fimmtudagur, 9. apríl 2015

Letter from New York

Bókin Letter from New York eftir Helene Hanff · Lísa Hjalt


Nei, ég skrifa þetta ekki frá New York (væri samt ekkert á móti því) heldur var bara að klára að lesa þessa dásamlegu bók eftir Helene Hanff, Letter from New York, sem var gefin út árið 1992. Ég hef þegar sagt að ég pantaði notað eintak og mitt reyndist vera fyrsta útgáfa; eintak frá bókasafni með plastaðri kápu sem brakar í þegar síðu er flett - elska tilfinninguna!

Ég bloggaði nýverið um aðra bók eftir Hanff, 84 Charing Cross Road (sjá hér), og sagði ykkur að ég hefði fallið fyrir hnyttnum stíl hennar. Hún er alveg jafn fyndin í Letter from New York en bókin geymir sögur sem hún skrifaði í 6 ár fyrir Woman's Hour í útvarpi BBC eftir að 84 Charing Cross Road sló í gegn. Sögurnar eru um líf hennar í New York, um nágrannana (fólk og hunda - hún bjó við 305 East 72nd Street), vini, göngur um Central Park o.fl.Líf Hanff er ekki fyllt glamúr en hún skrifar af ástríðu um daglegt líf í nágrenni sínu og um lífið á götum borgarinnar. Hún hefur næmt auga fyrir umhverfi sínu og fær mig oft til að hlæja upphátt. Hafi lesandinn ekki þegar ferðast til New York þá er líklegt að hann langi þangað eftir lesturinn, þrátt fyrir að Hanff sé að lýsa New York á síðari hluta áttunda áratugarins og á fyrrihluta þess níunda. Það sem mér finnst einstaklega skemmtilegt við Hanff er hversu auðvelt hún á með að gera grín að sjálfri sér. Ég vildi óska þess að hún væri enn á lífi því við þurfum á fólki eins og Hanff að halda í þessum heimi.

Ég þarf sennilega ekki að taka það fram en ég hef þegar pantað mína þriðju bók eftir Hanff og á von á notuðu eintaki af Q's Legacy í póstinum fljótlega
Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.