laugardagur, 28. maí 2016

Sveitablússan mín frá Irving & Fine

Sveitablússa frá Irving & Fine · Lísa Hjalt


Kannist þið við þá tilfinningu að halda á nýrri og sérstakri flík, hönnuð á þann máta að hún ristir dýpra; hefur merkingu? Fataskápurinn varð ríkari þegar ég eignaðist eina slíka, bróderaða sveitablússu, klassískan Tangier-kyrtil frá Irving & Fine. Þetta var óvænt gjöf frá textílhönnuðinum Lisa Fine (fyrr í mánuðinum skrifaði ég færslu um hönnun hennar), þó ég að vísu hefði hugmynd um hvað hún væri að senda mér þegar hún sagðist vilja gefa mér mest selda sveitatoppinn þeirra. Blússan barst fyrir viku og efnið er svo mjúkt viðkomu; tvöfalt létt bómullarefni, kremað með blárri bróderingu, framleitt á Indlandi. Merkið Irving & Fine er samstarf tveggja virtra textílhönnuða og vinkvenna, Lisa Fine og Carolina Irving (sjá innlit til hennar á ensku útg. bloggsins), sem hanna bróderaðar sveitablússur og kyrtla, kaftana, kápur og aukahluti. Hönnunin er innblásin af ferðalögum þeirra til framandi landa.

Þetta er óður minn til sveitablússunnar þeirra og þakklætisvottur.


Þegar ég opnaði pakkann og dáðist að blússunni í fyrsta sinn komu upp í huga mér málverk Henri Matisse af rúmenskum blússum, með mjög púffuðum ermum - sjá t.d. verkin Rúmenska blússan, 1940, og Græna rúmenska blússan, 1939. Hann ferðaðist til Morokkó og heillaðist af borginni Tangier, sem var viðfangsefni nokkurra verka hans. Frá Matisse í Tangier, hugfangin af blússunni, reikaði hugurinn til tískuhönnuðarins Yves Saint Laurent, sem átti hús í Morokkó; eitt í Tangier. Hátískulína YSL haustsins/vetursins 1980-81 var innblásin af verkum Matisse og ein flíkin var rúmenska blússan (sjá mynd nr. 3), nákvæm eftirmynd þeirrar í málverki Matisse frá 1940.

Við undirbúning þessarar færslu fann ég stutt viðtal við Lisa Fine. Þegar hún var spurð út í innblásturinn að flíkum Irving & Fine svaraði hún: „Austur-Evrópskir þjóðbúningar og frá tímum Ottóman-veldisins og gömul hönnun Yves Saint Laurent“ (Cannon Lewis). Þessi samantekt smellpassar við mína fyrstu upplifun.



Myndirnar mínar ættu að gefa ykkur glögga mynd af hönnuninni en hér eru grunnatriði hinnar klassísku sveitablússu frá Irving & Fine: Efnið er tvöföld létt bómull, kremuð með bláum bróderingum á hálsmáli, ermalíningum og hliðarsaumum, með bróderuðum medalíum að framan og aftan. Hún er mjaðmasíð, rykkt um hálsinn með bandi og ermalíningarnar hvíla eins og armbönd. Blússan er framleidd á Indlandi og er einnig fáanleg í indígó með kremuðum bróderingum.
Sveitablússa frá Irving & Fine · Lísa Hjalt


Er það óeðlilegt að vera ástfangin af ermum? Ég get ekki hætt að dást að hinu fallega framandi mynstri. Það sama á við um bróderuðu hliðarsaumana. Dásamleg smáatriði í hönnuninni!

Blússan hefur bóhemískan blæ. Það er auðvelt að nota blússuna til að klæða sig fínt eða hversdags, veltur bara á tilefninu. Hún er víð og þægileg og bómullarefnið er einstaklega mjúkt viðkomu.

Sveitablússa frá Irving & Fine · Lísa Hjalt


Þegar ég er ekki í blússunni þá læt ég hana hanga á fataskápnum svo ég geti horft á hana og dreymt um aðrar flíkur frá Irving & Fine sem mig langar í. Í augnablikinu eiga þær bróderaða kápu sem er held ég að ná tökum á undirmeðvitund minni.

Í færslu minni um Lisa Fine Textiles talaði ég um hana sem hönnuð með skilning á sögu. Ég myndi lýsa samstarfskonu hennar Carolina Irving á sama hátt. Undir fatamerki Irving & Fine hanna þær ekki bara fallegar flíkur til að klæðast; flíkurnar veita einnig innblástur. Þær eru auk þess ekki tískubóla heldur hjálpa manni að skapa sinn einstaka og persónulega fatastíl.


~ · ~

[Litirnir í eftirfarandi myndum sýna ekki hinn rétta bláa tón bróderingarinnar.
Dóttir mín tók myndirnar af mér í blússunni í garðinum.]


Þar sem Irving & Fine lýsa flíkinni sem klassískri Tangier-blússu þá langar mig að kinka kolli í átt að Tangier, þrátt fyrir að hafa aldrei komið þangað. Ég held að ég hafi gert hana rómantískari í mínum huga; er sennilega föst á gullaldarskeiði hennar. Tangier er lifandi borg nyrst í Morokkó og frá Spáni er ferjuferðin yfir Gíbraltarsund stutt. Muniði eftir í The Living Daylights (1987) þegar James Bond eltir uppi rússneska hershöfðingjann Pushkin í Tangier til að drepa hann? Það var allt sem þurfti til að fanga mig og ég hugsa um Tangier í hvert sinn sem ég heyri norrænu bræður okkar í A-ha flytja lagið. (Ég á eftir að sjá Spectre (2015), sem gerist þar líka.) Ég get auðveldlega séð fyrir mér blandaða menningu borgarinnar, þröng strætin og markaðsbásana þar sem kaupmenn selja mottur og krydd.



Að tala um Tangier og minnast ekki á frægasta erlenda borgarann, ameríska rithöfundinn, þýðandann og tónskáldið Paul Bowles, er eins og að ræða Nýja Testamentið án þess að minnast á Jesúm, eða Kóraninn og ekki Spámanninn. Árið 1958 í ferðagreininni ,The Worlds of Tangier,' skrifaði hann:
I am now convinced that Tangier is a place where the past and the present exist simultaneously in proportionate degree, where a very much alive today is given an added depth of reality by the presence of an equally alive yesterday. ... In Tangier the past is a physical reality as perceptible as the sunlight. (Paul Bowles.org).
Það var Gertrude Stein sem stakk upp á því við Bowles að reyna að lifa og vinna í Tangier. Hann kom þangað í annað sinn árið 1947, sendi frá sér The Sheltering Sky tveimur árum síðar (muniði eftir honum í hlutverki sögumannsins í kvikmynd Bertolucci?), og bjó þar í 52 ár, allt til dauðadags árið 1999. (Patti Smith skrifaði um hann og ferðir sínar til Morokkó í M Train, bók sem ég naut þess að lesa.)


Mig langar að skilja við ykkur með sjónrænum skammti af borginni, stuttu myndskeiði þar sem aðrir erlendir borgarar lýsa Tangier fyrir lesendum T-Magazine (Umberto Pasti og Christopher Gibbs, til að nefna einhverja). Það má lesa greinina, „The Aesthetes“, í fullri lengd með ljósmyndum á vefsíðu NYT (þetta er ein af þessum greinum sem ég hef geymt í möppunum). Höfundur hennar Andrew O'Hagan kynnir Tangier sem „high meeting place of the Mediterranean and the Atlantic, Europe and Africa, sanctity and sin, where men and women have long set out to find themselves between the devil and the deep blue sea.“

Einn daginn mun ég koma þangað. En þangað til á ég mína Tangier-blússu frá Irving & Fine.
Sveitablússa frá Irving & Fine · Lísa Hjalt




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.