Sýnir færslur með efnisorðinu lestur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu lestur. Sýna allar færslur

föstudagur, 21. febrúar 2025

Vitlaus leshraði

Leskrókurinn minn; bækur og kaffi á sunnudagsmorgni · Lísa Stefan


Endurminningar Sigurðar Pálssonar heitins eru bækur sem ég les reglulega, allar þrjár: Minnisbók, Bernskubók og Táningabók. Þegar ég ferðast með lest hef ég alltaf eina þessara bóka með í för, hefð sem ég skapaði í Skotlandi árið 2017. Æviskrif rithöfunda og ljóðskálda fjalla vitanlega um tungumálið, það að skrifa prósa eða ljóð, og bókmenntaleg tengsl því ríkuleg. Ég fæ ekki nóg af slíku, af lestri bóka um bækur. Siggi Páls, eins og ég kalla hann án þess að hafa þekkt hann persónulega, var ljóðskáld og því er prósi hans knappur. Hann á það til að vera einstaklega hnyttinn þannig að ég skelli upp úr. Ég tengi sérstaklega við hugmyndir hans um það að vera Íslendingur í útlöndum, að horfa á fæðingarland sitt úr fjarlægð.

Í kaflanum Miðja og jaðar í Bernskubók skrifar hann um „mótun þeirrar vitundar að vera ekki fastur í fæðingarstað né fæðingarlandi“; um hina „víðari mynd, það að tilheyra veröldinni, mannkyninu“ og bætir við:
Þannig hef ég lengi reynt að upplifa sjálfan mig. Númer eitt tilheyri ég mannkyninu, númer tvö Evrópu, síðan Íslandi.
Svona er ég nú svakalega fortapaður orðinn.
Með árunum hef ég fengið sífellt sterkari tilfinningu fyrir þessu. Svo sterka að mér verður óglatt að hlusta á hvers kyns rembu, þjóðrembu, karlrembu. Allt jafn ömurlegt.
Það sem ég tengi við þessi orð.

Bernskubók Sigga Páls með í för í lest til München · Lisa Stefan
Bernskubók Sigga Páls með í för til München síðasta haust

Þegar fólk spyr mig hvaðan ég komi svara ég gjarnan að ríkisfangið tilheyri heiminum en að vegabréfið sé íslenskt. Fólk frá Íslandi spyr mig oft hvort ég ætli ekki að fara að koma heim. Nei, ég er ekki á leiðinni „heim“. Það er langt síðan Ísland glataði þeirri merkingu. Þýskan á frábært orð, heimat, sem þarf ekki endilega að merkja fæðingarstað heldur þann stað þar sem þér líður heima. Eftir að hafa búið hér í bráðum 6 ár er Austurríki jafnvel ekki mitt heimat. Fyrir mér er heimat visst svæði á meginlandi Evrópu og tengist frekar menningu heldur en tilteknum stað eða borg.

En hvað hefur þetta með vitlausan leshraða að gera eins og segir í titli? Ég endurlas Táningabókina með morgunkaffinu í janúar og í kaflanum þar sem Siggi Páls víkur að birtingu ljóða sinna í fyrsta sinn leggur hann ríka áherslu á hægan lestur ljóðtexta. Hann líkir þessu saman við spil á hljómplötum, segir að ljóð kalli á 33 snúninga en ekki 45 til að sjá „merkingu,tilfinningu“ og bætir við
að mikið af misskilningi fólks gagnvart ljóðtextum sé í raun innstillingaratriði, móttökutækin eru vitlaust stillt. Leshraðinn er vitlaus.

Olíumálverk eftir Zao Wou-Ki, 1969 (Þjóðlistasafns Taiwan)
Zao Wou-Ki, 1969

Leshraðinn er vitlaus. Þessi orð Sigga eiga við prósa líka því sumar bækur kalla á hægari lestur. Þau voru góð áminning þegar ég byrjaði á ritgerðasafninu Serious Noticing: Selected Essays eftir gagnrýnandann James Wood. Það var jólagjöf frá kærri vinkonu og geymir greinar sem Wood skrifaði á árunum 1997 til 2019 fyrir tímaritin New Republic, The New Yorker og London Review of Books.

Að lokum vil ég segja að ég hef saknað þess að blogga, saknað þess að fjalla um bækur á íslensku. Þó að Ísland sé ekki mitt heimat þá á íslenskan alltaf sinn hjartastað.

Zao Wou-Ki listaverk af vefsíðu Foundation Zao Wou-Ki (verkið er í safni Þjóðlistasafns Taiwan)



föstudagur, 18. nóvember 2022

№ 33 bókalisti: Keegan og COVID-einkenni

Á № 33 bókalistanum er m.a. að finna Small Things Like These eftir írsku skáldkonuna Claire Keegan · Lísa Hjalt


Ég hef beðið með að deila þessum bókalista því mig langaði að nota myndavélina til að fanga bækurnar með kaffibolla og kannski blómum líka í stað þess að nota myndir af Instagram. En ég hef ekki verið í skapi fyrir myndatöku. Ég nældi mér í COVID fyrir 5 vikum síðan og slapp nokkuð vel. Svaf aðallega út í hið óendanlega vegna þreytu. En því miður missti ég bragðskynið - 5 vikur án kaffibragðs! - og mér fannst allar bækur sem ég var að lesa leiðinlegar. Kannski ætti ég að taka til baka þetta með að hafa sloppið vel. Við skulum líta á listann og verkin á honum því ég á bara eftir að klára eina bók.

№ 33 bókalisti:

1  Pain  · Zeruya Shalev
2  Small Things Like These  · Claire Keegan
3  Night  · Elie Wiesel
4  Nemesis  · Philip Roth
5  Sapiens: A Brief History of Humankind  · Yuval Noah Harari

Ensk þýðing: 1) Pain: Sondra Silverston; 3) Night: Marion Wiesel

Bókin hennar Claire Keegan, sem var tilnefnd til Booker-verðlaunanna í ár, er lítil perla sem gerist í írskum smábæ árið 1985 og tekur á viðkvæmu efni: hvernig kaþólska kirkjan á Írlandi komst upp með að nota ungar, þungaðar stúlkur sem vinnuafl í klaustrum og tók svo af þeim börnin eftir fæðingu. Keegan þarf ekki nema nema 116 síður til að segja allt sem segja þarf og innihaldið er ríkara en mörg lengri skáldverk. (Ég mæli með kvikmyndinni The Magdalene Sisters (2002; Peter Mullan) um sama efni.) Aðra stutta en innihaldsríka bók á listanum á Elie Wiesel, sem lifði af helförina og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1986. Hún segir frá reynslu hans í fangabúðunum, Auschwitz og Buchenwald, og lesturinn tekur oft á. Í mörg ár hef ég forðast að þessa bók. Það er fyrst núna sem ég hafði hugrekki til þess.

Í Nemesis býr Philip Roth til mænusóttarfaraldur í fæðingarbæ sínum Newark árið 1944, sem ógnar lífi barna. Ég var ekki viss hvort þetta væri rétti tíminn til að lesa bók um faraldur þar sem við erum enn að glíma við kórónaveirufaraldurinn en það truflaði mig ekki við lesturinn. Bókin er vel skrifuð (hlaut alþjóðlegu Booker-verðlaunin árið 2011) en kannski aðeins of stutt fyrir minn smekk. Í þriðja hluta erum við komin til ársins 1971 og sögumaðurinn segir í stuttu máli frá því sem gerst hefur á öllum þessum tíma. Hér fannst mér einhverja fyllingu vanta í verkið og fannst ég þurfa meira þegar það endaði.

Ég er lítið fyrir bækur sem verða ofur vinsælar og hef tilhneigingu til að forðast bækur sem allir virðast vera að lesa og kalla skyldulesningu. Sapiens eftir ísraelska sagnfræðinginn Yuval Noah Harari fellur í þann flokk. Hún hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál; á íslensku með undirtitlinum Mannkynssaga í stuttu máli. Eitthvað hélt þó áfram að draga mig að henni þannig að ég keypti hana handa syni mínum og hugsaði að ég gæti fengið hana lánaða einn daginn. Ég hef núna lesið fyrsta hlutann af fjórum í rólegheitum og bókin lofar góðu. Harari nálgast viðfangsefnið þverfaglega og er lipur penni.

Kápa bókarinnar Pain eftir Zeruya Shalev á bókalistanum · Lísa Hjalt
Pain er skáldsaga eftir ísraelska rithöfundinn Zeruyu Shalev

Samband mitt við nútímaskáldverk getur oft verið skrýtið. Ég fylgist vel með útgáfu bóka en verð sjaldan spennt fyrir nýjum skáldsögum. Þegar það gerist hef ég líklega látið lokkandi bókarkápu ginna mig. Sjálfur lesturinn veldur mér oft vonbrigðum og ég finn jafnvel fyrir ergelsi og óþolinmæði. Ég ákvað að lesa Pain eftir Zeruya Shalev eftir að hafa lesið stutt viðtal við fransk-marokkósku skáldkonuna Leïlu Slimani þar sem hún mærði skrif Shalev. Pain fjallar um ísraelska konu sem lifir af hryðjuverkaárás en glímir enn við afleiðingarnar 10 árum síðar. Bókin byrjaði vel en fljótlega varð hún ein af þessum skáldsögum sem ég klára bara til að geta haft skoðun á henni. Shalev á ágætis spretti í bókinni, það vantar ekki, en við skulum orða það þannig að ég mun ekki rjúka út í bókabúð til að kaupa aðra bók eftir hana, sem skrifast alfarið á mig.

Ég minntist á leiðinlegar bækur í upphafi. Ein af þeim átti að fara á listann, klassíska ferðaritið In Patagonia eftir sjálfan Bruce Chatwin, en ég gafst upp eftir nokkra kafla. Fyrst hélt ég að það væru bara mín COVID-einkenni að finnast bókin óáhugaverð (mér fannst allar bækur leiðinlegar) og hélt því lestrinum áfram þegar ég komst almennilega á fætur. En ritstíllinn gerði ekkert fyrir mig og stuttir kaflarnir, meira eins og stuttar frásagnir heldur en kaflar, voru of sundurlausir fyrir minn smekk. Ég hef sagt það áður að lífið er of stutt og dýrmætt fyrir bækur sem fá ekki lestrarhjartað til að slá hraðar.