Sýnir færslur með efnisorðinu tove jansson. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu tove jansson. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 2. ágúst 2018

№ 15 bókalisti | #WITMonth

№ 15 bókalisti: Eisenberg, McPhee, McEwan · Lísa Stefan


Hitabylgja mætti á svæðið. Ég vona að hún fari að láta sig hverfa því ég get ekki lesið í þessum kæfandi hita, get ekki einbeitt mér. Hitabylgjur eru ekki fyrir fólk sem er fætt í nálægð við heimskautsbauginn. Þessa dagana eru það ís og sjónvarpsþættir sem hjálpa okkur að höndla ástandið. Bókalistinn, sem ég ætlaði að deila fyrr, hefur gengið í gegnum breytingar: Ég hef til dæmis fjarlægt tvær bækur sem ég endurlas og bókina The Human Stain eftir Philip Roth, sem nú er látinn. Roth verður að bíða því bókasafnið átti ekki eintak.

№ 15 bókalisti:
1  Enduring Love  · Ian McEwan
2  Draft No. 4  · John McPhee
3  Under the 82nd Airborne  · Deborah Eisenberg *
4  The Hare with Amber Eyes  · Edmund de Waal
5  Cheerful Weather for the Wedding  · Julia Strachey **
6  Comet in Moominland  · Tove Jansson **

* Eintakið mitt er ófáanlegt.
sömu smásögurnar.  ** Endurlestur

Ég keypti bókina eftir John McPhee í vor. Þó að vikur séu liðnar frá því ég las hana þá vildi ég hafa hana á listanum; mæla með henni fyrir alla sem hafa áhuga á skrifum. Hún er ekki hefðbundin ritstílsbók með dæmum og áherslulistum heldur safn ritgerða. Prófessor McPhee notar persónulegar dæmisögur til að deila innsýn sinni í það sem hann kallar skapandi óskálduð skrif (e. creative nonfiction). Á listanum er rit eftir listamanninn Edmund de Waal sem skrifaði sögu fjölskyldu sinnar. Það var textílhönnuðurinn Lisa Fine sem mælti með bókinni hér á blogginu og það er kominn tími til að lesa eintakið sem ég keypti í Skotlandi síðasta sumar.


Ágúst er Women in Translation Month, eða mánuður tileinkaður þýddum bókum eftir konur. Á samfélagsmiðlunum gengur hann undir merkinu #WITMonth. Það var Meytal Radzinski, sem heldur úti blogginu Bibliobio, sem sýndi frumkvæði árið 2014 og kynnti hann til sögunnar. Ég hef aldrei tekið þátt, sennilega vegna þess að ég, eins og aðrir Íslendingar, hef lesið þýddar bækur eftir konur (og karla) frá því ég man eftir mér. Að lesa þýdd verk telst eðlilegt meðal lesanda sem fæðast í löndum þar sem enska er ekki móðurmálið. Ég ákvað samt að lýsa stuðningi við #WITMonth í ár með því að bæta einni bók um Múmínálfana á bókalistann: Comet in Moominland eftir finnsku skáldkonuna Tove Jansson, í enskri þýðingu eftir Elizabeth Portch. Á íslensku kallast bókin Halastjarnan og það var Steinunn S. Briem heitin sem þýddi. Steinunn var ötull þýðandi.



þriðjudagur, 7. mars 2017

Ár af lestri - 2. hluti

Lestrarkompan: ár af lestri - 2. hluti · Lísa Stefan


Eigum við að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í færslunni Ár af lestri - 1. hluti, þar sem ég setti niður hugsanir mínar um verk sem voru á bókalistunum mínum í fyrra? Eins og ég tók fram þar þá minnist ég ekki á bækur sem ég hef þegar fjallað um og þær sem ég endurlas. Bókalistarnir fara bara eftir skapi hverju sinni og þær bækur sem enda á þeim hafa verið í lengri eða skemmri tíma á langar-að-lesa listanum mínum (sem verður sífellt lengri og lengri!). Nokkrar bækur ollu mér vonbrigðum en það mátti svo sem búast við því. Hér á eftir er álit mitt á nokkrum sem voru á № 4, 5 og 6 bókalistunum:

№ 4 bókalisti, 4 af 10:

Siddhartha eftir Hermann Hesse
Þetta klassíska rit er líklega áhugaverðara fyrir þá sem eru að taka fyrstu skrefin á andlegri braut eða þekkja ekki til búddisma og austrænnar heimspeki. Lesturinn gerði lítið fyrir mig og ég kláraði bara bókina til þess að geta hakað við hana á listanum mínum. (Fyrir þá sem vilja fræðast um búddisma mæli ég frekar með almennu riti eftir kennara í fræðunum. Til að gefa ykkur hugmyndir þá eru hérna nokkrir sem ég las á ákveðnu tímabili í lífinu: Thich Nhat Hanh, Joseph Goldstein, Jack Kornfield, Sharon Salzberg og Pema Chödrön.)

The Summer Book og A Winter Book eftir Tove Jansson
Þegar ég deildi listanum hafði ég lesið tvær sögur í þeirri síðari en var komin langt inn í þá fyrri, sem mér fannst yndisleg. Sögusafnið í The Summer Book er sterkara og sögurnar tengjast betur saman, einkum vegna sömu eftirminnilegu persónanna.

In Other Rooms, Other Wonders eftir Daniyal Mueenuddin
Leið eins og ég væri með fjársjóð í höndunum þegar ég hóf lesturinn en svo varð sögufléttan í þessum lauslega tengdu smásögum fyrirsjáanleg. Það er svo mikil spilling og óréttlæti á síðunum að ég var farin að þrá að lesa eitthvað meira upplífgandi. Ég var að vonast til að þessi bók kenndi mér meira um pakistanska menningu, og vegna allra jákvæðu dómanna sem bókin fékk bjóst ég við einhverju ríkara.

[Önnur af listanum: The Little Book of Hygge eftir Meik Wiking (sjá sér bloggfærslu).]
Lestrarkompan: ár af lestri - 2. hluti · Lísa Stefan


№ 5 bókalisti, 4 af 7:

A Time for Everything eftir Karl Ove Knausgård
Ekkert að skrifunum en ég ákvað að klára ekki bókina einfaldlega vegna þess að ég var ekki í skapi fyrir hana. Þetta er bók um engla og hann breytir sjónarsviði biblíusagna; fer með okkur úr eyðimörkinni í norskt landslag. Einn daginn held ég kannski lestrinum áfram en fyrst myndi ég vilja lesa að nýju upprunalegu sögurnar.

White Teeth eftir Zadie Smith
Bókin sem mig langaði svo að þykja góð og mæla með. Ég hef ekki enn klárað hana. Mér líkar ritstíllinn en persónurnar vekja ekki áhuga minn. Stundum tek ég hana upp - með semingi, verður að viðurkennast - og eftir nokkrar síður gefst ég upp. Mér fannst perónusköpun hennar í bókinni NW miklu áhugaverðari. Í þeirri bók gerir Smith tilraunir með skáldsöguformið sem er kannski ekki öllum að skapi. Ég átti svolítið erfitt með fyrsta hlutann af NW en þegar ég kom í annan hlutann þá gat ég varla lagt hana frá mér.

Purple Hibiscus eftir Chimamanda Ngozi Adichie
Yndislegur frásagnarstíll og persónusköpun í þessu fjölskyldudrama sem stundum sjokkeraði mig - faðirinn er trúarofstækismaður sem beitir heimilisofbeldi. Fyrir viðkæma lesendur langar mig að bæta við að þarna er líka fegurð og von. Adichie hefur þann hæfileika að geta lýst skelfilegum atburði en í kjölfarið virðast fallegar setningar hennar bæði róa og græða. Þessi bók hefur ekki farið úr huga mér síðan ég kláraði hana. Adichie er auk þess í miklu uppáhaldi.

[Önnur af listanum: Avid Reader eftir Robert Gottlieb (sjá sér bloggfærslu).]

№ 6 bókalisti, 4 af 8:

The Noise of Time eftir Julian Barnes
Mér fannst fyrstu tveir hlutarnir góðir en held að þetta sé ein af þessum bókum sem ég mun gleyma. Barnes ímyndar sér líf tónskáldsins Dmitri Shostakovich á tímum Stalíns. Bókin gerði lítið fyrir mig og að lestri loknum tók ég bara upp þá næstu.

All We Shall Know eftir Donal Ryan
Ég minntist á í færslunni að mér líkaði ritstíll hans. Hlutar þessarar bókar eru svolítið myrkir; ég held að ég hafi stundum haldið niðri í mér andanum. Mér fannst persónan Mary stela senunni; hún var miklu áhugaverðari en aðalpersónan Melody. Galli bókarinnar er endirinn. Allt er mögulegt í skáldskap en sögulokin hér gengu ekki upp (get ekki sagt meira án þess að gefa þau upp). En Ryan er höfundur sem er kominn á listann minn og mig langar að lesa fyrri verk hans.

Boyhood Island: My Struggle 3 eftir Karl Ove Knausgård
Af þeim þremur My Struggle-bókum sem ég hef lesið finnst mér þessi vera hans sísta. Styrkleikar hennar eru sú mynd sem hann málar af föðurnum sem hann hataði (skiljanlega) og samskiptum fjölskyldunnar. Veikleikarnir eru alltof margar endurteknar lýsingar á leikjum við krakka í nágrenninu og skólafélaga. Þessi bók hefði getað verið 100 síðum styttri og betri.

The Return eftir Hisham Matar
Ein af þessum bókum sem ég hlakkaði til að lesa en fyrir utan fyrstu fimm kaflanna varð ég fyrir vonbrigðum. Ritstíll þessara fyrstu fimm kafla, sem er ólíkur hinum, var mér að skapi og það var ekki fyrr en eftir lesturinn að ég vissi að þeir birtust að hluta til í grein í tímaritinu The New Yorker, sem kallast „The Return“, en hana skrifaði Matar árið 2013, fyrir útgáfu bókarinnar. Svo ég leyfi mér að vera alveg hreinskilin, lesið bara greinina.

[Önnur af listanum: The Makioka Sisters eftir Jun'ichirō Tanizaki (sjá sér bloggfærslu).]

Þá er þetta komið, það sem ég hef að segja um bækurnar á bókalistum ársins 2016. Í ár ætla ég að hafa annað fyrirkomulag á þessu og deila hugsunum mínum fyrr, en ég ætla samt að láta einhvern tíma líða á milli þess sem ég birti bókalista og áliti mínu á bókunum á honum.



laugardagur, 24. september 2016

№ 4 bókalisti: haust 2016

№ 4 bókalisti · Lísa Stefan


Laugardagsmorgun, kaffi og bækur. Í bakgrunni í endurspilun, Cat Power að flytja sína útgáfu af Troubled Waters; ég fæ ekki leið á þessu lagi. Það er kominn tími til að deila fyrri bókalista þessa hausts - já, ég mun birta annan síðar, ég er þegar með nokkur verk í huga. Mig langaði að hafa Wonder Boys eftir Michael Chabon á þessum en hún var ekki fáanleg á bókasafninu og sú sem ég pantaði hefur enn ekki borist. Mér fannst Michael Douglas frábær í kvikmyndinni (2000) sem Curtis Hanson leikstýrði, en sá féll frá síðasta þriðjudag. Ég hef þegar lesið tvær bækur á listanum og ein þeirra er The Little Book of Hygge sem ég fjallaði nýverið um á blogginu. Í augnablikinu er ég að lesa fimm bækur í einu. Sumar eru smásögusöfn þannig að ég vel bara þá sem ég er í skapi fyrir. Hér er listinn:

1   Siddhartha  · Hermann Hesse
2   The Outsider  · Albert Camus
3   The Summer Book  · Tove Jansson
4   A Winter Book: Selected Stories  · Tove Jansson
5   Anecdotes of Destiny  · Isak Dinesen (Karen Blixen)
6   In Other Rooms, Other Wonders  · Daniyal Mueenuddin
7   Kitchen  · Banana Yoshimoto
8   The American  · Henry James
9   Casino Royale  · Ian Fleming
10  The Little Book of Hygge: The Danish Way to Live Well  · Meik Wiking

Á bókasafninu sá ég Kitchen, fyrstu bók Yoshimoto, og varð að fá hana lánaða og lesa aftur (útgáfan Bjartur gaf hana út á Íslandi undir heitinu Eldhús). Japanskir höfundar eru svo skemmtilega öðruvísi. Fyrir mörgum árum vann ég í bókabúð með skólanum og tók þá áhættu að mæla með henni fyrir kúnna, sem virkaði á mig sem lesandi opinn fyrir einhverju óvenjulegu. Stundum gat verið erfitt að mæla með bókum; það hafa ekki allir sama smekk (sem betur fer) og mér fannst leiðinlegt að sjá fólk eyða peningum í bækur sem því líkaði ekki. Þessi kom sem betur fer aftur til að segja mér að hún hefði elskað bókina, sem reyndist „óvenjuleg“, og hún fór heim með bunka af mínum uppáhaldsbókum.

Stéphane Audran sem Babette í Gestaboði Babettu (1987)

Tveir norrænir höfundar eru á listanum mínum. Þið vitið nú þegar um ást mína á Karen Blixen. Fyrir mörgum árum síðan las ég Babette's Feast (Gestaboð Babettu á íslensku), sögu sem mér þykir vænt um. Hana er að finna í sögusafninu og ég hlakka til að lesa hana aftur. Hafið þið séð kvikmyndina (1987, upprunalegur danskur titill Babettes gæstebud)? Hún er ein af mínum uppáhalds. Hún hlaut Óskarinn fyrir bestu erlendu myndina. Hinn norræni höfundurinn á listanum er Tove Jansson, sem varð fræg fyrir bækur sínar um Múmínálfana (sjá nýlega færslu mína um Múmín-búðina í London). Hún skrifaði líka skáldsögur fyrir fullorðna og ég skil ekki út af hverju ég hafði ekki þegar lesið þær. Þessar tvær á listanum eru yndislegar. The Summer Book, fyrst gefin út 1972, er fallega skrifuð saga um 6 ára stelpu og ömmu hennar sem eyða sumri á agnarsmárri eyju í Finnlandsflóa (Jansson átti sjálf kofa á smárri, afskekktri eyju í Flóanum). Bókin hefur enga sögufléttu, hún fjallar um lífið og náttúruna. Ákaflega hljóður og róandi lestur.

Finnski rithöfundurinn Tove Jansson · Lísa Hjalt
Tove Jansson í kofa sínum á finnsku eyjunni Klovharun

Hin bókin á listanum sem ég hef þegar klárað er Casino Royale, fyrsta bók Ian Fleming um James Bond. Ég var ekki hrifin, sem er ástæðan fyrir því að hún fékk ekki að vera með á myndinni minni! Kannski hafði ég of miklar væntingar því mér fannst kvikmyndin svo góð. Sögufléttan er áhugaverð en mér hreinlega leiddist við lesturinn. Það voru líka setningar sem ég þurfti að lesa aftur til að trúa því sem ég var að lesa („the sweet tang of rape“ (bls. 201); hún var gefin út árið 1953 þegar tímarnir voru aðrir, en sæll, full kvenhaturslegt, ekki satt?). Einn daginn gef ég sennilega Fleming annað tækifæri og les From Russia with Love, sem margir telja hans bestu. En ekki alveg strax.

Stilla af vefsíðu BFI · Panorama Film A/S, Det Danske Filminstitut, Nordisk Film + Rungstedlundfonden · leikstjórn + handrit Gabriel Axel | Tove Jansson ljósmynd af síðunni Tove Jansson



mánudagur, 5. september 2016

Múmín-búðin, Covent Garden, London



Í dag tek ég ykkur með til London, í þetta sinn til að dást að ytra útliti Múmín-búðarinnar, sem er staðsett hjá markaðsbásunum í Jubilee Market Hall í Covent Garden (beint á móti St Paul's-kirkjunni). Búðin var einn áfangastaðurinn sem við lofuðum börnunum. Þetta er sæt, lítil búð, eins konar mekka fyrir aðdáendur persónanna í Múmíndal. Það er nú ólíklegt að íslenskir lesendur þekki ekki til Múmínálfanna, en ef þið eruð að heyra um þá í fyrsta sinn þá eru þeir sköpun finnsku listakonunnar og rithöfundarins Tove Jansson (1914-2001). Bækur hennar voru þýddar á fjölda erlendra mála og sögur hennar eru klassískar.



Ég man ekki eftir tíma þar sem Múmínálfarnir voru ekki hluti af tilverunni; við eigum alla mynddiskana. Á þessum síðustu árum með tíðum búferlaflutningum hafa þeir verið eins konar festa. Við skírðum meira að segja persnesku læðuna okkar eftir einni persónunni, Míu litlu. Kannski hefur þetta eitthvað með norrænu ræturnar að gera, eða að þetta er bara okkar leið til að halda í sakleysi barnæskunnar. Ég er ekki stressuð manneskja - held að ég hafi fengið heilbrigðan skammt af kæruleysi í vöggugjöf - en þegar sú stund rennur upp að börnin vilja ekki horfa á Múmínálfanna, þá fyrst hrynur mín veröld. Viss um það.

Ég held að það sé kyrrðin í Múmíndal sem höfðar til mín. Ég er ekki beint hrifin af teiknimyndum og mér finnst þær oft svo yfirdrifnar. Að horfa á Múmínálfana er allt önnur upplifun. Það er ævintýraheimur án hávaðans. Ég held að ég myndi lýsa þessu svona.



Á meðan börnin voru að skoða og versla endaði ég í einu horni búðarinnar þar sem bækurnr eru geymdar. Dásamlegt horn!

Ég er ekki með það á hreinu hvaða bækur eru fáanlegar á íslensku en fyrsta bókin um Múmínálfana var The Moomins and the Great Flood, sem kom út árið 1945. Þessi fallega innbundna útgáfa til hægri er myndskreytt af Tove Jansson sjálfri, hvað annað. Svo eru það Penguin-kiljurnar, í tímaröð:

· Comet in Moominland
· Finn Family Moomintroll
· The Exploits of Moominpappa
· Moominsummer Madness
· Moominland Midwinter
· Tales from Moominvalley
· Moominpappa at Sea
· Moominvalley in November




Eftir að önnur kiljan kom út, Finn Family Moomintroll, opnuðust Tove allar dyr, sem varð til þess að hún gerði teiknimyndasögurnar (t.d. Moomin: Bk. 1 : The Complete Tove Jansson Comic Strip) sem birtust fyrst árið 1954 í The Evening News, kvöldblaði sem kom út á London-svæðinu. Þið getið flett upp heimildarmynd um Tove og hennar störf á YouTube ef þið hafið áhuga á að vita meira um hana. Með kaldari tíð handan hornsins þá ætla ég að enda þetta á einni af mínum uppáhaldstilvísunum úr Finn Family Moomintroll (Múmínálfarnir leggjast í vetrardvala):
Don't worry we shall have wonderful dreams, and when we wake up it'll be spring.
- Snufkin (ísl. Snúður)


bókarkápa The Moomins and the Great Flood af vefsíðu Sort of Books | kiljukápur af vefsíðu Penguin