stað í alla vega klukkutíma, eða þar til deigið hefur tvöfaldast.

Sláið deigið niður og hnoðið aðeins áður en þið skiptið því til helminga. Mótið þrjár jafnstórar kúlur úr hverjum helmingi. Rúllið kúlurnar og mótið þannig að úr verði 6 jafnstórar lengjur, hver ca. 30 cm.

Færið 3 lengjur í einu yfir á ofnplötu með bökunarpappír. Klípið endunum sem eru fjærst saman, fléttið lengjurnar og stingið endunum undir. Endurtakið með hinar 3 lengjurnar og hafið gott bil á milli fléttuðu hleifanna. Látið þá hefast undir viskustykki á hlýjum stað í 30-40 mínútur til viðbótar.

Penslið hleifana með eggjahvítu og bakið við 180°C (160°C á blæstri) í 22-25 mínútur. Ef bankað er á brauðbotninn og það heyrist holhljóð þá er brauðið fullbakað. Látið brauðin kólna á kæligrind áður en þið sneiðið þau og berið fram með smjöri.

Recipe in English.

Í þessa uppskrift má nota ferskt ger eða þurrger. Að virkja ferskt ger: sjá leiðbeiningar hér að ofan.

Ef notað er þurrger: Ég hef bakað brauðin með tvenns konar þurrgeri. Þó að uppskriftin kalli á 735 grömm af mjöli (5½ bolla) þá nota ég þurrger sem ætlað er fyrir 500 grömm - fylgið leiðbeiningum á umbúðum þar sem þær eru mismunandi eftir framleiðanda.

Ein tegundin er einföld í notkun (instant): Ég blanda einum pakka saman við 135 grömmin af mjölinu áður en egginu og mjólkurblöndunni er hrært saman við. Þegar restinni af mjölinu, 600 grömmunum, er blandað saman við þá hef ég 100-125 ml af volgu vatni til hliðar og nota eftir þörfum.

Hin tegundin sem ég hef notað kallar á 125-150 ml volgt vatn (1 hluti af soðnu á móti 2 hlutum af köldu), 1 teskeið af sykri og 1 matskeið af þurrgeri. Sykurinn er fyrst leystur upp í vatninu í skál áður en gerinu er stráð yfir. Því næst þarf að hræra vel og svo er skálin geymd á hlýjum stað í ca. 15 mínútur þar til yfirborðið er froðukennt.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.