miðvikudagur, 17. febrúar 2021

In Memory of Memory · Maria Stepanova

Kápa bókarinnar In Memory of Memory eftir Mariu Stepanova (New Directions)


Mynstrið á þessari bókarkápu fær hjarta mitt til að slá hraðar: In Memory of Memory eftir rússnesku skáldkonuna Mariu Stepanova er nýkomin út í enskri þýðingu hjá bandaríska forlaginu New Directions. Hugmyndin að bókinni kviknaði eftir að Stepanova fann kassa með ljósmyndum, bréfum, dagbókarfærslum og minjagripum í íbúð látinnar frænku í Rússlandi, sem varð til þess að hún fór að skoða fjölskyldusöguna betur, en hún er af gyðingaættum. Bókin sem er blanda af ritgerðum, skáldskap, æviminningum, ferðafrásögnum og sögulegum heimildum hefur fengið jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum.

Hjá mér fylgir In Memory of Memory örlítill valkvíði því bókin kemur út í Bretlandi hjá Fitzcarraldo Editions. Ég er mjög hrifin af smekklegri bókahönnun þeirra: Allar bækur eru í vönduðu kiljubroti með kápuflipum; rit almenns eðlis eru hvít með bláu letri á kápu og skáldverk blá með hvítu letri (blogglesendur muna kannski eftir þessum kápum á verkum hinnar frönsku Annie Ernaux sem hafa ratað á bókalistana). Ég veit hreinlega ekki hvora útgáfuna ég eigi að eignast. Telst það græðgi að eignast báðar?

In Memory of Memory
Höf. Maria Stepanova
Þýðandi: Sasha Dugdale
Kiljubrot, 448 blaðsíður
ISBN: 9780811228831
New Directions