mánudagur, 26. október 2015

Kryddbrauð

Kryddbrauð (CafeSigrun uppskrift) · Lísa Hjalt


Kannski ætti ég ekki að viðurkenna það en jólaskapið kom snemma í ár. Ég skrifa það á börnin. Nýverið við kvöldverðarborðið byrjuðu þau að tala um jólahefðirnar okkar, um matinn sem við berum fram, og ég hef ekki jafnað mig. Ég er alvarlega að hugsa um að þykjast vera amerísk og halda upp á Þakkargjörðardaginn í ár bara til þess að fá kalkún og graskersböku í nóvember. Aftur að jólaskapinu mínu, sem er svo alvarlegt að ég bakaði kryddbrauð tvo daga í röð í síðustu viku, aðallega til þess að finna jólakryddilminn úr ofninum. Og í gær byrjaði ég að gera tilraunir fyrir jólabrönsj (afsakið slettuna en brönsj er bara svo gott orð) sem einhverjir hafa kannski þegar séð á Instagram.
Kryddbrauð (CafeSigrun uppskrift) · Lísa Hjalt


Ég hef verið frekar upptekin þennan októbermánuð en einn af hápunktunum var án efa að fá bókina hennar (Cafe)Sigrúnar vinkonu í póstinum (það glittir í hana á tveimur myndum). Þið hafið kannski tekið eftir því að bókin kom út í byrjun október og er stútfull af uppskriftum með myndum af þeim öllum. Þetta er bókin sem ég hjálpaði henni með eins og ég sagði ykkur í þessari færslu. Ég hélt að hjartað myndi springa þegar ég opnaði umslagið. Það var ansi furðuleg tilfinning að halda á bókinni og fletta síðunum: þarna voru á prenti öll skjölin sem höfðu verið á tölvuskjánum mánuðum saman! Ég ætla að deila nokkrum uppskriftum síðar og leyfa ykkur að kíkja í bókina en hana getið þið keypt á netinu og í bókaverslunum.


Uppskriftin að kryddbrauðinu, sem inniheldur kanil, engifer, múskat, negul og kakó, er ein af þessum sem ég deildi á gamla matarblogginu. Þetta er eilítið breytt útgáfa af uppskriftinni hennar (Cafe)Sigrúnar, en hún setti sína saman eftir ferð um kryddskógana á Zanzibar. Hún hefur ferðast um Afríku og verið fararstjóri og maðurinn hennar á það til að „trítla“ með fólk upp á Kilimanjaro. Sigrún notar meira magn af kryddum í sína uppskrift og eina útgáfu af hennar er einmitt að finna í bókinni góðu. Ég hef bakað kryddbrauðið í mörg ár og það er okkar þægindamatur. Stundum þegar kalt er í veðri, og bara ég og börnin erum heima, þá borðum við það í kvöldmat ásamt heitu súkkulaði. Brauðið er eitt af því fáa sem ég borða með smjöri en mér finnst það líka gott án þess. Ég baka það með spelti og blanda fín- og grófmöluðu saman. Ef það er afgangur af brauðinu þá frysti ég það í sneiðum og svo fer það bara beint í brauðristina.

KRYDDBRAUÐ

3½ dl spelti (175 g)
2½ dl haframjöl (100 g)
1¼ dl lífrænn hrásykur (110 g)
2-3 matskeiðar kakó
2½ teskeið vínsteinslyftiduft
1 teskeið kanill
½ teskeið engifer
¼ teskeið múskat
¼ teskeið negull
250 ml mjólk/sojamjólk
2 matskeiðar hreint hlynsíróp

Blandið þurrefnunum saman í stórri skál.

Hellið mjólkinni og hlynsírópinu út í og blandið rólega saman þar til ekkert þurrt mjöl er eftir á botninum. Bætið 1-3 matskeiðum af mjólk ef þið þurfið.

Klæðið brauðform með bökunarpappír og hellið deiginu ofan í.

Bakið við 190°C (175°C á blæstri) í 35-40 mínútur. Það er ágætt að stinga gaffli eða prjóni í miðjuna til að sjá hvort brauðið sé nokkuð of blautt. Sigrún segir að það megi alveg vera pínu blautt og klesst og mín börn eru alveg sammála henni. Ég baka því brauðið aldrei lengur en í 35 mínútur í mínum ofni.

Recipe in English.



miðvikudagur, 7. október 2015

Rabarbaramulningur með berjum

Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Hjalt


Aulabrandarar eru held ég eitthvað sem flestar fjölskyldur eiga í settum til að nota við ákveðin tilefni. Hjá okkur er eiginmaðurinn höfundur þeirra flestra og hann hefur meira að segja samið einn um mulning (crumble í ensku). Í hvert sinn sem ég útbý mulning - með rabarbara og berjum er okkar uppáhald - þá má heyra hann eða eitthvert barnanna syngja línu úr Bond-laginu hennar Adele í Skyfall með smá breytingum. Í stað when it crumbles syngja þau let it crumble. Aulahúmor, ég veit, en samt brosi ég í hvert sinn. Ég veit ekki hvað það er með mulning sem er bakast í ofninum, en það virðist sem allir í fjölskyldunni séu byrjaðir að bíða í eldhúsinu góðum tíu mínútum áður en hann er tilbúinn. Það má sjá þau labba í kringum borðið mitt góða og kíkja af og til á ofninn. Sennilega er það dásamlega lyktin. Það er líka eitthvað notalegt við mulning, sérstaklega að hausti þegar laufin eru byrjuð að skipta litum.

Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Hjalt


Við erum mjög hrifin af rabarbaramulningi með annaðhvort jarðarberjum eða bláberjum, helst með bæði, en svo er líka ljúffengt að nota ferskar plómur eða apríkósur. Í stað þess að nota mikinn sykur í grunninn þá nota ég saxaðar döðlur (ég kaupi hálf-þurrkaðar sem eru með steinum) og bara tvær matskeiðar af sykri. Döðlur eru ríkar af náttúrulegum sykri og þær eru líka trefjaríkar.


Flest ykkar eru líklega vön því að nota slatta af smjöri í mulninginn en það er ekkert smjör í þessum. Ég hvorki baka né elda með smjöri. Ég nudda mjúkri kókosolíu saman við speltið og bæti svo yfirleitt möluðum möndlum, eða fínt hökkuðum, til að fá réttu áferðina, sem er svona örlítið brakandi, eins og kex. Valhnetur og heslihnetur eru líka kjörnar í mulning.
Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Hjalt


Þegar ég var að alast upp þá eyddi ég miklum tíma hjá afa og ömmu (í föðurættina) í Vogahverfinu í Reykjavík. Rabarbarabeðið í garðinum þeirra var stórt og við borðuðum stilkana eins og sælgæti. Að sjálfsögðu var gerð sulta úr rabarbörunum og svo gerði mamma oft rabarbaragraut sem eftirrétt. Hér í Bretlandi er það sem kallast rabarabaragrautur meira eins og kaka, sem er ekkert skylt grautnum sem mamma gerði. Ætli þessir grautar sem við Íslendingar þekkjum séu ekki norræn hefð; silkimjúkir eins og þykk súpa eða þeytingur, og bornir fram með rjóma - bragðið sætt og dásamlegt!

Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Hjalt
Rabarbaramulningur með berjum · Lísa Hjalt


Ég hafði þegar deilt uppskrift að rabarbaramulningi með jarðarberjum á ensku útgáfu gamla matarbloggsins. Í raun er þetta sama uppskriftin nema að grunnurinn er matarmeiri og ég nota líka bláber. Það má skipta bláberjunum út fyrir meira af jarðarberjum eða nota önnur ber í staðinn. Við bjuggum í Luxembourg þegar ég setti þessa uppskrift saman og við vorum svo heppin að vera með rabarbara í garðinum. Ég var innblásin af mulningsuppskrift frá (Cafe)Sigrúnu vinkonu sem ég hafði prófað og var svo hrifin af. Muniði eftir færslunni með sýnishorni af uppskriftabókinni hennar? Nú er bókin komin út og kallast Café Sigrún: Hollustan hefst heima. Ég var einmitt að hlusta á útvarpsviðtal við hana í morgun á vefsíðu RÚV þar sem hún var að kynna bókina. Meira um bókina síðar. Ef þið eigið von á gestum og viljið bjóða upp á mulninginn í eftirrétt þá getið þið útbúið hann áður en bíðið bara með að setja toppinn ofan á. Gerið það bara rétt áður en þið setjið hann í ofninn svo að áferð mulningsins verði rétt.

RABARBARAMULNINGUR MEÐ BERJUM

grunnur
400-450 g rabarbari
300 g jarðarber
150 g bláber
100 g döðlur
2 matskeiðar lífrænn hrásykur
1 teskeið engifer
¼ teskeið múskat

mulningur/toppur
50 g möndlur, malaðar
100 g fínmalað spelti
3 matskeiðar hrásykur
2 matskeiðar kókosolía, mjúk
1 matskeið nýkreistur appelsínusafi eða vatn

Grunnurinn: Þvoið rabarbarann og skerið blöðin af. Skerið stilkana í bita sem eru 2-2.5 cm og setjið í stóra skál. Hafið bitana þynnri ef stilkarnir eru mjög sverir. Skolið jarðarberin og snyrtið. Skerið þau í tvennt eða fernt, eftir hversu stór þau eru, og bætið í skálina. Fjarlægið steinana úr döðlunum, saxið þær og bætið í skálina. Að lokum skuluð þið setja sykur, engifer og múskat út í og blanda þessu rólega saman með sleikju. Setjið svo skálina til hliðar á meðan þið útbúð toppinn.

Mulningurinn: Ef þið eigið ekki malaðar möndlur (e. ground almonds) þá skuluð þið setja heilar möndlur í matvinnsluvélina. Setjið þær svo til hliðar. Blandið saman spelti og sykri í skál. Bætið mjúkri kókosolíu saman við og nuddið saman með fingurgómunum (ef kókosolían er í fljótandi formi þá getið þið sett hana í kæli fyrir notkun). Bætið möluðu möndlunum saman við ásamt appelsínusafa og nuddið saman aðeins lengur.

Hellið grunninum úr stóru skálinni í eldfastan bökudisk og dreifið jafnt úr (minn er 25 x 5 cm og hliðarnar halla ekki mikið). Dreifið mulningnum yfir og bakið við 200°C (180° C á blæstri) í 30 mínútur þar til hann er gullinbrúnn. Ef ykkur finnst mulningurinn farinn að vera helst til brúnn þá er ágætt að setja bökunar- eða álpappír yfir bökudiskinn þegar um tíu mínútur eru eftir af baksturstímanum.

Leyfið mulningnum að kólna í nokkrar mínútur og berið svo fram með þeyttum rjóma, heimagerðum vanilluís eða grískri jógúrt.

Recipe in English.




fimmtudagur, 1. október 2015

Virginia Woolf: Dagbækur - bindi 1

Virginia Woolf: Dagbækur - bindi 1


„Eitthvað áhugavert gerist á hverjum degi“ (something interesting happens every day) eru orð sem Virginia Woolf mælti, sem ég og sonur minn höfum tileinkað okkur og breytt í spurningu sem við leitumst við að svara á hverjum degi. Þetta byrjaði í sumar þegar ég las The Diary of Virginia Woolf - Volume 1: 1915-19 - hluti af Woolf-og-Bloomsbury-hóps tímabilinu sem ég er að fara í gegnum. Þau má heyra í stuttri heimildarmynd, The Mind and Times of Virginia Woolf, í aukaefni sem er að finna á The Hours (2002) mynddisknum (í lokin, á 24. mínútu). Einn af viðmælendunum er Nigel Nicolson heitinn, sonur Vitu Sackville-West, bestu vinkonu Woolf. Hann minnist Woolf í uppvexti sínum, hvernig hún átti það til að spyrja endalausra spurninga um allt sem hann hafði brallað tiltekinn dag, og þá ríku áherslu sem hún lagði á það að halda dagbók vegna þess að „eitthvað áhugavert gerist á hverjum degi.“

Fyrir þá sem nærast á spennunni sem fylgir góðri fléttu í skáldsögum hljómar það kannski ekki áhugavert að lesa dagbókarfærslur með veðurlýsingum og slíku. Ég held að hvers kyns æviskrif þurfi að kveikja í manni til að njóta slíkra rita. Í tilfelli dagbóka Woolf þá hjálpar það að vera aðdáandi verka hennar. Hugmynd mín var að enda kvöldlesturinn á því að lesa eina til tvær færslur í Bindi 1 en ég endaði alltaf á því að lesa meira. Það sem mér fannst hvað mest heillandi var hverju hún tók eftir í fari fólks og í umhverfi sínu. Þessar hárnákvæmu lýsingar eru stundum eins og ljóð, jafnvel þegar hún er bara að lýsa veðrinu eða árstíðabreytingum. Svo er það lífið á dögum Fyrri heimsstyrjaldarinnar. „Happily the weather is turned cloudy; spring blotted out, but one must sacrifice spring to the war" (bls. 128 - 15. mars 1918).


Dagbækurnar, í fimm bindum, voru í ritstjórn Anne Olivier Bell (eiginkona Quentin, systursonar Woolf). Í þeim eru neðanmálsgreinar fyrir þá sem vilja vita meira um fólkið og atburðina sem Woolf skrifar um. Fyrsta bindið nær yfir tímabilið frá 1915 til 1919. "My writing now delights me solely because I love writing & dont [sic], honestly, care a hang what anyone says. What seas of horror one dives through in order to pick up these pearls—however they are worth it" (bls. 20 - 16. janúar 1915). Í febrúar 1915, eftir 6 vikna færsluskrif, endar dagbókin skyndilega þegar geðsjúkdómur Woolf gerir vart við sig að nýju, rétt fyrir útgáfu fyrsta verks hennar, The Voyage Out, í mars 1915. Tveimur árum áður hafði hún reynt að fyrirfara sér. Vegna geðrænna vandamála er þögn til ársins 1917 þegar hún byrjar aftur með stuttum færslum. Um haustið verða færslurnar lengri en það er ekki fyrr en árið 1918 sem dagbókin fer á flug og þau skrif verða mikilvægur hluti í lífi Woolf. Í janúar 1919 skrifar hún:
I note however that this diary writing does not count as writing, since I have just reread my years diary & am much struck by the rapid haphazard gallop at which it swings along, sometimes indeed jerking almost intolerably over the cobbles. Still if it were not written rather faster than the fastest typewriting, if I stopped & took thought, it would never be written at all; & the advantage of the method is that it sweeps up accidentally several stray matters which I should exclude if I hesitated, but which are the diamonds of the dustheap. (bls. 233-34)

Á baksíðu: Eldhúsinngangur Monk's-hússins, heimili Woolf-hjónanna í Rodmell

Í apríl 1919 skrifar Woolf langa færslu þar sem hún leiðir hugann að dagbókarskrifum sínum:
I got out this diary, & read as one always does read one's own writing, with a kind of guilty intensity. I confess that the rough & random style of it, often so ungrammatical, & crying for a word altered, afflicted me somewhat. ... But what is more to the point is my belief that the habit of writing thus for my own eye only is good practise. It loosens the ligaments. Never mind the misses & the stumbles. ... What sort of diary should I like mine to be? Something loose knit, & yet not slovenly, so elastic that it will embrace any thing, solemn, slight or beautiful that comes into my mind. I should like it to resemble some deep old desk, or capacious hold-all, in which one flings a mass of odds & ends without looking them through. (bls. 266)
Þessa stundina er ég að bíða eftir að Bindi 2: 1920-24 berist með póstinum og hlakka til að halda áfram þar sem frá var horfið. Fyrir ykkur sem hafið ekki áhuga á dagbókum, en langar að vita meira um líf Woolf, þá er fáanleg ævisagan Virginia Woolf eftir Hermione Lee, sem ég ætla að lesa þegar ég hef lesið öll fimm bindin. Lee er einn af viðmælendum fyrrnefndrar heimildarmyndar.