mánudagur, 27. júlí 2015

Ástarsaga | Quinoa-búðingur með berjumNýlega gat ég tekið eina bók af listanum mínum þegar ég las Must You Go?: My Life with Harold Pinter eftir Antonia Fraser. Ef ég ætti að lýsa henni í nokkrum orðum þá myndi ég segja að þetta væri falleg ástarsaga, ein sú persónulegasta sem ég hef lesið. Fraser notar dagbækur til að segja frá lífi sínu með leikskáldinu Pinter, frá deginum sem þau kynntust árið 1975 til dagsins sem hann lést árið 2008. Líf þeirra saman var svo sannarlega viðburðarríkt! Ég ætla að segja ykkur örlítið frá bókinni og einnig að endurbirta uppskrift mína að quinoa-búðingi með grískri jógúrt, berjum og ávöxtum.


Það er ekkert leyndarmál að bæði Fraser og Pinter voru gift þegar þau kynntust og pressan nærðist á þessu „bókmennta-sambandi“, eins og eitt blaðið orðaði það. Málin voru nokkuð flókin þar til bæði höfðu skilið og í einni færslu vísar Fraser í náinn vin þeirra beggja sem „fannst allt þetta rómantíska tal um hjónaband vera vitleysa; af hverju gátum við ekki bara staðið í framhjáhaldi eins og allir aðrir?“ (bls. 29). Ég hló upphátt.

Ég hló oft eða brosti við lesturinn. Aðallega eru það færslur úr dagbókum Fraser sem segja söguna en stundum bætir hún við ýmsum athugasemdum eða lengri útskýringum og ég hefði viljað sjá meira af slíku. Fraser skrifar ákaflega fallega og stíll hennar er tilgerðarlaus. Hún kemur sér beint að efninu, óhrædd við að opinbera sig og lýsir aðstæðum oft á kómískan hátt. Mér fannst bókin mjög góð en ég hefði alveg verið til í að lesa lengri bók.

Augljóslega endar bókin þegar Pinter deyr, en þegar ég las síðustu síðuna þá hafði ég lifað mig svo inn í ástarsögu þeirra að hjarta mitt var í molum þegar ég kláraði bókina.Ég get ekki sagt að ég hafi vitað mikið um Pinter, fyrir utan að hann var leikskáld og leikstjóri og hafði hlotið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2005. Sú mynd sem Fraser gefur af honum var ekkert í takt við það sem ég hafði ímyndað mér og nú langar mig að lesa ævisöguna Harold Pinter eftir Michael Billington.

Bara nokkur orð til viðbótar um bækur og svo er það eftirréttur! Ég hef þegar sagt ykkur frá ást minni á höfundinum Helene Hanff (1916-1997), í færslum um 84 Charing Cross Road og Letter from New York. Síðan þá hef ég einnig lesið Q's Legacy (glittir í hana á myndunum mínum), sem er alveg jafn dásamleg og hinar. Hlutar hennar eru endurtekningar á því sem Hanff hefur þegar skrifað í fyrri verkum en ég myndi ekki láta það hindra mig frá því að lesa hana líka.
Quinoa-búðingur með berjum · Lísa Hjalt


Eins og ég hef áður sagt þá langar mig að halda öllum uppskriftunum mínum á einum stað og þessi quinoa-búðingur, sem ég geri oft yfir sumarmánuðina, er af gamla matarblogginu. Aran Goyoaga, sem heldur úti matarblogginu Canelle et Vanille, var áhrifavaldur þegar ég setti uppskriftina saman. Hún hafði notað mjólk til að sjóða quinoa-kornið en ég sýð það bara í vatni og nota svo gríska jógúrt í búðinginn, en hún hefur þessa þykku, rjómakenndu áferð sem ég er að leita eftir. Uppskriftin er einföld en maður þarf að sjóða quinoa-kornið fyrst og leyfa því að kólna í klukkustund eða svo. Það má nota hvaða ber sem er og ávexti. Hafið í huga að ég geri þennan skammt sem eftirrétt fyrir fimm manns.

QUINOA-BÚÐINGUR MEÐ GRÍSKRI JÓGÚRT, BERJUM OG ÁVÖXTUM

200 g quinoa-korn (1 bolli)
625 ml vatn
klípa fínt sjávar/Himalayasalt
250-300 g jarðarber
½-1 matskeið lífrænn hrásykur
2 ferskjur, nektarínur eða apríkósur
450 g grísk jógúrt
2 teskeiðar lífrænn vanillusykur
1½-2 matskeiðar hreint hlynsíróp
toppið með möndluflögum eða fínt hökkuðum möndlum eða valhnetum

Skolið quinoa-kornið vel undir rennandi vatni (ég læt það stundum liggja í bleyti fyrst í ca. hálftíma, veltur á hvaða tegund ég nota), sjóðið svo í potti ásamt vatni og klípu af salti. Sjóðið á hæsta hita þar til suðan kemur upp, minnkið þá hitann á lægstu stillingu eða svo, tillið loki á pottinn þannig að gufan sleppi í gegn og sjóðið í um 20 míntútur. Færið svo yfir í skál og leyfið quinoa-korninu að kólna í klukkustund eða svo.

Skerið jarðarberin. Setjið þau svo í skál og stráið ½-1 matskeið af lífrænum hrásykri yfir. Látið jarðarberin standa við stofuhita á meðan quinoa-kornið kólnar.

Til að útbúa búðinginn sjálfan: Setjið 350-400 g af grísku jógúrtinni í stóra skál og blandið vanillusykri og hlynsírópi saman við. Notið gaffal til þess að stinga aðeins í quinoa-kornið áður en þið blandið því saman við.

Skerið ávextina í bita og hakkið möndlurnar/valhneturnar, ef notaðar.

Setjið búðinginn í litlar skálar eða glerkrukkur, setjið jarðarberin ofan á og þar næst ávextina. Toppið með restinni af grísku jógúrtinni og möndluflögum eða hökkuðum möndlum/valhnetum.


Recipe in English.Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.