Sýnir færslur með efnisorðinu náttúra. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu náttúra. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 20. september 2016

Haustkoman

Haustkoman · Lísa Stefan


Snemma í gærmorgun skrapp ég rétt aðeins út í garð og skynjaði þá haustkomuna í eitt augnablik þegar ég tók eftir því hvað litir hortensíanna höfðu fölnað. Án þess að vilja hljóma dramatísk fékk ég allt að því örlítinn sting í hjartað því veðrið undanfarið hefur verið svo dásamlegt - heldur betur indjánasumar, eins og ég hafði óskað mér - og ég er ekki alveg tilbúin fyrir kaldari tíð. Það er munaður að geta enn farið með kaffibolla út á verönd og notið sólar, en mér sýnist á öllu að frá og með þessum degi drekki ég kaffið inni og horfi út um gluggann.

Haustkoman var talsvert ólík þegar við bjuggum á Íslandi en þar haustar jú fyrr og hraðar. Berjatínsla var ómissandi þáttur og bíltúr til Þingvalla til að sjá náttúruna í sínum fegursta haustbúningi. Hér koma stór og safarík pólsk bláber í búðir, epla- og plómutré gefa ávöxt og hortensíurunnar missa lit sinn löngu áður en laufin skipta litum.

Annar haustboði hjá mér er Virginia Woolf. Ég byrjaði að lesa dagbækur hennar í ágúst í fyrra og eftir að hafa bara aðeins gluggað í þær, og í bréfaskrif hennar í sumar, þá er aftur komin sú þörf að lesa alltaf nokkrar færslur fyrir svefninn. Það er sem hún sé alltaf að skrifa við arineld sem er einstaklega notalegt. Talandi um Woolf. Um helgina sá ég umfjöllun um nýjar útgáfur af bókum hennar í kiljuformi frá Vintage Classics. Finnska listakonan Aino-Maija Metsola hannaði kápumyndirnar (hún hefur hannað fyrir Marimekko í nokkur ár) og það var held ég ást við fyrstu sýn þegar ég sá kápuna á Mrs Dalloway. Aðrar bækur í sömu útgáfu eru The Waves, The Years, Orlando, To the Lighthouse og A Room of One's Own, sem innheldur líka framhaldið Three Guineas.

miðvikudagur, 11. maí 2016

Vor á veröndinni

Vor á veröndinni, kirsuberjatré í blóma · Lísa Stefan


Skoska vorið lét bíða eftir sér en mætti svo fyrir tveimur dögum síðan í allri sinni dýrð, sólríkt og hlýtt. Veröndin var sópuð, garðborðið skrúbbað og baststólarnir settir út. Það var kominn tími á fyrstu máltíð þessa vors undir berum himni. Síðustu dagar hafa verið himneskir, með notalegum stundum úti á verönd þar sem setið er undir kirsuberjatré í fullum blóma. Ég sit þar einmitt núna, með kaffibolla, bækur og tímarit. Í nýlegri bloggfærslu var tréð að undirbúa að blómstra og einn morguninn sá ég það í gegnum herbergisglugga sonarins og það var sem það hefði hreinlega sprungið. Stórfenglegt!


Þessa dagana er ég að lesa The Great Railway Bazaar: By Train Through Asia eftir bandaríska rithöfundinn Paul Theroux, sem er þekktur fyrir ferðaskrif og skáldsögur. Þetta er fyrsta ferðasagan hans, sem kom fyrst út árið 1975. Ég ætlaði að lesa Dark Star Safari: Overland from Cairo to Cape Town en hugsaði svo með mér að það væri best að lesa ferðsögur hans í tímaröð - sennilega óviturleg ákvörðun þar sem hin síðarnefnda er tólfta í röðinni! Í The Great Railway Bazaar ferðumst við með Theroux í lestum yfir Asíu, en ferðalagið hefst með Austurlandahraðlestinni frá París til Istanbúl. Ritstíll hans er dásamlegur og hnyttinn. Ég var alltaf að skella upp úr og að nóta hjá mér tilvísanir í minnisbókina. Áður en ég komst í gegnum annan kafla hafði ég gert mér grein fyrir því að ég yrði að ýta minnisbókinni til hliðar ef ég ætlaði að ljúka bókinni fyrir jól.
[Uppfærsla: Kláraði ekki bókina og get því miður
ekki mælt með henni - sjá lestrarkompu.]


Talandi um Istanbúl. Í gegnum netið er ég að ferðast þangað frá Kína með aðstoð sagnfræðingsins Sam Willis og BBC-spilarans. Á BBC Four-sjónvarpsstöðinni er verið að sýna þáttaröðina Silkileiðin (The Silk Road), þar sem Willis fer með okkur yfir Mið-Asíu til Istanbúl og Feneyja. Á heimasíðu þáttarins má skoða myndræna ferðadagbók. Í síðasta þætti var hann á Registan-torginu í fornu borginni Samarkand, í Úsbekistan, þar sem hann hitti handverksmenn sem voru að búa til mynsturflísar sem eru notaðar til viðgerðar á Bibi Khanum-moskunni. Þetta var heillandi. Í borginni Khiva, sem er vestar, settist hann að snæðingi með leiðsögumanni sínum og borðbúnaðurinn var fallega mynsturmálaður. Meira að segja flatbrauðið var mynstrað!


Ég nota ekki Instagram-myndirnar mínar í bloggfærslur en í dag varð ég að gera undantekningu, til þess að varðveita ljúfa minningu. Myndina hér að neðan tók ég í gær með spjaldtölvunni þegar ég og dóttir mín vorum að setjast niður til að njóta hádegisverðar - langur lönsj á veröndinni (hún er að læra heima þessa dagana; er í lokaprófum). Myndin fangaði augnablikið fullkomlega. Ég elska hvernig myndin er yfirlýst og hvernig það sýnist vera autt svæði handan verandarinnar í stað steinveggjar sem er þakinn bergfléttu.

Njótið dagsins!

Hádegisverður undir berum himni (af @lisastefanat frá því í gær)



fimmtudagur, 11. febrúar 2016

Göngutúr á ströndinni

Göngutúr á skoskri strönd · Lísa Hjalt


Einn af kostunum við flutningana til Skotlands er sá að það tekur tæpar tuttugu mínútur að labba niður að strönd. Ég er að tala um alvöru sandströnd þar sem fólk kemur til að njóta sólarinnar yfir heitustu mánuðina, eitthvað sem ég hlakka til að gera þegar hitinn fer upp á við. Í dag var aftur á móti svolítið kaldur febrúardagur og fólk var að viðra hundana sína. Frá ströndinni mátti sjá snævi þakta fjallstoppa á Arran-eyju en þar fyrir utan var greinilega vor í lofti.


þriðjudagur, 25. ágúst 2015

Hortensíur og septemberhefti

Hortensíur og septemberhefti · Lísa Stefan


Þessir síðustu dagar ágústmánaðar eru dásamlegir: morgunkaffi, göngutúrar, aðallega til að njóta hortensía, eilítið dimmari síðdegi og bóklestur undir kertaljósi í rigningu eða þrumuveðri. Svo eru það tölublöð septembermánaðar. Í mínu tilviki er einungis eitt þeirra tískutengt. The World of Interiors stendur alltaf fyrir sínu; mér finnst ég alltaf eilítið ríkari eftir lesturinn.
Hortensíur · Lísa Stefan


Fyrir nokkrum árum síðan hefði ég mjög líklega keypt ýmsar Vogue útgáfur (í hillunum er að finna gömul septembertölublöð þess ameríska, breska, franska, ítalska og þýska) en á einhverjum tímapunkti hætti ég því. Ég ætlaði ekki að kaupa Harper's Bazaar UK en þegar ég blaðaði í því í tímaritabúð þá fangaði ein tiltekin umfjöllun athygli mína, um Amanda Brooks og fallega sveitasetrið hennar í Oxfordshire. Brooks var áður tískustjóri Barneys í New York.
Septemberhefti · Lísa Hjalt


Ég held að Vita Kin-kjóllinn sem Brooks klæðist á einni myndinni hafi haft töluvert með það að gera að ég keypti tímaritið. Ég er heilluð af hönnun, mynstri og bróderingu, þessara hefðbundnu úkraínsku flíka - vyshyvanka. Ég velti því fyrir mér hvort ég fengi leið á þeim núna þegar svo til allir virðast klæðast þeim en svo er ekki raunin. Þær eru klassík.



Fyrir utan fallega stíliseraða og ljósmyndaða tískuþætti sem segja sögu (oft erfitt að finna þá) þá er ekki mikið í tískutímaritum sem lengur höfðar til mín. Ég á þá við tískuhlutann. Ég held að þessi tímarit hafi elst af mér og ég er orðin þreytt á því hvernig fjallað er um tísku. Hvað er með þessar endalausu síður með myndum af flíkum og aukahlutum haust- eða vorlína sem alltaf eru eins uppsettar og áherslan að mestu á merkjavöru? Ég er mun hrifnari af hönnunarferlinu sjálfu og hvert tískuhönnuðurinn sækir innblástur þegar hann hannar nýja línu. Það er akkúrat þess vegna sem viðtal við Maria Grazia Chiuri og Pierpaolo Piccoli, listræna stjórnendur Valentino-tískuhússins, kom mér skemmtilega á óvart. Lítið bara á safn myndanna hér að neðan sem sýnir hvert þau sóttu innblástur fyrir haustlínuna í ár. Þetta er það sem ég vil sjá.


Í viðtalinu er komið inn á sambandið við saumakonurnar og þá virðingu sem þau bera fyrir þeim. Þær „setja ástríðu sína og umönnun í hverja línu ... Mikil vinna og natni er lögð í hvern kjól, í hvert smáatriði, og það má finna hversu dýrmætt þetta er“ (bls. 313). Þau hafa sett upp þriðju hátískuvinnustofuna og kenna ungu fólki iðnina. Chiuri bendir á: „Það er virðing í þessu starfi en það er líka gaman að sjá pönkklædda stelpu í Doc Martens-skóm vinna við hlið sextugrar konu í inniskóm - tvær kynslóðir saman sem deila þekkingu og sérhæfni“ (bls. 314). Þið getið skoðað nokkur smáatriði í hönnun Valentino á Tumblr-síðunni minni.
Bækur og septemberhefti · Lísa Stefan


Önnur skemmtileg grein var um Diana Vreeland, hina frægu tískuritstýru, sem skrifuð er af breska sagnfræðingnum Kathryn Hughes (ævisaga hennar um George Eliot er á óskalistanum). Ný bók um Vreeland kemur út hjá Rizzoli-forlaginu í október, Diana Vreeland: the Modern Woman: The Bazaar Years, 1936-1962, í ritstjórn sonarsonar hennar Alexander Vreeland.



Það var fullt af umfjöllunum í The World of Interiors sem höfðuðu til mín. Ein þá sérstaklega um búgarð í Mexíkó, við landamæri Arizona í Bandaríkjunum, í eigu hönnuðanna Jorge Almada og Anne-Marie Midy sem reka Casamidy, húsgagnahönnunarfyrirtæki. Sjáið fyrir ykkur hefðbundnar, demantamynstraðar mottur og leðurstóla. Midy lýsir landslaginu sem „grænu eftir sumarregnið, en að haustið bleiki það fölum gylltum tón“ (bls. 130). Mig langar að sitja á þessari verönd og njóta dýrðarinnar.



Grein um kaffihúsið Caffè Stern sem er til húsa í Passage des Panoramas í París fékk hjartað til að slá örlítið hraðar vegna Picasso-púðanna sem notaðir eru til að skreyta staðinn (einn sést á myndinni hér að ofan til vinstri). Ég man ekki hvenær ég féll fyrir þeim fyrst. Púðaverin eru handofin og -unnin í Flæmingjalandi (norðurhluti Belgíu) og hönnuð í samvinnu við Picasso-stofnunina. Nokkrar ábreiður eru fáanlegar í versluninni The Conran Shop í London.

Bráðum fara krakkarnir aftur í skólann og skærir litir hortensíanna taka að fölna. Endanlega skipta lauf trjánna litum. Hluti af mér hlakkar til að njóta kaldari haustmorgna; annar hluti vonast eftir indjánasumri, eins og þurr og hlý haust kallast í enskri tungu.


[Uppfærsla: Vegna athugasemdar á ensku útg. bloggsins um ólífugrænu textílprufuna undir latteskálinni og tölvupósts sem mér barst um þá rauðu: Allar prufur í færslunni eru frá Fermoie. Sú ólífugræna er Rabanna (L-077), rauða Marden (L-275) og þessar með röndunum á einni mynd eru York Stripe (bláa L-173, rauða L-016). Allar eru 100% bómull. Allar uppl. um þá gulu sem glittir í á nokkrum myndum eru í bloggfærslunni gul efni frá Fermoie.]



fimmtudagur, 13. ágúst 2015

Þáttaröðin Ferkantað líf

Þáttaröðin Ferkantað líf · Lísa Stefan


Nú veit ég ekki hvort byrjað er að sýna seríuna Ferkantað líf (Life in Squares) á Íslandi en síðasti þátturinn var sýndur á BBC í vikunni. Hún var kynnt sem dramaþáttaröð í þremur hlutum um sambandið á milli ensku listakonunnar Vanessu Bell og systur hennar, rithöfundarins Virginiu Woolf. Mér fannst sagan fjalla meira um sambandið á milli Bell og listamannsins Duncans Grants. Ekki það að ég sé að kvarta, ég hafði virklega gaman af þáttunum, fallegri sviðsmyndinni og búningunum. Leikkonan Phoebe Fox leikur hina yngri Bell og Eve Best þá eldri. Ég hafði ekki séð Fox leika áður og mér þótti hún standa sig vel. Hún smellpassaði við þá mynd sem ég hef af Bell í huganum. James Norton skilar sínu hlutverki sem yngri Grant vel (ég sá hann fyrst sem Tommy í seríunni Happy Valley) og það gerir einnig Rupert Penry-Jones sem leikur eldri Grant. Ég vil bæta því við að allir leikararnir eiga lof skilið. Þarna eru saman komnir frábærir breskir leikarar sem vekja hinn þekkta Bloomsbury-hóp til lífs á skjánum og bóhemískan lífsstílinn. Handrit skrifar Amanda Coe og hinn sænski Simon Kaijser leikstýrir.
Lavender · Lísa Stefan


Ef þið hafði ekki horft á þættina þá verð ég eiginlega að vara ykkur smá við fyrsta þættinum. Það er mjög miklu efni komið til skila í honum - ástarsambönd og andlát - sem fólk tengir betur við ef það þekkir þegar sögu þeirra einstaklinga sem kenndir eru við Bloomsbury-hópinn. Það er mín skoðun að þættirnir hefðu átt að vera fjórir í stað þriggja til að kynna betur þessa einstaklinga. Í öðrum þætti er sagan farin að flæða mun betur og auðveldara að fylgja henni.


Kannski er það klisja að kalla lífsstíl Bloomsbury-hópsins bóhemískan, eins og ég gerði hér að ofan, en leikmyndin (mise en scène) er það svo sannarlega. Sjáið fyrir ykkur listaverk, tæki og tól listamanna, skrifborð, bækur, bréf, o.s.frv. Þegar fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir kom Vanessa Bell upp heimili í Charleston House í Sussex, þar sem meginhluti þáttanna gerist. Þið getið skoðað myndir af listamannalegum stíl setursins á heimasíðu House & Garden.

To the Lighthouse eftir Virginia Woolf · Lísa Hjalt


Fyrir mig er tímasetning þáttanna athyglisverð því í byrjun sumars tók ég úr hillunni bókina To the Lighthouse (Út í vitann á ísl.) eftir Woolf, en ég á það til að lesa hana á sumrin. Á meðan lestrinum stóð var ég að hugsa um þær systur, Virginiu og Vanessu, horfði á myndina The Hours (2002) í hundraðasta sinn og pantaði ævisöguna Vanessa Bell eftir Frances Spalding. Ég áttaði mig nefnilega á því að minn fókus var alltaf á Woolf og hennar sögu. Ég vissi minna um Bell en þættirnir gáfu mér innsýn í hennar lífshlaup.

The World of Interiors, september 2014, bls. 146

Í langan tíma hef ég verið heilluð af Virginiu Woolf. Ég man ekki hvenær sá áhugi gerði fyrst vart við sig eða hvaða verk hennar ég las fyrst. Svo margt hefur verið skrifað um ævi hennar. En ég get mælt með bókinni Moments Of Being, sem er safn af hennar sjálfsævilegu skrifum (las hana í kúrsi í háskólanum á sínum tíma) . Frændi hennar Quentin Bell (sonur Vanessu og Clive Bell) skrifaði ævisögu hennar sem spannar tímabilið 1912 til 1941, Virginia Woolf: A Biography. Eiginmaður hennar, Leonard Woolf, ritstýrði dagbókunum og gaf út eftir andlát hennar, A Writer's Diary: Being Extracts from the Diary of Virginia Woolf.

Eftir að hafa horft á Ferkantað líf þá er ég í stuði til að dýfa mér aðeins ofan í Bloomsbury-hópinn. Ég hlakka til að lesa fyrrnefnda ævisögu um Bell og svo langar mig að horfa aftur á myndina Carrington (1995), en tveir af mínum uppáhalds leikurum fara með aðalhlutverk í henni, Emma Thompson sem Dora Carrington og Jonathan Pryce sem Lytton Strachey (sjáið stikluna). Í gerð er kvikmynd eftir hollenska leikstjórann Sacha Polak sem kallast Vita & Virginia og er um samband Woolf og Vitu Sackville-West. Ég býð spennt.