þriðjudagur, 7. júlí 2015

Bóndarósir og indversk blómamynstur

Bóndarósir og indversk blómamynstur · Lísa Hjalt


Á einhverjum tímapunkti nótaði ég í minnisbókina að kínverska orðið yfir bóndarós væri sho yu, sem þýðir sú fegursta. Nafn við hæfi! Sennilega er það klisjukennt að birta bloggfærslu um bóndarósir en í fyrra lét ég bók um textílhönnun fylgja með og ég hugsaði með mér að textíll og bóndarósir væru bara ágætis árlegt þema hér á blogginu. Nýjasta textílbókin í safninu mínu er V&A Pattern: Indian Florals.

Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt

Á bókarkápunni: Bútur af efni til bólstrunar, bróderuð bómull með silkiþráðum,
Gujurat (fyrir evrópskan markað), snemma á 18. öld

V&A Pattern: Indian Florals er lítil bók með aðeins fjórum blaðsíðum af texta eftir Rosemary Crill. Í henni eru 66 síður af mynstrum, auk mynstranna á bókarkápunni og á öðrum síðum til skrauts (samtals 71). Það eru stuttar lýsingar fyrir neðan öll mynstrin (eins og myndatextinn minn) og bókinni fylgir auk þess tölvudiskur með öllum mynstrunum í góðri upplausn.
Rúmábreiða, lituð og bútasaumuð bómull (chintz), Coromandel-ströndin
(fyrir evrópskan markað), ca. 1725-50
Bútur af kjólaefni, blokkprentuð bómull (chintz), Suður-Indland
(fyrir evrópskan markað), 18. öld

V&A Pattern-bækurnar eru frábær kynning á yfirgripsmiklu minjasafni (textíll, skraut, veggfóður og prent) Victoria and Albert-safnsins í London. Fyrir áhugafólk um textílhönnun og fyrir nemendur er kjörið að safna þeim. Næst er ég að hugsa um að kaupa Kimono eða William Morris, eða kannski þetta bókasett, Box-Set III, sem inniheldur Spitalfields Silks, Chinese Textiles, Pop Patterns og Walter Crane.

Mér finnst svolítið erfitt að ákveða mig en bækurnar eru ódýrar þannig að ég trúi því að á stuttum tíma verði ég komin með þó nokkuð margar í safnið.
Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt


Þegar þetta er skrifað er síðasti vöndurinn af bóndarósum þessarar árstíðar í hvítum keramikvasa á eldhúsborðinu. Ég kann að hljóma dramatísk (ég er allt annað en dramatísk) þegar ég segi að ég vildi að ég hefði þann ofurmátt að geta forðað rósunum frá því að visna. Mig langar ekki að bíða í næstum heilt ár eftir því að finna himneska angan þeirra að nýju.

Bóndarósir eru svo sannarlega fegurstar.
Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt
Bóndarósir (peoníur) · Lísa Hjalt




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.