Sýnir færslur með efnisorðinu iris murdoch. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu iris murdoch. Sýna allar færslur

föstudagur, 7. janúar 2022

№ 29 bókalisti: nýja árið byrjar með Woolf

№ 29 bókalisti: Póetík í Reykjavík, Woolf og Murdoch · Lísa Stefan


Gleðilegt ár! Ég áttaði mig á því í vikunni að ég steingleymdi nýárshefðinni minni, að lesa bókina Little Women inn í nýja árið. Þessi hefð byrjaði í Skotlandi; ég las nokkrar síður eða kafla um áramót á meðan aðrir fögnuðu með flugeldum eða hverju sem er. Í ár horfði ég á flugeldana með syninum en Austurríkismenn eru ansi sprengjuglaðir. Ég bætti upp fyrir gleymskuna með því að horfa á mynd Gretu Gerwig (2019) eftir bókinni, með þeim Saoirse Ronan, Florence Pugh og Timothée Chalamet í aðalhlutverkum. Stórfín mynd. Nýársmorgun byrjaði ég slök á legubekknum í náttbuxum og kimono, með kaffi og fjórða bindi af dagbók Virginiu Woolf, sem hefst árið 1931. Þið finnið hana á nýjum bókalista.

№ 29 bókalisti:

1  My Brilliant Friend  · Elena Ferrante
2  The Diary Of Virginia Woolf, Volume 4 1931-35 
3  Mrs Dalloway  · Virginia Woolf [endurlestur]
4  Mythos: The Greek Myths Retold  · Stephen Fry
5  Wittgensteins Neffe: Eine Freundschaft  · Thomas Bernhard [þýsk]
6  Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda 
7  Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995  · ritstj. Avril
Horner og Anne Rowe

Ensk þýðing: 1) My Brilliant Friend: Ann Goldstein

Listinn hefur tekið mörgum breytingum. Stephen Fry og íslensku erindin fjórtán eru einu verkin sem voru á þeim upprunalega sem átti að birtast í haust. Ég veit ekki ástæðuna, líklega blanda af önnum í skólanum og eirðarleysi, en ég var sífellt að breyta honum; las nokkrar síður í bók, jafnvel nokkra kafla, sem mig langaði að setja á listann en hafði svo lagt hana til hliðar stuttu síðar. Það að langa að lesa bók nægir mér stundum ekki, fyrir lestur sumra bóka þarf staður og stund að vera hárrétt.

Bókin Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda · Lestur & Latte blogg
Í haust fann ég óvænt í póstinum eintak af Póetík í Reykjavík: Erindi 14 höfunda (ritstj. Kjartan Már Ómarsson), sem einn þeirra, Margrét Bjarnadóttir, var svo væn að gefa mér. Hún er að fikra sig áfram í ritlist og á fínt erindi í bókinni. Hún er systir vinkonu minnar og höfundur Orðsins á götunni (№ 14), sem er ein sú skemmtilegasta bók sem ég hef lesið. Það er alltaf gaman að lesa íslenskar bækur, tala nú ekki um að finna þær í póstkassanum. Af þessum 14 esseyjum fannst mér sú eftir Steinunni Sigurðardóttur, Orðin, orðin, orðin, bera af. Ég væri til í að lesa meira í þessum anda eftir Steinunni. Hún byrjar á að vísa í Samuel Beckett - „Orð eru allt sem við eigum“ - og síðar í uppáhaldið mitt Virginiu Woolf og Irisi Murdoch, sem hún tók viðtal við árið 1985 fyrir sjónvarpið. Stöllurnar Woolf og Murdoch eru á bókalistanum þannig að kannski ætti það ekki að koma á óvart að efniviður Steinunnar höfðaði mest til mín. Sumt í þessu safni fannst mér annars langdregið og hreint út sagt leiðinlegt.
№ 29 bókalisti: bækur og kaffi · Lísa Hjalt


Ég fékk dásamlegar bækur í jólagjöf sem rata á næstu lista og gaf sjálfri mér nokkrar, m.a. notaðar sem líta út eins og nýjar. Meðal þeirra voru fyrstu tvær bækurnar í Napólí-fjórleik hinnar ítölsku Elenu Ferrante, sem er höfundarnafn eins og flestir ættu að vita. Ég keypti líka Everyman's Library útgáfu bókarinnar The Makioka Sisters eftir hinn japanska Jun'ichirō Tanizaki (№ 6). Hún er ein af mínum uppáhaldsbókum.

Richard Diebenkorn, Untitled, 1949
Richard Diebenkorn, Untitled, 1949

Diebenkorn listaverk af aðdáendasíðu



mánudagur, 13. desember 2021

Virginia Woolf – „elsku hættulega konan“

Virginia Woolf í útgöngubanni, kápan af Mrs Dalloway · Lísa Stefan


Í fyrra féll ég fyrir bókarkápunni af Mrs Dalloway sem þið sjáið á myndinni. Svo mikið að ég pantaði notað, vel með farið eintak sem aldrei barst. Til að bæta mér það upp ákvað ég að gefa mér bókina í jólagjöf en þegar hún barst í hús gat ég ekki hugsað mér að pakka henni inn þó að ég hefði þegar lesið hana. Bók Virginiu Woolf er því orðin útgöngubannsbók ásamt Bréfum Irisar Murdoch.

Það vill svo til að Murdoch skrifar um Woolf í bréfi á aðfangadag 1941:
The trouble is, I have been reading Virginia Woolf, the darling dangerous woman, and am in a state of extremely nervous self-consciousness. The most selfish of all states to be in.
„Elsku hættulega konan“ – elska þessa lýsingu.

Í hvert sinn sem ég endurles bækur Woolf átta ég mig betur og betur á því hversu stórkostlegur penni hún var. Smáatriðin sem birtast í skrifum hennar, lýsingar á fólki og atferli þess, eru mögnuð. Ég er hrifin af dagbókunum hennar líka og teygi mig oft í bindin sem ég á í hillunum. Árið 1923 var hún að skrifa Mrs Dalloway, sem hún kallaði The Hours í ritferlinu, og þann 19. júní hafði hún þetta að segja um skrifin:
But now what do I feel about my writing?—this book, that is, The Hours, if thats its name? One must write from deep feeling, said Dostoevsky. And do I? Or do I fabricate with words, loving them as I do? No I think not. In this book I have almost too many ideas. I want to give life & death, sanity & insanity; I want to criticise the social system, & to show it at work, at its most intense— But here I may be posing.
Ég deildi myndinni á Instagram í gær með svipuðum texta en mig langaði að halda upp á þessar tilvitnanir á blogginu líka. Við erum enn í útgöngubanni sem á að taka enda 17. desember. Önnur héruð í Austurríki opnuðu flest allt að nýju í gær en þessi nýjasta bylgja var skæðari hér í Efra Austurríki þannig að við þurfum víst að halda okkur innandyra lengur.

mynd: @lisastefanat 12.12.2021



sunnudagur, 21. nóvember 2021

Bóklestur í útgöngubanni

Kápan af Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995 · Lísa Stefan


Á föstudaginn trítlaði ég út á pósthús og fann um sjöhundruð síðna doðrant með bréfum Irisar Murdoch í hólfinu, Living on Paper: Letters from Iris Murdoch 1934-1995. Upphaflega keypti ég bókina til að setja undir jólatréð, gjöf frá mér til mín, en í staðinn verður hún útgöngubannsbókin mín. Bók með hlutverk.

Það hefur varla farið fram hjá neinum að á morgun verður öllu skellt í lás í Austurríki vegna hárrar tíðni COVID-smita. Það er óhætt að segja að stemningin sé sérkennileg þessa dagana og ég held að ég sé ekki ein um að glíma við lokanaleiða. Ég hafði hlakkað til að klára skólaönnina og njóta þess í desember að rölta um jólaskreyttar götur Linz, kíkja í bókabúðir og setjast niður á notalegum kaffihúsum. Að vísu er gert er ráð fyrir afléttingum fyrir jól en þá má búast við mannmergð í miðborginni, sem ég kæri mig lítið um þó að ég sé bólusett. Kosturinn við útgöngubann er sá að nægur tími gefst fyrir bóklestur og kósíheit heima fyrir. Mín bíður góður bunki þannig að ég get ekki kvartað.
Lestur um menningu og menningararf · Lísa Stefan


Það verður enginn bókaskortur í þessu banni því í hillunum leynist margt ólesið. Nýverið var ég stödd í bókabúð og keypti tvær þýskar, meðal annars Medea. Stimmen eftir Christu Wolf (1929-2011). Ég hef aldrei lesið verk eftir hana. Ég var í skapi fyrir gríska goðafræði því í kaffipásum á þessu hausti hef ég teygt mig í Mythos eftir Stephen Fry. Þvílík skemmtilesning, hann er svo orðheppinn. Ég hef líka verið að lesa íslenskar esseyjur í bókinni Póetík í Reykavík: Erindi 14 höfunda (ritstj. Kjartan Már Ómarsson). Einn höfundanna, Margrét Bjarnadóttir, sendi mér óvænt eintak en hún gaf út bókina Orðið á götunni, sem ég fletti reglulega mér til skemmtunar (sjá № 14 bókalista). Bækurnar þrjár verða á næsta bókalista sem ég hef ekki enn deilt á blogginu sökum anna.

Pasta og lærdómur · Lísa Stefan
Klassík lærdómspása með grænmetispasta

Bókabúð á Linz Hauptplatz: Alex Buchhandlung · Lísa Stefan
Anddyri bókabúðarinnar Alex Buchhandlung

Ein bókabúðin í Linz heitir Alex Buchhandlung og er staðsett á Der Linzer Hauptplatz, aðaltorgi sem er rétt við meginbrúna yfir Dóná. Þetta er lítil verslun með gríðarlegt magn þýskra bóka. Ég var næstum því búin að kaupa þar Fischer-útgáfu af dagbókum Franz Kafka en hugsaði með mér að þýskan mín væri kannski ekki nógu góð til að virkilega njóta lesturins. Ég lét hana því bíða og ákvað að fyrst skyldi ég lesa eina ólesna í hillunum mínum sem inniheldur sögurnar Málsóknin og Umskiptin. Ég hef lesið þá síðari í íslenskri þýðingu en aldrei lesið Kafka á þýsku.
Kápan af sögum Kafka í þýskri útgáfu (Fischer) · Lísa Stefan




fimmtudagur, 13. september 2018

Lestrarkompan 2017: Roy, Mahfouz, Athill ...

Lestrarkompan mín: Roy, Mahfouz, Athill · Lísa Stefan


Ég var næstum búin að gleyma hversu dásamlegur september getur verið, aðallega stolin augnablik á veröndinni með bækur og kaffi. Lesandi undir markísunni, að kynna mér nýjar bækur á netinu eða hlusta á bókahlaðvörp, geta liðið klukkustundir án þess að ég taki eftir því. Svo lengi sem enginn truflar. Í gær voru birtir tveir listar með fyrstu tilnefningunum („longlists“) til verðlaunanna National Book Awards 2018. Ég var spennt fyrir þýddu skáldverkunum, sem er nýr flokkur. Á listanum voru tvær bækur sem ég hafði þegar nótað hjá mér: Disoriental eftir hina frönsk-írönsku Négar Djavadi og Flights eftir pólsku skáldkonuna Olga Tokarczuk (bók hennar hlaut Alþjóðlegu Man Booker verðlaunin). Í dag verða birtar tilnefningar fyrir ljóð og óskáldað efni, og á morgun fyrir skáldskap. Ef þið eruð í leit að lestrarhugmyndum þá ættuð þið að kynna ykkur listana. Nokkur orð um Lestrarkompuna mína: Ef mér líkar ekki bók sem birtist á bókalista hjá mér ekki láta það aftra ykkur frá því að lesa hana. Ég hef mínar skoðanir og smekk, en ég hef engan áhuga á því að segja fólki hvaða bækur skal lesa og ekki lesa. Svo lengi sem fólk les bækur og þær eru gefnar út er ég sátt.

Lestrarkompan, № 11 bókalisti, 6 af 9:

The Ministry of Utmost Happiness eftir Arundhati Roy
Ég vildi að ég gæti sagt ykkur að mér líkaði þessi skáldsaga, hennar fyrsta í tuttugu ár, en mér tókst ekki einu sinni að klára hana, gafst upp í kringum blaðsíðu 200. Hún er pólitísk, sem kemur ekki á óvart þegar höfundurinn er þekktur aðgerðasinni. En mér fannst eins og Roy væri að reyna að varpa ljósi á hvert einasta vandamál í indversku samfélagi, eins og ég væri að rekast á nýtt á hverri síðu. Kannski er auðveldara fyrir lesendur sem hafa lesið almenn rit Roy og fylgst með baráttu hennar að skilja hverju hún er að reyna að koma til skila í þessari sögu. Að mínu mati var stíllinn yfirhlaðinn og kaótískur. Af því sem ég las þá get ég ekki mælt með bókinni, en mér líkaði vel fyrsta skáldsaga hennar The God of Small Things, sem hlaut Man Booker-verðlaunin 1997.

Palace Walk eftir Naguib Mahfouz
Ég þurfti því miður að skila þessari á bókasafnið áður en ég náði að klára hana vegna flutninganna í fyrra (á eftir 150 síður eða svo). Nóbelskáldið Mahfouz er dásamlegur sögumaður og þessi bók er sú fyrsta í Kaíró-þríleiknum hans. Hún byrjar í borginni árið 1917 og við fáum að fylgjast með lífi Al Jawad-fjölskyldunnar. Faðirinn er harðstjóri sem sveiflast öfganna á milli: heima fyrir notar hann Kóraninn til að ráðskast með og kúga fjölskylduna en leggur svo „trúarkenningarnar“ til hliðar svo hann geti notið lystisemdanna sem næturlíf Kaíró býður upp á. Lesturinn er ekki alltaf skemmtilegur og þarna er nokkuð um múslimskar staðalímyndir. Bókin hefur ýtt á marga takka hjá mér og farið með mig í gegnum allan tilfinningaskalann, en ég ætla mér svo sannarlega að klára hana. Svo ætla ég að lesa hinar tvær, Palace of Desire og Sugar Street.

The Black Prince eftir Iris Murdoch
Ég þurfti líka að skila þessari á bókasafnið og hafði ekki lesið nógu mikið í henni til að geta farið út í smáatriði. Ég á eftir að næla mér í annað eintak og fjalla þá kannski um hana síðar.

Gilead eftir Marilynne Robinson
Prósi þessarar bókar er fallegur og samanstendur af bréfum aðalpersónunnar, prestsins John Ames. Til að segja ykkur nánar frá henni finnst mér best að gefa Barack Obama forseta orðið, en hann átti samræður við höfundinn árið 2015:
I first picked up Gilead, one of your most wonderful books, here in Iowa. ... And I’ve told you this—one of my favorite characters in fiction is a pastor in Gilead, Iowa, named John Ames, who is gracious and courtly and a little bit confused about how to reconcile his faith with all the various travails that his family goes through. And I was just—I just fell in love with the character, fell in love with the book.
Ef þið viljið lesa allar samræður þeirra þá getið þið fylgt þessum hlekk: The New York Review of Books. Ég mæli eindregið með Gilead fyrir lesendur sem þurfa ekki alltaf fléttu í bókum eða mikla atburðarás.

Waking Lions eftir Ayelet Gundar-Goshen
Þetta er önnur bók ísraelsku skáldkonunnar og ég hef þegar sagt ykkur frá sögusviðinu og hvernig ég frétti af bókinni. Þessi væri eins og týpísk spennusaga ef í henni væru ekki hlutar með sjálfskoðun persónanna, hlutar sem hægja á lestrinum: Á heimleið eftir vakt ekur læknir á mann sem deyr. Hann flýr af vettvangi og þegar ekkja mannsins bankar upp á hjá honum þá veit lesandinn að líf hans er við það að taka drastískum breytingum. Ég segi ekki meira. (Ensk þýð. Sondra Silverston.)

Instead of a Letter eftir Diana Athill
Lestur þessara æviminninga ollu mér vonbrigðum, aðallega vegna óspennandi innihalds, ekki skrifanna sjálfra. Fyrstu hundrað síðurnar fjalla um uppeldisárin og svo fer hún til Oxford í nám. Hún eyðir mörgum síðum í trúlofun sem upp úr slitnaði - tókst aldrei að kalla fram sérstaka vorkunn hjá mér - og í kynlífsreynslu sína á þrítugsaldri, sem líklega hneykslaði marga lesendur þegar bókin kom fyrst út árið 1962. Ég efast um að lesendur nútímans lyfti brúnum yfir þeim lýsingum. Það var ekki fyrr en undir lokin, í kafla 14 sem byrjar á bls. 168 (af 224), sem mér fannst bókin verða áhugaverð, þegar hún hóf störf í útgáfubransanum. Í lokin er bókin orðin að einhvers konar ferðaskrifum og frásögnin verður hálf brotakennd. Ég er þegar byrjuð á síðari æviminningabók hennar Stet þar sem hún einblínir á líf sitt sem ritstjóri hjá André Deutsch forlaginu (ekki lengur starfandi). Bókin hefur hlotið mikið lof og verður á næsta bókalista.



sunnudagur, 23. júlí 2017

№ 11 bókalisti | Miðausturlanda- og glæpasögur

№ 11 bókalisti | Miðausturlanda- og glæpasögur · Lísa Stefan
№ 11 bókalisti | persneskur köttur og Arundhati Roy · Lísa Stefan


Sunnudagsmorgun, kaffi, nýr bókalisti og Gilead eftir skáldkonuna Marilynne Robinson. Treystið mér, ekki amaleg byrjun á deginum. Júlí er enn ekki liðinn og ég er þegar að deila nýjum bókalista - annar listinn í mánuðinum! Ástæðan er einföld: það voru margar stuttar bækur á þeim síðasta. Nýi listinn er með örlitlu Miðausturlandabragði. Lengi hef ég ætlað að lesa Palace Walk, fyrstu bókina í Kaíró-þríleiknum eftir egypska höfundinn og Nóbelsverðlaunahafann Naguib Mahfouz. Annar höfundur sem ég er að lesa í fyrsta sinn er hin ísraelska Ayelet Gundar-Goshen. Kunningi og bókmenntaunnandi á Instagram mælti með seinni bók hennar Waking Lions (þýdd úr hebresku af Sondra Silverston) og gaf þrjár ástæður: 1) Gerist í borginni Beersheba (Beer-Sheva) sem, samkvæmt honum, er alveg nýtt í ísraelskum bókmenntum. 2) Er hið fullkomna sögusvið fyrir persónurnar, sem eru á jaðri þjóðfélagsins. 3) Sagan varpar eilitlu ljósi á kynþáttafordóma í Ísrael; hún er um flóttafólk frá Erítreu og Súdan. Það þurfti ekki meira til að selja mér bókina sem ég fékk að vísu á bókasafninu þegar ég sótti eintak mitt af nýjustu skáldsögu Arundhati Roy.

№ 11 reading list:
1  The Ministry of Utmost Happiness  eftir Arundhati Roy
2  Palace Walk  eftir Naguib Mahfouz
3  Waking Lions  eftir Ayelet Gundar-Goshen
4  The Black Prince  eftir Iris Murdoch
5  Gilead  eftir Marilynne Robinson
6  So You Don't Get Lost in the Neighbourhood  eftir Patrick Modiano
7  The Redbreast  eftir Jo Nesbø
8  Instead of a Letter  eftir Diana Athill
9  Let's Explore Diabetes with Owls  eftir David Sedaris


Ég er enn að lesa Jigsaw eftir Sybille Bedford sem var á síðasta bókalista en hef þegar klárað The Redbreast (Rauðbrystingur í íslenskri þýðingu) eftir Norðmanninn Jo Nesbø á þeim nýja. Á einhverjum punkti varð þessi þriðja bók um rannsóknarlögreglumanninn Harry Hole (sú fyrsta í Osló-seríunni) mjög spennandi og ég gat ekki lagt hana frá mér. Glæpasögur eru ekki beint sú tegund bókmennta sem ég sæki í en stundum hef ég lesið allt fáanlegt eftir ákveðinn glæpasagnahöfund (aðallega norrænu höfundana; það byrjaði allt með okkar manni Arnaldi Indriðasyni og sögupersónu hans Erlendi). Harry Hole hans Nesbø er áhugaverður karakter og ég verð að sjá hvað gerist í næstu bókinni um hann, Nemesis.

Ég er byrjuð á bók Sedaris en varð að hætta að lesa hana fyrir háttatíma því sonur minn, sem finnst notalegt að lesa með mér, gat ekki einbeitt sér að sinni bók vegna hlátursins í mér. Þetta er tár-renna-niður-kinnarnar hlátur. Ég reyndi að bæla hann niður en það tókst ekki. Sedaris er einfaldlega hættulega fyndinn og ég hlakka til að lesa Dagbækurnar. Marilynne Robinson er höfundur sem ég er að lesa aftur; ég las Home þegar við bjuggum í Luxembourg. Ég skil ekki út af hverju það hefur tekið mig svona langan tíma að næla mér í Gilead (báðar bækurnar gerast á sama tímabili í sama bænum, einnig bók hennar Lila). Prósinn í Gilead er virkilega fallegur; engin furða að bókin færði henni National Book Critics Circle verðlaunin og Pulitzer-verðlaunin fyrir bókmenntir árið 2005.
№ 11 bókalisti | Miðausturlanda- og glæpasögur · Lísa Stefan


Mig langar að enda á tilvísun í skáldkonuna Iris Murdoch (1919-1999) sem ég hef þegar deilt á @lisastefanat og langaði að halda til haga á blogginu líka. Spurð út í þá aðferð sem hún notar við skáldskapinn í viðtali sem birtist í The Paris Review, sumartölublaði ársins 1990, svaraði Murdoch:
Well, I think it is important to make a plan before you write the first sentence. Some people think one should write, George woke up and knew that something terrible had happened yesterday, and then see what happens. I plan the whole thing in detail before I begin. I have a general scheme and lots of notes. Every chapter is planned. Every conversation is planned. This is, of course, a primary stage, and very frightening because you've committed yourself at this point ... [Og þegar hún talar um næsta stig.] The deep things that the work is about declare themselves and connect. Somehow things fly together and generate other things, and characters invent other characters, as if they were all doing it themselves. (Tölublað 115, sumar 1990)



mánudagur, 20. mars 2017

№ 8 bókalisti | norðurkóreskar sögur eftir Bandi

№ 8 bókalisti | norðurkóreskar sögur eftir Bandi · Lísa Stefan


Er ekki tilvalið að deila nýjum bókalista á þessum fyrsta vordegi? Þrjár bókaútgáfur, Head of Zeus (Apollo), Pushkin Press og Serpent's Tail, útveguðu fyrstu þrjár bækurnar á listanum og fyrir það ber að þakka. Síðar mun ég birta ritdóma um skáldsöguna Pachinko og dagbók Astrid Lindgren, A World Gone Mad, sem hún skrifaði á stríðsárunum, en í dag langar mig að beina athygli ykkar að einstöku norðurkóresku smásögusafni, The Accusation eftir Bandi (skáldanafn). Höfundurinn, óþekktur, býr enn í Norður Kóreu og hætti lífi sínu með skrifunum og því að smygla þeim úr landi (sjá meira hér að neðan). Þetta er № 8 bókalistinn:

1  Pachinko  · Min Jin Lee
2  A World Gone Mad: The Diaries of Astrid Lindgren, 1939-45 
3  The Accusation  · Bandi
4  Seize the Day  · Saul Bellow
5  The Blue Touch Paper  · David Hare
6  Another Country  · James Baldwin
7  Pale Fire  · Vladimir Nabokov
8  The Sea, The Sea  · Iris Murdoch


Seize the Day er mitt fyrsta verk eftir Saul Bellow - löngu tímabært! Vinur á Instagram og bókaormur sagði það vera „incredible“ og bætti við „it's haunted me most of my adult life.“ Ég ætlaði að byrja á Herzog en hún var ófáanleg á bókasafninu. Leikskáldið David Hare er í miklu uppáhaldi. Að hlusta á hann tala um skrif er hrein unun og loksins ætla ég að lesa æviminningar hans. Hann skrifaði til dæmis handrit kvikmyndarinnar The Hours (2002), sem er byggt á samnefndri sögu eftir Michael Cunningham. Yndisleg bók, yndisleg mynd. Ég er að endurlesa eina bók á listanum: The Sea, The Sea eftir Murdoch. Ég var líklega of ung þegar ég las hana því ég virðist afskaplega lítið muna eftir henni.

Bannaðar sögur frá Norður Kóreu: The Accusation eftir Bandi · Lísa Stefan
Bannaðar sögur frá Norður Kóreu: The Accusation eftir Bandi

The Accusation eftir Bandi inniheldur sjö sögur um venjulegt fólk í Norður Kóreu. Bandi (eldfluga á kóresku) er skáldanafn hins óþekkta höfundar og til að vernda hann enn frekar var nokkrum smáatriðum breytt. Í athugasemd frá útgefanda er tekið fram að þau telji verkið vera „an important work of North Korean samizdat literature and a unique portrayal of life under a totalitarian dictatorship“ (samizdat merkir að prenta og dreifa bönnuðum ritum í einræðisríkjum). Fyrir utan það sem við sjáum í fréttum þá höfum við bara kynnst frásögnum og ritum fólks sem tekist hefur að flýja landið. Það sem gerir þessa bók einstaka er að í fyrsta sinn höfum við sögur eftir rithöfund sem býr þar enn. Í stað formála og þakkarorða eru ótitluð ljóð eftir höfundinn, sem lýsir sjálfum sér svona í hinu fyrrnefnda: „Fated to shine only in a world of darkness“. Hið síðarnefnda inniheldur ljóð sem fjallar um þá ósk hans að orð hans séu lesin:
Fifty years in this northern land
Living as a machine that speaks
Living as a human under a yoke
Without talent
With a pure indignation
Written not with pen and ink
But with bones drenched with blood and tears
Is this writing of mine

Though they be dry as a desert
And rough as a grassland
Shabby as an invalid
And primitive as stone tools
Reader!
I beg you to read my words.
Það sem ég vildi að allur heimurinn læsi þessar sögur og að Bandi gæti einn daginn notið höfundalaunanna sem frjáls maður. Ég er ekki búin með bókina en það sem ég hef lesið fram að þessu er harmþrungið. Félagslegar- og pólitískar aðstæður í Norður Kóreu, og skortur á mannréttindum, er eitthvað sem þekkjum, en þegar maður les sögur eftir einstakling sem býr við slíkar aðstæður þá skyndilega verður ástandið enn raunverulegra og sársaukafyllra.

The Accusation
Höf. Bandi
Innbundin, 256 blaðsíður
Serpent's Tail


Listaverk: Utagawa Hiroshige, Rauð plómugrein á móti sumartungli, ca upp úr 1840
Utagawa Hiroshige, Rauð plómugrein á móti sumartungli,
ca upp úr 1840, viðarprent í lit

Næsti bókalisti verður sá japanski sem ég hef þegar minnst á hér á blogginu. Mér þótti því við hæfi að deila líka verki eftir japanska listamanninn Utagawa Hiroshige (einnig Andō Hiroshige, 1797-1858). Tré í vorblóma, mon dieu! Bráðum get ég drukkið latte á veröndinni og lesið undir bleikum blómum kirsuberjatrés ... gæðastund í lífi bókaunnanda.

Listaverk Utagawa Hiroshige af vefsíðu The Art Institute of Chicago | fyrstu þrjár bækurnar á bókalistunum eru í boði útgáfanna: Head of Zeus (Apollo), Pushkin Press og Serpent's Tail