þriðjudagur, 20. september 2016

Haustkoman

Haustkoman · Lísa Hjalt


Snemma í gærmorgun skrapp ég rétt aðeins út í garð og skynjaði þá haustkomuna í eitt augnablik þegar ég tók eftir því hvað litir hortensíanna höfðu fölnað. Án þess að vilja hljóma dramatísk fékk ég allt að því örlítinn sting í hjartað því veðrið undanfarið hefur verið svo dásamlegt - heldur betur indjánasumar, eins og ég hafði óskað mér - og ég er ekki alveg tilbúin fyrir kaldari tíð. Það er munaður að geta enn farið með kaffibolla út á verönd og notið sólar, en mér sýnist á öllu að frá og með þessum degi drekki ég kaffið inni og horfi út um gluggann.

Haustkoman var talsvert ólík þegar við bjuggum á Íslandi en þar haustar jú fyrr og hraðar. Berjatínsla var ómissandi þáttur og bíltúr til Þingvalla til að sjá náttúruna í sínum fegursta haustbúningi. Hér koma stór og safarík pólsk bláber í búðir, epla- og plómutré gefa ávöxt og hortensíurunnar missa lit sinn löngu áður en laufin skipta litum.

Annar haustboði hjá mér er Virginia Woolf. Ég byrjaði að lesa dagbækur hennar í ágúst í fyrra og eftir að hafa bara aðeins gluggað í þær, og í bréfaskrif hennar í sumar, þá er aftur komin sú þörf að lesa alltaf nokkrar færslur fyrir svefninn. Það er sem hún sé alltaf að skrifa við arineld sem er einstaklega notalegt. Talandi um Woolf. Um helgina sá ég umfjöllun um nýjar útgáfur af bókum hennar í kiljuformi frá Vintage Classics. Finnska listakonan Aino-Maija Metsola hannaði kápumyndirnar (hún hefur hannað fyrir Marimekko í nokkur ár) og það var held ég ást við fyrstu sýn þegar ég sá kápuna á Mrs Dalloway. Aðrar bækur í sömu útgáfu eru The Waves, The Years, Orlando, To the Lighthouse og A Room of One's Own, sem innheldur líka framhaldið Three Guineas.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.