mánudagur, 6. júní 2016

Mjúk valhnetusúkkulaðikaka með hindberjum

Mjúk valhnetusúkkulaðikaka með hindberjum (óbökuð) · Lísa Hjalt


Það var heitt sumar árið 2010 og við vorum nýflutt til Antwerpen þar sem við bjuggum í tvö ár. Sonurinn átti bráðum afmæli og bað mig um að gera þessa mjúku valhnetusúkkulaðiköku með hindberjum sem ekki þarf að baka. Hann sá hana í bókinni Ani's Raw Food Desserts eftir Ani Phyo og gerði strax upp hug sinn. Mjúk kaka og Playmo og sá fimm ára var hamingjusamur. Upprunalega uppskriftin (raspberry ganache fudge cake, bls. 49) var tveggja laga með kremi og hindberjum á milli. Ég gerði hana, okkur fannst hún svakalega góð, en eftir einungis eina sneið vorum við pakksödd. Fyrir okkur var þetta bara of mikið magn. Ég minnkaði stærð kökunnar og mín útgáfa er bara einfaldur botn með kremi og berjum ofan á. Það dásamlega við gerð kökunnar er einfaldleikinn: Það þarf ekki leggja hnetur og döðlur í bleyti; öllu er bara blandað saman í matvinnsluvél. Kakan er svo mótuð og borin fram. Frábært á góðum sumardögum þegar mann langar í súkkulaðiköku en það er hreinlega of hlýtt fyrir ofnbakstur.

Mjúk valhnetusúkkulaðikaka með hindberjum · Lísa Hjalt


Ein ástæða þess að ég elska þessa köku er að í henni er að finna tvennt sem er í miklu uppáhaldi: valhnetur og hindber. Valhnetur eru ríkar af ómega-3-fitusýrum (úr plöntum). Þær eru taldar vera góðar fyrir hjartað og þær hafa bólgueyðandi eiginleika. Ég las í bókinni minni Larousse Culinary Encyclopedia að forn-Grikkir og -Rómverjar hafi trúað því að valhnetur læknuðu hausverk vegna lögunar kjarnans, sem lítur út eins og tvö heilahvel (bls. 1143). Í sömu matarbiblíu las ég um „gyðjuna Ídu sem stakk sig á fingri þegar hún var að tína ber fyrir hinn unga Júpíter og þannig urðu hindberin rauð, sem hingað til höfðu verið hvít“ (bls. 861). Við skulum segja skilið við goðafræðina og skella í köku.
Mjúk valhnetusúkkulaðikaka með hindberjum · Lísa Hjalt


Uppskriftin að þessari mjúku valhnetusúkkulaðiköku er aðlöguð úr fyrrnefndri bók eftir Ani Phyo, sem er stútfull af kræsingum sem ekki þarf að ofnbaka. Ég hef minnkað stærð kökunnar þar sem við kjósum að hafa bara einn botn með kremi og hindberjum ofan á. Uppskrift Phyo kallar á þurrkaðar valhnetur (fyrst lagðar í bleyti, svo þurrkaðar í sól eða þurrkofni) en ég nota bara valhnetur án þess gera nokkuð við þær áður. Sumir geta verið viðkvæmir fyrir koffeini og í þeim tilfellum er ágætt að nota malað karob í botninn í staðinn fyrir kakó. Upprunalega uppskriftin kallar á steinlausar Medjool-döðlur, sem eru mjúkar og þarf ekki að leggja í bleyti. Að sjálfsögðu má nota þurrkaðar döðlur í staðinn en þá þarf fyrst að leggja þær í bleyti. Upprunalega uppskriftin að kreminu inniheldur agavesíróp en ég nota hreint hlynsíróp í mitt. Kökuna má geyma í kæli í 3 daga.

MJÚK VALHNETUSÚKKULAÐIKAKA MEÐ HINDBERJUM

mjúkur kökubotn
220 g valhnetur
50 g kakó
tæp ¼ teskeið fínt sjávar/Himalayasalt
175 g steinlausar Medjool-döðlur

kökukrem
60 g steinlausar Medjool-döðlur
40 ml hreint hlynsíróp
70 g þroskað avókadó
30 g kakó

70-100 g hindber

Botninn: Setjið valhnetur, kakó og salt í matvinnsluvél og haldið pulse-hnappnum niðri uns þetta er gróflega maukað. Passið að ofmauka ekki á þessu stigi. Bætið Medjool-döðlunum saman við og notið pulse-hnappinn þar til allt hefur blandast vel saman. Finnið áferð blöndunnar með fingurgómunum og ef hún virkar þurr aukið þá Medjool-döðlurnar um eina eða tvær. Notið hendurnar til að móta kökubotn á diski (ég kýs að hafa minn 18-19 cm).

Kökukremið: Setjið Medjool-döðlur og hlynsíróp í matvinnsluvél og vinnið vel þar til blandan er eins mjúk og hún getur orðið. Skerið þroskað avókadó í tvennt, fjarlægið steininn og skafið innan úr því magnið sem þarf, setjið því næst í vélina og vinnið vel þar til blandan er mjúk. Að lokum bætið þið kakóinu út í og vinnið vel uns kremið er silkimjúkt.

Dreifið kökukreminu jafnt yfir kökubotninn og skreytið með hindberjum áður en þið berið kökuna fram.

Recipe in English.

Ef notaðar eru steinlausar þurrkaðar döðlur í stað Medjool-daðla: Saxið þær fyrst og leggið í bleyti í alla vega 30 mínútur. Ekki hella döðluvatninu í vaskinn því þið gætuð þurft örlítið af vatninu til að ná fram réttri áferð, bæði fyrir kökubotninn og kremið (veltur á gæðum matvinnsluvélarinnar). Í stað þess að nota eingöngu valhnetur í botninn má nota helminginn af þeim og nota svo blöndu af pekanhnetum, möndlum og cashewhnetum á móti.Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.