Sýnir færslur með efnisorðinu virginia woolf. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu virginia woolf. Sýna allar færslur

mánudagur, 26. september 2022

№ 32 bókalisti: Woolf, Hardwick & nýjar bækur

№ 32 bókalisti: Kápan af The Element of Lavishness, bréf Sylviu Townsend Warner og Williams Maxwell, 1938-1978 · Lísa Stefan


Hér er bókalistinn sem ég lofaði nýverið. Ég hefði kannski átt að tvinna saman tvo lista því ég er byrjuð að lesa bækur sem verða á þeim næsta. Ég get svo játað að nú þegar horfi ég löngunaraugum á bækur sem munu rata á þarnæsta. Ein þeirra er bréfasafn Leonards Woolf. Já, ég er að tala um eiginmann Virginiu, en það er honum að þakka að við höfum aðgang að persónulegu efni hennar, bréfum, dagbókum o.fl. Ég hef gaman af lestri bréfa, einkum þeim sem tengjast bókmenntum. Bréfasafn rithöfundanna Warner og Maxwells á nýja listanum, bókin á myndinni hér að ofan, er gullmoli. Hvert bréf er vel skrifað og sú gagnkvæma virðing sem einkenndi vináttu þeirra skín í gegn.

№ 32 bókalisti:

1  The Years · Virginia Woolf
2  Virginia Woolf · Hermione Lee
3  A Room of One's Own · Virginia Woolf [endurlestur]
4  The Uncollected Essays of Elizabeth Hardwick · ritstj. Alex Andriesse
5  A Splendid Intelligence: The Life of Elizabeth Hardwick  · Cathy Curtis
6  De Profundis and Other Prison Writings · Oscar Wilde
7  The Element of Lavishness: Letters of Sylvia Townsend Warner and
William Maxwell 1938-1978  · ritstj. Michael Steinman

Á listanum er ævisaga Hermione Lee um Virginiu Woolf sem ég er að klára og mæli með fyrir Woolf-aðdáendur. Því miður get ég ekki mælt með skáldsögu Woolf, The Years. Nánar um þau vonbrigði síðar, kannski. Þeir sem lesa bloggið vita að Elizabeth Hardwick er í miklu uppáhaldi og á listanum finnið þið nýtt safn ritgerða og einu bókina um ævi hennar sem gefin hefur verið út. Og þá að öðrum lista, óskalistanum mínum.

Kápa bókarinnar Memoirs, sjálfsævisöguskrif Roberts Lowell
Kápa bókarinnar Come Back in September eftir Darryl Pinckney

Sjálfsævisöguleg skrif ljóðskáldsins Roberts Lowell komu út í ágúst (t.v.); Elizabeth Hardwick
prýðir kápu nýrrar bókar eftir Darryl Pinckney (t.h.)

Óskalistinn lengist stöðugt og mig langar að nefna tvær nýjar viðbætur á honum. Í október kemur út bókin Come Back in September eftir Darryl Pinckney. Hún fjallar um vináttu hans við Hardwick og ritstjórann Barböru Epstein. Báðar tóku þátt í því að koma bókmenntaritinu The New York Review of Books á laggirnar, þær voru bestu vinkonur og nágrannar á 67. stræti í New York. Hin, Memoirs, kom út í ágúst og er safn sjálfsævisögulegra skrifa eftir ljóðskáldið Robert Lowell (fyrrverandi eiginmaður Hardwick). Gagnrýnendur hafa lofað bókina.

Kaffiborðið mitt og bækur sem verða á næsta bókalista · Lísa Stefan
Nikkað til næsta bókalista



fimmtudagur, 14. apríl 2022

Lestrarkompan: Virginia Woolf um bækur

Lestrarkompan: Latte og dagbók Virginiu Woolf · Lísa Stefan


Virginia Woolf deilir mínum eigin hugsunum um bækur:
What a vast fertility of pleasure books hold for me! I went in & found the table laden with books. I looked in & sniffed them all. I could not resist carrying this one* off & broaching it. I think I could happily live here & read forever.
Þessar dásamlegu línur skrifar hún í dagbók sína í Monk's House, fimmtudaginn 24. ágúst 1933 (4. bindi, sjá № 29).
*The Confessions of Arsene Houssaye



föstudagur, 7. janúar 2022

№ 29 bókalisti: nýja árið byrjar með Woolf

№ 29 bókalisti: Póetík í Reykjavík, Woolf og Murdoch · Lísa Stefan


Gleðilegt ár! Ég áttaði mig á því í vikunni að ég steingleymdi nýárshefðinni minni, að lesa bókina Little Women inn í nýja árið. Þessi hefð byrjaði í Skotlandi; ég las nokkrar síður eða kafla um áramót á meðan aðrir fögnuðu með flugeldum eða hverju sem er. Í ár horfði ég á flugeldana með syninum en Austurríkismenn eru ansi sprengjuglaðir. Ég bætti upp fyrir gleymskuna með því að horfa á mynd Gretu Gerwig (2019) eftir bókinni, með þeim Saoirse Ronan, Florence Pugh og Timothée Chalamet í aðalhlutverkum. Stórfín mynd. Nýársmorgun byrjaði ég slök á legubekknum í náttbuxum og kimono, með kaffi og fjórða bindi af dagbók Virginiu Woolf, sem hefst árið 1931. Þið finnið hana á nýjum bókalista.

№ 29 bókalisti:

1  My Brilliant Friend  · Elena Ferrante
2  The Diary Of Virginia Woolf, Volume 4 1931-35 
3  Mrs Dalloway  · Virginia Woolf [endurlestur]
4  Mythos: The Greek Myths Retold  · Stephen Fry
5  Wittgensteins Neffe: Eine Freundschaft  · Thomas Bernhard [þýsk]
6  Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda 
7  Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995  · ritstj. Avril
Horner og Anne Rowe

Ensk þýðing: 1) My Brilliant Friend: Ann Goldstein

Listinn hefur tekið mörgum breytingum. Stephen Fry og íslensku erindin fjórtán eru einu verkin sem voru á þeim upprunalega sem átti að birtast í haust. Ég veit ekki ástæðuna, líklega blanda af önnum í skólanum og eirðarleysi, en ég var sífellt að breyta honum; las nokkrar síður í bók, jafnvel nokkra kafla, sem mig langaði að setja á listann en hafði svo lagt hana til hliðar stuttu síðar. Það að langa að lesa bók nægir mér stundum ekki, fyrir lestur sumra bóka þarf staður og stund að vera hárrétt.

Bókin Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda · Lestur & Latte blogg
Í haust fann ég óvænt í póstinum eintak af Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda (ritstj. Kjartan Már Ómarsson), sem einn þeirra, Margrét Bjarnadóttir, var svo væn að gefa mér. Hún er að fikra sig áfram í ritlist og á fínt erindi í bókinni. Hún er systir vinkonu minnar og höfundur Orðsins á götunni (№ 14), sem er ein sú skemmtilegasta bók sem ég hef lesið. Það er alltaf gaman að lesa íslenskar bækur, tala nú ekki um að finna þær í póstkassanum. Af þessum 14 esseyjum fannst mér sú eftir Steinunni Sigurðardóttur, Orðin, orðin, orðin, bera af. Ég væri til í að lesa meira í þessum anda eftir Steinunni. Hún byrjar á að vísa í Samuel Beckett - „Orð eru allt sem við eigum“ - og síðar í uppáhaldið mitt Virginiu Woolf og Irisi Murdoch, sem hún tók viðtal við árið 1985 fyrir sjónvarpið. Stöllurnar Woolf og Murdoch eru á bókalistanum þannig að kannski ætti það ekki að koma á óvart að efniviður Steinunnar höfðaði mest til mín. Sumt í þessu safni fannst mér annars langdregið og hreint út sagt leiðinlegt.
№ 29 bókalisti: bækur og kaffi · Lísa Hjalt


Ég fékk dásamlegar bækur í jólagjöf sem rata á næstu lista og gaf sjálfri mér nokkrar, m.a. notaðar sem líta út eins og nýjar. Meðal þeirra voru fyrstu tvær bækurnar í Napólí-fjórleik hinnar ítölsku Elenu Ferrante, sem er höfundarnafn eins og flestir ættu að vita. Ég keypti líka Everyman's Library útgáfu bókarinnar The Makioka Sisters eftir hinn japanska Jun'ichirō Tanizaki (№ 6). Hún er ein af mínum uppáhaldsbókum.

Richard Diebenkorn, Untitled, 1949
Richard Diebenkorn, Untitled, 1949

Diebenkorn listaverk af aðdáendasíðu



mánudagur, 13. desember 2021

Virginia Woolf – „elsku hættulega konan“

Virginia Woolf í útgöngubanni, kápan af Mrs Dalloway · Lísa Stefan


Í fyrra féll ég fyrir bókarkápunni af Mrs Dalloway sem þið sjáið á myndinni. Svo mikið að ég pantaði notað, vel með farið eintak sem aldrei barst. Til að bæta mér það upp ákvað ég að gefa mér bókina í jólagjöf en þegar hún barst í hús gat ég ekki hugsað mér að pakka henni inn þó að ég hefði þegar lesið hana. Bók Virginiu Woolf er því orðin útgöngubannsbók ásamt Bréfum Irisar Murdoch.

Það vill svo til að Murdoch skrifar um Woolf í bréfi á aðfangadag 1941:
The trouble is, I have been reading Virginia Woolf, the darling dangerous woman, and am in a state of extremely nervous self-consciousness. The most selfish of all states to be in.
„Elsku hættulega konan“ – elska þessa lýsingu.

Í hvert sinn sem ég endurles bækur Woolf átta ég mig betur og betur á því hversu stórkostlegur penni hún var. Smáatriðin sem birtast í skrifum hennar, lýsingar á fólki og atferli þess, eru mögnuð. Ég er hrifin af dagbókunum hennar líka og teygi mig oft í bindin sem ég á í hillunum. Árið 1923 var hún að skrifa Mrs Dalloway, sem hún kallaði The Hours í ritferlinu, og þann 19. júní hafði hún þetta að segja um skrifin:
But now what do I feel about my writing?—this book, that is, The Hours, if thats its name? One must write from deep feeling, said Dostoevsky. And do I? Or do I fabricate with words, loving them as I do? No I think not. In this book I have almost too many ideas. I want to give life & death, sanity & insanity; I want to criticise the social system, & to show it at work, at its most intense— But here I may be posing.
Ég deildi myndinni á Instagram í gær með svipuðum texta en mig langaði að halda upp á þessar tilvitnanir á blogginu líka. Við erum enn í útgöngubanni sem á að taka enda 17. desember. Önnur héruð í Austurríki opnuðu flest allt að nýju í gær en þessi nýjasta bylgja var skæðari hér í Efra Austurríki þannig að við þurfum víst að halda okkur innandyra lengur.

mynd: @lisastefanat 12.12.2021



þriðjudagur, 5. janúar 2021

№ 25 bókalisti: kvennalistinn

№ 25 bókalisti: stafli af bókum eftir konur eingöngu · Lísa Stefan


Gleðilegt ár! Ég vil byrja árið með nýjum bókalista, sönnum kvennalista. Eins og þið líklega vitið þá er Elizabeth Hardwick í miklu uppáhaldi en ritgerðasafnið Seduction and Betrayal fjallar um kvenkyns rithöfunda og konur í bókmenntum. Svo skemmtilega vill til að Joan Didion, sem á bók á listanum, skrifar innganginn að þessu safni og í því er ritgerð um Bloomsbury-hópinn og Virginu Woolf, sem er einnig á listanum.

№ 25 bókalisti:

1  Seduction and Betrayal  · Elizabeth Hardwick
2  Ninth Street Women  · Mary Gabriel
3  Approaching Eye Level  · Vivian Gornick
4  Intimations: Six Essays  · Zadie Smith
5  On Beauty  · Zadie Smith
6  The Waves  · Virginia Woolf [endurlestur]
7  Slouching Towards Bethlehem  · Joan Didion [endurlestur]

Ég verð að játa að listinn hefur verið það lengi í drögum á blogginu að ég hef þegar lesið fimm af bókunum sjö. Ég er ekki komin langt í bók Mary Gabriel - lipur titill í fullri lengd er Ninth Street Women: Lee Krasner, Elaine de Kooning, Grace Hartigan, Joan Mitchell, and Helen Frankenthaler: Five Painters and the Movement That Changed Modern Art - en get þegar mælt með henni. Ævisaga Lee Krasner eftir Gail Levin var á síðasta bókalista, № 24. Ég get einnig mælt með henni en ef ég ætti að gera upp á milli þessara tveggja þá veldi ég Ninth Street Women. Þrátt fyrir að Gabriel fjalli ekki um uppvaxtarár listakvennanna fimm þá finnst mér bók hennar skemmtilegri aflestrar. Hönnunin bókarinnar er vandaðri og myndir af listaverkum í lit. Levin vann augljóslega heimavinnuna sína um ævi Krasner en textinn verður stundum full akademískur fyrir minn smekk og flæðir þá illa. Í mínu eintaki, kilja frá William Morrow, virkar pappírinn ódýr og í því eru bara svarthvítar myndir af verkum Krasner.

Málverk eftir Lee Krasner, The Seasons, 1957, Pollock-Krasner Foundation / Whitney Museum of American Art
Lee Krasner, The Seasons, 1957

Lee Krasner listaverk, Pollock-Krasner Foundation / Whitney Museum of American Art af vefsíðu Haus der Kunst



föstudagur, 15. maí 2020

Virginia Woolf útgáfur

Bókarkápa: Mrs Dalloway eftir Virginia Woolf (Mariner Books)


Mrs Dalloway said she would buy the flowers herself. 

Þekkið þið þessa fyrstu setningu í Mrs Dalloway, klassíku skáldsögunni eftir Virginiu Woolf? Bókin var fyrst gefin út 14. maí 1925 af Hogarth Press, sem hún og eiginmaðurinn hennar Leonard Woolf settu á fót. Systir hennar, listakonan Vanessa Bell, hannaði bókarkápuna. Næsta bloggfærslan mín átti að vera úr lestrarkompunni en ég get ekki hætt að hugsa um þessar sex gömlu kiljuútgáfur sem ég sá á Instagram í gær - á Mrs Dalloway deginum. Hér höfum við kápurnar af Mrs Dalloway, Three Guineas og Orlando, sem ég bætti strax á óskalistann. Ef þær bara væru innbundnar.
Bókarkápa: Three Guineas eftir Virginia Woolf (Houghton Mifflin Harcourt)
Bókarkápa: Orlando eftir Virginia Woolf (Houghton Mifflin Harcourt)


Mrs Dalloway; Three Guineas; Orlando
Höf. Virginia Woolf
Kiljubrot: 224; 192; 352 blaðsíður
Mariner Books



laugardagur, 25. janúar 2020

Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read

Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read (TLS Books) · Lísa Hjalt


Að mínu mati var þetta ein af flottustu bókarkápum ársins 2019. Minimalísk en grípandi (bakgrunnurinn er ljósari en myndin hér að ofan sýnir). Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read var gefin út af TLS Books, nýrri bókaútgáfu sem tók til starfa í fyrra. TLS stendur fyrir Times Literary Supplement, vikulegt bókmenntarit sem kom fyrst út árið 1902. Virginia Woolf skrifaði fyrir TLS og hér höfum við fjórtán gagnrýnar ritgerðir sem skrifaðar voru frá 1916 til 1935. Bókin var á nýjasta bókalistanum mínum og ég naut þess að lesa hana.

Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read
Innbundin, 256 blaðsíður, myndskreytt
ISBN: 9780008355722
TLS Books

Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read (TLS Books) · Lísa Stefan
Genius and Ink var á № 22 bókalistanum mínum

Það vill svo til að Virginia Woolf fæddist á þessum degi árið 1882, á æskuheimilinu við 22 Hyde Park Gate, Kensington, London. Fyrsta skáldsaga hennar, The Voyage Out, kom út árið 1915.



fimmtudagur, 19. desember 2019

№ 22 bókalisti: jólin 2019

№ 22 bókalisti: jólin 2019 · Lísa Stefan


Hérna er hann, bókalistinn sem ég lofaði fyrir löngu. Þessi er næstum tveir-fyrir-einn því ég ætlaði að deila einum í október og öðrum fyrir jól, en það varð bara of mikið að gera. Á einhverjum tímapunkti á þessari önn þegar ég var að reyna að skapa jafnvægi á milli náms og fjölskyldulífs komu mér í hug línur úr bók Joan Didion, The Year of Magical Thinking, sem urðu mantran mín: „In time of trouble, I had been trained since childhood, read, learn, work it up, go to the literature. Information was control.“ Um leið og ég fletti þeim upp var ekkert annað í stöðunni en að endurlesa bókina, aftur. Ég notaði þessa bók Didion um sorg og allt sem lífið kastar í átt til þín sem verðlaun í lestrarpásum. Didion hélt mér á jörðinni. Hún hélt mér við námsefnið. Information was control. Ég þarf að þakka tveimur forlögum fyrir bækur á listanum: Eland Books fyrir So It Goes og Fitzcarraldo Editions fyrir I Remain in Darkness. Báðar eru enskar þýðingar sem ég mun skrifa ritdóma um á nýja árinu.

№ 22 bókalisti:
1  Year of the Monkey  eftir Patti Smith
2  So It Goes  eftir Nicolas Bouvier
3  I Remain in Darkness  eftir Annie Ernaux
4  Genius and Ink: Virginia Woolf on How to Read
5  Life with Picasso  eftir Françoise Gilot og Carlton Lake
6  Look Homeward, Angel  eftir Thomas Wolfe
7  Essays in Disguise  eftir Wilfrid Sheed
8  Literary Theory: A Very Short Introduction  eftir Jonathan Culler
9  The Year of Magical Thinking  eftir Joan Didion [endurlestur]

Enskar þýðingar: 2) So It Goes: Robyn Marsack; 3) I Remain in Darkness: Tanya Leslie

Þessa síðustu mánuði hef ég verið að lesa nokkrar bækur á listanum þegar stund leyfir og hef þegar klárað Life with Picasso og I Remain in Darkness. Það var kominn tími til að setja Wilfrid Sheed á bókalista. Fyrir löngu síðan keypti ég notað eintak af þessu ritgerðasafni hans eftir að hafa heyrt John Williams hjá New York Times Book Review hrósa því á hlaðvarpinu þeirra. Aðra hverja viku spjalla starfsmennirnir um bækur sem þau eru að lesa í sínum frítíma og mér finnst bókasmekkur Williams komast næst mínum eigin og ég er yfirleitt sammála gagnrýni hans.

Í ár ákvað ég að brjóta út af hefðinni og endurlesa ekki klassískt verk um jólin. En ég mun lesa Little Women eftir Louisu May Alcott inn í nýja árið, hefð sem skapaðist hjá mér í Skotlandi. Síðasta föstudag hlustaði ég á viðtal ritstjórans David Remnick við Gretu Gerwig á hlaðvarpinu The New Yorker Radio Hour og dauðlangar núna að sjá kvikmyndina sem hún gerði eftir bókinni.



þriðjudagur, 11. júní 2019

№ 21 bókalisti: ritgerðir eftir Zambra

№ 21 bókalisti: Alejandro Zambra, Grace Paley, Virginia Woolf, Anna Burns · Lísa Stefan


Jæja, það er kominn tími á fyrsta bókalista sumarsins. Samkvæmt hefð er eitt ritgerðasafn á honum, Not to Read eftir chileska rithöfundinn Alejandro Zambra (No Leer á spænsku). Í þeirri fyrstu viðurkennir hann að hafa sem krakki horft á Madame Bovary (1949) fyrir próf í stað þess að klára að lesa bókina. Til hliðar við rautt F skrifaði kennarinn hans: „Vincente Minnelli!!“ Þessar stuttu ritgerðir eru konfekt fyrir bókaunnendur. Ég ætlaði að hafa á listanum skáldsögu sem ég var byrjuð að lesa, The Friend eftir Sigrid Nunez sem hlaut verðlaunin National Book Awards fyrir bókmenntir árið 2018, sem veitt eru í BNA. Mér fannst hún áhugaverð, einkum vegna bókmenntalegra tilvísana (sögumaðurinn er rithöfundur), en svo fór mér að leiðast ritstíllinn og ég kláraði hana ekki. Það er heilsusamlegt að endurlesa eitthvað gott eftir lestur sem veldur vonbrigðum; ég valdi Mávinn eftir rússneska leikskáldið Anton Chekhov.

№ 21 bókalisti:
1  Not to Read  · Alejandro Zambra
2  The Collected Stories of Grace Paley 
3  Milkman  · Anna Burns
4  Disgrace  · J. M. Coetzee
5  The Voyage Out  · Virginia Woolf
6  Journal of Katherine Mansfield  · ritstj. John Middleton Murry
7  The Seagull  · Anton Chekhov

Enskar þýðingar: 1) Not to Read: Megan McDowell; 7) The Seagull: Laurence Senelick

Þið sem fylgist með blogginu vitið að Virginia Woolf er í miklu uppáhaldi. Háskólabókasafnið í Bremen á gömul bindi af öllum verkum hennar frá Hogarth Press, útgáfunni sem hún og maðurinn hennar Leonard settu á fót. Þessar innbundnu útgáfur eru fagurgrænar að lit og fyrst fékk ég The Voyage Out, hennar fyrstu skáldsögu, að láni bara til að fletta henni. Bókin er ekki mín uppáhalds eftir Woolf en ég stóðst ekki freistinguna og ákvað að endurlesa hana.
№ 21 bókalisti: Alejandro Zambra, Grace Paley, Virginia Woolf, Anna Burns · Lísa Stefan


Ég viðurkenni að stundum sakna ég gömlu bloggvenja minna, þegar ég safnaði myndum af innlitum í möppur og gat ekki beðið eftir að deila þeim. Þið kunnið að hafa tekið eftir að stundum nota ég myndir af málverkum í bloggfærslur, en núna ákvað ég að sýna ykkur tvö rými á heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea, London, sem birtist í tímaritinu House & Garden UK. Þessi listrænu horn - þar sem kaffiborðinu bregður fyrir og bókahillunni við gluggann - höfða til áhugakonunnar um innanhússhönnun innra með mér. Fágað og smekklegt.

Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea. House & Garden UK · Greg Funnell | Lestur & Latte
Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea. House & Garden UK · Greg Funnell | Lestur & Latte

Heimili listakonunnar Sarah Graham í Chelsea, London.
House & Garden UK/Greg Funnell