mánudagur, 5. september 2016

Múmín-búðin, Covent Garden, LondonÍ dag tek ég ykkur með til London, í þetta sinn til að dást að ytra útliti Múmín-búðarinnar, sem er staðsett hjá markaðsbásunum í Jubilee Market Hall í Covent Garden (beint á móti St Paul's-kirkjunni). Búðin var einn áfangastaðurinn sem við lofuðum börnunum. Þetta er sæt, lítil búð, eins konar mekka fyrir aðdáendur persónanna í Múmíndal. Það er nú ólíklegt að íslenskir lesendur þekki ekki til Múmínálfanna, en ef þið eruð að heyra um þá í fyrsta sinn þá eru þeir sköpun finnsku listakonunnar og rithöfundarins Tove Jansson (1914-2001). Bækur hennar voru þýddar á fjölda erlendra mála og sögur hennar eru klassískar.Ég man ekki eftir tíma þar sem Múmínálfarnir voru ekki hluti af tilverunni; við eigum alla mynddiskana. Á þessum síðustu árum með tíðum búferlaflutningum hafa þeir verið eins konar festa. Við skírðum meira að segja persnesku læðuna okkar eftir einni persónunni, Míu litlu. Kannski hefur þetta eitthvað með norrænu ræturnar að gera, eða að þetta er bara okkar leið til að halda í sakleysi barnæskunnar. Ég er ekki stressuð manneskja - held að ég hafi fengið heilbrigðan skammt af kæruleysi í vöggugjöf - en þegar sú stund rennur upp að börnin vilja ekki horfa á Múmínálfanna, þá fyrst hrynur mín veröld. Viss um það.

Ég held að það sé kyrrðin í Múmíndal sem höfðar til mín. Ég er ekki beint hrifin af teiknimyndum og mér finnst þær oft svo yfirdrifnar. Að horfa á Múmínálfana er allt önnur upplifun. Það er ævintýraheimur án hávaðans. Ég held að ég myndi lýsa þessu svona.Á meðan börnin voru að skoða og versla endaði ég í einu horni búðarinnar þar sem bækurnr eru geymdar. Dásamlegt horn!

Ég er ekki með það á hreinu hvaða bækur eru fáanlegar á íslensku en fyrsta bókin um Múmínálfana var The Moomins and the Great Flood, sem kom út árið 1945. Þessi fallega harðspjaldabók hér út til hægri er myndskreytt af Tove Jansson sjálfri, hvað annað. Svo eru það Penguin-kiljurnar, í tímaröð:

Eftir að önnur kiljan kom út, Finn Family Moomintroll, opnuðust Tove allar dyr, sem varð til þess að hún gerði teiknimyndasögurnar (sjá t.d. Moomin: Bk. 1 : The Complete Tove Jansson Comic Strip) sem birtust fyrst árið 1954 í The Evening News, kvöldblaði sem kom út á London-svæðinu. Þið getið flett upp heimildarmynd um Tove og hennar störf á YouTube ef þið hafið áhuga á að vita meira um hana. Með kaldari tíð handan hornsins þá ætla ég að enda þetta á einni af mínum uppáhaldstilvísunum úr Finn Family Moomintroll (Múmínálfarnir leggjast í vetrardvala):
Don't worry we shall have wonderful dreams, and when we wake up it'll be spring.
- Snufkin (ísl. Snúður)


myndir mínar | heimild: bókarkápa The Moomins and the Great Flood af vefsíðu Sort of Books | kiljukápur af vefsíðu Penguin

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.