Sýnir færslur með efnisorðinu london. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu london. Sýna allar færslur

mánudagur, 5. september 2016

Múmín-búðin, Covent Garden, London



Í dag tek ég ykkur með til London, í þetta sinn til að dást að ytra útliti Múmín-búðarinnar, sem er staðsett hjá markaðsbásunum í Jubilee Market Hall í Covent Garden (beint á móti St Paul's-kirkjunni). Búðin var einn áfangastaðurinn sem við lofuðum börnunum. Þetta er sæt, lítil búð, eins konar mekka fyrir aðdáendur persónanna í Múmíndal. Það er nú ólíklegt að íslenskir lesendur þekki ekki til Múmínálfanna, en ef þið eruð að heyra um þá í fyrsta sinn þá eru þeir sköpun finnsku listakonunnar og rithöfundarins Tove Jansson (1914-2001). Bækur hennar voru þýddar á fjölda erlendra mála og sögur hennar eru klassískar.



Ég man ekki eftir tíma þar sem Múmínálfarnir voru ekki hluti af tilverunni; við eigum alla mynddiskana. Á þessum síðustu árum með tíðum búferlaflutningum hafa þeir verið eins konar festa. Við skírðum meira að segja persnesku læðuna okkar eftir einni persónunni, Míu litlu. Kannski hefur þetta eitthvað með norrænu ræturnar að gera, eða að þetta er bara okkar leið til að halda í sakleysi barnæskunnar. Ég er ekki stressuð manneskja - held að ég hafi fengið heilbrigðan skammt af kæruleysi í vöggugjöf - en þegar sú stund rennur upp að börnin vilja ekki horfa á Múmínálfanna, þá fyrst hrynur mín veröld. Viss um það.

Ég held að það sé kyrrðin í Múmíndal sem höfðar til mín. Ég er ekki beint hrifin af teiknimyndum og mér finnst þær oft svo yfirdrifnar. Að horfa á Múmínálfana er allt önnur upplifun. Það er ævintýraheimur án hávaðans. Ég held að ég myndi lýsa þessu svona.



Á meðan börnin voru að skoða og versla endaði ég í einu horni búðarinnar þar sem bækurnr eru geymdar. Dásamlegt horn!

Ég er ekki með það á hreinu hvaða bækur eru fáanlegar á íslensku en fyrsta bókin um Múmínálfana var The Moomins and the Great Flood, sem kom út árið 1945. Þessi fallega innbundna útgáfa til hægri er myndskreytt af Tove Jansson sjálfri, hvað annað. Svo eru það Penguin-kiljurnar, í tímaröð:

· Comet in Moominland
· Finn Family Moomintroll
· The Exploits of Moominpappa
· Moominsummer Madness
· Moominland Midwinter
· Tales from Moominvalley
· Moominpappa at Sea
· Moominvalley in November




Eftir að önnur kiljan kom út, Finn Family Moomintroll, opnuðust Tove allar dyr, sem varð til þess að hún gerði teiknimyndasögurnar (t.d. Moomin: Bk. 1 : The Complete Tove Jansson Comic Strip) sem birtust fyrst árið 1954 í The Evening News, kvöldblaði sem kom út á London-svæðinu. Þið getið flett upp heimildarmynd um Tove og hennar störf á YouTube ef þið hafið áhuga á að vita meira um hana. Með kaldari tíð handan hornsins þá ætla ég að enda þetta á einni af mínum uppáhaldstilvísunum úr Finn Family Moomintroll (Múmínálfarnir leggjast í vetrardvala):
Don't worry we shall have wonderful dreams, and when we wake up it'll be spring.
- Snufkin (ísl. Snúður)


bókarkápa The Moomins and the Great Flood af vefsíðu Sort of Books | kiljukápur af vefsíðu Penguin

miðvikudagur, 17. ágúst 2016

Store Street Espresso, Bloomsbury, London

Kaffihúsið Store Street Espresso í Bloomsbury-hverfinu, London · Lísa Hjalt


Í síðustu viku brugðum við okkur til London og ég komst á sýninguna á verkum listakonunnar Georgia O'Keeffe í Tate Modern-safninu - ekki að ræða það að ég ætlaði að missa af henni! Ég þurfti á borgarferð að halda fyrir haustið. Við borðuðum á Wild Food Cafe í Neal's Yard, gengum um Covent Garden, Westminster og St. James's Park, og fórum í Whole Foods Market á Kensington High Street, sem má kalla matarheimilið okkar í London. Börnin spurðu meira að segja áður en við lögðum í hann, Við förum í WFM, er það ekki? Og við drukkum kaffi. Í hjarta Bloomsbury fékk ég besta lattebollann. Ég hafði lofað einum kaffinörd að fara á Store Street Espresso á 40 Store St (í raun í Fitzrovia-hverfinu). Þetta var loforð sem ég uppfyllti með glöðu geði á rölti okkar um Bloomsbury/Fitzrovia og kaffihúsið stóð undir væntingum mínum.



Ég var undir áhrifum Bloomsbury-hópsins þegar ég steig inn í Store St Espresso. Við höfðum gengið frá Bloomsbury St inn í Gower St og á húsi nr. 10 sá ég bláa plattann hennar lafði Ottoline Morrell. Ég vissi af honum þarna en samt tók hjartað kipp. Hún var ekki beint hluti af hópnum en hún studdi við listamenn og ef þið hafið t.d. lesið dagbækur og bréf Virginiu Woolf þekkið þið nafn Ottoline. Þetta var hugarástandið þegar ég pantaði mér latte.

Þetta var mjög hlýr og sólríkur dagur í borginni og við höfðum labbað ansi mikið þegar ég settist niður og tók fyrsta sopann, sem var himneskur. Store St Espresso er kaffihús mér að skapi. Stíllinn er mínimalískur, hrár og örlítið iðnaðarlegur. Andrúmsloftið er gott; afslappað. Gestirnir virðast vera í sínum heimi, í tölvunni, símanum eða lesandi. Sumir myndu örugglega kalla þetta stað fyrir hipstera en á meðan ég sat þarna sá ég allar týpur af fólki sem áttu það eitt sameiginlegt að njóta góðs kaffis.


Staðsetning Store St Espresso er frábær. Gatan er róleg, nálægt görðum og The British Museum. Ég hvet ykkur til að grípa kaffibolla ef þið eruð í hverfinu. Enn betra ef þið setjist niður. Það er notalegur gluggakrókur fyrir þá sem vilja fylgjast með götulífinu og í góðu veðri má sitja utandyra.
Kaffihúsið Store Street Espresso í Bloomsbury-hverfinu, London · Lísa Hjalt


Ég er ekki alveg búin með ferðina hér á blogginu en ég fékk svo sannarlega London-skammtinn minn. Hugurinn ráfar enn um götur Bloomsbury og mér er hugsað til Virginiu Woolf og vinahóps hennar. Hann ráfar líka um Tate, að dást að málverkum O'Keeffe. Til allrar lukku fór skoska sumarið í sparifötin þegar við komum heim þannig að ég gat byrjað að skrifa þetta á veröndinni með kaffibolla og klárað fyrir framan húsið, við hliðina á hortensíunum þar sem ég naut sólsetursins.

Það sem ég elska svona ágústdaga!