Sýnir færslur með efnisorðinu endurminningar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu endurminningar. Sýna allar færslur

föstudagur, 21. febrúar 2025

Vitlaus leshraði

Leskrókurinn minn; bækur og kaffi á sunnudagsmorgni · Lísa Stefan


Endurminningar Sigurðar Pálssonar heitins eru bækur sem ég les reglulega, allar þrjár: Minnisbók, Bernskubók og Táningabók. Þegar ég ferðast með lest hef ég alltaf eina þessara bóka með í för, hefð sem ég skapaði í Skotlandi árið 2017. Æviskrif rithöfunda og ljóðskálda fjalla vitanlega um tungumálið, það að skrifa prósa eða ljóð, og bókmenntaleg tengsl því ríkuleg. Ég fæ ekki nóg af slíku, af lestri bóka um bækur. Siggi Páls, eins og ég kalla hann án þess að hafa þekkt hann persónulega, var ljóðskáld og því er prósi hans knappur. Hann á það til að vera einstaklega hnyttinn þannig að ég skelli upp úr. Ég tengi sérstaklega við hugmyndir hans um það að vera Íslendingur í útlöndum, að horfa á fæðingarland sitt úr fjarlægð.

Í kaflanum Miðja og jaðar í Bernskubók skrifar hann um „mótun þeirrar vitundar að vera ekki fastur í fæðingarstað né fæðingarlandi“; um hina „víðari mynd, það að tilheyra veröldinni, mannkyninu“ og bætir við:
Þannig hef ég lengi reynt að upplifa sjálfan mig. Númer eitt tilheyri ég mannkyninu, númer tvö Evrópu, síðan Íslandi.
Svona er ég nú svakalega fortapaður orðinn.
Með árunum hef ég fengið sífellt sterkari tilfinningu fyrir þessu. Svo sterka að mér verður óglatt að hlusta á hvers kyns rembu, þjóðrembu, karlrembu. Allt jafn ömurlegt.
Það sem ég tengi við þessi orð.

Bernskubók Sigga Páls með í för í lest til München · Lisa Stefan
Bernskubók Sigga Páls með í för til München síðasta haust

Þegar fólk spyr mig hvaðan ég komi svara ég gjarnan að ríkisfangið tilheyri heiminum en að vegabréfið sé íslenskt. Fólk frá Íslandi spyr mig oft hvort ég ætli ekki að fara að koma heim. Nei, ég er ekki á leiðinni „heim“. Það er langt síðan Ísland glataði þeirri merkingu. Þýskan á frábært orð, heimat, sem þarf ekki endilega að merkja fæðingarstað heldur þann stað þar sem þér líður heima. Eftir að hafa búið hér í bráðum 6 ár er Austurríki jafnvel ekki mitt heimat. Fyrir mér er heimat visst svæði á meginlandi Evrópu og tengist frekar menningu heldur en tilteknum stað eða borg.

En hvað hefur þetta með vitlausan leshraða að gera eins og segir í titli? Ég endurlas Táningabókina með morgunkaffinu í janúar og í kaflanum þar sem Siggi Páls víkur að birtingu ljóða sinna í fyrsta sinn leggur hann ríka áherslu á hægan lestur ljóðtexta. Hann líkir þessu saman við spil á hljómplötum, segir að ljóð kalli á 33 snúninga en ekki 45 til að sjá „merkingu,tilfinningu“ og bætir við
að mikið af misskilningi fólks gagnvart ljóðtextum sé í raun innstillingaratriði, móttökutækin eru vitlaust stillt. Leshraðinn er vitlaus.

Olíumálverk eftir Zao Wou-Ki, 1969 (Þjóðlistasafns Taiwan)
Zao Wou-Ki, 1969

Leshraðinn er vitlaus. Þessi orð Sigga eiga við prósa líka því sumar bækur kalla á hægari lestur. Þau voru góð áminning þegar ég byrjaði á ritgerðasafninu Serious Noticing: Selected Essays eftir gagnrýnandann James Wood. Það var jólagjöf frá kærri vinkonu og geymir greinar sem Wood skrifaði á árunum 1997 til 2019 fyrir tímaritin New Republic, The New Yorker og London Review of Books.

Að lokum vil ég segja að ég hef saknað þess að blogga, saknað þess að fjalla um bækur á íslensku. Þó að Ísland sé ekki mitt heimat þá á íslenskan alltaf sinn hjartastað.

Zao Wou-Ki listaverk af vefsíðu Foundation Zao Wou-Ki (verkið er í safni Þjóðlistasafns Taiwan)



fimmtudagur, 9. apríl 2015

Letter from New York

Bókin Letter from New York eftir Helene Hanff · Lísa Hjalt


Nei, ég skrifa þetta ekki frá New York (væri samt ekkert á móti því) heldur var bara að klára að lesa þessa dásamlegu bók eftir Helene Hanff, Letter from New York, sem var gefin út árið 1992. Ég hef þegar sagt að ég pantaði notað eintak og mitt reyndist vera fyrsta útgáfa; eintak frá bókasafni með plastaðri kápu sem brakar í þegar síðu er flett - elska tilfinninguna!

Ég bloggaði nýverið um aðra bók eftir Hanff, 84 Charing Cross Road (sjá hér), og sagði ykkur að ég hefði fallið fyrir hnyttnum stíl hennar. Hún er alveg jafn fyndin í Letter from New York en bókin geymir sögur sem hún skrifaði í 6 ár fyrir Woman's Hour í útvarpi BBC eftir að 84 Charing Cross Road sló í gegn. Sögurnar eru um líf hennar í New York, um nágrannana (fólk og hunda - hún bjó við 305 East 72nd Street), vini, göngur um Central Park o.fl.



Líf Hanff er ekki fyllt glamúr en hún skrifar af ástríðu um daglegt líf í nágrenni sínu og um lífið á götum borgarinnar. Hún hefur næmt auga fyrir umhverfi sínu og fær mig oft til að hlæja upphátt. Hafi lesandinn ekki þegar ferðast til New York þá er líklegt að hann langi þangað eftir lesturinn, þrátt fyrir að Hanff sé að lýsa New York á síðari hluta áttunda áratugarins og á fyrrihluta þess níunda. Það sem mér finnst einstaklega skemmtilegt við Hanff er hversu auðvelt hún á með að gera grín að sjálfri sér. Ég vildi óska þess að hún væri enn á lífi því við þurfum á fólki eins og Hanff að halda í þessum heimi.

Ég þarf sennilega ekki að taka það fram en ég hef þegar pantað mína þriðju bók eftir Hanff og á von á notuðu eintaki af Q's Legacy í póstinum fljótlega




sunnudagur, 5. apríl 2015

Bréf Mitford-systra | Gleðilega páska

Gleðilega páska | The Mitfords · Lísa Stefan


Ég vona að þessi páskasunnudagur leiki við ykkur. Ég var að vonast eftir sól í fríinu en þar sem skýin voru í aðalhlutverki þá skellti ég mér á bókasafnið í gær til að ná mér í lesefni. Ég var nýbúin að lesa bókina The Mitfords: Letters Between Six Sisters, í ritstjórn Charlotte Mosley (tengdadóttir einnar Mitford-systranna, Diana Mosley), og mig langaði að lesa meira um þessar áhugaverðu systur. Því miður reyndist safnið lokað og ég varð bara að sætta mig við tímarit og súkkulaði!



Í raun stóð það aldrei til að lesa fyrrnefnda bók. Ég fór á bókasafnið fyrir einhverjum vikum síðan til að fá að láni The Letters of Nancy Mitford and Evelyn Waugh (Nancy var elsta Mitford-systirin og varð þekktur rithöfundur; Waugh skrifaði m.a. skáldsöguna Brideshead Revisited), en því miður var bókin ekki fáanleg. Ég var að skoða í hillunum þegar bókasafnsvörðurinn kom til mín með bréf þeirra systra og sagðist hafa fundið bókina inni í geymslu; kannski að ég hefði áhuga á henni? Kápan heillaði mig strax en þar sem bókin var 830 blaðsíður þá hélt ég að ég myndi kannski bara rétt blaða í henni. Það fór auðvitað svo að ég las hana frá upphafi til enda og gat stundum ekki lagt hana frá mér.

Ég ætla ekki þreyta ykkur með löngum sögum af Mitford-systrum en það má segja að þær hafi verið áberandi í bresku samfélagi á 20. öldinni. „Dýnamíkin“ í sambandi þeirra var sérstök, eins og kemur fram í bréfunum, og nokkrar þeirra áttu ansi skrautlegt líf. Ég vissi afskaplega lítið um þær þegar ég byrjaði lesturinn en þið hefðuð átt að sjá mig þegar ég kom að þeim punkti í bókinni þar sem ein systirin, Unity, sat á veitingastað með sjálfum Adolf Hitler í München. Ég átti ekki von á lýsingum á persónutöfrum Hitlers en þær er svo sannarlega að finna þarna. Þessi tiltekna systir var gjörsamlega heilluð af manninum og hún reyndi að taka líf sitt þegar stríðið braust út árið 1939, en það er önnur (sorgleg) saga. Það er óhætt að segja að þessi bók fari með mann á undarlegar slóðir. Ef þið flettið upp á Mitford-systrum á netinu þá er af nógu að taka en ég fann stuttar greinar með ljósmyndum á vefsíðum BBC og The Guardian.

Gleðilega páska!


Ummerki eftir persneskan kött