mánudagur, 26. september 2022

№ 32 bókalisti: Woolf, Hardwick & nýjar bækur

№ 32 bókalisti: Kápan af The Element of Lavishness, bréf Sylviu Townsend Warner og Williams Maxwell, 1938-1978 · Lísa Hjalt


Hér er bókalistinn sem ég lofaði nýverið. Ég hefði kannski átt að tvinna saman tvo lista því ég er byrjuð að lesa bækur sem verða á þeim næsta. Ég get svo játað að nú þegar horfi ég löngunaraugum á bækur sem munu rata á þarnæsta. Ein þeirra er bréfasafn Leonards Woolf. Já, ég er að tala um eiginmann Virginiu, en það er honum að þakka að við höfum aðgang að persónulegu efni hennar, bréfum, dagbókum o.fl. Ég hef gaman af lestri bréfa, einkum þeim sem tengjast bókmenntum. Bréfasafn rithöfundanna Warner og Maxwells á nýja listanum, og á myndinni hér að ofan, er gullmoli. Hvert bréf er vel skrifað og sú gagnkvæma virðing sem einkenndi vináttu þeirra skín í gegn.

№ 32 bókalisti:

1  The Years · Virginia Woolf
2  Virginia Woolf · Hermione Lee
3  A Room of One's Own · Virginia Woolf [endurlestur]
4  The Uncollected Essays of Elizabeth Hardwick · ritstj. Alex Andriesse
5  A Splendid Intelligence: The Life of Elizabeth Hardwick  · Cathy Curtis
6  De Profundis and Other Prison Writings · Oscar Wilde
7  The Element of Lavishness: Letters of Sylvia Townsend Warner and
William Maxwell 1938-1978  · ritstj. Michael Steinman

Á listanum er ævisaga Hermione Lee um Virginiu Woolf sem ég er að klára og mæli með fyrir Woolf-aðdáendur. Því miður get ég ekki mælt með skáldsögu Woolf, The Years. Nánar um þau vonbrigði síðar. Þeir sem lesa bloggið vita að Elizabeth Hardwick er í miklu uppáhaldi og á listanum finnið þið nýtt safn ritgerða og einu bókina sem skrifuð hefur verið um ævi hennar. Og þá að öðrum lista, óskalistanum mínum.

Kápa bókarinnar Memoirs, sjálfsævisöguskrif Roberts Lowell
Kápa bókarinnar Come Back in September eftir Darryl Pinckney

Sjálfsævisöguleg skrif ljóðskáldsins Roberts Lowell komu út í ágúst (t.v.); Elizabeth Hardwick
prýðir kápu nýrrar bókar eftir Darryl Pinckney (t.h.)

Óskalistinn lengist stöðugt og mig langar að nefna tvær nýjar viðbætur á honum. Í október kemur út bókin Come Back in September eftir Darryl Pinckney. Hún fjallar um vináttu hans við Hardwick og ritstjórann Barböru Epstein. Báðar tóku þátt í því að koma bókmenntaritinu The New York Review of Books á laggirnar, þær voru bestu vinkonur og nágrannar á 67. stræti í New York. Bókin Memoirs kom út í ágúst, safn sjálfsævisögulegra skrifa eftir ljóðskáldið Robert Lowell (fyrrverandi eiginmaður Hardwick). Gagnrýnendur hafa lofað bókina.

Kaffiborðið mitt og bækur sem verða á næsta bókalista · Lísa Hjalt
Nikkað til næsta bókalista

myndir mínar, birtust á Instagram 03/08/22 og 17/09/22Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.