mánudagur, 13. apríl 2015

Indverskt te (chai latte) og textílhönnun

Uppskrift: Indverskt te (chai latte) · Lísa Stefan


Í morgun fann ég fyrir slappleika og það var bara eitt sem líkaminn kallaði á: indverskt te eða chai latte. Ég smellti mynd af skálinni minni en ég naut tesins með bunka af The World of Interiors mér við hlið.

Fyrir þá sem hafa áhuga á textílhönnun: Á myndinni hér að ofan hvílir skálin mín á síðu í októberhefti ársins 2014 með umfjöllun um vatnslitamáluð mynstur eftir textílhönnuðinn William Kilburn (1745–1818). Þessi verk hans eru fáanleg í bók sem kallast Mr. Kilburn's Calicos: William Kilburn's Fabric Printing Patterns from the Year 1800 eftir Gabriel Sempill og Simon Lawrence. Bókin er dýr en örugglega hverrar krónu virði.

The World of Interiors, okt. 2014, bls. 112-113

Uppkriftinni að indverska teinu hafði ég þegar deilt á gamla matarblogginu en það er ætlun mín að smám saman endurbirta þær uppskriftir hér til halda öllu á einum stað. Ég hef gert þetta te í mörg ár og þessi hlutföll af kryddum eru alls ekki heilög heldur ætlað að vera leiðbeinandi; þið getið aukið hlutföll krydds eða sleppt því ef þið viljið. Passið bara að nota ekki of mikinn sykur því það eru miklu skemmtilegra að leyfa kryddbragðinu að njóta sín.

INDVERSKT TE (CHAI LATTE)

500 ml vatn
500 ml mjólk
4 pokar lífrænt svart te
2-2½ matskeið lífrænn hrásykur
1-3 kanilstangir eða 1 teskeið kanill
½ teskeið negulnaglar
¼ teskeið anísfræ eða 1 anísstjarna
nokkur svört piparkorn eða nýmalaður svartur pipar
örlítið engifer
örlítið múskat
örlítil kardamoma (má líka notar heilar kardamomur)

Setjið öll hráefnin í pott og sjóðið á meðal-hæsta hita. Fjarlægið pottinn af hellunni um leið og suðan kemur upp.

Berið teið fram í bollum eða skálum og njótið.

Önnur aðferð: Ef þið hafið tíma þá má byrja á því að sjóða vatnið með kryddunum eingöngu til að fá sterkara kryddbragð (ein kanilstöng ætti að vera nóg) og bæta svo hinum hráefnunum út í síðar. Það má líka flóa mjólkina sér og gera froðu til þess að láta þetta líta út eins og alvöru latte.




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.