fimmtudagur, 13. ágúst 2015

Þáttaröðin Ferkantað líf

Þáttaröðin Ferkantað líf · Lísa Hjalt


Nú veit ég ekki hvort byrjað er að sýna seríuna Ferkantað líf (Life in Squares) á Íslandi en síðasti þátturinn var sýndur á BBC í vikunni. Hún var kynnt sem dramaþáttaröð í þremur hlutum um sambandið á milli ensku listakonunnar Vanessu Bell og systur hennar, rithöfundarins Virginiu Woolf. Mér fannst sagan fjalla meira um sambandið á milli Bell og listamannsins Duncans Grants. Ekki það að ég sé að kvarta, ég hafði virklega gaman af þáttunum, fallegri sviðsmyndinni og búningunum. Leikkonan Phoebe Fox leikur hina yngri Bell og Eve Best þá eldri. Ég hafði ekki séð Fox leika áður og mér þótti hún standa sig vel. Hún smellpassaði við þá mynd sem ég hef af Bell í huganum. James Norton skilar sínu hlutverki sem yngri Grant vel (ég sá hann fyrst sem Tommy í seríunni Happy Valley) og það gerir einnig Rupert Penry-Jones sem leikur eldri Grant. Ég vil bæta því við að allir leikararnir eiga lof skilið. Þarna eru komnir saman frábærir breskir leikarar sem eiga góða frammistöðu og vekja til lífs á skjánum hinn þekkta Bloomsbury-hóp og bóhemískan lífsstílinn. Handrit skrifar Amanda Coe og hinn sænski Simon Kaijser leikstýrir.
Lavender · Lísa Hjalt


Enn er hægt að horfa á þáttaröðina í sjónvarpinu hér í Englandi og fljótlega verður hún fáanleg á mynddiski. Ef þið eigið eftir að sjá hana þá verð ég eiginlega að vara ykkur við fyrsta þættinum. Það er mjög miklu efni komið til skila í honum - ástarsambönd og andlát - sem fólk tengir betur við ef það þekkir þegar sögu þeirra einstaklinga sem kenndir eru við Bloomsbury-hópinn. Það er mín skoðun að þættirnir hefðu átt að vera fjórir í stað þriggja til að kynna betur þessa einstaklinga. Í öðrum þætti er sagan farin að flæða mun betur og það er auðveldara að fylgja henni.


Kannski er það klisja að kalla lífsstíl Bloomsbury-hópsins bóhemískan, eins og ég gerði hér að ofan, en leikmyndin (mise en scène) er það svo sannarlega. Sjáið fyrir ykkur listaverk, tæki og tól listamanna, skrifborð, bækur, bréf, o.s.frv. Þegar fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir kom Vanessa Bell upp heimili á Charleston House setrinu í Sussex, þar sem meginhluti þáttanna gerist. Þið getið skoðað fallegar myndir af listamannalegum stíl setursins á heimasíðu House & Garden.

To the Lighthouse eftir Virginia Woolf · Lísa Hjalt


Fyrir mig er tímasetning þáttanna athyglisverð því í byrjun sumars tók ég úr hillunni bókina To the Lighthouse (Út í vitann á ísl.) eftir Woolf, en ég á það til að lesa hana á sumrin. Á meðan lestrinum stóð var ég að hugsa um þær systur, horfði á kvikmyndina The Hours (2002) í hundraðasta sinn og pantaði fyrirfram vasabrotsútgáfu ævisögunnar Vanessa Bell eftir Frances Spalding. Ég áttaði mig á því að minn fókus var alltaf á Woolf og hennar sögu og ég vissi minna um Bell. Þáttaröðin gaf mér betri mynd af hennar lífshlaupi og nú er ég spenntari að fá ævisöguna inn um lúguna.

The World of Interiors, september 2014, bls. 146

Í langan tíma hef ég verið heilluð af Virginiu Woolf. Ég man ekki hvenær sá áhugi gerði fyrst vart við sig eða hvaða verk hennar ég las fyrst. Svo margt hefur verið skrifað um ævi hennar og ég get mælt með bókinni Moments Of Being: Autobiographical Writings. Frændi hennar Quentin Bell (sonur Vanessu og Clive Bell) skrifaði ævisögu um hana sem spannar yfir tímabilið 1912 til 1941, Virginia Woolf: A Biography. Eiginmaður hennar Leonard Woolf ritstýrði dagbókum hennar og gaf þær út eftir andlát hennar (sjá A Writer's Diary: Being Extracts from the Diary of Virginia Woolf).

Eftir að hafa horft á Ferkantað líf þá er ég í stuði til að dýfa mér aðeins ofan í Bloomsbury-hópinn. Ég hlakka til að lesa fyrrnefnda ævisögu um Bell og svo langar mig að horfa aftur á myndina Carrington (1995), en tveir af mínum uppáhalds leikurum fara með aðalhlutverk í henni, Emma Thompson sem Dora Carrington og Jonathan Pryce sem Lytton Strachey (sjáið stikluna). Í gerð er kvikmynd eftir hollenska leikstjórann Sacha Polak sem kallast Vita & Virginia og er um samband Woolf og Vitu Sackville-West. Ég býð spennt.




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.